Friðarhorfur og framtíðarsýn
Reykjavík, 4. september 2002
Friðarhorfur og framtíðarsýn
Ísrael-Palestína - Framtíð og friðarhorfur
Ráðstefna í safnaðarheimili Grensáskirkju á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar
Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.
Ágætu fundarmenn!Ísrael-Palestína - Framtíð og friðarhorfur
Ráðstefna í safnaðarheimili Grensáskirkju á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar
Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.
"En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina." Hversu oft hafa ekki þessi orð úr jólaguðspjallinu yljað okkur um hjartarætur á jólum. "Um þessar mundir" og allt frá því að önnur "intifatah" Palestínumanna hófst fyrir rétt tæpum tveimur árum, berast okkur hinsvegar önnur og válegri tíðindi frá Palestínu. Dag eftir dag berast fregnir af nýjum hörmungum og átökum og í dag "skrásetjum" við þá Palestínumenn sem falla fyrir óhóflegu hervaldi ísraelska hersins á hernumdu svæðunum, Vesturbakkanum, Gaza og Austur Jerúsalem og þá Ísraelsmenn sem myrtir eru í sjálfsmorðsárásum Palestínumanna. Hversu fjarri friðar- og kærleiksboðskap Krists eru ekki þær daglegu fréttir frá ríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem sundrung og hatur milli þjóða virðist nú helst ráða ríkjum?
Frá haustinu 2000 hefur stjórnmálaþróunin í Mið-Austurlöndum einkennst af átökum og ófriði. Ekkert lát hefur orðið á ofbeldinu og öryggisleysinu á svæðinu. Vantraustið milli Palestínumanna og Ísraelsmanna er algert og það á bæði við um stjórnmálamennina sem hinn almenna borgara. Sáttfýsi og umburðarlyndi hafa vikið fyrir sundurlyndi og óbilgirni. Vítahringur ofbeldis og hefnda hefur tekið við. Í ástandi sem þannig er lýst er erfitt að koma auga á miklar friðarhorfur né virðist framtíðarsýnin vera björt. Vonin um frið virðist ein vera eftir.
Sögulegar ástæður eru fyrir ástandinu í dag. Palestínumálið hefur verið á dagskrá nær alla síðustu öld eða frá Balfour yfirlýsingunni í nóvember 1917, þar sem lýst var yfir stuðningi við stofnun ríkis gyðinga í Palestínu, þar sem réttindi innfæddra Palestínumanna væru jafnframt tryggð. Átökin í Mið-Austurlöndum eru einnig flókin vegna þess að þau eru allt í senn menningarleg, trúarleg og þjóðernisleg.
Ég hafði tækifæri til að kynna mér ástandið í Mið-Austurlöndum af eigin raun í heimsókn minni til Ísrael, Palestínu og Jórdaníu sl. vor. Sú ferð var fyrsta ferð mín til þessa svæðis og varð sannarlega til þess að skerpa skilning minn á vandamálum þeim sem þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafsins eiga við að glíma.
Afstaða Íslands til átakanna í Palestínu er skýr og hefur jafnframt komið fram á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Málefni Mið-Austurlanda hafa auk þess verið til umræðu á ótalmörgum fundum sem ég hef átt með utanríkisráðherrum annarra ríkja. Við höfum fordæmt ofbeldisverk beggja aðila og krafist þess að deiluaðilar semji um vopnahlé og hefji friðarviðræður sem leiði til stofnunar sjálfstæðs ríkis Palestínu um leið og öryggi Ísrael verði tryggt innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra. Ljóst er, að við munum vart hafa afgerandi áhrif á lausn deilumálanna í Mið-Austurlöndum. Við munum hinsvegar halda áfram að leggja okkar af mörkum, innan þeirra takmarka sem við höfum möguleika á þegar Palestínumálið kemur upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana, m.a. á grundvelli þingsályktana Alþingis um deilur Ísraela og Palestínumanna frá 18. maí 1989 og 30. apríl 2002.
Palestínumenn eru fórnarlömb þessara átaka, þar sem þeir verða fyrir sífelldu og óhóflegu ofbeldi á sjálfstjórnarsvæðum sínum af hálfu Ísraela og Ísraelar lifa í daglegum ótta um líf sitt vegna sjálfsmorðsárása Palestínumanna.
Ég vil lýsa sérstökum áhyggjum mínum af hinu bága efnahags- og mannúðarástandi á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Ábyrgð Ísraelsmanna er mikil og kyrkingartaki þeirra á palestínsku stjórnmála- og efnahagslífi svo og ögrandi útþenslu landnemabyggða á hernumdu svæðunum verður að linna.
Fyrir örfáum dögum gerði Terje Röd Larsen, sem er sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í friðarferlinu í Mið-Austurlöndum, grein fyrir efnahagsástandinu á hernumdu svæðunum í ræðu sem hann flutti í Jerúsalem. Það er vægast sagt ófögur mynd sem þar er dregin upp.
Atvinnuleysið á hernumdu svæðunum hefur aukist úr 36% í 50% og á tímum útgöngubanns, sem nær til 500-900 þúsund manna allt eftir svæðum, fer það upp í rúm 63%. Sem dæmi má nefna Nablus en í nær allt sumar hefur verið þar í gildi útgöngubann nær allan sólarhringinn. Sjálfur varð ég fyrir barðinu á þessu útgöngubanni 1. júní sl. þegar ísraelski herinn meinaði mér að ferðast um Nablus á leið til Al-Aqrabanieh skólans á Vesturbakkanum, sem Íslendingar áttu þátt í að byggja.
Tekjutap Palestínumanna er $7.6 milljónir á dag eða um $3.3 milljarðar frá því í október árið 2000. Síðan þá hefur Palestínumönnum ekki verið heimilað að starfa í Ísrael og allar launatekjur Palestínumanna þar hafa því fallið niður en þær námu áður 17% af öllum þjóðartekjum Palestínumanna. Um 70% íbúa á Gaza svæðinu lifa nú undir fátæktarmörkum og 55% íbúa Vesturbakkans, þegar miðað er við $2 neyslu á dag.
Mannúðarástand á hernumdu svæðunum er eftir þessu og Alþjóðabankinn fullyrðir að án gjafafés hefðu allar forsendur fyrir efnahagsstarfsemi á svæðunum hrunið. Tekjur palestínsku heimastjórnarinnar eru nær engar enda halda Ísraelar eftir skatttekjum heimastjórnarinnar. Á þessu verður sú breyting á næstunni að ísraelsk stjórnvöld hafa nú ákveðið að skila Palestínumönnum 10% af skatttekjum sínum. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme) gerir ráð fyrir að þurfa að fæða hálfa milljón manns á næstunni og Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA) hefur síðan í október 2000 veitt 1 milljón Palestínumanna matvælaaðstoð.
Sú mynd sem ég hef hér dregið upp er því ekki glæsileg og lofar ekki góðu fyrir framtíðarhorfur svæðisins.
Hvað er til ráða? Hvernig er unnt að brjótast út úr vítahringnum sem friðarferlið hefur ratað í. Krafa alþjóðasamfélagsins er að deiluaðilar fallist tafarlaust á vopnahlé og hefji strax, án nokkurra skilyrða, samningaviðræður á grundvelli Mitchell skýrslunnar frá 30. apríl 2001 og öðrum þeim tillögum sem fram hafa komið á undanförnum mánuðum, nú síðast tillögum Evrópusambandsins sem gera ráð fyrir stofnun palestínsks ríkis árið 2005.
Lausn ágreiningsmálanna fyrir botni Miðjarðarhafsins getur aldrei verið hernaðarleg heldur eingöngu pólitísk. Fyrr í ár lagði Abdullah, krónprins Sádi-Arabíu fram athyglisverðar hugmyndir, sem fela í sér að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá þeim svæðum sem hernumin voru í sex daga stríðinu 1967, gegn því að Arabaríkin viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og eðlileg pólitísk samskipti komist á milli ríkja í Mið-Austurlöndum. Þessar hugmyndir byggja að sjálfsögðu á ályktunum öryggisráðsins nr. 242/1967 og nr. 338/1973 svo og nr. 1397/2002, þar sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lýsti í fyrsta skipti yfir stuðningi við stofnun sérstaks ríkis Palestínu.
Það sorglega í allri þessari átakasögu er, að við teljum okkur vita hverjar forsendurnar eru fyrir friðarsamkomulagi milli Ísraela og Palestínumanna. Því meira sem frávikið verður frá þeim skilyrðum sem felast í samþykktum öryggisráðsins þeim mun brothættara verður friðarsamkomulagið. Við getum ekki vænst varanlegs friðar í Palestínu fyrr en þessum forsendum hefur verið mætt.
Fordæmin eru fyrir hendi. Ísrael og Jórdanía hafa samið frið svo og Ísrael og Egyptaland. Þessir friðarsamningar hafa haldið enda drógu Ísraelar sig til baka, í áföngum, frá öllu egypsku landsvæði.
Um skeið hefur þess verið vænst að unnt yrði að kalla saman alþjóðaráðstefnu um málefni Mið-Austurlanda, þar sem ljóst er að Ísraelar og Palestínumenn ná ekki samkomulagi án utanaðkomandi aðstoðar. Þessar hugmyndir eru nú til umræðu innan Fjóreykisins svonefnda (The Quartet). Utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, ásamt Solana og Patten frá Evrópusambandinu og Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna munu hittast um miðjan mánuðinn þar sem þessar og fleiri hugmyndir verða til umræðu.
Því miður verða þó að teljast litlar líkur á vopnahléi og friðarsamkomulagi í Palestínu á næstunni. Írakmálið mun einnig draga athyglina frá vandamálum Palestínumanna svo og baráttan gegn alþjóðlegum hryðjuverkum nú þegar ársafmæli hryðjuverkaárásarinnar 11. september 2001 nálgast. Auk þess verða þingkosningar í Bandaríkjunum í nóvember, forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningar í Palestínu í vetur og mögulegt er að Sharon, forsætisráðherra Ísrael, boði einnig til þingkosninga í vetur. Allir þessir samverkandi þættir benda því til óbreytts ástands í Palestínu á næstu mánuðum.
Endurskipulagning heimastjórnarinnar, sérstaklega öryggismálanna, er lykilatriði varðandi vopnahlé og friðarhorfur á svæðinu í dag. Hvorki Ísraelsmenn né Bandaríkjamenn munu ljá máls á samstarfi við Arafat fyrr en þessi endurskipulagning, ásamt valddreifingu innan heimastjórnarinnar, hefur farið fram.
Að mínu mati er skortur á trausti það sem fyrst og fremst stendur í vegi fyrir framþróun.
Þó Kristur hafi fyrir 2000 árum grátið yfir Jerúsalem (Lúkas 19, 41-44) þýðir það þó ekki að við gefum upp vonina og höldum áfram um alla framtíð að gráta örlög palestínsku þjóðarinnar.