Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. febrúar 2003 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi

Talað orð gildir

INNGANGUR
Að þessu sinni ætla ég að gefa hér yfirlit yfir þau mál sem efst eru á baugi í utanríkismálum um þessar mundir. Ekki er heldur úr vegi að vekja athygli þingheims á þeim verkefnum sem framundan eru í utanríkisþjónustunni og hvaða leiðir þjónustan hefur verið að marka á undanförnum árum til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Í því samhengi er vert að greina frá tveimur hagsmunamálum Íslands sérstaklega, stöðu EES-samstarfsins í ljósi stækkunar Evrópusambandsins og viðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá vil ég og beina sjónum manna nær, að málefni sem mér er hugleikið, samskiptunum við næstu nágranna Íslendinga. Á ég þar við hin mikilvægu tengsl við grannríki okkar Grænland og Færeyjar. Vert er einnig að minna á norrænt samstarf almennt, sem hefur í ólgusjó alþjóðastjórnmála oftar en ekki reynst okkur haldreipi.

NÝJAR ÓGNIR
Ekki verður þó hjá því komist að ræða fyrst þær viðsjár sem helst ber að varast um þessar mundir. Ógnir gegn stöðugleika og friði í heiminum leynast víða. Daglega berast fréttir af hótunum og handtökum meintra hryðjuverkamanna. Ljóst er að sú einstaka alþjóðlega samvinna, sem myndaðist í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum, hefur þegar haft víðtæk áhrif og brýna nauðsyn ber til að ríki heims haldi vöku sinni og samhentu átaki lengi enn. Eins og nýleg og átakanleg dæmi sanna svífast hryðjuverkamenn einskis. Kjarnavopnaáætlanir Norður-Kóreu og hótanir um að rifta vopnahléssamningi vekja einnig ugg. Síversnandi ástand fyrir botni Miðjarðarhafs, glötuð tækifæri til að koma á friði og til þess að leiða Palestínumenn og Ísraelsmenn að samningaborðinu eru mikil vonbrigði.

Ekkert er þó mönnum jafn ofarlega í huga nú og ógnarstjórnin í Írak. Þótt nokkuð hafi verið rætt um þau mál á þessum vettvangi undanfarið verður hér fjallað um þetta helsta áhyggjuefni heimsbyggðarinnar, en vera má að ögurstund í því máli sé skammt undan.

VOPNAEFTIRLIT Í ÍRAK
Hinn 27. febrúar 1991, fyrir nákvæmlega 12 árum, tilkynnti George Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, að stríðinu við Írak væri lokið og Kúveit væri frjálst á ný. Flóabardagi hafði þá staðið yfir í sex vikur með þátttöku 32 ríkja. Þrátt fyrir ósigurinn sat einvaldurinn áfram í Bagdad og situr enn. Saddam hrifsaði völdin í sínar hendur árið 1979. Ekki leið á löngu uns hann, öllum að óvörum, réðst inn í Íran árið 1980. Saddam fékkst ekki til að semja um vopnahlé fyrr en átta árum síðar eftir að hundruð þúsunda höfðu látið lífið og efnahagur Íraks var í rúst.

Enn stendur ógn af Írak. Þrátt fyrir það er mikilvægt að gefa vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna viðbótarsvigrúm svo að staðfesta megi með óyggjandi hætti hvort Írakar hafi undir höndum eða séu að þróa gereyðingarvopn. Samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1441 frá 8. nóvember 2002 liggur sönnunarbyrðin hjá Írökum. Í ályktuninni er jafnframt minnt á að það hafi alvarlegar afleiðingar haldi Írak áfram að brjóta gegn skyldum sínum. Enginn vafi má leika á því að nokkur gereyðingarvopn sé lengur að finna í Írak.

Þessa stefnu ríkisstjórnar Íslands áréttaði fastafulltrúi okkar hjá Sameinuðu þjóðunum í öryggisráðinu hinn 19. þ.m., í fyrstu ræðu Íslands á þeim vettvangi í langan tíma.

Í skýrslu dr. Hans Blix til öryggisráðsins staðfesti hann að mikið skorti á virka samvinnu af hálfu Íraka. Írakar hafa ekki gert skilmerkilega grein fyrir því hvort og þá hvernig þeir hafi eytt gereyðingarvopnum sem vitað er með vissu að þeir réðu yfir. Þá liggur ennfremur fyrir að Írakar hafa bæði villt um fyrir og blekkt vopnaeftirlitsmennina, ekki aðeins undanfarna mánuði, heldur í meira en áratug.

Á næstu dögum verður skýrsla eftirlitsmanna lögð fyrir öryggisráðið að nýju og verður fróðlegt að heyra hvort dr. Blix hafi orðið var við aukinn samstarfsvilja Íraka. Breið samstaða virðist vera að myndast um að þetta sé síðasta tækifæri Saddams Hussein.

Að sjálfsögðu erum við öll sammála um að markmið alþjóðasamfélagsins hljóti að vera að koma í veg fyrir stríð. Ég legg því áherslu á að leitað verði friðsamlegrar lausnar á málinu. Hernaðarátök eru neyðarúrræði.

Við megum á hinn bóginn ekki gleyma því að Írak er einræðisríki, sem lýtur harðstjórn Saddams Husseins, þar sem öll mannréttindi eru fótum troðin. Friðsamlegasta lausnin er að Saddam Hussein færi í útlegð ásamt valdaklíku sinni. Írak yrði afvopnað án hernaðaríhlutunar. Þegar menn á borð við Saddam eru annars vegar gagnast diplómatískar leiðir lítt, nema þeim fylgi hótun um beitingu hervalds.

Við skulum hafa það hugfast að Sameinuðu þjóðirnar verða á engan hátt gerðar ábyrgar fyrir því ástandi sem nú ríkir í Írak. Ábyrgðin liggur hjá ógnarstjórn Saddams Hussein. Það hefur sýnt sig að hann skirrist ekki við því að kúga eigin þjóð. Alþjóðasamfélagið verður að sýna staðfestu sína og Sameinuðu þjóðirnar styrk sinn. Sameinuðu þjóðirnar verða að halda á málum með þeim hætti að enginn efist um vald þeirra og getu til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Sameinuðu þjóðirnar hafa grundvallarhlutverki að gegna og kemur engin stofnun í þeirra stað.

Draga má afstöðu íslenskra stjórnvalda saman með eftirfarandi hætti:

· Írakar hafa brotið gegn ályktun öryggisráðsins nr. 1441, en í ályktuninni segir að það muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.
· Á hinn bóginn getur Saddam Hussein þó enn forðað þjóð sinni frá átökum með því að fara eftir því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt fyrir Írakstjórn.
· Vopnaeftirlitsmenn eiga að fá meiri tíma.
· Ísland styður friðsamlega lausn og stríð er neyðarúrræði.

ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ/AUKIN ÁBYRGÐ Í ÖRYGGIS- OG VARNARMÁLUM
Tilhögun öryggis- og varnarmála víða um heim endurspeglar þróun stjórnmála og efnahagsmála á alþjóðavettvangi. Í kjölfar loka kalda stríðsins hófst aðlögun í evrópskum öryggismálum sem hefur fengið aukið vægi og öðlast nýja vídd í ljósi hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Ógnir sem steðja að Evrópu hafa ekki horfið heldur breyst. Í stað ógnarjafnvægis áður blasir nú við hættan á mannskæðum árásum hryðjuverkahópa, jafnvel með gereyðingarvopnum. Slíkir hópar geta af minnsta tilefni reynt að kúga lýðræðisríki með hótunum um blóðsúthellingar eða eyðileggingu, hugsanlega með stuðningi fjarlægra einræðisstjórna. Þrátt fyrir þá öryggiskennd, sem stöðugleiki undanfarinna ára hefur skapað, er ekkert gefið í evrópskum öryggismálum og nauðsyn öflugra varna ekki minni en áður.

Engum dylst að sá klofningur sem Íraksmálið olli innan Atlantshafsbandalagsins var alvarlegur. Þótt tekist hafi að leysa málið eftir erfiðan og oft tvísýnan róður er ljóst að tíma mun taka að grói um heilt að nýju. Málið snerist ekki um afstöðu ríkja til hugsanlegra aðgerða gegn Írak, heldur tímasetningu ákvörðunar um að hrinda í framkvæmd varnaráætlunum vegna Tyrklands. Eitt aðildarríkjanna, Frakkland, lét ekki undan og var brugðið á það ráð að leiða málið til lykta á vettvangi þar sem Frakkar eiga ekki sæti, þ.e. í varnaráætlunarnefnd bandalagsins. Þar tókst að fá Belga og Þjóðverja um borð og komast út úr þessari blindgötu, eins og framkvæmdastjórinn, Robertson lávarður, orðaði það.

Það er áhyggjuefni fyrir Ísland ef Atlantshafsbandalagið færist á jaðarinn utan við hringiðu atburða og hugsanlega er hætta á að aftur komi til ágreinings af þessu tagi. Líkur gætu þá aukist á því að Bandaríkin eða önnur ríki kysu að grípa til aðgerða án samráðs við Atlantshafsbandalagið eða með samþykki þess. Nauðsynlegt samráð Bandaríkjanna og Evrópu færi þá jafnvel fram í ríkara mæli utan veggja bandalagsins, jafnvel beint milli Bandaríkjanna og ESB, þegar taka á afdrifaríkar ákvarðanir á sviði öryggis- og varnarmála. Ágreiningur ESB-ríkja undanfarnar vikur vegna Írakdeilunnar bendir þó til þess að enn skorti nokkuð á að unnt sé að tala um sameiginlega utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Að því er hins vegar stefnt að samstarf ESB-ríkja í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum verði æ umfangsmeira og nánara. Samvinna okkar við Evrópusambandið getur af þessum sökum orðið margþættari og snert önnur grundvallarsvið en þau er snúa að innri markaðnum og EES. Í samskiptum okkar við Evrópusambandið verðum við því að taka mið af þessu í ríkari mæli og íhuga með hvaða hætti við getum best gætt hagsmuna okkar á sviði varnar- og öryggismála á vettvangi ESB. Með stækkun Evrópusambandsins verða þessar spurningar jafnvel enn áleitnari.

Heimsbyggðin þarfnast samstillts átaks Evrópu og Bandaríkjanna. Gæta verður þess að þær raddir verði ekki of háværar eða reynist sannar sem telja þá gjá illbrúanlega sem menn þykjast sjá vera að myndast milli álfanna tveggja.

Ef til vill erum við að sjá fyrstu merki þess að upp sé að renna nýtt skeið í alþjóðamálum. Bandaríkin, sem eina risaveldi heims, hafa að undanförnu tekið sér mun stærra forystuhlutverk en fyrr. Sum ríki Evrópusambandsins virðast ætla sér það hlutverk að vera þar mótvægi og í því ljósi ber að skoða þann skoðanaágreining sem upp kom innan Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar verður ekki hjá því komist að Bandaríkin leiki, í krafti stærðar sinnar og styrkleika, lykilhlutverk á alþjóðavettvangi.

Áríðandi er að hið nána samráð Evrópu og Bandaríkjanna um öryggismál, sem fram hefur farið á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, haldist og sömuleiðis sterk Atlantshafstengsl. Ísland hefur hlutverki að gegna innan bandalagsins sem talsmaður sterkra tengsla yfir Atlantshafið, allt frá Tyrklandi í austri og vestur um haf til Bandaríkjanna og Kanada, því það eru grundvallarhagsmunir Íslands að órofa tengsl haldist milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Ísland hélt þessari einörðu afstöðu á lofti er grunnur var lagður að samstarfi Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. Ísland hefur alla tíð stutt þá þróun verði þess vandlega gætt að staðinn verði vörður um Atlantshafstengslin þannig að ekki þurfi að koma til þess að ríki neyddust til að velja á milli ríkja Norður-Ameríku og Evrópu í því samstarfi.

Allar líkur eru á að ríki Evrópu, undir forystu ESB og með stuðningi og aðstoð Atlantshafsbandalagsins, taki fyrr en síðar yfir aðgerðir bandalagsins á Balkanskaga, a.m.k. stóran hluta þeirra. Verið er að móta sameiginlega stefnu í þessum málum á vettvangi bandalagsins og Evrópusambandsins og teljum við þann samráðsvettvang, sem komið hefur verið á milli stofnananna, mjög mikilvægan. Þannig tryggjum við ekki aðeins þátttöku Íslands, heldur og ríkja Norður-Ameríku.

Á næsta ári fjölgar aðildarríkjum bandalagsins í 26. Ísland hefur ætíð stutt stækkunaráform bandalagsins. Ekki síst hafa stjórnvöld lagt áherslu á mikilvægi aðildar Eystrasaltsríkjanna sem eru í hópi hinna nýju aðildarríkja nú. Í þeirri umræðu, sem áður var rakin um tengslin yfir Atlantshafið, er áhugavert að hin nýju aðildarríki virðast leggja jafnríka áherslu og Ísland á tengslin yfir Atlantshafið og mun það án efa styrkja bandalagið.

Frekari stækkun bandalagsins til austurs mun eigi að síður geta leitt til þess að Ísland færist utar á jaðar þess, en sú þróun hófst reyndar þegar að kalda stríðinu loknu. Í því ljósi er sérstaklega mikilvægt að gera sig gildandi á þessum vettvangi og leggja sitt af mörkum miðað við stærð og getu. Að því hefur verið unnið markvisst á undanförnum árum. Skemmst er að minnast virkari þátttöku í aðgerðum bandalagsins á Balkanskaga og uppbyggingu Íslensku friðargæslunnar.

Íslenska friðargæslan er mikilvægasti liðurinn í virkari þátttöku okkar í öryggismálum, ekki síst á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flýta eflingu hennar svo að haldi megi úti allt að 50 manns á vettvangi þegar árið 2006.

Stærsta verkefnið sem Íslenska friðargæslan hefur ráðist í er stjórn flugvallarins í Pristína í Kosóvó, þar sem íslenskir flugumferðarstjórar starfa undir hatti Atlantshafsbandalagsins í náinni samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Aðdragandi þessa var nokkuð langur, en er ljóst varð að yfirumsjón flughers Ítala tæki brátt enda hafði Ísland frumkvæði að því að bjóðast til þess í samvinnu við Atlantshafsbandalagið að kanna möguleika okkar á því að taka við af Ítölum. Þrátt fyrir nokkrar efasemdir í fyrstu um að herlaust ríki gæti tekið svo umfangsmikið verkefni að sér varð úr að Ísland tæki forystu í stjórn flugvallarins. Þetta var einstakt tækifæri til að auka framlag okkar til Atlantshafsbandalagsins án þess að þurfa til þess herafla. Þá skipti og miklu að markmiðið með yfirtökunni væri að þjálfa heimamenn í flugumferðarstjórn og rekstri vallarins og er nú áætlað að umsjón með honum verði færð í hendur heimamanna, undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, fyrir mitt næsta ár.

Fulltrúar Íslensku friðargæslunnar taka þannig brátt alfarið við yfirstjórn flugvallarins, þ.e. stjórn um eitt hundrað manna af fjórtán þjóðernum, og umsjón með þjálfun heimamanna. Það er mér því sérstakt tilhlökkunarefni að vera viðstaddur þegar Íslendingar taka formlega við flugvellinum mánudaginn, 3. mars n.k.. Þá langar mig og að minnast vel heppnaðs fundar Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík síðastliðið vor, en þetta var í þriðja sinn sem slíkur fundur er haldinn hérlendis í 54 ára sögu bandalagsins. Þar var m.a. opnað fyrir mögulega þátttöku bandalagsins í aðgerðum utan svæðis, samþykkt að Króatía tæki þátt í aðildarferli bandalagsins og tekin afdrifarík ákvörðun um nýjan samstarfsvettvang með Rússum.

Öryggi Íslands hefur í meira en hálfa öld verið tryggt með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951.

Framkvæmd tvíhliða varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna hefur mótast af þeim breytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfinu í Evrópu. Með bókun við varnarsamninginn árið 1996 var staðfestur verulegur samdráttur í varnarliðinu og komist að samkomulagi um varnarviðbúnað sem staðsettur er í landinu og sem íslensk stjórnvöld telja ásættanlegt lágmark. Viðbúnaðurinn verður að vera trúverðugur bæði hvað varðar fælingarmátt og varnarmátt.

STÆKKUN EES OG EVRÓPUSAMBANDSINS
Eins og ég hef sagt á þessum vettvangi áður þá hefur verið á brattann að sækja í þeirri stækkunarumræðu og vinnu, sem fram fer innan ESB, að halda áhuga og þekkingu manna í Evrópusambandinu vakandi á EES-samstarfinu.

Mögulegt er að samskipti EES/EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið verði þunglamalegri eftir stækkunina og Evrópusambandið sýni EFTA- þjóðunum minni skilning og sveigjanleika í framtíðinni. Reynsla síðustu ára gefur vísbendingu um að skilningur á sérstöðu okkar og sögulegum forsendum EES-samningsins hafi farið þverrandi með árunum. Evrópusambandið er allt annað nú en þegar gengið var frá EES-samningnum á meðan EES stendur í stað. Kröfugerð um allt að þrítugföldun framlaga EES/EFTA-ríkjanna á sér enga stoð í EES-samningnum.

Íslensk stjórnvöld hafa sér í lagi undrast að framkvæmdastjórnin leitist við að rökstyðja fjárkröfur sínar á hendur EFTA-ríkjunum með fullyrðingum um hugsanleg framlög þessara ríkja til uppbyggingarsjóða Evrópusambandsins. Útreikningar af þessu tagi eiga ekkert erindi í viðræður um stækkun EES. Færa má fyrir því rök að svara megi staðhæfingum framkvæmdastjórnarinnar á þá leið að vegna landfræðilegrar legu Íslands ættum við í raun að fá meira til baka úr þessum sjóðum en við myndum greiða til þeirra. Allsendis er óljóst hvenær viðræðum um stækkun EES lýkur. Utanríkisþjónustan mun að sjálfsögðu beita sér af alefli í samvinnu við önnur ráðuneyti, sem að málinu koma, til að ná viðunandi niðurstöðu.

NORÐVESTUR-EVRÓPA
Þrátt fyrir að Evrópusambandið í heild sé okkar langmikilvægasta markaðssvæði megum við ekki gleyma okkar næstu nágrönnum. Það höfum við ekki gert og lögð hefur verið síaukin áhersla á að efla og bæta tengsl Íslands við Færeyjar og Grænland.

Segja má að Færeyingar hafi mikla sérstöðu í huga Íslendinga. Okkur finnst að þeir tali nánast sama tungumál og við og að þeir séu nánast landsmenn okkar. Við höfum veitt þeim aðgang að fiskveiðilögsögu okkar í meira mæli en öðrum þjóðum og við höfum átt við þá náið samstarf í fiskveiðimálum. Búið er að ganga frá samkomulagi við bæði Færeyinga og Grænlendinga um afmörkun hafsvæðanna milli landanna í góðu samstarfi við Dani. Viðskipti milli Íslands, Grænlands og Færeyja hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og gera má ráð fyrir að svo verði áfram.

Ekki er öllum ljóst að Færeyjar eru á meðal mikilvægari viðskiptalanda Íslands. Þrátt fyrir smæðina er reyndin sú að viðskipti Íslands við Færeyjar eru mun meiri en við margfalt fjölmennari ríki. Þannig nam útflutningur til Færeyja árið 2001 2,5 milljörðum króna, en á sama tíma samanlagt 1,6 milljörðum til Kína og Rússlands, 1,3 milljörðum til Finnlands og um tveimur milljörðum til Kanada og Svíþjóðar.

Á síðustu árum hafa ýmis tæknileg vandkvæði risið vegna viðskipta með landbúnaðarvörur til Færeyja. Unnið hefur verið að lausn þessara vandamála og ljóst er að nauðsynlegt er að styrkja lagalegan grundvöll viðskiptatengsla landanna.

Af þessum sökum ákváðu ríkisstjórn Íslands og landsstjórn Færeyja að hefja viðræður um að útvíkka fríverslunarsamninginn sem í gildi er. Ætlunin er að samningurinn verði í raun víðtækari en EES-samningurinn með því að hann nái einnig yfir viðskipti með landbúnaðarvörur. Jafnframt er stefnt að því að samningurinn nái til samstarfs á sviði mennta-, menningar-, samgöngu- og ferðamála. Þannig gæti samningurinn treyst og eflt samstarf Íslands og Færeyja á fjölmörgum sviðum báðum löndum til hagsbóta.

Slíkur samningur gæti jafnframt orðið fyrsta skrefið að nánari samvinnu fleiri þjóða við norðvestanvert Atlantshaf. Mætti jafnvel hugsa sér að slíkt samstarf yrði útvíkkað frekar á sumum sviðum og Íslendingar tækju höndum saman við Færeyinga, Grænlendinga og íbúa Vestur-Noregs, og jafnvel íbúa Hjaltlandseyja og Orkneyja, um að efla viðskipti og atvinnulíf á öllu svæðinu. Náin samvinna stjórnvalda á þessu svæði gæti rennt styrkari stoðum undir fjölmargar atvinnugreinar, svo sem ferðamannaiðnað, rannsóknir og þróun og þannig treyst undirstöður efnahagslífs þessa svæðis á tímum aukinnar hnattvæðingar.

Íbúar á þessu svæði byggja afkomu sína að miklu leyti á nýtingu auðlinda hafsins auk þess að eiga sameiginlega sögu og menningu. Þessi sérstaða ætti að geta verið góður grunnur að umfangsmiklu og fjölbreytt samstarf sem næði til alls svæðisins. Aðild þjóða á þessu svæði að Evrópusambandinu hefur hins vegar ekki verið talin ásættanleg vegna sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins. Skynsamleg stjórnun auðlindanýtingar á svæðinu er grundvallarforsenda fyrir blómlegu efnahagslífi á þessu svæði og þar með fyrir velferð þess fólks sem þar býr.

Aukið samstarf þjóða í Norðvestur-Evrópu á sviði auðlindanýtingar styrkir yfirráð þeirra yfir eigin auðlindum og ber að leggja áherslu á að efla einingu þeirra og sérstöðu á þessu sviði.

Á undanförnum árum hafa þjóðir þessa svæðis unnið þrekvirki í að gera og ljúka samningum um stjórnun veiða úr fiskistofnum sem að einhverju eða öllu leyti halda sig utan lögsögu einstakra þjóða á svæðinu. Þetta hefur þó ekki alltaf gengið átakalaust fyrir sig enda oftar en ekki gríðarlegir hagsmunir í húfi. Að lokum hefur þó ávallt tekist að ná samningum og vona ég að svo verði einnig að þessu sinni þótt útlitið nú sé ekki allt of gott. Það er hagur allra aðila að ná sátt um nýtingu allra fiskistofna á svæðinu og skiptingu þeirra, ella getur stefnt í óefni með sjálfbæra nýtingu þeirra.



HNATTVÆÐING/ALÞJÓÐAVIÐSKIPTASTOFNUNIN
Fáar þjóðir eru jafnháðar utanríkisviðskiptum og við Íslendingar. Aukið frelsi í viðskiptum ríkja heims eru því ótvíræðir hagsmunir Íslands. Af þessum sökum studdu íslensk stjórnvöld að nýrri viðræðulotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var ýtt úr vör á síðasta ári.

Stefnt er að því að ljúka þessari viðræðulotu á árinu 2005. Viðræðurnar hafa farið vel af stað, en enn er þó langt í land áður en samkomulagi verður náð. Á meðal þeirra atriða, sem verða rædd í þessari viðræðulotu, er aukið frelsi á sviði þjónustuviðskipta, verndun hugverkaréttinda, aukinn markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir og aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Ísland lagði á það sérstaka áherslu að auknar skorður við ríkisstyrkjum til sjávarútvegs yrðu á dagskrá viðræðulotunnar. Með góðum stuðningi Bandaríkjamanna og ýmissa ríkja Suður-Ameríku tókst að ná fram þessu markmiði. Viðræður um þetta efni eru hins vegar enn skammt á veg komnar.

Þegar er ljóst að eitt erfiðasta viðfangsefnið verður að ná samningum um landbúnaðarmál. Fjölmörg ríki hafa lagt mikið kapp á afnám ríkisstyrkja til landbúnaðar og lækkun tolla á landbúnaðarafurðir. Íslendingar hafa hins vegar, ásamt ríkjum á borð við Sviss, Noreg, Japan, Suður-Kóreu og ríkjum Evrópusambandsins viljað fara sér hægar í þessum efnum. Þessi ríki hafa lagt áherslu á að landbúnaðurinn verði að fá svigrúm til að laga sig í áföngum að aukinni alþjóðlegri samkeppni. Þá hefur verið bent á að lögmál frjálsra viðskipta eigi ekki alltaf við um viðskipti með landbúnaðarvörur í ljósi mikilvægis landbúnaðar fyrir hinar dreifðu byggðir og þess félagslega hlutverks sem landbúnaðurinn gegnir.

Fyrir skömmu lagði formaður landbúnaðarnefndar samningaviðræðnanna fram tillögur um stóraukið frelsi í milliríkjaverslun með búvörur. Að mati íslenskra stjórnvalda er alltof langt gengið með þessum tillögum og þær eru ekki til þess fallnar að skapa þá sátt sem nauðsynleg er til að allir samningsaðilar geti við unað. Þó ber að hafa í huga að hér er aðeins um að ræða tillögur formanns hlutaðeigandi samninganefndar. Það er ljóst að tekist verður á um þessar tillögur í framhaldi viðræðnanna og enn er of snemmt að spá nokkru fyrir um niðurstöðu þeirra. Fulltrúar Íslands munu leggja allt kapp á að hafa áhrif á þessar tillögur þannig að þær endurspegli betur okkar sjónarmið. En hver sem niðurstaðan úr þessum viðræðum verður er ljóst að íslenskur landbúnaður verður að halda áfram á braut aukinnar hagræðingar þannig að samkeppnisskilyrði hans verði hagstæðari. Það gagnast bæði bændum og neytendum.

LOKAORÐ
Á þeim átta árum sem liðin eru frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra hefur heimurinn tekið stórfelldum breytingum og hefur verið leitast við að svara þeim með því að efla utanríkisþjónustu Íslands. Verkefni hennar hafa verið betur skilgreind og sett hafa verið langtímamarkmið um að axla aukna ábyrgð á alþjóðavettvangi. Þjónustan hefur tekist á hendur ýmis stór verkefni, fund Atlantshafsbandalagsins nefndi ég áðan. FAO-ráðstefnan hér á landi var annar áfangasigur og formennskan í ráðherranefnd Evrópuráðsins er minnisstæð. Tekist hefur að koma fulltrúum Íslands í margar lykilstöður í alþjóðlegum stofnunum. Ísland hefur gegnt og mun gegna formennsku í nefndum og stofnunum. Nefni ég þar yfirstandandi formennsku okkar í Norðurskautsráðinu, en ég var reyndar svo lánsamur að hafa tækifæri til að vinna að stofnun Norðurskautsráðsins innan Norðurlandaráðs á sínum tíma. Þá ber að nefna að á hausti komandi tekur Ísland sæti í stjórn Alþjóðabankans til þriggja ára fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Nú stendur yfir undirbúningur að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Full þátttaka er forsenda áhrifa. Ekki gengur lengur að standa utan við og fylgjast aðeins með. Ísland hvorki er né verður hlið inn á markaði eða brú milli markaðssvæða eða heimshluta án þess að taka þátt í því alþjóðlega og svæðisbundna samstarfi sem til staðar er og er í stöðugri mótun. Einangrunarstefna, hvort heldur er í öryggis- eða efnahagsmálum, er vísasta leiðin til gera Ísland að áhrifalausu jaðarríki á hjara veraldar. Mestu skiptir að tryggja stöðu Íslands í því umhverfi sem við blasir hverju sinni og á það hef ég lagt áherslu í utanríkisráðherratíð minni.

Við höldum hvorki áhrifum né virðingu umheimsins án virkrar þátttöku. Smæð og fámenni ríkja eru ekki lengur brúkleg rök til hjásetu eða til að halda sig til hlés í ölduróti alþjóðamála.

" (. . .) mun fleirum skynbærum mönnum vera ljóst að eingin þjóð er svo vesöl að hún geti verið án utanríkisþjónustu. (. . .)." (bls. 59, Vettvángur dagsins, 3. útg. 1979, Helgafell). Hr. forseti, Nóbelsskáldið mælti svo árið 1939, að vanda á undan sinni samtíð. Á vissan hátt mætti segja að þjónustan hafi á síðastliðnum áratug eða svo slitið barnsskónum og sé nú orðin betur undir það búin að takast á við verkefni framtíðarinnar en áður. Um þá eflingu hefur ríkt mikil sátt á Alþingi, sem sýnir fyrirhyggju og skilning, sem er vissulega þakkarvert.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta