Ráðstefna um markaðsaðgang að EES-svæðinu
Ræða Halldórs Ágrímssonar, utanríkisráðherra, á ráðstefnu um markaðsaðgang að EES-svæðinu
1. mars 2002
Góðir ráðstefnugestir!
Nú á dögum er alþjóðavæðing lykilatriði í viðskiptum og stjórnmálum. Hún á sér bæði fylgismenn og andmælendur en hitt er ljóst að hún hefur leitt til aukinnar hagsældar sem hefur gert það að verkum að milljónir manna hafa átt greiðari aðgang að tækniframförum og upplýsingum. Þar sem hagkerfi Íslands er í senn opið og lítið kann alþjóðavæðingin að hafa meiri og jákvæðari áhrif hér á landi en í stærri löndum. Vaxandi alþjóðaviðskipti hafa opnað markaði og gert okkur kleift að eiga viðskipti án hindrana og auka þar með samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þetta veldur því að íslensk fyrirtæki keppa nú á jafnréttisgrundvelli við þau bestu á sínu sviði.
Í þeim tilgangi að viðhalda samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er mikilvægt að ryðja hindrunum úr vegi markaðssetningar á vöru og þjónustu en vegna samrunans í Evrópu og samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO hefur slíkum hindrunum í milliríkjaviðskiptum fækkað. Sú þróun mun halda áfram á komandi árum. Við það bætist að þar sem innanlandsmarkaður hér er lítill verða íslensk fyrirtæki í auknum mæli að hasla sér völl erlendis, m.a. til þess að hægt sé að ná bærilegri hagkvæmni stærðarinnar. Að öðrum kosti er hætta á að við drögumst aftur úr nágrannaþjóðunum í lífskjörum.
Áríðandi er að við gerum okkur grein fyrir því hvaða möguleikar opnuðust með innri markaði EES-samningsins. Með aðild okkar að samningnum fengum við aðgang að gífurlega stórum markaði sem um leið kallaði á nýja hugsun við vöruþróun og markaðssetningu á íslenskri framleiðslu. Með því að framleiða vöru sem uppfyllir kröfur innri markaðarins má markaðssetja hana í hvaða aðildarríki sem er. Aðild að EES-svæðinu veitir nú aðgang að 380 milljóna manna markaði þar sem allt að 40% heimsviðskipta fara fram. Þessi markaður er í raun heimamarkaður íslenskra framleiðenda og vegur á móti smæð hins íslenska markaðar.
***
Alþjóðavæðing er lykilatriði í viðskiptum nú á dögum og stuðlar að bættum lífskjörum. Brýnt er að við töpum ekki forskoti í kapphlaupi við önnur ríki um markaði. Við verðum að nýta okkur þá möguleika og sóknarfæri sem bæði sérstaða okkar, viðskiptasamningar, og þar vísa ég sérstaklega í EES-samninginn, veitir með greiðum aðgangi að mörkuðum í öðrum aðildarríkjum. Til þess þurfa íslenskir framleiðendur að hafa þekkingu á þeim reglum og stöðlum sem varða viðskipti á EES-svæðinu þar sem löggjöf hefur verið samræmd og viðskiptahindranir afnumdar. Þannig eykst samkeppnishæfni fyrirtækja sem er og eitt markmið samningsins. Hlutverk íslenskra stjórnvalda er fyrst og fremst að tryggja að sú Evrópulöggjöf er varðar frjálst vöruflæði á EES-svæðinu sé innleidd og að henni sé framfylgt en í því sambandi ber að hafa hugfast að markaðssetning vöru hér á landi jafngildir markaðssetningu á öllu EES-svæðinu.
Markaðssókn er lykilatriði fyrir okkur en CE-merking íslenskrar framleiðslu er mikilvæg í því sambandi. Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur verið rutt úr vegi mikilvægum viðskiptahindrunum sem voru óyfirstíganlegar íslenskum framleiðendum. Hér kunna að vera ónýtt tækifæri til aukins útflutnings sem jafnframt er forsenda þess að hagsæld aukist. Fá ríki byggja jafnmikið á utanríkisviðskiptum og Ísland. Samkvæmt skýrslu sem skrifstofa EFTA hefur tekið saman er Ísland í 6. sæti ríkja heims þegar þau eru flokkuð eftir mikilvægi útflutningsviðskipta. Hins vegar hefur útflutningur sem hlutfall af landsframleiðslu staðið í stað um nokkurt skeið auk þess sem hlutfall íslenskra vara á erlendum mörkuðum hefur dregist saman um leið og alþjóðaverslun vex hröðum skrefum. Við megum ekki sitja eftir. Samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda þarf stöðugt að meta en ríkisstjórnin hefur þegar sýnt mikið frumkvæði við að laga aðstöðu þeirra með skattkerfisbreytingum. Réttilega hefur verið bent á að almennur stöðugleiki og vaxtakjör sé ein af forsendum þess að íslensk framleiðsla verði ekki undir í samkeppninni. En fleira kemur til. Við verðum að venjast þeirri hugsun að markaðurinn er mun stærri heldur en sá innanlandsmarkaður sem íslensk framleiðsla hefur lagað sig að. Það er von mín að ráðstefna þessi verði mikilvægt lóð á vogarskálarnar í þeirri viðleitni að bæta samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda á innri markaði Evrópska efnahagssvæðsins. Alþjóðavæðing er lykill að aukinni hagsæld og þar megum við ekki láta okkar eftir liggja.