Ávarp ráðherra við athöfn til að heiðra minningu Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðings og sendiherra
Ávarp utanríkisráðherra við athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands, 1. desember 2001, til að heiðra minningu Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðings og sendiherra
Ég vil byrja á að lýsa ánægju yfir því að efnt skuli til þessarar athafnar til að heiðra minningu Hans G. Andersen þjóðréttarfræðings og sendiherra. Það á vel við að athöfnin skuli haldin hér í Háskóla Íslands á fullveldisdaginn, 1. desember.
Ég færi ekkju hans, frú Ástríði H. Andersen, og börnum, þeim Gunnari og Þóru Andersen, kærar þakkir fyrir þá veglegu bókagjöf sem þau hafa fært Hafréttarstofnun Íslands hér í dag. Mikill fengur er í lagabókasafni Hans G. Andersen sem er að sjálfsögðu fyrst og fremst á sviði hafréttar.
Hafréttarstofnun, sem sett var á laggirnar fyrir rúmum tveimur árum, er um þessar mundir að hefja starfsemi sína fyrir alvöru og er gert ráð fyrir að forstöðumaður stofnunarinnar verði ráðinn um næstu áramót. Eitt af fyrstu verkefnum stofnunarinnar verður að koma upp bókasafni á sviði hafréttar og mun bókasafn Hans G. Andersen þar mynda góðan grunn. Þetta leiðir hugann að því að tryggja verður Hafréttarstofnun viðunandi aðstöðu hér í Háskóla Íslands og fer að sjálfsögðu best á því að stofnunin verði hýst í Lögbergi, húsi lagadeildar.
Ég tel afar viðeigandi að brjóstmyndin af Hans G. Andersen, hinum mikla frumkvöðli á sviði hafréttar, skuli falin Hafréttarstofnun til varðveislu. Brjóstmyndin með hinum áletruðu orðum sem lýsa í hnotskurn framlagi Hans til hafréttarins og til íslensku þjóðarinnar mun gera þá sem starfa á vegum stofnunarinnar og þá sem þangað koma meðvitaðri um þá sögu og þróun sem að baki býr. Jafnframt mun tilvist hennar verða mönnum hvatning til að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í hafréttarmálum og sækja fram á þeim sviðum þar sem hagsmunir okkar krefjast þess. Ég vil færa þeim Gunnari Helgasyni, Knúti Hallssyni, Sveini Aðalsteinssyni og öðrum aðstandendum málsins þakkir fyrir framtak þeirra.
Hans G. Andersen hafði sem einn fremsti sérfræðingur heims á sviði hafréttar veruleg áhrif á þróun réttarreglna á þessu sviði, ekki síst á mótun hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Hafréttarsamningurinn er eini heildstæði alþjóðasamningurinn sem gerður hefur verið á sviði hafréttar og voru með honum settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins. Lokið var við gerð samningsins árið 1982 og verður 20 ára afmælis hans minnst við hátíðlega athöfn í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Víst er að margir munu hugsa til Hans G. Andersen við það tækifæri.
Hans gegndi sem kunnugt er lykilhlutverki við útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í áföngum allt þar til 200 sjómílna markinu var náð. Ljóst er að landhelgismálið skipti sköpum fyrir efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, og þá miklu velmegun þjóðarinnar, sem fylgt hefur í kjölfar útfærslu lögsögunnar, má ekki síst þakka störfum hans á þessu sviði. Jafnframt lagði Hans ásamt dr. Manik Talwani, jarðeðlisfræðingi og sérfræðingi í landgrunnsmálum, grunn að afmörkun landgrunns Íslands utan 200 sjómílna á Reykjaneshrygg og á Hatton Rockall-svæðinu. Landgrunnsmálin eru mjög í brennidepli nú um stundir og mikið starf verður unnið á því sviði á næstu árum. Annars vegar er unnið að greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna og hins vegar standa yfir viðræður þeirra landa sem gert hafa tilkall til landgrunnsréttinda á Hatton Rockall-svæðinu, þ.e. Íslands, Danmerkur f.h. Færeyja, Bretlands og Írlands. Í þessu starfi er unnið á þeim grunni sem lagður var af Hans G. Andersen og dr. Manik Talwani.
Dr. Talwani, it is a great pleasure to have you among us today. We are glad you took the trouble to fly from Houston, Texas, to Iceland on this occasion to honour the memory of Mr. Hans G. Andersen. I know that our legal and scientific experts have used the opportunity of your visit to meet with you to brief you on recent developments here in Iceland regarding continental shelf issues. We certainly hope that we can rely on your advice in the future as Mr. Hans G. Andersen did earlier.
Hans G. Andersen hóf störf sem þjóðréttarfræðingur í utanríkisþjónustunni árið 1946 að loknu laganámi við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í þjóðarétti erlendis. Á fyrstu starfsárum Hans var lagður sá grunnur að öryggismálum þjóðarinnar sem við njótum enn í dag. Hann átti drjúgan þátt í gerð varnarsamningsins við Bandaríkin árið 1951 og tók þátt í undirbúningi aðildar Íslands að Atlansthafsbandalaginu. Þessi mál áttu síðar eftir að tengjast landhelgismálinu með afgerandi hætti. Það var fyrst og fremst aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hið farsæla varnarsamstarf okkar við Bandaríkin á tímum kalda stríðsins sem gerði Íslendingum kleift að sigrast á andstæðingum sínum í landhelgismálinu.
Samhliða starfi sínu að hafréttarmálum gegndi Hans G. Andersen ýmsum sendiherrastörfum erlendis. Var hann fyrst fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og síðar sendiherra í París, Stokkhólmi og Ósló. Síðustu þrettán ár starfsferilsins gegndi hann sendiherrastarfi í Bandaríkjunum, fyrst í Washington og síðan embætti fastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, uns hann fékk lausn frá embætti fyrir aldurs sakir árið 1989. Fór vel á því að hann skyldi ljúka 43 ára ferli sínum í utanríkisþjónustunni á þeim stað þar sem hann vann stórvirki fyrir íslensku þjóðina í hafréttarmálum.
Enginn Íslendingur getur óskað sér betri eftirmæla en lokaorðanna sem skráð eru á skjöldinn undir brjóstmyndinni af Hans G. Andersen: "og vann hann þjóð sinni einstakt gagn." Enginn efast um að hann á þessi eftirmæli fyllilega skilið og það er við hæfi að við heiðrum minningu Hans G. Andersen þjóðréttarfræðings og sendiherra hér í Háskóla Íslands á fullveldisdegi þjóðarinnar.