Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. maí 2002 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Norðurskautsráðið

Háskólinn á Akureyri, 7. maí 2002

Ræða utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um Norðurskautsráðið

Ágætu gestir,

Í haust tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu og gegnir henni næstu tvö árin. Samvinna aðildarríkja Norðurskautsráðsins á sviði umhverfismála hófst fyrir ellefu árum er þau samþykktu áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum. Þessi samvinna leiddi síðar af sér stofnun Norðurskautsráðsins fyrir um sex árum. Það var engin tilviljun að samvinna þeirra ríkja sem eiga landsvæði á heimsskautssvæðinu hófst á þessum tíma. Endalok kalda stríðsins og lýðræðisþróun í mið og austur Evrópu gerði okkur kleift að vinna með nágrönnum okkar í austri á allt annan hátt en áður hafði verið mögulegt. Heimsskautssvæðið fékk aukna athygli með breyttri heimsmynd, ekki síst vegna þeirra pólitísku, vísindalegu og efnahagslegu möguleika sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Hugsjón Vilhjálms Stefánssonar

Hugmyndin um sameiginlega hagsmuni norðurslóðaríkja var reyndar ekki ný af nálinni. Þetta er í raun gömul hugsun sem enginn hefur gert betri skil en hinn kunni landkönnuður Vilhjálmur Stefánsson gerði á sínum tíma í skrifum sínum. Vilhjálmur taldi að með þekkingu á umhverfi norðurslóða og með því að þróa með sér hæfileika til að aðlagast aðstæðum þess gætu menn ríkulega notið þeirra fjölmörgu gæða og þeirrar fegurðar sem svæðið hefur upp á að bjóða. Norðurskautið býr yfir mikilli auðlegð bæði í formi náttúruauðlinda og mannauðs. Norðurskautsráðið er vettvangur Norðurskautsríkja til að efla þessa auðlegð og ýta undir sjálfbæra þróun. Í samstarfi sem þessu eigum við að líta til tækifæra norðurslóða. Lykillinn að lausn margvíslegra vandamála er farsæl félagsleg og efnahagsleg þróun og jákvæð aðlögun að náttúrufari svæðisins.

Við Íslendingar byggjum afkomu okkar að stórum hluta á náttúru landsins, hvort sem eru fiskveiðar, orkuvinnsla, landbúnaður eða ferðaþjónusta. Með hugviti, þekkingu og atorkusemi höfum við fært náttúruna okkur í nyt og byggt hér nútímasamfélag á borð við það besta sem þekkist.

Náttúra okkar er hrjóstrug og veðurfar oft á tíðum óblítt. Þrátt fyrir þetta lítum við Íslendingar ekki á norðurslóðir sem jaðarsvæði eða afskekkt svæði. Allt íslenska hagkerfið er á norðurslóðum og byggist að stærstum hluta á nýtingu auðlindanna. Séu auðlindirnar ekki nýttar með sjálfbærum hætti er lífvænleika samfélags okkar stefnt í voða. Sjálfbær stjórnun auðlindanýtingar er því grundvallaratriði fyrir Ísland. Þjóð sem byggir velferð sína að verulegu leyti á gæðum náttúrunnar hefur ekki efni á öðru en að umgangast hana á sjálfbæran hátt. Við Íslendingar höfum skipað okkur í flokk þeirra ríkja sem vilja vera í fremstu röð í að byggja upp sjálfbæra framtíð.

Mannauður og sjálfbær þróun

Samskipti okkar við náttúruna og náttúruöflin eru bæði beinni og nánari en víða gerist í nútímasamfélögum. Mikilsvert er fyrir okkur að ná tökum á náttúrunni sem svo oft hefur farið um okkur óblíðum höndum. Til að svo megi verða þurfum við að nýta þann mannauð sem í landinu býr og efla kunnáttu okkar og þekkingu. Mikilsvert er að vísindaleg kunnátta og tækni nýtist íbúunum við að ná tökum á aðstæðum og auðlindum heimahaganna. Sjálfbær þróun á okkar norðlægu slóðum byggist meðal annars á menntun og alþjóðlegri vísinda- og tækniþekkingu sem löguð er að aðstæðum með staðbundnum rannsóknum og þróunarstarfi, svo og mannauði sem þjálfaður er til að takast á við verkefni á hverjum stað. Rannsóknir í þágu sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum þurfa því bæði að byggjast á alþjóðlegum vísindarannsóknum og reynslu heimamanna.

Augljóst dæmi um árangur á þessu sviði er að okkur hefur tekist að beita nútímatækni, vísindum og stjórnun við að nýta okkar gjöfulu fiskimið á sjálfbæran hátt. Sjávarútvegsstefna okkar hefur vakið athygli víða um heim. Á hana hefur margsinnis verið bent sem eina af þeim fáu í heiminum sem stuðli að sjálfbærri nýtingu fiskstofna um leið og fyllstu arðsemissjónarmiða sé gætt.

Annað dæmi er sú staðreynd að við Íslendingar þiggjum um 70% af orkunni frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Með nýtingu íslenskra orkugjafa höfum við byggt upp stóriðju sem á sér fáa líka, þó víða væri leitað.

Þjóðin er einróma um að okkur beri að nýta náttúruauðlindir okkar á ábyrgan hátt og að íslenskt atvinnulíf standist kröfur sjálfbærrar þróunar. Við getum gert ýmislegt hér heima fyrir til að vinna að þessu markmiði, en staðreyndin er sú að við getum ekki náð því markmiði ein. Við búum í heimi hnattvæðingar og erum því stöðugt háð utanaðkomandi straumum og áhrifum. Ég þarf vart að minna á þær afleiðingar sem myndu verða af geislamengun í hafinu. Markaðir okkar fyrir fisk myndu hverfa á svipstundu.

Alþjóðlegir straumar

Alþjóðlegir straumar og stefnur hafa veruleg áhrif á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og möguleika okkar að nýta okkar dýrmætu auðlindir. Það er afar brýnt að við tökum virkan þátt í þeirri skoðanamyndun og stefnumörkun sem fram fer um þessi mál á alþjóðavettvangi.

Ég hef í störfum mínum sem þingmaður og ráðherra lagt áherslu á samstarf nærsvæðanna og sérstaklega heimskautssvæðanna. Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á samvinnu við þjóðir í norðurhöfum sem hafa svipaða hagsmuni og við að því er varðar nýtingu og varðveislu auðlinda.

Kanadamenn gegndu lykilhlutverki við stofnun Norðurskauts-ráðsins á sínum tíma. Ég lagði strax á það áherslu að Ísland tæki fullan þátt í þessu samstarfi. Þetta er samstarf hljótum við að láta okkur skipta enda finnum við hér bandamenn með sjónarmiðum okkar um nýtingu náttúruauðlinda, um mikilvægi hafsins fyrir afkomu okkar og um eflingu mannlífs og uppbyggingu byggðar.

Árið 1992 lagði ég fram tillögu í Norðurlandaráði um aukið samstarf á norðurslóðum. Ég gegndi einnig á sínum tíma formennsku í nefnd sem kom á samskiptum þingmanna þjóðanna í heimskautalöndunum. Það er okkur afar mikilvægt að ná samstöðu með þjóðum sem hafa skilning á málefnum norðurslóða og það á að vera mikið forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu að sinna því.

Mikilvægi norðurslóða

Náttúra norðurslóða er rík af auðlindum og hefur maðurinn í árþúsundir lifað af þeim gæðum sem hún býður. Meðal óendurnýjanlegra auðlinda svæðisins eru olía, kol, málmar og eðalsteinar. Af endurnýjanlegum auðlindum má nefna gjöful fiskimið sem eru meðal þeirra stærstu í heimi, voldugar ár sem framfleyta stórum stofnum ferskvatnsfiska og framleiða rafmagn. Ég vil einnig nefna víðáttumikil ósnortin landsvæði sem verða æ sjaldgæfari verðmæti í þéttbýlum og tæknivæddum heimi.

Norðurslóðirnar gegna einnig mikilvægu hlutverki í vistkerfi jarðar. Svæðið geymir megnið af ferskvatnsbirgðum jarðar og mólög í freðmýrum þess eru mikilvæg fyrir bindingu kolefnis úr andrúsmloftinu. Norðurslóðirnar búa einnig yfir sérstæðu lífríki og einstakri frumbyggjamenningu.

Norðurslóðir eru ekki einungis ríkar af náttúrugæðum heldur einnig af mannauði. Þennan mannauð ber okkur að virkja til að nýta þá möguleika sem liggja í svæðinu. Við eigum að nýta þau tækifæri sem tækniframfarir og alþjóðavæðing færa okkur til að efla sjálfbæran vöxt og velmegun á norðurslóðum.

Norðurskautsráðið og sjálfbær þróun

Svo sem fyrr sagði tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu næsta haust. Saga Norðurskautsráðsins er ekki löng en það var stofnað árið 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta, Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, auk helstu samtaka frumbyggja á norðurslóðum sem fengu fasta aðild að ráðinu. Átti ég þess kost að standa að stofnun ráðsins.

Með stofnun Norðurskautsráðsins var samstarfssvið þessara ríkja víkkað frá því að taka eingöngu til umhverfismála í það að ná einnig til efnahags- og félagsmála. Sjálfbær þróun varð megin áhersluatriði samvinnunnar. Norðurskautsráðið er því fyrst og fremst samstarfsvettvangur ríkja og samtaka frumbyggja um sjálfbæra þróun á norðurslóðum.

Sjálfbær þróun þýðir einfaldlega að við búum í sátt og samlyndi við umhverfi okkar og samfélag og skilum betra búi til afkomendanna. Með sjálfbærri þróun leitum við leiða til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða grunngæði jarðar eða möguleika komandi kynslóða á að njóta sams konar eða meiri velferðar. Sjálfbær þróun er þannig ekki blind umhverfisstefna, heldur stefna sem setur manneskjuna og velferð hennar í öndvegi.

Hugtakið leggur áherslu á að verndun hins náttúrulega umhverfis sé forsenda áframhaldandi efnahagsþróunar og velferðar mannkyns, en jafnframt að blómlegt efnahagslíf og félagsleg velferð séu forsendur þess að umhverfið verði verndað og auðlindir náttúrunnar nýttar á ábyrgan hátt til frambúðar. Því þarf ávallt að skoða framkvæmdir og ákvarðanir í efnahagsmálum, félagsmálum og umhverfismálum í samhengi.

Samstarfið á vettvangi Norðurskautsráðsins hefur ávallt verið byggt á vísindalegum grunni. Framkvæmt hefur verið ítarlegt mat á mengun á norðurslóðum og gerð var yfirgripsmikil úttekt um vernd og stöðu líffræðilegrar fjölbreytni á svæðinu á vegum CAFF, sem einmitt hefur skrifstofu sína hér á Akureyri. Unnin hefur verið ítarleg framkvæmdaáætlun um vernd hafsins á vegum PAME, sem einnig hefur skrifstofu sína á Akureyri. Nú er unnið að umfangsmiklu mati á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Allt eru þetta stór verkefni sem dýpka skilning okkar á umhverfi norðurslóða og skapa grundvöll fyrir upplýstri ákvarðanatöku um það með hvaða hætti beri að umgangast svæðið.

Ég hef hér gert að umtalsendi hluta þeirrar starfsemi Norðurskautsráðsins sem snýr að umhverfismálum. Önnur samvinna á vettvangi ráðsins, þ.e. samvinna á sviði félags-, efnahags- og menningarlegra þátta sjálfbærrar þróunar á sér hins vegar styttri sögu. Það er mín skoðun að þessir þættir þarfnast aukinnar athygli og þróunar. Í formennskutíð okkar í Norðurskautsráðinu viljum við leggja sérstaka áherslu á að þróa hlutverk Norðurskautsráðsins sem snýr að þessum málum og þá fyrst og fremst að lífskjörum og lífsskilyrðum fólks á norðurslóðum.

Mannlífið á norðurslóðum

Í viðleitni okkar til að efla það starf Norðurskautsráðsins sem snýr að félags-, efnahags- og menningarlegum þáttum og jafnframt í viðleitni okkar til að nálgast sýn Vilhjálms Stefánssonar á norðurslóðirnar, sem ég nefndi áðan, munum við beita okkur fyrir gerð yfirgripsmikillar skýrslu um mannlífs-, byggða- og atvinnuþróun á norðurslóðum.

Þingmannaráðstefna norðurskautsins hefur unnið ýmsa undirbúningsvinnu í þessu sambandi og óskað eftir því að Norðurskautsráðið taki að sér framkvæmd verksins. Skýrslunni er ætlað að taka mið af þróunarskýrslum Sameinuðu þjóðanna, auk þess að taka mið af nýlegum skýrslum innan norðurskautssamstarfsins um mengunarvarnir, vernd og stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Ætlunin er að gefa yfirsýn yfir sérstaka áhrifaþætti og aðstæður velferðar á norðurskautssvæðum. Skýrslan mun beina sjónum að hinum margvíslegu þáttum sjálfbærrar þróunar og velmegunar í norðri, jafnt á meðal frumbyggja sem annarra íbúa svæðisins. Félagsleg, menningarleg og efnahagsleg velferð íbúa norðursins og tengsl þeirra við sjálfbæra þróun og auðlindanýtingu norðurskautssvæða verða því í brennidepli.

Nú liggja fyrir drög að uppbyggingu og efnistökum þessarar tímamótaskýrslu, og á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar veg og vanda af þeim. Ég vænti þess að tillaga þessi verði samþykkt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Inari n.k. haust, þegar Ísland tekur við formennsku ráðsins.

Það er von mín að skýrslan verði sambærileg við það mat sem farið hefur fram á umhverfissviðinu og að hér verði lögð vel ígrunduð vinna í mat á félags- og efnahagslegum aðstæðum á norðurslóðum. Í framhaldi verður hægt að nota skýrsluna sem viðmið þróunar, auk þess sem verkið ætti að vera til þess fallið að auka þekkingu og skilning á sjálfbærri mannlífsþróun á meðal ráðamanna og almennings innan og utan svæðisins. Svo yfirgripsmikið verk ætti að auðvelda skilgreiningar á sameiginlegum viðfangsefnum, úrbótum og tækifærum hvað varðar lífsskilyrði, velferð og valmöguleika fólks á norðurslóðum.

Mikilvægi Háskólans á Akureyri

Þegar rætt er um eflingu mannauðs vil ég sérstaklega gera að umtalsefni það brautryðjendastarf sem Háskólinn á Akureyri hefur unnið. Hér hefur verið byggð upp góð menntun í mörgum og mikilvægum fræðigreinum. Það er ekki síst fyrir hið fjölbreytta og gefandi samstarf við atvinnulífið og rannsóknastofnanirnar sem Háskólinn á Akureyri hefur getið sér svo gott orð sem raun ber vitni. Starfsemi skólans tengist þörfum byggðalagsins með beinum hætti og mikil eftirspurn er eftir því fólki sem skólinn brautskráir.

Háskólinn á Akureyri hefur nýtt sér nútíma upplýsingatækni og býður upp á fjarnám. Sem dæmi um frábæran árangur má nefna að í næsta mánuði mun skólinn brautskrá níu hjúkrunarfræðinga sem allir hafa stundað fjarnám á Ísafirði. Þannig svarar skólinn þörfum þess byggðalags fyrir sérhæft fólk á því sviði. Það er sérstakt gleðiefni að fjöldi þeirra nemenda sem stunda fjarnám við háskólann hefur stóraukist á síðustu misserum.

Hér við Háskólann á Akureyri hefur verið lögð áhersla á samstarf við háskóla erlendis, meðal annarra við Háskóla norðurslóða. Háskóli norðurslóða er samstarfsverkefni nokkurra háskóla á norðurslóðum og býður upp á þverfaglega og alþjóðlega menntun í norðurslóðafræðum sem hefst nú í vor með inngangsnámskeiði til BA og BS prófs. Það er vert að geta þess mikilvæga starfs sem bæði Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri hafa lagt í undirbúning þessa náms. Áhersla er lögð á fjarnám með öflugum nettengingum og nemenda og kennaraskipti milli háskóla. Háskóli norðurslóða er ekki á vegum Norðurskautsráðsins en ég bind miklar vonir við þetta verkefni, sem kalla má Háskóla í þágu sjálfbærrar þróunar í norðri, og tel að Norðurskautsráðið ætti áfram að veita honum virkan stuðning.

Innra samstarf

Notkun upplýsingatækni, svo sem við nám, eflingu heilsugæslu, atvinnusköpun og eflingu þjónustu, eru verðug verkefni á norðurslóðum. Íbúar svæðisins alls þurfa að hafa aðgang að hagkvæmu fjarskiptakerfi með næga burðargetu svo að upplýsingatæknin nýtist þeim til bættra lífskjara. Til þess að ná árangri við uppbyggingu slíkra kerfa er mikilvægt að ná til bæjar- og sveitarfélaga og menntastofnana í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins og fá þessa aðila til þátttöku í starfi sem gagnast íbúum norðurslóða. Aukin þátttaka almennings, ekki síst ungmenna, í málum sem miða að eflingu sjálfbærrar þróunar á svæðinu leiðir til aukinnar þekkingar á sameiginlegum hagsmunum þeirra sem norðurslóðirnar byggja og gerir það að verkum að íbúarnir verða meiri gerendur en þiggjendur í málum sem hafa bein áhrif á lífsgæði.

Í þessu sambandi má hugsa sér aukið samstarf Norðurskautsráðsins og samtaka sveitarstjórna á norðurslóðum. Ein af grunnforsendum sjálfbærrar þróunar er sú að öll stjórnsýslustig verði ábyrg fyrir því að tillit sé tekið til sjónarmiða sjálfbærrar þróunar og að þau taki höndum saman með atvinnulífi og stjórnvöldum við að vinna hugmyndinni brautargengi.

Rannsóknir, vísinda og tækniþekking eru afgerandi fyrir uppbyggingu mannlífs á norðurslóðum. Það er verðugt verkefni að kanna möguleikana á því að efla samskipti og samstarf þeirra aðila sem sinna málefnum norðurslóða á sviði rannsókna. Mikilsvert er að vísindaleg kunnátta og tækni nýtist íbúunum við að ná tökum á aðstæðum og auðlindum heimahaganna. Rannsóknir í þágu sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum þurfa því bæði að byggja á alþjóðlegum vísindarannsóknum og reynslu heimamanna. Eitt af því sem samvinna á vettvangi Norðurskautsráðsins getur áorkað eru tengingar innan vísindasamfélagsins. Efling samskipta milli þessara aðila getur hvatt til samvinnu á sviði rannsókna og greitt fyrir marghliða rannsókna- og menntaáætlunum.

Það mætti hugsa sér samstarf rannsóknastofnana um ástand og nýtingu auðlinda. Ég nefni sem dæmi í þessu sambandi Chukotka héraðið í einu aðildarríkja Norðurskautsráðsins, Rússlandi. Á þessu svæði eru dýrmætar auðlindi, ekki síst í Beringshafi, en þar er að finna mikið magn ónýttra fiskistofna. Eitt af því sem stendur nýtingu þeirra fyrir þrifum er að ekki hefur verið byggður upp nægjanlegur vísindalegur grunnur fyrir nýtingunni. Töluvert samstarf er þegar hafið á sviði sjávarútvegs og jarðhitaframkvæmda milli íslenskra aðila og yfirvalda á svæðinu og verið er að þróa það frekar. Hér getum við Íslendingar lagt sitthvað til af sérþekkingu okkar á sviði hafrannsókna, sjávarútvegs og jarðhitaframkvæmda og hér gætu aðildarríki Norðurskautsráðsins einnig unnið saman að rannsóknarverkefnum.

Það hefur mikla þýðingu að efla samvinnu rannsóknasjóða aðildarríkja Norðurskautsráðsins sérstaklega. Með þessu móti mætti auðvelda sameiginlega fjármögnun rannsóknaáætlana og verkefna á norðurslóðum. Áframhaldandi samstarf Norðurskautsráðsins og Evrópusambandsins á sviði rannsókna er einnig nauðsynlegt. Það er heldur ekki úr vegi að kanna möguleikann á því að efla tengsl og samstarf Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem miðar að samvinnu stofnana sem sinna málefnum norðursins.

Aukin þátttaka almennings og menntastofnana í málefnum sjálfbærrar þróunar er afar mikilvæg. Það er mikilvægt að formennska Íslands í Norðurskautsráðinu nýtist til að styrkja samböndin við ýmsar stofnanir á svæðinu. Í þessu sambandi má hugsa sér aukin tengsl Norðurskautsráðsins við ýmis verkefni og samtök sem stuðla að þátttöku námsmanna og annarra í vísindasamfélaginu. Sem dæmi má nefna Rannsóknaþing norðursins (Northern Research Forum) sem hefur það markmið að skapa umræður og auka samráð milli háskólanemenda, vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Þær umræður fjalla um mikilsverð málefni, viðfangsefni og tækifæri sem snúa að íbúum norðurslóða, bæði með tilliti til félags- og umhverfisbreytinga en einnig hnattvæðingu efnahagslífsins. Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hafa gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu Rannsóknaþings norðursins og vinna nú að undirbúningi næstu ráðstefnu á þess vegum sem haldin verður í Novgorod í Rússlandi í september nk. Einnig má nefna Samtök um landbúnað á norðurslóðum sem hafa það megin markmið að stuðla að alþjóðasamstarfi um eflingu sjálfbærs landbúnaðar á norðurslóðum.

Samvinna við aðrar alþjóðastofnanir

Innan Norðurskautsráðsins hefur verið lögð áhersla á nauðsyn náinnar samvinnu við önnur alþjóðleg samtök og stofnanir og tel ég það afar mikilvægt. Norðurskautsráðinu ber að samræma aðgerðir á norðurslóðum við önnur samtök og stofnanir sem starfa á svæðinu. Markmiðið ætti að vera að efla samvirkni og draga úr skörun. Aukin samskipi, t.d. við áheyrnaraðila ráðsins geta stuðlað að þessu. Samvinna og samráð við samtök sveitarstjórna á norðurslóðum (Northern Forum) fer vaxandi og er afar mikilvæg. Það þarf líka að styrkja tengslin við Evrópusambandið og svæðisbundin samtök svo sem Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Samtök þingmanna á norðurslóðum. Norðurskautsráðið hefur átt gott samstarf við Norrænu ráðherranefndina og vænti ég þess að svo verði áfram.

Samvinna norðurslóðaríkja er mikilvæg, mörg stór verkefni hafa verið unnin í því samstarfi, og önnur þýðingamikil bíða úrlausna. Sjálfbær þróun er framtíðarsýn sem er í sífelldri mótun. Hún er verkefni sem aldrei verður lokið, því við þurfum sífellt að bregðast við breyttum aðstæðum og upplýsingum og leita nýrra leiða til að ná markmiðum hennar. Við Íslendingar verðum að axla okkar ábyrgð og taka virkan þátt í framgöngu sjálfbærrar þróunar. Náttúruauðlindir okkar eru nú sem fyrr undirstaða þjóðarbúskapsins. Við berum ábyrgð á því að nýta þessar auðlindir skynsamlega. Þannig getum við búið hér áfram í velferð og tryggt börnum okkar og barnabörnum sömu möguleika og við höfum til að nýta þessar auðlindir.

Mikilvægi norðurslóðasamstarfs fyrir Ísland

Það er okkur lífsnauðsynlegt að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og skoðanaskiptum um málefni er varða sjálfbæra þróun. Norðurskautsráðið er vettvangur fyrir okkur að láta til okkar taka hvað þetta varðar. Ég vænti þess að formennska okkar í ráðinu megi verða til þess að auka þekkingu á málefnum norðurslóða meðal okkar sjálfra. Að við sjálf gerum okkur grein fyrir því hvað sameinar íbúa norðurslóða og hvaða þættir hafi áhrif á velferð okkar. Með þessu móti getum við skilgreint verkefni og tækifæri til úrbóta og ráðist í framkvæmdir sem byggja á vel ígrunduðum athugunum hvort sem er á sviði umhverfis, efnahags eða félagsmála.

Með öflugu samstarfi getur Norðurskautsráðið tryggt að sameiginlegar aðgerðir verði byggðar á innsæi og þekkingu á þeim málefnum sem sameina okkur sem norðurslóðirnar byggjum, og þannig náum við árangri. Ég er bjartsýnn á framtíð Norðurskautsráðsins og þess fullviss að aðildarríki þess muni mæta nýjum áskorunum af krafti og áræðni.

Ég vil að lokum þakka fyrir það tækifæri að fá að tala hér við Háskólann á Akureyri og þakka þeim sem hingað eru komnir, mér er bæði ljúft og skylt að svara spurningum ykkar um þau mál sem ég hef hér fjallað um.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta