Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Viðtal við Halldór Ásgrímsson í Kastljósi Sjónvarpsins

Kastljósið, Sjónvarpinu, 10. september 2001 - Gísli Marteinn Baldursson ræðir við Halldór Ásgrímsson

Hjá mér situr Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, velkominn. Það eru mörg mál sem við ætlum að tala um en mér langar að byrja á því máli sem hefur verið í fréttum síðustu tvo sólarhringana það var þetta Rússamál sem virðist sem betur fer vera að fá farsælan endi núna en þetta kom eins og orrustuflugvél úr heiðskíru lofti og maður skildi eiginlega ekki hvað Rússum gekk til?

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra: Nei við hrukkum náttúrulega við og vissum ekki hvað var um að vera en ástæðan er náttúrulega fyrst og fremst sú að við höfðum engar upplýsingar en við höfum fengið þær núna þannig að þetta mál er að fá farsælan endi sýnist mér.

Gísli Marteinn: Þegar maður heyrði í þér og sá þig í fjölmiðlum þá var augljóst að þér var ekkert sama um þetta og maður áttaði sig kannski fyrst á alvöru málsins þegar maður sá hvað þú varst þungur á brún yfir þessu?

Halldór Ásgrímsson: Ég veit nú ekki hvort ég var eitthvað sérstaklega þungur á brún en þegar maður hittir menn út af svona máli þá er það ekki til þess að segja einhverja brandara og fá einhverja brandara á móti, þetta er alvörumál og það verður að sýna alvöru á stundum sem ber að sýna alvöru. En við höfum átt afskaplega gott samstarf við Rússa eftir að það komst á samband milli okkar og við erum búnir að fá staðfestingu frá þeim að það er fyrst og fremst einn dagur sem þarna er um að ræða sem þeir munu vera á okkar flugstjórnunarsvæði. Síðan tveir varadagar en mjög fáar vélar sem þarna eru og það verður ekki skotið neinum eldflaugum. Þannig að eftir að við höfum fengið þessar upplýsingar þá sýnist mér að þetta mál hafi fengið mjög farsælan endi og ég er mjög þakklátur rússneska sendiráðinu og Rússum fyrir það hvað þeir brugðust vel við í utanríkisráðuneytinu í Moskvu en auðvitað er þetta mál sem varðar Varnarmálaráðuneytið fyrst og fremst.

Gísli Marteinn: En þetta skaut mönnum svolítið skelk í bringu og m.a. þér er það ekki?

Halldór Ásgrímsson: Jú mér fannst það náttúrulega mjög alvarlegt mál ef að flugumferð yfir Atlantshafi yrði meira og minna lömuð eða miklar tafir á henni í heila fimm daga. Það gat ekki gengið enda hefur allt annað komið í ljós þegar menn hafa náð að tala saman.

Gísli Marteinn: Þú ert búinn að vera utanríkisráðherra í rúm 6 ár, 7 ár í vor sem kemur. Hvernig er að vera utanríkisráðherra hjá örþjóð eins og Íslandi að reyna að eiga við risa eins og Rússa og Kína sem þú hefur líka þurft að eiga við í ákveðnum deilum. Finnst þér þetta ekki vera eins og barátta músar við fíl?

Halldór Ásgrímsson: Nei alls ekki þessar þjóðir bera fulla virðingu fyrir okkur og ég átti ágætt samstarf t.d. við rússneska utanríkisráðherra Igor Ivanoff sem kom hingað í opinbera heimsókn, næstur honum er Adieff sem ég þekki ágætlega og hefur líka komið í heimsókn. Rússarnir hafa lagt mikla áherslu á það að ég komi í opinbera heimsókn til Rússlands nú í haust. Kínverjar hafa lagt á það afskaplega mikla áherslu jafnframt þannig að ég ætla að reyna að sinna því í október og nóvember þannig að þetta hefur gengið ágætlega finnst mér.

Gísli Marteinn: Menn gætu haldið að þessar stóru þjóðir bara sýndu okkur svona ákveðna kurteisi sem þeir þyrftu..nei taka fullt mark á okkur?

Halldór Ásgrímsson: Það hef ég upplifað og maður eins og Igor Ivanoff er maður sem ég get í sjálfu sér hringt hvenær sem er og hann hefur hringt í mig út af málum þannig að það er mjög gott að starfa með honum.

Gísli Marteinn: Þú ert búinn að vera í þessu í 6 ár er einhver annar í Evrópu eða í hinum vestræna heimi sem hefur verið jafnlengi og þú ertu ekki orðinn svona aldursforseti þeirra sem starfa í þessu?

Halldór Ásgrímsson: Eftir því sem ég best veit bæði innan ÖSE og líka innan NATO það sýnir nú hvað stjórnmálamenn t.d. í þessum málaflokki eru við störf í skamman tíma. Davíð Oddsson er búinn að vera lengst allra sem forsætisráðherra og ég er sennilega orðinn sá elsti sem utanríkisráðherra.

Gísli Marteinn: Förum út í pólitíkina hérna heima. Þú hefur komið í þáttinn nokkrum sinnum og ég hef samviskulega spurt þig út í stöðu Framsóknarflokksins af því að það eru alltaf nýkomnar einhverjar skoðanakannanir. Það er aftur komin núna könnun sem sýnir að ykkar fylgi er í kringum 14% eins og það er búið að vera meira og minna allt árið og hefur ekki náð sér nálægt kjörfylginu ykkar sem var 18,4% í síðustu kosningum. Þú hefur alltaf sagt að þið bíðið bara eftir að fólkið sjái ykkar góðu verk, það virðist ekki vera að gerast?

Halldór Ásgrímsson:'Eg trúi því ég tel að við höfum verið að vinna góðverk. Við skulum taka sem dæmi mál sem hafa reynt mikið á okkur eins og virkjana og stóriðjumál ég held að það eigi eftir að koma í ljós. Við höfum unnið mjög mikið í Evropumálunum ég held að það eigi líka eftir að koma í ljós að við vorum á réttu róli í þeim efnum. Við höfum unnið mikið í atvinnumálum þannig að ég kvíði engu um þessa framtíð. Það er nú þannig með Framsóknarflokkinn að hann hefur oft legið undir sínu kjörfylgi í skoðanakönnunum. 'Eg er ekki að segja það að þetta sé viðunandi en þetta eru ekki kosningar þannig að ég er í sjálfu sér alveg rólegur yfir þessu ef að við getum unnið áfram og haldið áfram að koma okkar málum til skila.

Gísli Marteinn: ...þú ert búinn að segja þetta núna allt kjörtímabilið?

Halldór Ásgrímsson: Já við skulum sjá hvernig það reynist í næstu kosningabaráttu það er ekkert annað að gera, það þýðir ekkert fyrir okkuor sem erum að reyna að vinna að mikilvægum málum fyrir þjóðina að fara eitthvað á taugum út af því. Það kostar yfirleitt heilmikið að brjóta ísinn. ég tel að við höfum verið að brjóta ís í mörgum mikilvægum málum við höfum lent í heilmiklu mótlæti heilmikilli gagnrýni, mikilli andstöðu og það er eins og gengur en ég trúi því að við munum uppskera eftir þetta og þess vegna förum við í umdeild og mikilvæg mál og við teljum að okkur beri skylda til þess.

Gísli Marteinn: En það er þá bara næsta ár sem þið hafið til þess að uppskera...

Halldór Ásgrímsson: Það eru kosningarnar.

Gísli Marteinn: Það er eftir eitt og hálft ár eitthvað svoleiðis þannig að uppskeran verður að fara að koma er það ekki, eru ekki margir framsóknarmenn orðnir langeygir eftir þessari uppskeru sem þú ert búinn að lofa í dálítinn tíma.

Halldór Ásgrímsson: Ég er nú engu búinn að vera að lofa í þessu, ég er að segja að ég sé tiltölulega rólegur yfir stöðunni og mínar taugar eru ekkert að bila.

Gísli Marteinn: Þú ert alveg sannfærður um að þessi mál sem þið eruð búin að vera í séu vænleg til vinnings í kosningum það sé ekkert að þessum málum, þú neitar að líta á kannski erum við að gera eitthvað vitlaust hérna?

Halldór Ásgrímsson: Ég neita því ég hef sannfæringu fyrir því við skulum taka sem dæmi virkjunar og stóriðjumálin. Ef að við virkjum ekki fyrir austan og förum í álver þar þá þýðir það það að við missum af útflutningstekjum upp á eina 50 – 60 milljarða sem er helmingur af útflutningsafurðum sjávarafurða og helmingi meira en ferðaþjónustan skaffar á hverju ári, það mun þá þýða það að Íslendingar hafi þá 10 milljörðum minna úr að spila bæði á ári, bæði inn í samneysluna og inn í einkaneysluna.

Gísli Marteinn: Þú heldur að það kæmi eitthvað í staðinn?

Halldór Ásgrímsson: Eitthvað í staðinn?

Gísli Marteinn: Ferðamannaiðnaðurinn..

Halldór Ásgrímsson: Ég hef ekki trú á því, menn hafa ekki bent á það. Menn segja gjarnan þetta við skulum fara í eitthvað annað og menn hafa nú jafnvel gengið svo langt að ætlast þá til þess að við sem höfum verið að berjast fyrir þessu gefumst þá upp í málinu og við berum þá líka ábyrgð á því að koma með eitthvað annað. Það er ekkert hægt að tala svona og ég heyrði það í einum sjónvarpsþætti um daginn að það var gengið á einn stjórnmálamann og endaði með að stjórnmálamaðurinn svaraði t.d. háskólanám. Að líkja atvinnustarfsemi og háskólanámi saman er náttúrulega ekki rétt. Háskólanám er afskaplega mikilvægt en það þýðir þá það að við höfum meira fjármagn til þess að efla menntun í landinu, til þess að efla velferðarþjónustuna og ég trúi því að Íslendingar séu það skynsamir að þeir muni segja já við þessu og það skiptir miklu máli að menn sameini sjónarmið sem fylgja náttúruvernd og atvinnuuppbyggingu það höfum við í Framsóknarflokknum verið að gera að reyna að finna sátt milli þessara sjónarmiða það er mjög erfitt en það er afskaplega auðvelt að standa á götunni úti og hrópa allt niður og hafa ekkert í staðinn.

Gísli Marteinn: En málið hefur skaðað Framsóknarflokkinn mjög heldurðu það ekki?

Halldór Ásgrímsson: Skaða hvað er að skaða flokk. Ég hef oft sagt ég ber ekki flokki að vinna að þeim málum sem skipta þjóðina mestu til framtíðar. Er það ekki skylda stjórnmálaflokka, eiga þeir að sitja og gera ekki neitt og vera svona í einhverjum þægilegum málum. Við höfum ekki kosið okkur það hlutverk við höfum kosið okkur það hlutverk að vera brimbrjótur í ákveðnum málum og við erum stolt af því og við trúum því að lokum að þá muni verða mikill skilningur á því það má segja það sama með Evrópumálin. Við komumst ekkert hjá því að ræða þessi mál til langrar framtíðar. Ef við gerðum það ekki þá værum við að vanrækja okkar hlutverk því að hvað svo sem öllu líður þá verðum við að finna það form sem er Íslendingum hagstæðast í Evrópu til þess að tryggja okkar hagsmuni, tryggja okkar sjálfstæði, tryggja okkar fullveldi.

Gísli Marteinn: Einhverjir myndu segja það eru ekki bara svona almannatengsla vandamál sem eru hjá Framsóknarflokknum þ.e.a.s. að koma góðum málum á framfæri það eru ákveðnir hlutir að ímyndinni, flokkurinn nær ekki nógu vel til ungs fólks eitthvað slíkt?

Halldór Ásgrímsson: Við höfum nú haft hlutfallslega meira fylgi hjá ungu fólki af þessu þá litla fylgi sem þú ert að tala um í skoðanakönnunum að þá hefur það verið hlutfallslega meira hjá ungu fólki, það hefur hins vegar legið það orð á Framsóknarflokksins að hann sé svona gamaldags hann komi úr fortíðinni, það er rétt er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Við höfum gengið í gegnum mikið breytingarskeið og ég tel að Framsóknarflokkurinn hafi verið að breytast mjög mikið að undanförnu. Hann hefur tekið miklu meira tillit til alþjóðlegra strauma, hann hefur tekið mið af breyttri þjóðfélagsgerð hvort sem við erum að tala um einkavæðingu og ýmislegt sem við höfum verið að ganga í gegnum þannig að ég tel að Framsóknarflokkurinn sé nútímaflokkur. En það er rekinn mjög harður áróður gegn okkur, ég man eftir því að þegar ég var sjávarútvegsráðherra þá sagði einhver maður, út úr hvaða fjósi dró Steingrímur Hermannsson þennan mann, þá var það það fyrsta sem mönnum datt í hug að fyrst þetta var framsóknarmaður þá hlyti hann að vera úr einhverju fjósinu. Það er ekkert neikvætt að mínu mati að vera fæddur og uppalinn í sveit og það hafa margir komist til manns á Íslandi með því og það er rétt Framsóknarflokkurinn er fæddur og uppalinn í sveit en hann hefur vaxið upp úr því eins og margir aðrir og tekur núna mið af öllum hagsmunum þjóðarinnar.

Gísli Marteinn: Þú nefndir mál sem Framsóknarflokkurinn hefur verið brimbrjótur í og þú nefndir Evrópumálin, geturðu sagt að þið hafið verið einhverjir brimbrjótar í Evrópumálunum fyrr en þið kannski takið á afstöðu að við eigum að sækja um aðild eða eitthvað slíkt, er það eitthvað að vera brimbrjótur að ræða málin?

Halldór Ásgrímsson: Já á vissan hátt vegna þess að þetta er ekkert auðvelt mál hvorki fyrir þjóðina né Framsóknarflokkinn. Það eru margir sem eru andvígir því að taka málin til þessarar umfjöllunar eins og við höfum gert. Við höfum líka sett fram ákveðna stefnu. Við stofnuðum vinnuhóp til þess að vinna málin og þar kemur fram stefna sem er gjörbreyting á því sem við vorum áður með. Áður útilokuðum við aðild að ESB nú gerum við það ekki lengur og það er mikil stefnubreyting og við setjum upp ákveðið ferli sem við teljum að þurfi að fara í gegnum.

Gísli Marteinn: Við sáum í fréttum áðan skoðanakönnun þar sem allt að helmingur þjóðarinnar virðist vera hlynntur því að við verðum í ESB. Breyta svona skoðanakannanir einhverju fyrir ykkur færumst við nær því að stíga skrefið til fulls?

Halldór Ásgrímsson: Þetta kemur mér nú vissulega nokkuð á óvart að það skuli vera svona margir sem eru tilbúnir að segja bara já við aðild að ESB, ég er nú ekki komin alveg svo langt. Ég tel að það séu ýmsar spurningar á lofti og þegar svona spurningar eru lagðar fyrir fólk þá skiptir máli að það fylgi þeim á hvaða forsendum og það er ekkert auðvelt að svara því. En þetta þýðir það að Íslendingar eru opnir fyrir breytingum, þeir vilja ekkert útiloka og þeir sjá að það eru miklir ókostir og gallar við stöðuna í dag þ.e.a.s. EES og við munum aldrei finna okkur einhverja stöðu þar sem eru engir gallar og Íslendingar eru tilbúnir að fara í gegnum þessa umræðu og ég tel að okkur beri skylda til að halda áfram og það er ekki hægt að mínu mati að útiloka aðild að ESB til allrar framtíðar. Ég get það ekki sem ábyrgur stjórnmálamaður a.m.k.
Gísli Marteinn: Þessi spurning var mjög einföld í þessari könnun, við göngum inn í ESB já eða nei, hvernig hefðir þú svarað þeirri spurningu sjálfur?

Halldór Ásgrímsson: Ég hefði nú svarað henni þannig að ég væri ekki tilbúinn. Ég hefði sagt nei við svona einfaldri spurningu. Hins vegar kemur fram í stefnu Framsóknarflokksins að við erum tilbúnir að fara í viðræður með það á ákveðnum forsendum og ég held að stjórnmálaflokkur geti ekki svarað þessu öðruvísi. Við semsagt segjum ef við förum í viðræður þá gerum við það á ákveðnum forsendum og ég held að það sé ekki hægt í reynd að svara þessari spurningu fyrir mig og ýmsa aðra nema eftir slíkar viðræður.

Gísli Marteinn: Er líklegt fyrir næstu kosningar að stefna Framsóknarflokksins í þessu breytist eitthvað að þið takið eitthvað lengra skref. Nú segja margir að þið verðið að fá eitthvað mál sem skilgreini ykkur með afgerandi hætti frá Sjálfstæðisflokknum. Gæti þetta verið það mál?

Halldór Ásgrímsson: Ætli Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti ekki alveg eins að skilgreina sig frá okkur?

Gísli Marteinn: Hann virðist ekki hafa tapað fylgi í samstarfi við ykkur en þið virðist hafa tapað fylgi í samstarfi við hann þannig að það kannski ríður meira á ....

Halldór Ásgrímsson: Ég held það skipti mestu máli fyrir okkur að halda áfram að vinna í þeim málum sem við höfum verið að vinna í hvort sem það eru virkjana og stóriðjumál og Evrópumál. Það er alveg ljóst að þau mál eru í ákveðinni þróun og þau munu þróast áfram.

Gísli Marteinn: Heldurðu að stefna flokksins verði stefnan sem er núna?

Halldór Ásgrímsson: Stefnan er mjög skýr, við viljum láta reyna á það að EES verði okkur betra að það verði auðveldara fyrir okkur að fá lausnir í því. Ég hef verið að vinna í því að fá einhver svör um það, getum við leyst ýmis mál í gegnum EES og ég tel mikilvægt að láta reyna á það. 'Eg get nefnt sem dæmi að okkar sjávarafurðir njóta ekki tollfrelsis og þegar koma inn ný lönd frá A – Evrópu og Mið – Evrópu að þá lendum við í ákveðnum vanda. Við höfum 1% markaðshlutdeild með sjávarafurðir í Póllandi, Norðmenn 51%. Þeir hafa lagt mjög mikið upp úr því að vinna þar markaði. Við eigum það allt saman eftir og ef við eigum að fá kvóta miðað við þessa reynslu eins og við fengum t.d. gagnvart Finnlandi, Svíþjóð og Austurríki þá erum við í miklum vandamálum og framan í þetta verðum við að horfa og það er eins með Evruna. Það er alveg rétt sem maðurinn sagði hér í fréttunum áðan að það er ekkert auðvelt mál fyrir lítið þjóðfélag að reka sjálfstæðan gjaldmiðil þegar er kominn einn gjaldmiðill í Evrópu. Þetta eru allt saman stórar spurningar sem Framsóknarflokkurinn og aðrir stjórnmálaflokkar verða að takast á við og við erum að því.

Gísli Marteinn: Hvað þarf að gerast til þess að flokkurinn taki skrefið, sæki um aðild, sumir segja að öðruvísi fáum við ekki að vita nákvæmlega hvers konar samning við fengjum?

Halldór Ásgrímsson: Eins og við höfum lagt þetta upp í Framsóknarflokknum þá er það skýrt. Við viljum fyrst fá niðurstöðu um EES. Það mun að sjálfsögðu líka hafa áhrif á okkar afstöðu ef að Norðmenn sækja þarna um aðild. Ef Svisslendingar gera það þá stöndum við frammi fyrir ákveðinni upplausn a.þ.e.v. EES. Síðan er þá næst á dagskrá að kanna hug þjóðarinnar til þess vilja menn að við reynum að fara út í aðildarviðræður og það verður að skilgreina það mjög vel. Að því er varðar sjávarútvegsstefnu, a.þ.e.v. landbúnaðinn og byggðamálin og ýmis fleiri mál sem þarf að skilgreina. Við höfum gert það í þessu stefnuplaggi Framsóknarflokksins þannig að það stendur þar með hvaða skilyrðum og með hvaða hætti við værum tilbúnir að fara út í viðræður um hugsanlega aðild að EES en við skulum muna það að að lokum er það þjóðin sem tekur afstöðu til þess. Það gerist ekkert í þessu máli nema að spyrja þjóðina.

Gísli Marteinn: Í þjóðaratkvæðagreiðslu eða alþingiskosningum?

Halldór Ásgrímsson: Þjóðaratkvæðagreiðslu. Við verðum að breyta stjórnarskrá og það er það sem þarf að gera ef við göngum inn í ESB þá verðum við að breyta stjórnarskrá landsins og það gerum við ekki nema með sérstakri kosningu en ég óttast það hins vegar að við þurfum að breyta stjórnarskránni jafnframt þó að við verðum aðeins aðilar að EES í framtíðinni. Vegna þess eins og það er að þróast þá getur það þýtt það að við verðum að sætta okkur við ákvarðanir sem við eigum enga aðild að og íslenska stjórnarskráin leyfir það ekki.

Gísli Marteinn: Og hvenær gæti þetta þurft að gerast?

Halldór Ásgrímsson: Ég tel að við séum alveg á þessum mörkum og ég tel að samningur um EES hafi verið alveg á mörkum þess að standast okkar stjórnarskrá. 'Eg er ekki að segja að við höfum verið að brjóta okkar stjórnarskrá, ég tel að hún hafi verið alveg á mörkunum og okkar fræðimenn segja það að við séum á þessari bjargbrún og ef eitthvað breytist verulega þá geti það þýtt það að við stöndum frammi fyrir því.

Gísli Marteinn: Staða flokksins í Reykjavík hefur verið mörgum framsóknarmanni áhyggjuefni, þið völduð ykkur nýjan varaformann og hann kom utan af landi úr landsbyggðarkjördæmi og Ingibjörg Pálmadóttir hættir og það kemur nýr ráðherra og hann er úr landsbyggðarkjördæmi líka og náttúrulega á næsta ári í sveitarstjórnarkosningum þá býður flokkurinn ekki sjálfur fram hér í Reykjavík. Veldur þetta formanninum einhverjum áhyggjum?

Halldór Ásgrímsson: Það er alveg rétt að staða flokksins í Reykjavík hefur ekki verið sterk mjög lengi. Það er að segja nægilega sterk. Við eigum tvo fulltrúa í borgarstjórninni og ég tel að við höfum ágæta stöðu þar innan R – listans, okkar fólk hefur lagt mikið af mörkum í því starfi en það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að Framsóknarflokkurinn hefði kosið að vera með sterkari stöðu á Reykjavíkursvæðinu. En ég minni nú á það ekki í síðustu kosningum heldur kosningunum þar á undan þá var Framsóknarflokkurinn stærsti og næststærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins. Í kosningunum 1995 höfðum við ágæta stöðu á höfuðborgarsvæðinu.

Gísli Marteinn: Þarf ekki að gera eitthvað þetta mun ekki batna eða lagast að sjálfu sér í Reykjavík?

Halldór Ásgrímsson: ... fyrst og fremst fyrir okkur að vinna traust kjósenda það er ósköp einfalt mál.

Gísli Marteinn: Það hefur verið þrálátur orðrómur um að þú ætlir að fara fram í Reykjavík?

Halldór Ásgrímsson: Já menn vilja að ég fari víða fram og það er ánægjulegt fyrir mig.

Gísli Marteinn: Kemur það til greina eða geturðu útilokað það hér?

Halldór Ásgrímsson: Ég ætla ekki að útiloka neitt í þessu sambandi. Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það hvernig þetta verður með mig, ég stend í þeim sporum að það er búið að skipta mínu gamla kjördæmi sem ég sé mjög eftir en ég þarf að taka ákvörðun um það hvorum megin hryggjar ég á að vera í því sambandi eða hvar formaður flokksins mun bjóða sig fram.

Gísli Marteinn: En þú ert að íhuga það alvarlega...

Halldór Ásgrímsson: Ég er ekki að íhuga það alvarlega, ég ætla ekki að útiloka neitt ég mun gera það sem ég tel að skipti Framsóknarflokkinn mestu máli.

Gísli Marteinn: Þú ert búinn að vera lengi í pólitíkinni þú leiðir flokkinn næst þú hefur sagt það. Ertu búinn að ákveða eitthvað um það hvenær þú ætlar að segja nú er komið nóg?

Halldór Ásgrímsson: Nei nei, mér finnst ekki kominn tími til þess ég var nú að halda upp á 54ra afmæli mitt á laugardaginn þannig að ég sé enga ástæðu til þess að vera eð halda upp á að ég væri að hætta í pólitík. Þannig að ég er ekkert að hætta og hef notið þess að starfa í stjórnmálum þó oft reyni náttúrulega á mann í því.

Gísli Marteinn: Þegar þessu kjörtímabili lýkur við vorum að reikna þetta út þá verða aðeins fjórir menn í sögunni sem hafa setið lengur sem ráðherrar á Íslandi, Bjarni Ben, Eysteinn Jónsson, Emil Jónsson og Ólafur Thors og síðan Halldór Ásgrímsson sem þá verður búinn að vera í um 16 ár. Vissir þú þetta?

Halldór Ásgrímsson: Já ég vissi þetta.

Gísli Marteinn: Ertu með þetta uppi á vegg hjá þér?

Halldór Ásgrímsson: Nei ég er ekki með þetta uppi á vegg en þetta mun vera nokkurn veginn rétt ég hef þetta ekki upp á dag en þetta er langur tími og ég byrjaði í þessu 1974 þannig að það er aðeins Páll Pétursson sem hefur verið lengur á Alþingi en ég. 'Eg hef einu sinni lent í því að vera þar aldursforseti. Þetta er svona dálítið skrítið að vera fyrstu árin alltaf yngstur en svo er farið að koma að því að maður er að verða elstur á ýmsum stöðum og það þýðir væntanlega að maður er að eldast.

Tími: 23:00
Fréttamaður: Gísli Marteinn Baldursson
_______________ ,, _____________________
Ljósvakafréttir eru gefnar út af Fjölmiðlavaktinni ehf., Laugavegi 170, sími: 540-1000, fax: 540-1088.
mailto:[email protected] http://www.fmv.is/


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta