Fullveldið og lýðræðishallinn í EES
Háskólanum á Akureyri, 18. mars 2003.
Fullveldið og lýðræðishallinn í EES
Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra
Ágætu tilheyrendur.
Höfuðmarkmið þessarar ráðstefnu er að ræða möguleikana á aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatökuferli ESB. Í spurningunni felst ákveðin afstaða og hún er því gildishlaðin: Með spurningunni gefum við okkur að þörf sé á að auka þessa þátttöku, enda fáir sem vilja minnka möguleika almennings á þátttöku í ákvarðanatöku. Og víst er um það að ákvarðanatökuferli ESB er bæði flókið og fjarlægt fyrir hinn almenna borgara í aðildarríkjum sambandsins. Það er enn flóknara og fjarlægara fyrir hinn almenna borgara á Íslandi, sem samt sem áður þarf að búa við meira en 80% af löggjöf Evrópusambandsins í sínu daglega lífi.
Ég hef verið hvatamaður þess að við ræðum saman um þá kosti sem við stöndum frammi fyrir í Evrópumálum og hver áhrif Evrópusamruninn hefur á íslenska hagsmuni í nútíð og framtíð. Þar hafa menntastofnanir landsins veigamiklu hlutverki að gegna. Það er mér því sérstakt ánægjuefni að taka þátt í fyrstu ráðstefnu hinnar nýstofnuðu laga- og félagsvísindadeildar hér við Háskólann á Akureyri sem einmitt er um þessi málefni. Ég vil jafnframt nota tækifærið og óska skólanum til hamingju með deildina sem tekur til starfa nú í haust.
Almennt um viðhorf almennings til stjórnmála
Það er rétt sem rakið er í hvítbók Evrópusambandsins um stjórnarhætti að meðal almennings í aðildarríkjunum gætir ákveðins tómlætis gagnvart sambandinu og tortryggni í garð þess. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa í huga að viðhorf af þessum toga eru ekki einskorðuð við viðhorf almennings í ESB til sambandsins.
Á undanförnum árum má segja að orðið hafi almenn þróun í vestrænum samfélögum í þá átt að traust á stjórnmálamönnum og stofnunum samfélagsins hefur minnkað. Í viðhorfskönnunum kemur fram að fólk ber minna traust til opinberra stofnana og stjórnmálamanna. Kosningaþátttaka hefur minnkað. Unnt er að skýra þessa þróun að sumu leyti með því að almenningur telji stjórnmál ekki skipta sköpum um afkomu og velsæld fólks, eins og kannski var á árum áður. Þá hafa breytingar á samfélagsgerðinni valdið því að umfang lagasetningar hefur aukist hröðum skrefum og viðfangsefni löggjafans eru sífellt tæknilegri og fjarlægari áherslum alls þorra fólks.
Alþjóðavæðingin hefur einnig haft áhrif í þessa veru. Þrátt fyrir að við skiljum í orði þann mikla hag sem við höfum af frjálsum og hindrunarlausum milliríkjaviðskiptum er tilhneiging til að setja þeim skorður. Þess vegna hafa verið settar alþjóðlegar reglur sem takmarka svigrúm einstakra ríkja til að setja reglur sem trufla alþjóðaviðskipti. Sem dæmi má nefna að helstu umfjöllunarefni nýafstaðins Búnaðarþings lutu ekki að því hvernig íslensk stjórnvöld héldu á hagsmunum landbúnaðarins, heldur að því hver áhrif þróun samþykkta Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar myndi hafa á íslenskan landbúnað. Þannig hefur alþjóðavæðingin á vissan hátt orðið til þess að færa ákvarðanir frá okkar eigin vettvangi. Í stað þess að þjóðþing setji reglur um flesta þætti þjóðfélagsins innan ramma þjóðríkisins, hefur aukið viðskiptafrelsi leitt til þess að löggjafarvaldi þjóðríkisins eru settar sífellt meiri skorður.
Það er með þennan bakgrunn í huga sem við þurfum að nálgast umræðuna um viðhorf almennings í aðildarríkjum ESB til sambandsins: Um margt eru þau spegilmynd þeirra viðhorfa sem gætir í öllum vestrænum ríkjum gagnvart stofnunum og stjórnvöldum. Þau eru einnig um sumt spegilmynd ákveðins andófs við alþjóðavæðingu sem gætt hefur jafnt innan og utan ESB. En þau eru líka vitnisburður um það gagn sem orðið hefur af Evrópusambandinu og þá fjölgun málaflokka sem ESB hefur látið til sín taka á síðustu árum. Þau varpa ljósi á lýðræðishalla ESB og þá staðreynd að vegna hans telur almenningur í aðildarríkjunum sig ekki hafa mikið að segja um þær reglur sem settar eru á vettvangi ESB.
Birtingarmynd árangurs af Evrópusamstarfi
Fjöllum fyrst um gagnið af Evrópusambandinu. Hvernig má það vera að neikvæð viðhorf til ESB endurspegli þann ávinning sem sambandið hefur skilað aðildarríkjunum? Ef við horfum til baka, var eitt af grundvallarverkefnum ESB að binda aðildarríkin saman og búa þeim sameiginleg örlög. Í því fólst einnig að sambandinu var ætlað að taka með sameiginlegu átaki á þeim vandamálum sem aðildarríkin stóðu frammi fyrir í efnahagslegu tilliti, en var þeim einum um megn að leysa. Þannig var eitt helsta verk Kola- og stálsambandsins að úrelda evrópskan kolaiðnað í kringum 1960 og veita fé til endurhæfingar starfsfólks svo það öðlaðist nýja atvinnumöguleika. Með sama hætti hefur byggðastefna verið fyrirferðarmikill þáttur í starfi sambandsins undanfarna áratugi og greitt fyrir óumflýjanlegum breytingum á atvinnuháttum. Þess vegna er t.d. Wales nú eitt best stadda landsvæði Bretlandseyja, þrátt fyrir gífurleg áföll vegna hruns kolaiðnaðarins um og upp úr 1980.
Fjölgun viðfangsefna Evrópusambandsins
Evrópusambandið hefur einnig tekið á sífellt fleiri málaflokkum á undanförnum árum. Það hefur án efa einnig valdið því að almenningur, sérstaklega í Norður-Evrópu, horfir með tortryggni í átt til Evrópusambandsins. Það er auðvitað áhyggjuefni að þjóðaratkvæðagreiðslur í norðurhluta álfunnar um mikilvæg mál ESB hafa staðið mjög tæpt og oft tapast á undanförnum áratug. Það er enginn vafi að stjórnvöld í ríkjunum þremur sem enn standa utan Evrunnar, Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar, hafa öll hug á að taka upp Evruna. Sama má segja um helstu stjórnarandstöðuflokkana í Danmörku og Svíþjóð. Sömu sögu má segja um afstöðu helstu stjórnmálaafla í Noregi til aðildarumsóknar. Það er enginn vafi á því að óvissa um afdrif slíkra ákvarðana í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur aftur af stjórnvöldum þessara ríkja.
Almenningur í Norður-Evrópu horfir til Evrópusambandsins sem bandalags sem sífellt lætur fleiri þætti samfélagsins til sín taka og skynjar sig vegna þess í auknum mæli án áhrifa á eigið samfélag. Eðli stjórnarhátta í Norður-Evrópu er einnig með þeim hætti að stjórnvöld standa almennt við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu. Umræðan um breytingar á lögum samfélagsins er því oft á þeim nótum að breytingar þurfi að gera vegna kröfu frá "Brussel". Við sjáum sjálf slíkan fréttaflutning hér á landi, í sífellt ríkari mæli.
Ég er þeirrar skoðunar að þessi aðstaða kalli á endurmat á forgangsröðun verkefna Evrópusambandsins, þar sem horft verði til þess að sambandið láti einungis til sín taka á þeim sviðum þar sem sameiginlegar aðgerðir nái verulegum árangri umfram aðgerðir á vegum einstakra aðildarríkja og þar sem miklir hagsmunir af samræmingu milli aðildarríkja eru í húfi. Þetta getur leitt til þess að dragi úr umfangi reglusetningar sambandsins á sumum sviðum en það aukist á öðrum. Þannig er mikilvægt að reyna sem kostur er að tryggja að aðildarríkin haldi þeim verkefnum sem engin sérstök rök eru til að deila með öðrum og að borgararnir í ríkjunum hafi meiri áhrif á mótun löggjafar, eins nálægt sér og kostur er. Það er því skref í rétta átt að nálægðarreglan, sem byggir á þessari hugsun, hefur verið staðfest sem ein af meginreglum Evrópuréttarins. Mikilvægt er að þeirri meginreglu verði framfylgt í ríkari mæli til að efla tiltrú almennings á leikreglum EES-svæðisins.
Evrópusambandið og lýðræðið
Evrópusambandið er sérstök ríkjasamtök. Sambandið var stofnað á grunni efnahagslegs öngþveitis síðari heimsstyrjaldar, með það beina markmið að tengja aðildarríkin saman með svo nánum hætti að styrjöld yrði aldrei framar möguleg á milli þeirra. Það er óumdeilt að það ætlunarverk hefur tekist einstaklega vel í rúma hálfa öld. Þessi fyrirmynd efnahagssamvinnu hefur breiðst út um alla álfu, þannig að bandalag sex ríkja árið 1951 verður á næstunni bandalag 25 ríkja og jafnvel fleiri. Það er líka óumdeilt að aðildarríkin og borgarar þeirra hafa notið gríðarlegs efnahagslegs ávinnings af aðildinni á undanförnum árum og áratugum. Stofnanir sambandsins taka sameiginlegar ákvarðanir, eftir leikreglum sem mótaðar eru með lýðræðislegum hætti. Samt sem áður ber á tómlæti eða neikvæðu viðhorfi gagnvart ESB meðal borgara í aðildarríkjunum og lýðræðishalli sambandsins er oft ræddur.
Ég er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé annað en að svara þeirri spurningu hvort auka beri áhrif almennings á ákvarðanatöku innan ESB játandi. Evrópusambandið hefur sjálft mótað sér stefnu um eflingu áhrifa almennings á ákvarðanatöku innan sambandsins og um það hvernig unnt er að taka ákvarðanir eins nálægt grasrótinni og kostur er. Mér finnst hins vegar einnig og miklu heldur að við sem Íslendingar eigum að spyrja þeirrar spurningar hvort þörf sé á að auka áhrif almennings á ákvarðanatöku innan EES, sem og hvort það sé yfir höfuð mögulegt.
Ákvarðanataka innan Evrópusambandsins
Fyrst um Evrópusambandið. Innan þess má vissulega gagnrýna ýmsa þætti ákvarðanatöku, út frá lýðræðislegu sjónarmiði. Þannig hefur ókjörin framkvæmdastjórn sambandsins frumkvæðisrétt við samningu löggjafar, sem ráð ráðherra aðildarríkjanna og Evrópuþingið taka svo endanlega ákvörðun um. Á hinn bóginn hefur verið dregið úr valdi framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði á undanförnum árum og aukið vægi þeirra stofnana sem hafa lýðræðislegt umboð. Eftir stendur að hér er um viðkvæmt jafnvægi að ræða. Ákvarðanir með einföldum meirihluta á Evrópuþingi, þar sem jafn margir kjósendur stæðu að baki öllum þingmönnum, gætu sumir talið vera lýðræðislegastar, en slíkt fyrirkomulag væri ekki ásættanlegt fyrir smærri aðildarríkin. Þess vegna er ekki jafnt vægi atkvæða að baki þingmönnum og þess vegna endurspeglar skipan framkvæmdastjórnarinnar ákveðin stuðning við smærri aðildarríki innan sambandsins. Aukið lýðræði felur því í sér þá þversögn að það kallar á réttindi minni ríkja til að standa gegn vilja hinna fjölmennari.
Þrátt fyrir þetta má ekki gleyma að innan Evrópusambandsins eru ákvarðanir mótaðar í fjölþættu kerfi sem hefur að markmiði að tryggja aðkomu sérfræðinga, þjóðþinga, aðila vinnumarkaðarins, hagsmunaaðila, sveitarstjórna og þingmanna á Evrópuþinginu. Venjulegur Dani, svo dæmi sé tekið, hefur þannig marga möguleika til að koma viðhorfum sínum á framfæri, bæði beint, í gegnum hagsmunasamtök og í gegnum kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi, þjóðþingi eða Evrópuþinginu.
Tillögur til löggjafar innan Evrópusambandsins eru mótaðar af sérfræðingum og að því loknu koma aðilar vinnumarkaðarins og sveitarstjórnarmenn að athugasemdum í vinnuferli embættismanna. Þegar tillögurnar fara til ráðherraráðsins til afgreiðslu koma fagráðherrar aðildarríkjanna saman og ræða tillögurnar. Þeir koma með pólitískt umboð og hagsmunamat heimanfrá og í flestum ríkjum ræða þeir efnisatriði tillagnanna á þingnefndarfundum, á meðan þær eru í vinnslu. Að lokinni samþykkt ráðherranna fer tillagan til umræðu í Evrópuþinginu. Þar fá þingmenn, sem eru kjörnir beint af almenningi, tækifæri til að koma að breytingum á tillögunum.
Í aðildarríkjunum snýst stjórnmálaumræðan að auki að verulegu leyti um afstöðu stjórnmálaflokkanna til Evrópusambandsins og einstakra áherslumála þess. Almenningur í aðildarríkjunum kýs þingmenn til Evrópuþingsins og getur beint athugasemdum sínum til umboðsmanns. Þingmenn eru síðan ekki fulltrúar ríkja sinna heldur stjórnmálaflokka. Þannig endurspeglar málflutningur einstakra þingmanna fremur sjónarmið þeirra flokka sem þeir eru fulltrúar fyrir en þeirra ríkja sem þeir koma frá.
EES-samningurinn og lýðræðið
Í samanburði við þetta er EES-samningurinn líkari embættismannasamningi. Löggjöf ESB er afhent EFTA-ríkjunum fullmótuð eftir takmarkaða aðkomu á frumstigum og embættismenn EFTA-ríkjanna eiga samskipti við embættismenn framkvæmdastjórnarinnar um praktísk atriði varðandi innleiðingu reglnanna á Íslandi. EFTA-ríkin eiga því mjög takmarkaða aðkomu að pólitísku samráði um efnisatriði eða þróun efnissviðs EES-samningsins.
Innan EES hafa þjóðþing EFTA-ríkjanna ekki bein áhrif á þá löggjöf sem innleidd er. Alþingi hefur því ekki efnisleg áhrif á mótun yfir 80% af löggjöf ESB, sem Ísland er þó bundið af að leiða í lög. Aðilar vinnumarkaðarins hafa í gegnum Evrópusamtök sín nokkur áhrif, en sveitarstjórnarstigið er utanveltu, sem og frjáls félagasamtök. EES-samningurinn gerir til að mynda ekki ráð fyrir sérstökum vettvangi fyrir sveitarstjórnarstig EFTA-ríkjanna en undanfarin ár hefur Evrópusambandið lagt ríka áherslu á að auka völd svæðisbundinna stjórnvalda m.a. með sérstakri svæðanefnd Evrópusambandsins sem komið var á eftir gerð EES-samningsins. Rökin fyrir svæðanefndinni voru m.a. þau að um 70% af löggjöf sambandsins kemur með einum eða öðrum hætti til framkvæmda hjá sveitarfélögunum og með því að auka veg sveitarstjórnarstigsins mætti mæta hinni sívaxandi kröfu um að færa valdið nær fólkinu. Almenningur í EFTA-ríkjunum hefur því sífellt minni áhrif á þær reglur sem móta daglegt líf hans í síauknum mæli. Þetta er mikið umhugsunar- og áhyggjuefni.
Það er þetta fyrirkomulag sem Dianne Wallis, þingmaður á Evrópuþinginu, hefur nefnt tvöfaldan lýðræðishalla. Ákvarðanir innan Evrópusambandsins eru vissulega teknar með ófullkomnum hætti út frá lýðræðislegu sjónarmiði og því er lýðræðishalli við innleiðingu þeirra innan ESB. Þegar þessar ákvarðanir eru svo teknar upp í íslenskan rétt, án nokkurrar lýðræðislegrar aðkomu af Íslands hálfu, er sá lýðræðishalli tvöfaldur.
Við þessa aðstöðu bætist svo sú staðreynd að stjórnvöld EFTA-ríkjanna og Eftirlitsstofnun EFTA hafa mun minna svigrúm til túlkunar Evrópureglna en framkvæmdastjórnin eða einstök aðildarríki ESB. Gott dæmi er yfirstandandi ágreiningur um fjárhæð flugvallarskatta á Íslandi. Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að þeirri niðurstöðu að Íslandi sé óheimilt að leggja á hærri flugvallarskatta í millilandaflugi en í innanlandsflugi. Á móti koma þau augljósu rök að ef flugvallarskattar í innanlandsflugi verða hækkaðir til jafns við millilandaflugið mun það reynast kyrkingaról fyrir innanlandsflugið. Komið hefur í ljós að á skosku eyjunum er við lýði kerfi sem viðurkennir sérstöðu hinna strjálu byggða og sem við gætum lifað við. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar bent á að þótt að það kerfi sé liðið af Framkvæmdastjórninni, hafi það aldrei verið formlega samþykkt. Því munu strangari reglur þurfa að gilda um okkur en Skota.
Allir norskir og íslenskir fiskverkendur þekkja líka að margfalt betur er gengið eftir því að kröfur um hreinlæti í fiskverkunarhúsum séu uppfylltar í Noregi og á Íslandi en í löndum ESB. Ástæðan er einföld: Eftirlitsstofnun EFTA getur ekki á sama hátt og framkvæmdastjórnin tekið ákvarðanir á matskenndum forsendum, þar sem ESB getur með ákvörðunum sínum lokað fyrir allan fiskinnflutning frá Noregi og Íslandi. Af þessu má draga þá ályktun að eftirlitsarmur okkar sé í meira mæli einskorðaður við bókstafstrúartúlkun ESB-reglna, á meðan að aðildarríkin sjálf njóta þess í meira mæli að geta beitt túlkunarkostum við framkvæmd reglnanna.
Þetta er sú staða sem við búum við í dag. Það er vissulega áhrifamikið, þegar lýðræðisleg áhrif Dana eru borin saman við lýðræðisleg áhrif Íslendings með þessum hætti. Eftir stendur að það er þessi veruleiki sem við verðum að horfast í augu við þegar við fjöllum um lýðræðishalla innan ESB. Ég vek athygli á því að lýðræðishalli EES var ekki með þessum hætti þegar til EES-samningsins var stofnað og enginn sá fyrir þá þróun sem leiddi til þessarar stöðu. Sem dæmi má nefna að í yfirlýsingu forsætisráðherrafundar EFTA í Gautaborg í júní 1990 var lögð áhersla á að gera yrði ráð fyrir frumkvæðisrétti beggja aðila og sameiginlegri mótun og ákvörðun EES-reglna og að samningurinn yrði því aðeins pólitískt viðunandi ef ákvarðanatökuferillinn yrði í raun sameiginlegur bæði að því er tekur til efnisatriða og að formi til. Í niðurstöðum utanríkisráðherrafundar EFTA og EB í desember 1990 er minnt á mikilvægi þess að virða þurfi að fullu sjálfræði aðila við ákvarðanatöku og að sjá þyrfti fyrir því að sjónarmið þeirra yrðu tekin til greina til þess að auðvelda samkomulag. Við mótun ákvarðana verði öllum samningsaðilum kleift að taka upp það sem veldur áhyggjum hvenær sem er og á hvaða stigi sem er. Í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundarins í júní 1991 er svo fjallað um að tryggja þurfi stöðugt ferli upplýsingaskipta og samráðs samhliða löggjafarferli Evrópubandalagsins.
Fróðlegt er að bera saman þessi markmið og stöðu þessara mála í dag. Augljóst var að markmið var að tryggja meira jafnvægi í samskiptum ríkja innan EES en raun varð og þróunin leiddi í ljós.
Stofnanir Evrópusambandsins hafa breyst verulega frá því að EES samningurinn var gerður. Framkvæmdastjórnin hefur verið mest gagnrýnd sem ólýðræðisleg stofnun og hefur lýðræðislegt eftirlit með störfum hennar aukist verulega og völd ráðherraráðsins aukist á hennar kostnað. Evrópuþingið hefur fengið stóraukin völd og samband héraðsstjórna sömuleiðis verið eflt. Aðkoma hagsmunaaðila og einstaklinga er greiðari en áður. Stofnanir EES-samningsins eru hins vegar óbreyttar og enginn vilji er til að endurskoða samninginn að þessu leyti. Viðleitni EFTA-ríkjanna hefur því fyrst og fremst falist í því að reyna að taka þátt í þessu breytta ferli með þeim takmörkunum sem EES-samningurinn felur í sér og reyna að aðlagast þessum breytingum eftir því sem kostur er.
Hvað höfum við gert?
Nú að undanförnu hefur helsta áhersluefnið verið að fara fram á endurskoðun EES-samningsins. EFTA-ríkin hafa hins vegar ekki verið sammála um hvernig það skuli gert. Fyrir lá að vegna stækkunar Evrópusambandsins þurfti að aðlaga samninginn og því var mikilvægt að kanna hvort hægt væri að endurskoða samninginn um leið en óskir um það hafa ítrekað verið teknar upp við framkvæmdastjórnina. Framkvæmdastjórnin hefur hins vegar hafnað endurskoðun með öllu. Af þeim sökum er nú lögð áhersla á að nýta betur þau tækifæri sem eru þegar til staðar í EES-samningnum. Til dæmis er aðkoma sérfræðinga EFTA-ríkjanna að hinum mörgu nefndum framkvæmdastjórnarinnar lykilþáttur í að tryggja áhrif EFTA-ríkjanna á mótun löggjafar sem verður síðar tekin upp í EES-samninginn. Utanríkisráðuneytið lét gera könnun í samvinnu við EFTA-skrifstofuna um hvernig þessir möguleikar eru nýttir, og kom í ljós að á sumum sviðum eru þeir vannýttir. Í samvinnu við önnur ráðuneyti lagði utanríkisráðuneyti fyrir ríkisstjórn skýrslu um þátttöku íslenskra sérfræðinga í nefndum framkvæmdastjórnarinnar með það að markmiði að efla hana verulega. Stefnt er að því að gera reglulega slíka úttekt í framtíðinni.
Utanríkisráðuneyti hefur staðið fyrir margvíslegum ráðstefnum um EES og Evrópumál í samvinnu við mörg önnur samtök. Framundan er ráðstefna og málþing um hagsmunagæslu innan EES og önnur ráðstefna er fyrirhuguð þann 4. apríl n.k. í samráði við önnur ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga um nýmæli ESB í stjórnum og áhrif á sveitarstjórnarstigið. Markmiðið er að reyna eftir því sem kostur er að gefa sveitarfélögum möguleika til að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin í Brussel enda þurfa þau í mörgum tilvikum að bera uppi kostnað og framkvæmd gerða t.d. á umhverfissviðinu.
Til að tryggja gagnsæi og hagkvæman rekstur EES-samningsins hefur utanríkisráðuneyti gefið út handbók um EES sem er ætlað að veita góða yfirsýn yfir undirbúning ákvarðana um að taka upp gerðir í EES-samninginn. Einnig hefur utanríkisráðuneytið gefið út kynningarrit í samvinnu við Samband íslenskra sveitafélaga um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög.
Utanríkisráðuneytið stóð fyrir stofnun samráðsnefndar um áhrif EES á sveitastjórnafélög fyrir um rúmu ári síðan. Með stofnun þessarar nefndar hefur verið verulega bætt úr upplýsingum til sveitastjórnar um mörg mál sem snertir þau. Utanríkisráðuneyti hefur einnig unnið að því að fá aðkomu að svæðanefnd ESB og mun reyna að fá samstöðu innan EFTA um að stofnað verði sveitarstjórnanefnd EFTA með ráðgjafarnefnd EFTA sem fyrirmynd.
Utanríkisráðuneytið upplýsir utanríkismálanefnd um tilskipanir eða reglugerðir ESB sem kalla á lagabreytingu hér heima og önnur pólitísk málefni er varða rekstur EES-samningsins. Mikilvægt er að skoða frekar möguleika á því að Alþingi fylgist betur með mótun EES-reglna.
Hvað eru ásættanlegir ágallar?
Dianne Wallis kemst að þeirri niðurstöðu í nýlegri ritgerð sinni, sem ég vitnaði til hér áðan og fjallar um aðstöðu Íslands og Noregs innan EES, að Íslendingar geti réttlætt þessa aðstöðu, sakir þess að með EES sé hinu formlega fullveldi landsins borgið. En formlegt fullveldi er ekki nægilegt. Það þarf að vera raunverulegt. Formlegt fullveldi af þessu tagi tryggir ekki nauðsynleg áhrif. Ég hef undanfarin ár lagt áherslu á opna og upplýsta umræðu um Evrópumál, þar sem öllum steinum er velt við og vandað til verka við mat á hagsmunum Íslands. Í því er mikið verk óunnið. Þannig þarf að vinna mun betur en gert hefur verið að athugunum á stöðu okkar í samstarfi Evrópuríkja fyrir sjávarútveg, landbúnað og þróun hinna dreifðu byggða. Þar þurfa bæði stjórnvöld, LÍÚ, samtök bænda og - Samband íslenskra sveitarfélaga að leggja hönd á plóginn.
Ég tel að í kröfunni um opna og fordómalausa umræðu um stöðu Íslands í Evrópu, án fyrirframgefinnar niðurstöðu, felist mikilvæg viðleitni til stefnumótunar í Evrópumálum. Ég minni á að forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt til að sett verði á fót Evrópunefnd, sem hafi að verkefni að skýra hagsmuni Íslands í Evrópusamstarfinu og varpa ljósi á kosti og galla við aðild. Formaður Samfylkingarinnar hefur fallist á þátttöku í slíkri nefnd. Í afstöðu þessara formanna hlýtur því að felast viðurkenning á því að enn er nokkuð órætt um Evrópumálin. Ég hef fagnað þessari þróun, enda hefur það verið stefna Framsóknarflokksins undanfarin ár að efna til þessarar vönduðu umræðu, sem nú fyrst virðist almenn samstaða um að þurfi að fara fram. Ég tel mikilvægt í því sambandi að aðilar vinnumarkaðarins komi að starfi Evrópunefndarinnar, enda hafa þeir haft forgöngu um upplýsta og fordómalausa umræðu um Evrópumálin.
Umræðan er markmið
Sú upplýsta umræða sem við þurfum að halda áfram er ekki hindrun á vegi til framtíðar og síst af öllu tímasóun, nema kannski hjá þeim sem þykjast hafa höndlað endanlegan stóra sannleik í þessu máli. Hún er þvert á móti markmið í sjálfri sér. Hún skýrir og skerpir sýn okkar á aðalatriði og aukaatriði. Hún auðveldar okkur að gera okkur grein fyrir hagsmunum okkar og þeim tækifærum sem við höfum til að vernda þá og verja. Og síðast en ekki síst auðveldar hún okkur að verjast eða að skynja sóknarfærin og vita hvar og hvenær á að sækja fram og taka frumkvæðið.
EES-samningurinn hefur reynst okkur vel og hann mun í næstu framtíð verða umgjörðin um samskipti okkar við Evrópusambandið. Hversu lengi getur enginn sagt með fullri vissu, enda allt breytingum háð. Ef Norðmenn ganga í Evrópusambandið er ljóst að EES-samningurinn, eins og hann er nú, fellur um sjálfan sig og verulegra breytinga er þörf ef hann á áfram að vera sú umgjörð sem við treystum á. Auk þess ber að hafa í huga erfiðar viðræður standa nú yfir við Evrópusambandið þar sem krafist hefur verið allt að 38-faldra framlaga af Íslandi. Þó að kröfur hafi lækkað nokkuð að undanförnu er enn langt í land að lausn sé í sjónmáli. Í raun hefur kröfugerðin falið í sér kröfu um endurgerð EES-samningsins og breytingar á því jafnvægi sem náðist í EES-viðræðunum á sínum tíma. Yfirlýsingar þess efnis að ef EFTA-ríkin innan EES inntu ekki af hendi tilskilin framlög, gæti það leitt til uppsagnar samningsins, hafa komið fram í norskum fjölmiðlum og hafa heimildarmenn innan framkvæmdastjórnarinnar verið bornir fyrir þessu. Þessar fréttir hafa ekki, eftir því sem mér er kunnugt um, verið bornar til baka af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.
Það gefur augaleið að ef lítil þjóð lætur undan slíkum þrýstingi hefur hún í raun gefið eftir fullveldi sitt og það verður aldrei gert meðan ég sit í stóli utanríkisráðherra. Þeir erlendu aðilar sem halda að synjun um framlag okkar til umsóknarríkjanna sé tilkomin vegna skorts á sögulegri hefð þekkja lítið til sögu og fórna þessarar þjóðar. Við Íslendingar trúum á hið fornkveðna að með lögum skuli land byggja en með ólögum eyða. Þessi grundvallarregla á ekki síður við í samskiptum þjóða.
EES-samningurinn er sá grundvöllur sem við byggjum samskipti okkar við Evrópusambandið á. Við sættum okkur ekki við það að sterkari aðilinn ákveði einhliða að breyta ákvæðum þess samnings. Ég trúi því ennþá að við munum finna viðunandi lausn á þessum ágreiningi. En þessi afstaða hlýtur enn og aftur að krefjast þess að við metum stöðugt stöðu okkar. Við verðum í því mati að gæta þess hvar og hvernig hagsmunum okkar sé best borgið. Við þurfum, með öðrum orðum, að halda umræðunni áfram - vinna heimavinnuna, til að við vitum hvað við viljum gera ef og þegar breytingar verða á umhverfinu. Ég vil ekki að Íslendingar vakni upp við vondan draum ef t.d. Norðmenn gerast aðilar að Evrópusambandinu og taki ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar í óðagoti að vanhugsuðu máli. Slíkt háttarlag myndi kljúfa þjóðina í tvær fylkingar í þessu máli, algerlega að ófyrirsynju. Við verðum með vandaðri umræðu að skilgreina hagsmuni okkar og skýra valkostina. Þannig búum við í haginn fyrir framtíðina og aukum líkurnar á að niðurstaðan eigi sér víðtækan hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Það hlýtur að verða markmið okkar allra.