Alþjóðavæðing
Ræða utanríkisráðherra á ársfundi stjórnar og Útflutningsráðs Íslands
8. maí 2002
Ágætu fundargestir,
Umræðan um alþjóðavæðingu hefur verið áberandi hér á landi undanfarið.
Alþjóðavæðingin er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga sem eru mjög háðir útflutningsverslun og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Hinn íslenski markaður er smár, en framleiðendur og þjónustuaðilar líta í vaxandi mæli svo á að Evrópa og jafnvel heimurinn allur sé okkar markaður. Með afnámi hafta hafa hin litlu og meðalstóru íslensku fyrirtæki sótt inn á stærri markaði til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Vaxandi fjölbreytni íslensks atvinnulífs á rætur að rekja til þessarar þróunar. Á þann hátt hefur alþjóðavæðingin tvímælalaust skilað okkur hlutfallslega meiri ávinningi en mörgum öðrum stærri þjóðum.
Lýðræðislegar leikreglur
Lýðræðislegar leikreglur hafa verið festar í sessi og skapa trausta umgjörð samskipta einstaklinga og hins opinbera. Afskipti stjórnvalda eru minni en áður enda eru þeim í dag settar verulegar skorður. Á sama tíma hindra öflugar samkeppnisreglur óeðlilega viðskiptahætti fyrirtækja. Ekki er eftirsjá að forsjárhyggju og leikreglum hafta og skammtastefnu.
Engu að síður virðist sem margir skynji ekki fyllilega þær gríðarlegu umbætur sem alþjóðavæðingin hefur haft í för með sér, ekki aðeins á sviði viðskipta og með tilkomu risastórs alþjóðlegs vinnumarkaðar, heldur og með eflingu lýðræðis og mannréttinda.
Ýmislegt er nefnt til sögunnar í þessu sambandi, t.d. að lýðræðishalli sé á samvinnu Evrópuríkja og að vald þjóðríkja hafi í auknum mæli færst til ýmissa alþjóðastofnana sem lúti öðrum lögmálum þegar kemur að beinni þátttöku borgaranna. Að mínu mati er þessi málflutningur í veigamiklum atriðum á misskilningi byggður. Sagan færir okkur heim sanninn um að átök fyrri ára og tvær heimsstyrjaldir á síðustu öld knúðu þjóðir heims áfram í þeirri viðleitni að koma sér saman um samstarf um ýmsa mikilvæga en jafnframt sameiginlega hagsmuni. Um leið var leitast við að tryggja öryggi og jafnvægi í sambúð þjóðanna. Upp úr þessum jarðvegi spruttu ýmsar þekkustu alþjóðastofnanir veraldar, svo sem Sameinuðu Þjóðirnar, Evrópuráðið, NATO, Fríverslunarsamtök Evrópu - EFTA og Evrópusambandið.
Frjáls viðskipti, drifkraftur
Enginn fer lengur í grafgötur með þá staðreynd að drifkraftur efnahagskerfis heimsins eru viðskipti. Mörg ríki eiga allt undir milliríkjaviðskiptum. Þess vegna varð áframhald á þróun og hlutverki alþjóðastofnana, einkum á sviði viðskipta og efnahagsmála. Má þar nefna GATT og OECD. Á þessu sviði er ríkjum löngu orðið ljóst að í alþjóðaviðskiptum þurfa að gilda samræmdar leikreglur svo jöfn staða allra sé tryggð. Smærri ríki, eins og Ísland, hafa ekki hvað síst mikla hagsmuni af slíku samstarfi og leikreglum sem tryggja ákveðna vernd gagnvart ofurvaldi risastórra hagkerfa sem geta síður tekið mið af eigin hagsmunum og verða í auknum mæli að miða áætlanir sínar við hagsmuni fleiri ríkja – á hnattræna vísu.
Þróun og uppbygging alþjóðasamstarfs hefur haldið áfram jafnt og þétt. Ríkjum verður sífellt ljósara að þeim er ekki lengur fært að leysa margvísleg vandamál án samstarfs og jafnvel án þess að deila fullveldi sínu hvert með öðru. Um leið er leitast við að byggja upp lýðræði innan landa og á sviði alþjóðasamstarfs, enda geta flestir verið sammála um að heimsmynd nútímans sé ákjósanlegri en sú hryggðarmynd sem við blasti fyrr á árum, þegar Evrópa var klofin í mörg þjóðríki og Sovétríkin réðu stórum hluta hennar með ofurvaldi sínu. Þeir sem gagnrýna alþjóðavæðinguna nú á dögum ættu að velta fortíðinni ögn betur fyrir sér og þeim gríðarlegu umbótum sem hafa orðið á allra síðustu árum fyrir tilstilli hnattrænnar hugsunar og eðlilegrar framþróunar markaðarins.
Alþjóðavæðing íslensks efnahagslífs hvílir fyrst og fremst á þremur stoðum:
EES-samningurinn
Ber þar fyrst að telja EES-samninginn sem hefur skapað íslensku atvinnulífi margvísleg sóknarfæri á innri markaði ESB sem er okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður. En samningurinn hefur einnig haft í för með sér aukið frelsi á margvíslegum öðrum sviðum en vöruviðskiptum. Hann er m.a. grunnur að uppbyggingu fjármagnsmarkaðarins hér á landi. Samningurinn hefur styrkt stöðu Íslands sem vænlegs fjárfestingarkost á alþjóðlegum markaði. Samningurinn er að mínu mati lykilatriði í viðleitni stjórnvalda til að laða hingað til lands erlendar fjárfestingar.
Samningurinn hefur jafnframt verið mikilvægur þáttur í að efla rannsóknir hér á landi á margvíslegum sviðum þar sem Íslendingum hefur gengið vel að afla styrkja úr rannsóknaráætlunum ESB á undanförnum árum. Þetta hefur verulega styrkt viðleitni okkar við að auka fjölbreytileika íslensks atvinnulífs.
Fríverslunarsamningar EFTA
Fríverslunarsamningar sem gerðir hafa verið við fjölda ríkja á vettvangi EFTA hafa einnig reynst mikilvægir. Þessir samningar eiga það allir sammerkt að tryggja okkur fulla fríverslun fyrir okkar mikilvægustu framleiðsluvörur; sjávarafurðir og iðnaðarvörur.
Við næstu stækkun ESB munu átta þessara samninga falla úr gildi með þeim afleiðingum, að öllu óbreyttu, að tollar verða teknir upp á nokkrar tegundir sjávarafurða. Það er eitt af brýnustu hagsmunamálum okkar á næstu misserum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja hagsmuni okkar á þessu sviði og að því er nú unnið á pólitískum vettvangi.
Alþjóðaviðskiptastofnunin
Íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli haslað sér völl á mörkuðum utan EES-svæðisins og utan þeirra ríkja sem fríverslunarsamningarnir ná til.
Við slíkar aðstæður skipta þær reglur sem mótaðar eru á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunanirnnar sífellt meira máli. Nú er hafinn undirbúningur að hagsmunavörslu sem kennd er við Doha vegna hinnar nýju lotu alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Hagsmunir okkar eru í dag fjölbreyttari en áður. Lækkun tolla á fisk er áfram mikilvægt hagsmunamál en aðrir hagsmunir skipta einnig sífellt meira máli.
Dæmi um þetta er lyfjaiðnaðurinn sem á skömmum tíma hefur vaxið hratt hér á landi. Á undanförnum misserum hefur verið ánægjulegt að fylgjast með útrás íslenskra fyrirtækja á þessum vettvangi. Ekki er síður nauðsynlegt að horfa á aðra þætti en markaðsaðgang, til dæmis reglur um einkaleyfi. Það er dæmi um að sífellt flóknara verður fyrir okkur að gæta allra þeirra hagsmuna sem nauðsyn ber til. Því er mikilvægt að náið samstarf sé milli atvinnulífsins og stjórnvalda í því skyni að skilgreina og afmarka hagsmuni okkar sem best.
Stjórnvöld geta með hagsmunavörslu sinni haft áhrif á það starfsumhverfi sem okkar fyrirtæki búa við í öðrum löndum með einum eða öðrum hætti. Þetta kallar á samstarf stjórnvalda og atvinnulífsins. Reynt hefur verið að efla þetta samstarf á undanförnum árum en ég er sannfærður um að hægt sé að gera betur.
Skýrsla um alþjóðavæðingu
Það er í ljósi aukins mikilvægis þessara samninga í hinu alþjóðavædda umhverfi að ég taldi nauðsynlegt að endurskoða skýrslu frá 1999 um áhrif alþjóðavæðingar eða hnattvæðingar hér á landi. Þróunin á þessu sviði er svo hröð að nauðsynlegt er að leitast við að sjá fram í tímann og meta stöðu okkar með reglulegu millibili.
Nýja skýrslan, sem unnin er af ýmsum málsmetandi fulltrúum atvinnulífsins, undirstrikar að Ísland hefur vissulega notið góðs af alþjóðavæðingunni og að helstu sóknarfæri okkar eru bundin við áframhaldandi sókn á þeirri braut.
Skýrslan víkur sérstaklega að hagvaxtarþróun hér á landi og ítrekar að við verðum að gera betur á næstu árum en við höfum gert undanfarið til þess að halda í við keppinauta okkar. Kemur fram að útflutningur vöru og þjónustu verður að aukast um 3% á ári í þessu skyni. Markmiði af þessu tagi verður ekki náð nema með samstilltu átaki á mörgum sviðum.
Aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi og fiskiðnaði er mikilvæg í þessu sambandi og víkur skýrslan að því. Sérstaklega er fjallað um fiskeldi og líftækni sem framtíðarmöguleika þeirra greina til vaxtar. Tekur nefndin undir þær áætlanir sem iðnaðarráðherra hefur kynnt í byggðaáætlun um mikilvægi þess að efla rannsóknir á þessum sviðum.
Skýrslan dregur enn á ný fram mikilvægi þess að okkur takist að tryggja áframhaldandi uppbyggingu stóriðju hér á landi. Fram kemur að ef bjartsýnustu vonir á því sviði ganga eftir verði landsframleiðsla hér á landi árið 2012, 5% hærri en ella og kaupmáttur allt að 6% hærri.
Skýrslan fjallar í nokkrum atriðum um afstöðuna gagnvart ESB. Ákveðnar spurningar eru settar fram um stöðu okkar samkvæmt EES-samningnum og hvort hann verði fullnægjandi grundvöllur til framtíðar með hliðsjón af þróun ESB.
Í þessu sambandi er sérstaklega vikið að þeirri þróun að við blasir, að innan nokkura ára kunni allt að 27 ríki að hafa tekið upp evruna og að 2/3 hlutar okkar útflutnings verði í þeirri mynt.
Fjallar nefndin því sérstaklega um þá stöðu að evran yrði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi. Slíkt verður að mínu mati ekki gert nema með aðild að ESB.
Leitast er við að meta þá kosti sem eru fyrir hendi við efnahagsstjórnina til að bregðast við ytri áföllum annars vegar innan evru og hins vegar utan hennar. Fram kemur að utan evru væri með aðgerðum í vaxta- og gengismálum unnt að mæta áföllum, svo sem við þekkjum, þannig að verulega yrði dregið úr áhrifum þeirra.
Nefndin telur hins vegar ekki sjálfgefið að hagsveiflusjónarmið hindri aðild að ESB með evru sem framtíðargjaldmiðil.
Fram kemur að innan evrusvæðisins væri unnt að bregðast við slíkum sveiflum þó á annan veg væri. Í stað viðbragða á sviði vaxta- og gengismála væri unnt að beita ríkisfjármálum með markvissum hætti til hagstjórnar á sveiflutímum með tilflutningi framkvæmda og með aðgerðum í skattamálum. Er það í líkingu við hugmyndir sem settar hafa verið fram í Svíþjóð í tengslum við hugsanlega aðild Svíþjóðar að evrunni. Þetta krefst þess að almennt verði ríkissjóður rekinn með afgangi.
Nefndin bendir einnig á að ákveðinn efnahagslegur agi felist í þeirri staðreynd að gengisbreytingum yrði ekki lengur beitt sem hagstjórnartæki.
Skýrslan víkur að vaxtastigi hér á landi og telur að við óbreytt fyrirkomulag í gengismálum verði vextir ávallt hærri hér á landi en innan evrusvæðisins. Við hugsanlega aðild að evru myndu vextir þó án efa lækka og þar með skapaðist grundvöllur að vaxandi landsframleiðslu. Er því m.a. haldið fram, að vaxtagreiðslur heimila og atvinnuvega til lánakerfisins myndu lækka um 15 milljarða á ári við upptöku evrunnar. Slík vaxtalækkun myndi vitaskuld auka fjárfestingu og hagvöxt til lengri tíma litið.
Full samstaða var í nefndinni um niðurstöður hennar. Nefndina skipuðu Þórður Friðjónsson, forstjóri Verðbréfaþings Íslands, Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Útgerðarfélags Akureyrar, Páll Sigurjónsson, formaður stjórnar Útflutningsráðs, Runólfur Smári Steinþórsson, dósent við Háskóla Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Rannveig Rist, forstjóri Íslenska álfélagsins, Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings og Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti. Ástæða er til að þakka nefndarmönnum gott starf og vandað en þeir koma úr ýmsum geirum íslensks samfélags atvinnulífi, launþegasamtökum, fjármálageira og háskólasamfélaginu. Í ljósi þess tel ég afar mikilvægt að tillögum nefndarinnar verði fylgt eftir og áfram verði skipulega unnið að athugun á kostum og göllum aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Á mörgum sviðum eru þeir þekktir ekki síst vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Á sumum sviðum er hins vegar nauðsynlegt að frekari athuganir fari fram líkt og bent er á í skýrslunni. Má þar nefna sjávarútvegsstefnuna, sveigjanleika vinnumarkaðar, sóknarfæri íslensks atvinnulífs og áhrif á heildarkjör launafólks og síðast en ekki síst hagstjórn í evruumhverfi.
Lyfjaiðnaður og erfðarannsóknir
Það er táknrænt fyrir þá þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi undanfarin ár að sérstakt umfjöllunarefni hér í dag er útrás með lyf og líftækni.
Á þessum sviðum hefur átt sér stað bylting. Má t.d. nefna að á síðustu þremur árum hefur útflutningur lyfja frá Íslands sjöfaldast úr 551 milljón árið 1999 í 3,5 milljarða árið 2001. Það er því sérstaklega ánægjulegt og við hæfi að Delta samstæðunni hafi hlotnast útflutningsverðlaun forseta Íslands, 2. maí s.l. Hagvöxtur á Íslandi í framtíðinni á mikið undir útrás fyrirtækja og skiptir þar lyfjageirinn miklu sem ný stoð í útflutningsiðnaði.
Það er mikilvægt að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs ekki síst til að draga úr sveiflum í efnahagslífinu. Því er sú þróun og uppbygging sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarin ár á sviði lyfjaframleiðslu og erfðarannsókna mikilvæg. Miklar vonir eru bundnar við árangur af því grundvallarstarfi sem unnið hefur verið á sviði erfðarannsókna. Þetta er gott dæmi um svið þar sem smæð íslensks samfélags samhliða háu menntunarstigi getur haft áhrif á hagvöxt í framtíðinni. Frekari þróun starfsemi af þessu tagi er nauðsynleg í því skyni að leitast við gera frekari verðmæti úr þessum rannsóknum.
Ekki er síður mikilvægt að gefa gaum þeirri þróun sem á sér stað á öðrum sviðum líftækni þar sem margir telja verulega möguleika til að auka verðmæti sjávarafurða og að vinna afurðir úr okkar jarðhita. Norðmenn hafa jafnvel gengið svo langt að tala um líftækni sem þá auðlind sem muni skapa þeim tekjur í framtíðinni í líkingu við olíuna í dag.
Framtíðin
Aukinnar bjartsýni gætir í heimsbúskapnum sem ætti að viðhalda sterkri stöðu útflutningsgreina. Á sama tíma er markvisst unnið að því að styrkja efnahagslegan grundvöll okkar með auknum erlendum fjárfestingum hér á landi í orkufrekum iðnaði og þekkingariðnaði.
Eins og ég vék að í upphafi njóta fáar þjóðir eins mikils ábata af alþjóðavæðingu og við Íslendingar. Smæð markaðarins er ekki lengur sú hindrun sem áður var. Tollar hafa lækkað, reglur um erlendar fjárfestingar hafa verið rýmkaðar. Tæknilegar viðskiptahindranir hafa verið afnumdar með markvissum hætti. Þessar kringumstæður skapa ný sóknartækifæri sem mikilvægt er að nýta. Það eru ýmsir kostir fólgnir í því að vera lítil þjóð. Ákvarðanataka á að vera einfaldari og viðbragðshraði skjótari. Við höfum hins vegar ekki þá fjármuni sem stærri þjóðir hafa til að styðja við bakið á okkar útflutningi. Mikilvægt er að nýta þá takmörkuðu fjármuni með skilvirkari hætti en nú er gert. Til þess þarf að efla stoðfyrirkomulag við útflutning hér á landi. Því er nauðsynlegt að starfsemi þeirra opinberu aðila, sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf, verði einnig sameinuð eða samræmd í þeim tilgangi að bæta þjónustu við það.
Við getum margt lært af öðrum þjóðum í þeim efnum.
Til stuðnings við útrás atvinnulífsins höfum við öfluga utanríkisþjónustu, Útflutningsráð, Fjárfestingastofu, Ferðamálaráð, Markaðsnefnd landbúnaðarins, atvinnufulltrúa með stuðningi Byggðastofnunar, Iðntæknistofnun, Nýsköpunar- sjóð atvinnulífsins o.s.frv. Ef árangur á að nást er mikilvægt að allir þeir aðilar sem hafa það hlutverk með einum eða öðrum hætti að koma íslenskum hagsmunum á framfæri á erlendri grund vinni saman, stilli saman strengi sína og ryðji brautina með íslenska hagsmuni að leiðarljósi. Farsælt starf hefur verið unnið en það er mitt mat að við getum gert betur.