Ræða Halldórs Ásgrímssonar á 26. flokksþingi Framsóknarflokksins
Ræða Halldórs Ásgrímssonar,
formanns Framsóknarflokksins,
á 26. flokksþingi Framsóknarflokksins
16.-18. mars 2001.
Flokksmenn - góðir félagar!
Við erum hér saman komin á 85. afmælisári Framsóknarflokksins til að ræða um framtíðina. Við ætlum að ræða um framtíðina af því að Framsóknarflokkurinn er og hefur verið kjölfestan í þeirri miklu samfélagsþróun sem orðin er frá því flokkakerfið íslenska varð til árið 1916.
Framsóknarmenn höfðu mikil áhrif á vegferð þjóðarinnar á síðustu öld. Með sama hætti er það hlutskipti okkar að vera leiðandi um framtíð Íslands í upphafi nýrrar aldar. Það er heillandi að standa á þröskuldi 21. aldarinnar, fullviss um það að okkar er þörf og geta byggt á þeirri miklu reynslu og árangri sem Framsóknarflokkurinn hefur náð.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Þær breytingar sem íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum á undanförnum árum og áratugum eru ævintýri líkastar og framfarirnar miklar. Við höfum þróast frá því að vera vart bjargálna til þess að vera ein ríkasta þjóð heims, - þjóð sem státar af góðri menntun, öflugu heilbrigðis- og velferðarkerfi og framsæknu atvinnu- og menningarlífi.
Við höfum færst frá því að vera ósjálfstæð í eigin landi til þess að vera sjálfstæð þjóð og leiðandi á mörgum sviðum, fullgildir þátttakendur og stundum frumkvöðlar á alþjóðavettvangi. Við erum virkir þátttakendur í norrænu og evrópsku samstarfi, Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og öðrum leiðandi stofnunum sem ráða umhverfi okkar í ríkum mæli. Við tökum virkan þátt í varnar- og öryggismálum á alþjóðavísu, vinnum kröftugt starf í fjórum þróunarlöndum og erum reiðubúin að aðstoða meðbræður okkar þegar áföll ríða yfir.
Samfélagið er breytt.
Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum. Það hefur þróast frá því að vera samfélag fátæks fólks með takmarkaða möguleika til þess að vera samfélag velmenntaðra einstaklinga sem eru flestir vegir færir. Við erum sjálfstæð, fullvalda þjóð, sjálfum okkur nóg um flest og almenn velsæld ríkir í landinu.
Um leið og okkur gefast ótal tækifæri með meiri opnun samfélagsins, aukinni alþjóðavæðingu og öllum þeim hröðu breytingum sem eiga sér stað, sakna margir gamalla tíma. Sakna þess sem liðið er og vildu helst hverfa ár eða áratugi aftur í tímann. Að nokkru leyti tilheyri ég þessum hópi. Ég sakna margs úr fortíðinni, ekki síst frá uppvaxtarárum mínum. Ég lít svo á að það hafi verið ákveðin forréttindi að fá að vaxa upp í þeim einfaldleika sem einkenndi íslenskt samfélag á árum áður. Fátt sýndist flókið, nálægðin var meiri, vegalengdir miklar, útlönd nánast óviðkomandi. Byggðin var mynduð af tiltölulega fáum fjölskyldum sem stóðu saman í andbyr og glöddust saman þegar það átti við. Lífið virtist einfalt og byggðist í ríkum mæli á persónulegum samskiptum.
Að sumu leyti væri ósköp þægilegt að geta horfið aftur til þessa tíma en að öðru leyti ekki. Staðreyndin er að það er bæði ómögulegt og óæskilegt. Við búum við breyttar aðstæður, breytt umhverfi, breytt samfélag, ný tækifæri. Við búum í opnu samfélagi og landamæri verða sífellt óskýrari, vegalengdir skipta minna máli. Hraði, þekking og kunnátta leika lykilhlutverk í flestu því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Opnun samfélagsins, alþjóðavæðingin, vel menntaðar kynslóðir Íslendinga opna nýjar dyr, nýja sýn, áður óþekkta möguleika inn í framtíðina.
Á grundvelli sögu okkar og menningar tökumst við á við nýja tíma.
Breytingarnar, sem við höfum gengið í gegnum síðustu árin, hafa ekki allar verið auðveldar né sársaukalausar, en umbyltingar liðinna ára hafa skilað okkur fram á veginn.
Við höfum helgað okkur hafsvæðið umhverfis landið. Við höfum beislað auðlindir landsins með orkuverum, jafnt fallvötn sem gufu úr iðrum jarðar. Við erum í fremstu röð á sviði sjávarútvegs og orkumála og hagnýtum þekkingu okkar innanlands sem utan, bæði í viðskiptum og hjálparstarfi. Hér hafa risið öflugar menntastofnanir sem leystu fólkið af klafa og veittu því kraft og sjálfstraust til að taka völdin í þjóðfélaginu á síðustu öld.
Við byggjum samfélag okkar á lýðræði, mannréttindum og sanngirni. Enginn skal yfir annan hafinn, ólíkar skoðanir ber að virða og allir skulu jafnir fyrir lögum. Okkur hefur tekist að byggja hér upp blómlegt atvinnulíf svo að atvinnuleysi þekkist vart og þjóðin er með þeim ríkustu í heimi. Ísland er í fimmta sæti þegar lífsgæði þjóða eru metin. Engan hefði órað fyrir því fyrir einni öld.
Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Við höfum þurft að færa fórnir og takast á við mótbyr. Árangurinn er framfarir þjóðarinnar allrar og gjörbreyttar aðstæður sérhvers einstaklings til að taka þátt í sókninni til betra lífs.
Að leggja á brattann.
Við sem hér erum vitum að til þess að ná þessum árangri hefur oft þurft að leggja á brattann og ferðin sóst seint á köflum. Til að ná fram nauðsynlegum framförum í samfélaginu þurfum við að vera reiðubúin til átaka. Framsóknarflokkurinn hefur sannarlega lagt sitt af mörkum við þær mikilvægu breytingar sem hér hafa orðið. Á þeim tíma, sem liðinn er frá að flokkurinn var stofnaður hefur hann starfað í fjölmörgum ríkisstjórnum og verið í forustu nokkurra. Við höfum verið lengur í ríkisstjórn en nokkur annar flokkur og því augljóst að Framsóknarflokkurinn hefur átt drjúgan þátt í þessari miklu framfarasókn. Þarf því engum blöðum um það að fletta að áhrifa hans sér víða stað í íslensku nútímasamfélagi. Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um að á þessum langa tíma hefur flokkurinn, stefna hans og áherslur, tekið miklum og nauðsynlegum breytingum til að mæta breyttum þörfum samfélagsins þótt grundvallarstefið sé það sama og fyrr.
Framsóknarflokkurinn er ekki einungis elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn. Framsóknarflokkurinn er kjölfesta íslenskra stjórnmála. Flokkur sem er trygging fyrir frelsi einstaklingsins, bæði þegar hann vill hasla sér völl í atvinnulífinu og þegar hann þarf á aðstoð samfélagsins að halda. Flokkur sem tryggir að framtak einstaklingsins fái notið sín og að samfélagið allt sinni skyldum sínum við þá sem höllum fæti standa. Það er hin nauðsynlega miðja stjórnmálanna.
Ég er þeirrar skoðunar að ein helsta ástæða þess að Framsóknarflokkurinn hefur dafnað, þrátt fyrir þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá stofnun hans, sé sú að hann hefur aldrei veigrað sér við því að takast á við erfið og flókin mál. Forystumenn flokksins hafa sjaldnast verið sporgöngumenn, heldur forgöngumenn, staðið undir nafni sem leiðtogar og frumkvöðlar. Foringjar okkar hafa haft framsýni, kjark og dugnað til að leiða þjóðina fram um misjafnlega greiðfærar slóðir.
Flokkurinn á að hafa frumkvæði. Hann á að beita sér fyrir framförum. Hann á að leiða erfið mál til lykta. Hann á að stýra íslenskri þjóð hvort sem leiðin liggur um brimgarða og einstigi eða um lygnan sjó og græna dali. Það er hlutverk Framsóknarflokksins, og þar með hlutverk okkar sem hér erum, að bæta aðstöðu og kjör fólksins í landinu svo við megum áfram vera í fremstu röð þjóða í öllu tilliti. Það hlutverk rækir hann ekki með því að leita skjóls eða liggja í vari.
Farsæl forysta.
Eysteinn heitinn Jónsson, fyrrverandi formaður flokksins, sagði einhverju sinni að við ættum að velja okkur erfiðustu verkefnin, þannig gerðum við þjóðinni mest gagn. Ég er sammála þessari skoðun Eysteins og ég tel raunar að við séum þessari skoðun trú. Þegar við lítum yfir söguna sjáum við að það eru þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa haft framsýni og kjark til að taka á stóru málunum í samfélaginu á hverjum tíma. Það eru þeir sem komið hafa fram með hugmyndir um nýjungar á mörgum sviðum sem gagnast hafa íslenskri þjóð. Þannig hefur flokkurinn sýnt það og sannað að hann er vettvangur þeirra sem berjast fyrir breytingum og framförum. Þeir sem vilja stöðnun eða afturhald, vilja engu breyta, eiga sér aðra málsvara. Þeir starfa með öðrum flokkum, þeirra hugsjónir eru ekki okkar.
Sá forystumaður Framsóknarflokksins, sem á sinni tíð hafði hvað mest áhrif í íslensku stjórnmálalífi, var Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann hafði meiri áhrif á skipan íslenska flokkakerfisins en nokkur annar. Hann barðist ötullega fyrir hugsjónum sínum og var frumkvöðull í mennta- og menningarmálum. Um hann hefur verið sagt réttilega að hann leysti alþýðuæsku þessa lands af klafa menntunarleysis og uppburðarleysis. Með uppbyggingu almennra skóla fyrir alla æskumenn hafði Jónas forystu um að skapa forsendurnar fyrir því þróttmikla þjóðarheimili og velferðarþjóðfélagi sem hér hefur risið.
Annar forystumaður flokksins, Hermann Jónasson, beitti sér fyrir því á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar að við hölluðum okkur að vesturveldunum í anda hugsjóna Jónasar. Hann kom í veg fyrir að útþenslustefna þýskra nasista næði hingað á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Það var heldur ekkert sjálfsagt, raunar langt í frá, að við gengjum í Atlandshafsbandalagið á sínum tíma. Það kom m.a. í hlut Eysteins Jónssonar að taka af skarið af okkar hálfu og stíga þau skref sem tryggðu stöðu og þátttöku Íslendinga í að móta nýja heimsmynd þegar kalda stríðið geisaði sem harðast. Með því voru íslenskir hagsmunir tryggðir, samofnir hagsmunum annarra nágranna- og vinaþjóða.
Áfram má halda. Ég er sannfærður um að íslenskri þjóð vegnar jafn vel og raun ber vitni fyrir einstaka stefnufesta Framsóknarflokksins og þá ekki síst Ólafs Jóhannessonar við útfærslu landhelginnar. Landhelgin var aldrei færð út nema þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn en útfærslurnar í 50 og 200 mílur voru afreksverk sem Ólafur Jóhannesson og raunar Einar Ágústsson áttu mikinn heiður af.
Enn einn forystumaður Framsóknarflokksins, sem markað hefur spor í stjórnmálasögu síðustu aldar, er Steingrímur Hermannsson. Við eigum oft erfitt með að meta það sem stendur okkur nærri í tíma, en þegar frá líður er tvennt sem halda mun merki Steingríms á lofti. Í fyrsta lagi það frumkvæði og sá sáttarhugur sem tókst að laða fram þegar þjóðarsáttin varð að veruleika árið 1990. Með henni var lagður hornsteinninn að því hagsældarskeiði sem nú ríkir í landinu. Þá var efnahagslífinu kippt upp úr fari óðaverðbólgu og óstöðugleika. Í öðru lagi er það staðreynd að það var undir forsæti Steingríms Hermannssonar að lagður var traustur grunnur að EES- samningnum.
Í seinni tíð höfum við einnig sýnt frumkvæði og tekið að okkur stóra og erfiða málaflokka í þeim ríkisstjórnum sem við höfum setið í. Ég get nefnt breytingarnar á fiskveiðistjórninni, uppbyggingu atvinnulífsins, orku- og iðjuvera, uppbyggingu velferðarkerfisins jafnt á sviði heilbrigðis- og félagsmála og margvísleg framfaramál á sviði umhverfis- og utanríkismála.
Okkar saga hefur verið skráð, fyrst af Þórarni Þórarinssyni í þremur bindum og nú hefur Vilhjálmur Hjálmarsson bætt við fjórða bindinu. Sú bók er nú komin út og verður til sölu hér á þinginu. Ég vil þakka Vilhjálmi Hjálmarssyni sérstaklega fyrir þetta ómetanlega verk og fórnfýsi í þágu flokksins fyrr og nú.
Hugmyndafræði framfara.
Stundum er því haldið fram að stjórnmálaflokkar séu að fjarlægjast uppruna sinn og markmið. Að þessi og hin málin séu ekki í anda flokksins, að einhverjir forystumenn hans séu vinstri sinnaðir en aðrir of langt til hægri. Ég andmæli slíkum málflutningi hvað okkar flokk varðar. Þvert á móti hefur Framsóknarflokkurinn gegnt hlutverki sínu með miklum ágætum. Það er skylda okkar að þróa flokkinn og laga stefnu hans að breyttum aðstæðum.
Hvers virði er stjórnmálaflokkur sem ekki gerir það? Til hvers erum við í stjórnmálum ef ekki til að berjast fyrir breytingum og framförum? Framsóknarflokkurinn hefur bestan hljómgrunn meðal þjóðarinnar ef hann skynjar hugðarefni hennar og hugsjónir, væntingar til framtíðar, áhyggjur og gleði. Við verðum að horfa fram á veginn, ráða í framvinduna og taka rétt mið áfram. Við eigum ekki að einblína til hægri eða vinstri, heldur stefna fram í þágu allrar þjóðarinnar. Á þeirri leið þurfum við að horfa til beggja átta, gefa öllum skoðunum rúm og sérhverjum einstaklingi tækifæri til að vera með í göngunni fram á veg. Ef við sjáum ekki til þess að flokkurinn breytist í takt við tímann og hafi frumkvæði að framþróun á sem flestum sviðum erum við að bregðast skyldum okkar.
Fyrir stafni eru enn á ný ókönnuð mið. Við munum þurfa að sigla krappan sjó á stundum og berjast í brimróti. En við eigum ekki að láta það hvarfla að okkur að beygja hart í bak og snúa til hafnar. Við eigum að taka á málefum líðandi stundar og marka spor í sögu þjóðarinnar, hér eftir sem hingað til.
Ísland og Evrópa.
Eitt slíkt mál er staða okkar í Evrópu. Við stöndum þar á vegamótum og verðum að átta okkur á stöðu landsins og tryggja hana til framtíðar.
Eins og alkunna er ákvað landsstjórn flokksins á fundi sínum í ágúst á síðasta ári að skipa umræðunefnd um Evrópumál og framtíðartengsl Íslands við Evrópusambandið. Starf nefndarinnar vakti verðskuldaða athygli. Í ljósi sögunnar hefði það ekki átt að koma á óvart að Framsóknarflokkurinn hafði framsýni til að takast á við stærstu mál líðandi stundar. Það var ekki einungis umfjöllunarefni nefndarinnar sem vakti athygli heldur einnig sú aðferð sem var beitt til að kryfja flókin mál og komast að niðurstöðu. Að leiða saman jafn ólík sjónarmið og freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu var vissulega ögrandi verkefni sem margir álitu ómögulegt. Enn aðrir töldu svo stóra nefnd, þar sem skráðir nefndarmenn voru um fimmtíu talsins, ekki líklega til að skila árangri. Raunin varð önnur og árangurinn varð framar öllum vonum. Nærri eitt hundrað manns tóku þátt í starfi nefndarinnar á sérstakri spjallrás á netinu og fimm mánuðum eftir ákvörðun landsstjórnar hafði Evrópunefndin, undir styrkri stjórn Jóns Sigurðssonar, skilað samhljóða niðurstöðu.
Ég er afar ánægður með það starf sem þar var unnið. Ég hef áður sagt og segi enn að hér er um tímamótaverk að ræða. Virkir trúnaðarmenn flokksins hafa með því brotið þetta stórmál til mergjar og komist að niðurstöðu. Þeir hafa sett fram markmið Íslands með þátttöku í Evrópusamstarfi og bent á leiðir til að ná þeim markmiðum. Þeir telja ekki tímabært nú að taka ákvörðun af eða á um inngöngu í Evrópusambandið, en telja nauðsynlegt að láta á það reyna hvort ekki megi ná fram breytingum á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samninginn telja þeir hafa þjónað tilgangi sínum með ágætum en á honum séu ágallar sem verði að lagfæra en jafnframt séu horfur að sumu leyti tvísýnar um framtíðargildi hans.
Evrópumálin eru ekki þannig að hægt sé að segja einfaldlega já eða nei. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er eitt af stærstu álitaefnum sem íslensk þjóð mun standa frammi fyrir á næstu árum. Ég styð niðurstöðu nefndarinnar um að vinna áfram að því að treysta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef áður lýst áhyggjum mínum í þá veru að vægi hans innan hins evrópska samfélags geti minnkað og hætt sé við að hann tryggi ekki til framtíðar hagsmuni okkar nægilega vel. Því verðum við að vera undirbúin að taka yfirvegaða ákvörðun um hvort og þá með hvaða skilmálum við værum hugsanlega tilbúin til að leita eftir samningum við Evrópusambandið.
Í áliti Evrópunefndarinnar er tvennt sem ástæða er til að nefna alveg sérstaklega vegna þess að þessi atriði eru mjög mikilvæg fyrir alla íslensku þjóðina. Hið fyrra er að í nefndarálitinu er í fyrsta sinn sett fram yfirlit yfir hagsmunamál, kröfur og stefnumið Íslendinga og þau skilyrði sem Íslendingar eiga að setja í samskiptum við aðrar þjóðir og þar á meðal í samskiptum og samningum við Evrópusambandið. Hið síðara að þarna er sett fram sú röð ákvarðana, lið fyrir lið, sem þjóðin þarf að taka og notfæra sér á komandi árum við undirbúning, mat á valkostum og við ákvarðanir um mál sem varða Evrópusamvinnunna. Með því að setja fram stefnumið og skilmála Íslendinga og með því að rekja lið fyrir lið óhjákvæmilega ákvarðanaröð og ákvarðanaferli í þessum málum hefur Framsóknar-flokkurinn tekið forystu um málefnalegar og öfgalausar umræður um Evrópumálin.
Fólkið og atvinnulífið.
Við Framsóknarmenn höfum ávallt verið talsmenn öflugs velferðarkerfis og kröftugs atvinnulífs. Með því höfum við fólk í fyrrirúmi, því möguleikarnir til að vinna fyrir sér og sínum eru grundvöllur alls samfélagsins. Með sama hætti á velferðarkerfið að tryggja menntun, aðstoð við sjúka og framfærslu þeirra sem ekki hafa heilsu og þrek. Engar framfarir, jöfnuður eða réttlæti geta átt sér stað í nútímasamfélagi án þess að viðurkenna og styðja atvinnulífið.
Fólkið og atvinnulífið eru ekki andstæður heldur eru hagsmunirnir sameiginlegir. Verðmætasköpunin ræður kjörum fólksins og möguleikum sameiginlegra sjóða til að jafna kjörin. Þótt mikill árangur hafi náðst í atvinnumálum verðum við að halda vöku okkar og leita nýrra tækifæra. Hvorki hér né annars staðar má ríkja kyrrstaða eða afturhald ráða ferð.
Við vitum að viðskiptahalli er of mikill, við vitum að of mikið fjármagn fer úr landi og of lítið fjármagn kemur inn í landið. Við vitum líka að vextir eru of háir. Fyrirtæki og heimili geta ekki borið þá háu vexti sem hér eru til langframa, sem eru langt yfir því sem tíðkast í okkar nágrannalöndum.
Vextir verða að lækka á næstunni en það má ekki verða til að veikja gengið. Ég tel því óhjákvæmilegt að styrkja gengið með öðrum ráðum. Það verður að minnka fjármagnsflæði út úr landinu og auka það inn í landið. Ráðstafanir í þessa átt verða að fela í sér hagstæðara skattaumhverfi atvinnulífisins, meiri þátttöku erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi, einfaldari reglur um erlenda fjárfestingu og sölu ríkisins á hlutabréfum í ríkisfyrirtækjum þannig að lífeyrissjóðir og aðrir hafi næg tækifæri til að fjárfesta í landinu. Aðhald í ríkisfjármálum skiptir vissulega miklu, en það má ekki verða eina aðgerðin því þá veikist velferðarkerfið. Þessar aðgerðir eru nauðsynlegar til að treysta grundvöll efnahagslífsins og áframhaldandi framfarasókn þjóðarinnar.
Eftirlit með markaðsöflunum.
Það er vandasamt að taka þátt í þeirri þjóðfélagsbreytingu sem við erum vitni að og þátttakendur í. Um leið og við Íslendingar erum í auknum mæli þátttakendur í alþjóðasamfélagi og á alþjóðamarkaði eykst samkeppni á okkar litla markaði. Samfara því vegur þyngra gildi þess að sú samkeppni sé virk og heilbrigð og undir sterku eftirliti. Standa verður vörð um raunverulega samkeppni og berjast gegn fákeppni og einokun. Yfirtaka samkeppnisreglna Evrópska efnahagssvæðisins hefur haft meiri áhrif á íslenskt samfélag en menn hafa viðurkennt og gert sér grein fyrir. Ísland er ekki lengur eyland, í þeim skilningi, og því þarf virkt eftirlit á borð við það sem Samkeppnisstofnun veitir. Með nýjum samkeppnislögum eru gerðar ríkari kröfur til fyrirtækja og ríkisvalds en áður var og það er vel.
Hins vegar er það eitt erfiðasta verkefni samkeppnisyfirvalda að meta af sanngirni stöðu viðskipta á Íslandi og gera kröfur um verslunar- og rekstrarhætti sem eru í samræmi við íslenskar aðstæður. Hér verður ekki hörð eða opin samkeppni á öllum sviðum, einfaldlega vegna smæðar hagkerfisins. Því þarf að sníða reglurnar að íslenskum aðstæðum og tryggja jafnframt þær markaðsaðstæður sem við kjósum að njóta.
Óheftur kapítalismi er ekki það umhverfi sem við viljum sætta okkur við. Alveg eins og oft er sagt að markaðshagkerfi kapítalismans hafi sigrað ríkisforsjárkerfi kommúnismans, þá má sannarlega fullt eins segja að blandað hagkerfi og velferðarkerfi lýðræðislegrar félagshyggju og frjálslyndisstefnu hafi sigrað bæði kapítalismann og kommúnismann. Viðhorf framfarasinnaðra miðjumanna hafa víðast orðið ofan á í reynd og það er í anda þess sem Framsóknarflokkurinn hefur ávallt boðað.
Aldrei óheftan kapítalisma.
Um leið og við viðurkennum að ákveðnar greinar ríkisrekstrarins eru fullt eins vel komnar, eða jafnvel betur, í höndum einkaaðila, verðum við að tryggja að einkaaðilum séu ekki færð óeðlileg völd eða aðstaða til einokunar. Það verður líka að gera greinarmun á eðli ríkisrekstrarins þegar við ræðum um sölu ríkiseigna og einkavæðingu.
Mér finnst fátt mæla á móti því, en flest með, að ríkið dragi sig út úr þjónustu á fjármálamarkaði og eftirláti hana einkaaðilum eða samtökum þeirra. Mér finnst sama máli gegna um rekstur fjarskiptaþjónustu á borð við símann. Mér er hins vegar ekki sama hvernig það er gert. Ekki má koma til einokunar á þessum sviðum og ég tel að við verðum að tryggja að þjóðin öll geti notið þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er á sambærilegu verði.
Samfara þessum breytingum þarf að nota hagnaðinn af sölunni til að styrkja velferðarkerfið og jafna aðstöðuna í landinu. Það er þess vegna sem við höfum ákveðið að styrkja samgöngukerfið, upplýsingahraðbrautina og önnur byggðamál. Byggðastofnun þarf meðal annars að hafa afl til að taka þátt í nauðsynlegri uppbyggingu sem aðrar fjármálastofnanir sinna ekki.
Þegar kemur að hugmyndum um einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu gegnir allt öðru máli. Ég dreg skýr mörk milli þess sem teljast má hreinn atvinnurekstur í opinni alþjóðlegri samkeppni á borð við þann sem fyrr var lýst, og hins sem er rekstur velferðarkerfis og samfélagsþjónustu. Hvað atvinnureksturinn varðar gilda sjónarmið frjálsrar samkeppni og lögmál markaðar en velferðarkerfið má aldrei verða selt undir hagnaðarsjónarmiðið.
Einkavæðing heilbrigðisstofnana snýst ekki í raun um að veita betri heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmiðið er hið sama og í viðskiptum: að skila eigendum sínum hagnaði. Slíkt leiðir til dýrari þjónustu og meiri mismununar. Um velferðarkerfið gilda sjónarmið mannúðar og samhjálpar. Það hefur ríkt sátt um velferðarkerfið á Íslandi og þótt á hverjum tíma megi deila um hvort hagræða þurfi á einstökum sviðum þess, stendur óhögguð grundvallarhugsunin sem byggir á tekju- og lífskjarajöfnun, samfélagshjálp og mannúð.
Fjölskyldan - hornsteinn samfélagsins.
Það sem er okkur öllum kærast eru heimilin, fjölskyldan. Þar mótumst við, deilum örlögum, komumst til þroska og njótum mestu hamingjustunda lífsins. Eining þjóða byggir á einingu fjölskyldna, traust heimili eru forsenda trausts þjóðfélags. Þar eru línurnar lagðar. Þar getum við haft mest áhrif og þar reynir á okkur. Stuðningurinn við börnin okkar, jákvæð umræða, gott fordæmi, samvera og samhjálp, skapar þær stoðir samfélagsins sem ekki má hagga.
En við þurfum líka sameiginleg verkfæri einstaklinganna, fjölskyldnanna og heimilanna. Framsóknarflokkurinn er eitt slíkra verkfæra, sem stendur fyllilega fyrir sínu. Þessu verkfæri beitum við og munum beita til að styrkja stoðir fjölskyldunnar.
Félagsmál, heilbrigðis- og tryggingamál eru kjaramál fyrir fólkið í landinu. Og ekki bara fólk heldur líka fyrirtæki. Traust velferðarsamfélag þar sem menntun, félagsmál og síðast en ekki síst heilbrigðis- og tryggingamál eru í föstum, öruggum skorðum er ómetanlegt fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. Í slíku samfélagi býr fólk við öryggi og hefur þrek til að takast á við dagleg störf sjálfum sér og öðrum til heilla.
Framsóknarflokkurinn hefur um skeið farið með heilbrigðis- og félagsmál. Þar höfum við staðið vörð um þá einföldu reglu að allir skuli eiga rétt á þjónustu óháð efnahag. Við leggjum áherslu á að auraráð fólks ráði því ekki hvernig heilbrigðisþjónustu það nýtur. Þar verða hugsjónir samvinnu og samfélagslegrar ábyrgðar að ráða.
Ég vil nefna nokkur dæmi um árangur á sviði fjölskyldumála sem við Framsóknarmenn vildum beita okkur fyrir í síðustu kosningum:
Við höfum stóraukið framlög til barnabóta og gert breytingar á því kerfi. Við höfum hækkað frítekjumark barnabóta, dregið úr eignatengingu og tryggt fyrsta áfanga ótekjutengdra barnabóta sem við höfum kallað "Barnakort".
Við höfum tryggt aukinn rétt foreldra til fæðingarorlofs, bæði karla og kvenna, þannig að eftir er tekið víða um heim. Sjálfstæður réttur karla til fæðingarorlofs er nú í fyrsta sinn tryggður og sameiginlegur réttur foreldra þannig aukinn til muna.
Á undanförnum árum hefur verið varið milljörðum króna til lagfæringa í almannatryggingum. Á flestum sviðum hafa réttindi batnað og aðalaáherslan hefur verið á þann hóp sem býr við verstar aðstæður. Ríkisstjórnin leggur sérstaka áherslu á að bæta kjör þeirra lífeyrisþega sem verst eru settir og tillagna um það er að vænta innan mánaðar. Almannatryggingar eru hugsaðar til að jafna kjör þannig að þeir sem minna mega sín fái mest og að því er unnið. Við þurfum að ná samstöðu í samfélaginu um að bæta hag öryrkja, sérstaklega þeirra sem eru að koma upp fjölskyldu, ala upp börn og berjast áfram í lífinu, oft af ótrúlega mikilli elju og viljastyrk.
Að síðustu nefni ég að við höfum tekið til hendinni gegn fíkniefnavánni. Framlög til þess málaflokks hafa þegar verið aukin um tæpan milljarð króna á kjörtímabilinu enda sjást þess merki í öflugra forvarnastarfi, stórauknum árangri hvað varðar haldlagningu efna og kröftugri starfsemi á meðferðarsviðinu, sérstaklega hvað varðar börn og unglinga. Við sögðumst ætla að ráðast til atlögu við sölumenn dauðans og verja til þess umtalsverðum fjármunum. Það höfum við gert og það munum við áfram gera, því betur má ef duga skal.
Á sama tíma og við höfum þannig styrkt velferðarkerfið með margvíslegum hætti hefur okkur tekist að auka tekjur heimilanna meira en dæmi eru um hér á landi um svo langt, samfellt skeið.
Byggðin treyst.
Sú ánægjulega þróun hefur orðið á þessu ári að nokkur fólksfjölgun hefur orðið sums staðar á landsbyggðinni, þótt ekki sé hún í þeim mæli sem mörg okkar vildu sjá. Ég trúi því að við séum á réttri leið hvað aðgerðir ríkisvaldsins varðar og að á næstu misserum megi takast að gera búsetu á landsbyggðinni eftirsóknarverðari en áður.
Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur gert til að treysta byggð í landinu má nefna fjölmörg verkefni sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bæta samgöngur, m.a. jarðgangaáætlun. Slík mannvirki gera ekki einungis íbúum viðkomandi svæða lífið léttara heldur skjóta þær stoðum undir atvinnulífið, ekki síst ferðaþjónustu og framleiðslu sem þarf á tryggum leiðum að halda til að afla aðfanga og koma framleiðslunni á markað. Við höfum einnig lagt umtalsverðar upphæðir til jöfnunar húshitunarkostnaðar og námskostnaðar, en hvort tveggja getur haft úrslitaáhrif þegar kemur að ákvörðun fólks um búsetu. Einnig má nefna aukna fjármuni til skógræktarverkefna og sauðfjárræktar með nýjum búvörusamningi. Við höfum sömuleiðis tryggt sveitarfélögunum í landinu meiri tekjur í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að ógleymdum breytingum á gjaldstofni fasteignagjalda sem koma öllum þeim sem á landsbyggðinni búa til góða.
Í hinni nýju tækni, upplýsingatækninni, liggja mikilir möguleikar til framfara á landsbyggðinni og þar hefur verulegur árangur náðst. Við sjáum hvað hún skapar stórkostleg tækifæri á sviði menntamála, t.d. með námsframboði Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands fyrir íbúa landsbyggðarinnar í samvinnu við heimamenn og samtök þeirra. Þannig geta landsmenn nú stundað fullgilt háskólanám heiman frá sér með þessari stórkostlegu tækni.
Til framtíðar skiptir mestu máli að tryggja fólki á landsbyggðinni fjölbreytt atvinnutækifæri ásamt tækifærum til menntunar og aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Endurskipulögð Byggðastofnun á að gegna lykilhlutverki hvað varðar stefnumótun og nýjungar á þessu sviði og flutningur hennar til Sauðárkróks, ásamt auknum fjármunum til byggðamála, á að gefa stofnuninni þann kraft og það umhverfi sem hún þarf á að halda.
Atvinnulíf og blómleg byggð.
Velferð og framfarasókn landsins alls hefur ávallt verið aðalsmerki Framsóknarflokksins. Við höfum lagt áherslu á góða sambúð þéttbýlis og dreifbýlis og mikilvægi þess að byggðir séu blómlegar um allt land. Að okkar mati fara hagsmunir höfuðborgar og landsbyggðar saman. Aðeins með því að tvinna saman gagnkvæma hagsmuni farnist okkur vel í að skapa velferð landsmanna eins og best getur orðið.
Ég hef að undanförnu farið um allt land og hitt yfir eitt þúsund flokksmenn. Ýmsir segja að það dugi ekki að hafa falleg orð, tölurnar um fækkun í byggðunum tali sínu máli og stjórnmálamennirnir hafi brugðist. Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn standi undir öllum þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar og við vitum það, Framsóknarmenn, að til okkar eru gerðar miklar kröfur. En ég spyr: Eru aðrir flokkar en Framsóknar-flokkurinn líklegri til að treysta byggðirnar um landið og skapa sátt milli höfuðborgar og landsbyggðar?
Við höfum á undanförnum árum og áratugum orðið vitni að mestu lífskjarasókn sem sögur fara af. Undirstaða þessarar sóknar er hér eins og annars staðar auðlindir, dugnaður, framleiðni, hagkvæmni og ný tækni. Á sama tíma hefur hagkerfið verið opnað og við þurfum að standast öðrum þjóðum snúning. Þetta hefur kallað á samþjöppun í landbúnaði, sjávarútvegi og þjónustu. Við höfum skapað skilyrði fyrir þessari samþjöppun með bættum samgöngum og nýju skipulagi í atvinnugreinum. Sumir telja að það hafi verið rangt, aðrir rétt, og ég er í seinni hópnum. Hagræðing er nauðsynleg til að atvinnulífið standist samkeppni og tryggi afkomu fólks og fyrirtækja. En það er rétt að færri halda sínum hlut og byggðirnar eru misvel settar. Á þá að snúa til baka og leggja af kvótakerfi og annað skipulag sem miðar að því að auka hagkvæmni og skynsamlega nýtingu auðlinda? Nei, það leysir lítið, en skapar ný vandamál fólks, fyrirtækja og byggða. Það má hins vegar bæta og breyta í ljósi aðstæðna og sætta ólík sjónarmið með sanngirni að leiðarljósi.
Við Framsóknarmenn eigum að taka þátt í slíkri sátt. Með það í huga hvöttum við til starfs auðlindanefndar og við eigum að ljúka því verki. Í því starfi þurfum við að leggja áherslu á tvennt, stuðning við byggðirnar sem eru minnstar og háðastar björg úr sjó og hinu að þjóðin öll hafi sem mestan hag af auðlindum landsins. Við verðum þó ávallt að hafa í huga að gjaldtaka krefst hagnaðar og enginn arður skapast án sanngjarna rekstrarskilyrða.
Þótt landbúnaður og sjávarútvegur skipti sköpum fyrir byggðirnar og reyndar þjóðina alla liggur það ljóst fyrir að þessar atvinnugreinar skapa ekki þá fjölbreytni sem tryggir blómlega byggð. Við Framsóknarmenn höfum þess vegna lagt áherslu á stóriðju, líftækniiðnað, upplýsingaiðnað, fiskeldi, ferðamál og aðra þjónustu um land allt.
Við höfum stutt stóriðju á Vesturlandi og Austurlandi af heilum hug og sama á við um kísilgúrvinnslu í Mývatnssveit. Við höfum stutt laxeldi í sjó og Íslenska erfðagreiningu sem er frumkvöðull í líftækniiðnaði með vaxandi starfsemi út um allt land. Við teljum þessi fyrirtæki geta treyst byggðirnar og skapað þúsundir nýrra starfa.
Fulltrúar afturhaldsins í landinu eru á móti þessu öllu og hafa staðið fyrir hörðum árásum á Framsóknarflokkinn. Það virðist hins vegar vel fallið til skammtíma vinsælda, því helstu talsmenn afturhaldsins sýnast nú njóta góðs gengis.
Það er ekkert nýtt að pólitískir andstæðingar okkar sameinist um að beina spjótum sínum að okkur sérstaklega. Og við skulum bara viðurkenna að þeim hefur orðið nokkuð ágengt ef marka má skoðanakannanir. Við skulum líka horfast í augu við að við höfum ekki verið nógu dugleg og hörð að svara fyrir okkur. Það er því ástæða til þess nú að skerpa línurnar. Það má ekki láta menn komast upp með það að krefjast úrbóta á öllum sviðum velferðar- og byggðamála og vera á móti öllum nýjungum sem geta skapað forsendur til þess.
Við Framsóknarmenn eigum ekki að hræðast afturhaldið nú frekar en fyrr. Andstaða við framfarir í atvinnulífi og einangrunarstefna í alþjóðamálum er ekki einungis andstæð byggðunum, hún er landflóttastefna.
Á einu sviði hefur verið lífseig sú mynd að Framsóknarflokkurinn sé íhaldssamur. Það er þegar kemur að landbúnaði og banni við innflutningi á landbúnaðarvörum, dýrum og jafnvel dýrafóðri. En hvað hefur nú gerst? Við erum öfunduð um alla Evrópu fyrir að eiga hreina og sjúkdómalausa stofna, við eigum hráefnið í landbúnað framtíðarinnar, umhverfisvænan og heilbrigðan. Við eigum jafnframt að nýta okkur sérstöðu okkar svo sem í raforkuframleiðslu bænda, líftæknirannsóknum á háhitasvæðum og nú plöntulífeðlisfræði þar sem því er haldið fram að okkar einstaka land, sem oft er harðbýlt, skapi einstæða möguleika á hátækniframleiðslu prótína úr jurtum. Við eigum að lifa í sátt við náttúruna og nýta hana með skynsamlegum og arðbærum hætti án allra öfga.
Ríkisstjórnarsamstarfið.
Við höfum verið í hálft annað kjörtímabil í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og þessi sex ár hafa verið eitt mesta velmegunarskeið síðustu áratuga. Ég hygg að þegar sagnfræðingar framtíðarinar líta yfir þetta skeið þá muni dómur þeirra verða þessum flokkum mjög hagstæður. Árangurinn blasir alls staðar við, hagvöxtur og kaupmáttur hafa farið vaxandi og atvinnuleysi er nær horfið ásamt því að velferðarkerfið stendur nú traustum fótum. Mörgum Framsóknarmanni finnst erfitt að sætta sig við að vera í þessu samstarfi, enda hafa þessir flokkar um áratugi verið höfuðandstæðingar í íslenskum stjórnmálum, en aðalatriðið er að mikill ávinningur af verkum ríkisstjórnarinna hefur skilað sér til almennings í landinu. Við munum uppskera eins og við höfum til sáð. Ég hlýt sömuleiðis að taka fram að þó eðlilega greini flokkana á um ýmis mál, þá eru þau rædd og leidd til lykta í drengskap og heilindum.
Mótum framtíðina.
Kæru flokkssystkyni.
Þegar ég skrifaði þessi orð hafði ég útsýni til dásemda íslenskrar náttúru. Hraunið, vatnið, hrjóstrugur gróður, tignarleg fjöll og jöklar er það sem umvefur okkur, heillar okkur og gefur þá tilfinningu sem gerir okkur að Íslendingum, stoltri þjóð í eigin landi.
Almættið hefur lagt okkur til hagstæða hafstrauma, auðlindir í sjó og á landi ásamt einni fegurstu náttúru sem nokkurs staðar gefur að líta. Við verðum að umgangast náttúru og auðlindir af varúð og varkárni og skila þeim af okkur til að komandi kynslóðir megi njóta þeirra líka. Hitt er sömuleiðis ljóst að ekki er hægt að lifa í landinu örðu vísi en að sækja lífsbjörg í auðlindirnar og því er áríðandi að sátt náist meðal landsmanna um með hvaða hætti það verður gert. Sterkara atvinnulíf landsmanna byggir á því að vantsföll verði virkjuð og fyrirtæki byggð.
Okkur er falin mikil ábyrgð að eiga þetta land, nýta auðlindir þess og færa það í hendur barnanna, kynslóð fram af kynslóð. Umfram allt er það mikil gæfa að hafa þessa ábyrgð, njóta samvistanna við okkar stórbrotna land. Það er með allt þetta í huga sem við erum hér til að taka á málefnum framtíðarinnar, móta framtíðina.
Við megum ekki og eigum ekki að hika eða bíða. Við Íslendingar, og við Framsóknarmenn, eigum ekki að gefa öðrum eftir það vald, þau yfirráð, sem frumkvæði og forysta veita. Við eigum ekki að bíða eftir því að aðrir ákveði örlög okkar. Við eigum sjálf að taka örlögin í okkar hendur og taka fullan þátt í að móta þau, bæði sem flokkur og ekki síður sem þjóð.
Það er hlutverk og skylda Framsóknarflokksins, í þágu allrar þjóðarinnar, að taka á sig þungar byrðar, erfið verk hér eftir sem hingað til. Við eigum að standa vaktina. Við eigum að sá til að uppskera og skila síðan uppskerunni til allrar þjóðarinnar. Til þess var Framsóknarflokkurinn stofnaður, sem frjálslyndur og framfarasinnaður miðjuflokkur. Við eigum að vera vegghleðslumenn samfélagsins. Við eigum aldrei að leggjast í sýndarmennsku eða gylliboð, heldur vera ábyrgir. Við höfum verið, erum og eigum að halda áfram að vera þeir sem leggja grunninn, brjóta akurinn, sá og skila uppskerunni til þjóðarinnar um alla framtíð.