Ísland og Evrópusamvinnan
Reykjavík, 26. september 2002
Ísland og Evrópusamvinnan
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands um Evrópumál
Í árdaga verkalýðshreyfingarinnar fólst höfuðverkefni hennar í staðbundnum verkefnum, svo sem að bæta aðbúnað, húsakost, réttindi og launakjör verkafólks. Það er hins vegar tímanna tákn að Alþýðusamband Íslands efni nú til málþings um stöðu Íslands í Evrópu.Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands um Evrópumál
Staða Íslands á alþjóðavettvangi hefur bein áhrif á afkomu og hagsmuni íslensks launafólks. Þrátt fyrir að almenn samstaða sé nú um að efnahagsmálum sé best stjórnað með markaðshagkerfi, er alls ekki þar með sagt að engu skipti hvernig ríki, hagsmunasamtök og einstaklingar skynji hagsmuni sína og vinni að þeim.
Markaðshagkerfi er ráðandi
Ég fyrir mitt leyti lít á markaðshagkerfi sem hvern annan vakran hest sem bæði þarf að beisla og temja svo hann nýtist sem best. Það má vera að hraðinn aukist við að sleppa taumnum lausum en þá má knapinn hafa sig allan við ef hann á ekki að detta af baki. Um það eru mörg dæmi.
Við viljum að markaðskerfið hámarki arðinn af efnahagsstarfseminni og einstaklingsfrelsið er best til þess fallið að hjólin snúist áfram, en við viljum einnig tryggja félagslegt öryggi, heilnæmt umhverfi, rétt launafólks og neytenda og siðferði í viðskiptalífinu. Því verður ríkið að axla ábyrgð sína, setja reglur og skakka leikinn, þegar þess er þörf.
Umræða um það hvernig hlutverk ríkisins skuli skilgreint að þessu leyti, er ekki einskorðuð við einstök þjóðríki. Á dögum alþjóðavæðingar getum við ekki lengur leyft okkur að leita lausna án þess að taka tillit til þess sem annars staðar gerist og við verðum að taka mið af umhverfi okkar þegar við setjum fyrirtækjum okkar markmið. Eins þurfum við að tryggja launafólki kjör sambærileg við það sem annars staðar gerist.
Hvernig við nýtum svigrúm okkar í þessum efnum, segir mikið um hvers konar samfélagi við viljum búa í. Viljum við umhverfi sem leggur áherslu á litlar kröfur um framlög atvinnulífsins til samneyslunnar og fátæklegan aðbúnað launafólks?
Viljum við öflugan vinnumarkað þar sem launafólk og fyrirtæki njóta ríkra réttinda og skyldna og þar sem reynt er að tryggja samkeppnisstöðu atvinnulífsins án þess að draga úr þeim kröfum sem til fyrirtækjanna eru gerðar um rekstrarhæfni og framlög til sameiginlegra sjóða? Valið milli þessara kosta virðist einfalt, en þegar betur er að gáð kalla kröfur um meiri lífsgæði á svör við öðrum spurningum.
Hvar eru samherjarnir?
Kjarninn í svari við þessari spurningu er að mínu viti það að við erum sjálfstæð þjóð sem leitar samstarfs við nágrannaþjóðir með svipað gildismat. Við höfum um áratugi átt samleið með Norðurlandaþjóðunum. Með vaxandi alþjóðvæðingu hafa þær tengst öðrum þjóðum Evrópu sterkari böndum og það sama á við um okkur.
Evrópusamstarfið á grundvelli EES-samningsins hefur í senn aukið frelsi fyrirtækja og einstaklinga til athafna og skilgreint betur ábyrgð atvinnulífsins og ríkisvaldsins í félags- og umhverfismálum eins og nýtingu orkulinda og þátttöku í alþjóðavæðingu. Það hefur einnig leitt enn betur í ljós hversu mikla samleið við eigum með öðrum Evrópuþjóðum. Allt frá gerð EES-samningsins hefur verið leitun að lagatextum sem hafa valdið okkur alvarlegum vandkvæðum við að taka upp í íslenska löggjöf, þrátt fyrir að umfang samningsins hafi aukist hraðar en nokkurn óraði fyrir í upphafi.
Við getum ýmislegt lært af Bandaríkjunum og Asíuríkjum og viljum efla viðskipti og tengsl við þau, en þegar kemur að heildarsamræmi og gildismati er enginn efi í mínum huga að svo víðtækt og skuldbindandi samstarf gat aðeins gengið með félögum okkar innan landa Evrópusambandsins, auk Noregs og Lichtenstein.
Svæði náins samstarfs stækkar
Evrópusamstarfið hefur tryggt frið og stöðugleika í álfu sem verið hafði stríðshrjáð um árhundruð. Nú hafa skapast forsendur til að Mið- og Austur-Evrópuríki geti gengið til liðs við Evrópusambandið sem fullgildir aðilar. Evrópusambandið mun hafa innan vébanda sinna 25-27 ríki innan skamms. Enn fleiri ríki undirbúa umsókn sína. Króatía er til að mynda tilbúin til að taka sér stöðu í biðröðinni eftir áramót og önnur Balkanríki koma á eftir. Engan veginn er rétt að ganga út frá því sem gefnu að Sviss eða Noregur hafi sagt sitt síðasta orð og ef svo fer að afstaða þeirra breytist getur dregið til tíðinda með skömmum fyrirvara.
Spurningin framundan
Hver er staða launafólks, fyrirtækja, byggða og umfram allt staða unga fólksins við þessar aðstæður? Nú eins og alltaf áður verður eitt að ráða afstöðu okkar: Hvernig sköpum við flest tækifæri fyrir íslenskt samfélag, þá sem í framtíðinni hasla sér völl á íslenskum vinnumarkaði og íslensku þjóðfélagi almennt. Tækifæri til mennta, tækifæri til vinnu, tækifæri til að taka þátt í alþjóðaþróun.
Stóra spurningin er: Gerum við það best á grundvelli EES-samningsins, eða gerum við það hugsanlega best með aðild að Evrópusambandinu? Þetta er ein stærsta spurning sem íslenska þjóðin mun standa frammi fyrir á næstunni, umræða um hana verður ekki umflúin og henni verður að svara að lokum.
Áhrif aðildar á sjávarútveg og landbúnað
Öflug landsbyggð er markmið okkar allra. Áhrif sjávarútvegsstefnu og landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins á landsbyggðina munu án efa verða umtalsverð, enda stöndum við í dag utan þessa þáttar í starfi ESB. Ef við höfum ekki yfirráð yfir nýtingu auðlinda sjávar innan okkar lögsögu er ljóst að við eigum ekki erindi inn í Evrópusambandið. Ég hef áður viðrað hugmyndir um það hvernig slíku gæti verið fyrirkomið í samningaviðræðum og þær hugmyndir hafa vakið athygli og jákvæð viðbrögð.
Auðvitað er aldrei hægt að fullyrða fyrirfram um niðurstöðu samningaviðræðna, en ljóst er að Evrópusambandið hefur í aðildarviðræðum við ný aðildarríki sýnt grundvallarhagsmunum þjóða mikinn skilning. Því má ekki gleyma að við höfum áður samið um fiskveiðimál í tengslum við markaðsaðgang, bæði í kjölfar fríverslunarsamninganna 1972 og í EES-samningnum. Í báðum tilvikum voru háværar raddir um að veita þyrfti veiðiheimildir fyrir aukinn markaðsaðgang. Í báðum tilvikum var þeim kröfum hafnað og hrundið að mestu leyti.
Hvað landbúnaðarmál áhrærir er ljóst að Evrópusambandsaðild mun hafa í för með sér miklar breytingar á umhverfi innflutnings landbúnaðarafurða. Hún mun hafa í för með sér lægra matvælaverð fyrir neytendur, en auka á samkeppni við innlenda framleiðslu. Ég hef áhyggjur af stöðu íslensks landbúnaðar, hvort heldur er innan Evrópusambandsins eða utan. Sú þróun sem nú á sér stað innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hlýtur einnig að kalla á umræðu um það hvort við ættum betra með að verja þann stuðning sem íslenskur landbúnaður þarf á að halda, þróa hann til betri vegar og hugsanlega efla hann, ef við værum aðilar að Evrópusambandinu. Í aðild að Evrópusambandinu felast ekki bara hættur fyrir landbúnaðinn heldur líka sóknartækifæri, með auknum markaðsaðgangi og stuðningi við búháttabreytingar. Ég legg áherslu á að mikilvægt er að að lögð verði vinna í að skýra til fulls kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu fyrir landbúnaðinn.
Alþjóðavæðing og Evran
Í dag fer rúmlega 75% af okkar útflutningi á markað ESB og umsóknarríkjanna. Þetta hlutfall hefur vaxið um 7,6% á sl. 3 árum og rétt er að gera ráð fyrir enn meiri aukningu eftir að stækkun er orðin að veruleika. Ekki er ólíklegt að á þessum markaði verði innan fárra ára einn gjaldmiðill sem afkoma okkar mun í verulegu mæli byggja á.
Til að tryggja áframhaldandi hagvöxt er nauðsynlegt að laða hingað erlendar fjárfestingar í ríkari mæli. Alþjóðavæðingin hefur leitt til þess að atvinnuvegirnir leita þangað sem kjörin eru best og því verður að tryggja atvinnurekstrinum stöðugleika og samkeppnishæfni. Fyrirséð er að upptaka evrunnar mun leiða til lægra vaxtastigs og vöruverðs í Evrópu, sem mun hafa umtalsverð áhrif á hag bæði neytenda og fyrirtækja.
Ef við stöndum áfram utan Evrusvæðisins þurfum við að bæta okkar atvinnulífi upp það óhagræði sem af því hlýst, með einhverjum hætti. Við höfum þegar brugðist við með því að heimila fyrirtækjum að gera upp í erlendum gjaldmiðli og lækkað skatta á fyrirtækjum. Við verðum að íhuga hversu langt við getum gengið á þessari vegferð. Hvernig verður umhorfs ef stærri fyrirtækin geta gert upp í Evru og notið bankafyrirgreiðslu á Evruvöxtum en minni fyrirtækin verða bundin íslensku hagkerfi? Hvaða áhrif mun það hafa á stöðugleika íslensks efnahagslífs og sveiflur á gengi krónunnar? Gæti það t.d. gerst í framtíðinni að kjarasamningar forstjóra stórfyrirtækja og sérfræðinga sem eftirspurn er eftir erlendis verði gerðir í evrum, en annarra launþega í íslenskum krónum.
Það er því augljóst að spurningin um samstarf okkar við Evrópu er ekki aðeins utanríkismál, heldur varðar hún sérhvern einstakling, heimili, fyrirtæki og byggðarlag. Aðalatriðið er: Sköpum við fleiri tækifæri og möguleika, verður hér meiri eða minni velferð? Svarið er ekki einhlítt, en hér eins og annars staðar er ekkert tækifæri án áhættu, enginn kostur án galla.
Lærdómur af EES-samningaviðræðunum
Í umræðu um Evrópu höfum við tilhneigingu til að tala um þær ógnir sem við teljum, með réttu eða röngu, stafa af nánum tengslum okkar við önnur Evrópuríki, en gleymum að horfa í sama mæli til ávinnings af þessum tengslum. Í umræðum um EES-samninginn á sínum tíma voru fyrirferðarmiklar áhyggjur af því að erlent vinnuafl myndi streyma til landsins og valda fjöldaatvinnuleysi, erlent fjármagn myndi kaupa upp landgæði og aðstöðu og að íslensk fyrirtæki mættu sín lítils í óheftri samkeppni.
Þegar við horfum til baka sjáum við að þessar hrakspár rættust ekki. Við sjáum þvert á móti að samningurinn hefur skapað okkur mikinn efnahagslegan ávinning og aukið á tækifæri íslenskra fyrirtækja og einstaklinga til að nýta þekkingu og reynslu til ávinnings fyrir þjóðarbúið í heild. Við sjáum að aðlögun okkar að evrópsku samkeppnisumhverfi hefur skapað heilbrigðari viðskiptaháttu, aðlögun að evrópskum umhverfisrétti, betri forsendur fyrir efnahagsstarfsemi í sátt við umhverfið. Aðlögun að evrópskum vinnuréttarreglum hefur fært launafólki aukin félagsleg réttindi og haft jákvæð áhrif á íslenskan vinnumarkað.
Forðumst kalda stríðsumræðu
Um miðja öldina klofnaði þjóðin í umfjöllun um utanríkismál og þátttöku okkar í vestrænu varnarsamstarfi. Fyrir vikið varð orðræða okkar um utanríkismál eins og burtreiðar, þar sem fylkingar með og á móti kölluðust á - og hlustuðu sjaldnast hvor á aðra. Ákvörðun um þátttöku okkar bar brátt að og var í raun gengið frá henni af nokkrum æðstu stjórnmálamönnum þjóðarinnar. Ég tel að þetta hafi verið gæfuspor og í dag er aðild að Atlantshafsbandalaginu ekki lengur það hitamál sem það áður var.
Hefði þess hins vegar verið kostur að taka málið til rækilegrar umræðu meðal þjóðarinnar, áður en frá aðild var gengið, má vera að sátt hefði skapast um niðurstöðuna mun fyrr. Það verður að skapa grundvöll vitrænnar umræðu þar sem kostir og gallar eru vegnir og metnir í rósemd. Þegar kemur að vegamótum í lífinu er það sjaldnast svo að einn kostur sé algóður en annar alvondur. Það getur verið erfitt að velja en hjá valinu verður ekki komist. Það er einnig ákvörðun að láta vera eða hafna.
Það er mikilvægt að sjá til þess að umræða um Evrópumál falli ekki í hinn gamalkunna kaldastríðsfarveg þegar menn ræddu mál með upphrópunum og einföldunum og gáfu sér niðurstöðuna fyrirfram. Þessa hefð þarf að brjóta á bak aftur. Það er sérstakt fagnaðarefni að sjá hvernig Alþýðusambandið kallar hér í dag færustu sérfræðinga til leiks til að ræða Evrópumál á faglegum forsendum, til að fræðast og ræða mál fordómalaust. Sama á við um Samtök iðnaðarins, sem með Alþýðusambandinu stóðu að gagnmerkri ráðstefnu um Evrópumál fyrir tveimur vikum. Fleiri dæmi mætti nefna.
Í allri þessari umræðu þarf að hafa í huga að við höfum með EES-samningnum og í Schengen-samningnum og í pólitísku samráði við ESB ákveðið að taka upp yfir 80% af öllum þeim ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi Evrópusambandsins. Í því felst í reynd að við höfum þegar ákveðið að taka þátt í samstarfi með öðrum Evrópuríkjum á þeirra forsendum, - vera þátttakendur í samstarfi sem Evrópusambandsríkin stjórna og móta ein leikreglurnar í. Aðild að Evrópusambandinu hefði því í reynd takmörkuð áhrif á daglegt líf flestra Íslendinga, á þeim sviðum sem þegar falla undir gildissvið EES-samningsins. Umræða um valkosti okkar nú verður því að miðast við þá stöðu.
Mikilvægi opinnar umræðu
Lýðræðislegt samfélag þarfnast lýðræðislegrar og opinnar umræðu af þessu tagi, þar sem mál eru rædd án fyrirfram gefinnar niðurstöðu. Fólkið í landinu kýs stjórnmálamennina, en það er ekki þar með sagt að með því afsali fólk og samtök fólks sér réttinum til að taka þátt og móta lýðræðislega umræðu nema á fjögurra ára fresti. Almenningur og hagsmunasamtök þess eiga fullan rétt á því að móta umræðuna með þeim hætti sem það kýs.
Vera kann að við göngum í Evrópusambandið fyrr eða síðar. Eins kann að vera að við gerum það aldrei. Eftir stendur að umræða um kosti okkar og það val sem við stöndum frammi fyrir í Evrópumálum verður að fara fram. Hún á að fara fram á forsendum fólksins í landinu, þar sem hver einstaklingur og hver samtök nálgast mál út frá sínum forsendum og með sínu lagi. Einungis þannig er von til þess að við sem þjóð tökum upplýstar ákvarðanir um það hvernig við högum samskiptum okkar við Evrópusambandið til lengri tíma litið.
Þá ákvörðun á ekki að taka fyrir luktum dyrum einstakra stjórnmálaflokka eins og gert var við inngönguna í NATO heldur að lokinni opinni umræðu með þátttöku þjóðarinnar allrar. Spurningin um Evrópuaðild okkar er því ekki aðeins á dagskrá - hún hlýtur að verða kosningamál eins og allar aðrar spurningar sem snerta lífskjör og aðstöðu okkar til lengri tíma litið.