Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. apríl 2003 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Fundur háttsettra embættismanna í Norðurskautsráðinu í Reykjavík

9. apríl, 2003.

Fundur háttsettra embættismanna í Norðurskautsráðinu í Reykjavík

Ávarpsorð Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra og formanns Norðurskautsráðsins
Ágætu gestir,

Mér er það mikil ánægja að bjóða ykkur öll velkomin til Íslands í tilefni af fyrsta fundi háttsettra embættismanna í Norðurskautsráðinu sem haldinn er í formennskutíð okkar. Ég veit að ykkar bíður mikil og þétt dagskrá og ætla þess vegna ekki að láta undan þeirri löngun sem hrjáir stjórnmálamenn í aðdraganda kosninga að reyna að halda athygli áheyrenda of lengi.

Allt frá því að Norðurskautsráðið hóf starfsemi sína hef ég, með ýmsum hætti, orðið þeirra forréttinda aðnjótandi að fylgjast með og taka þátt í starfi þess. Það hefur orðið mér mikil hvatning að sjá þennan vettvang vaxa og dafna með hverju nýju átaki. Í heimi þar sem viðburðir líðandi stundar fanga stöðugt athyglina hefur Norðurskautsráðið unnið verk sín í hljóði, af þrautseigju og þolinmæði, og þannig náð að skipta máli í lífi og starfi íbúa á heimskautasvæðinu.

Smám saman hafa menn áttað sig á því að umhverfi Norðurskautsins gefi vísbendingar um hnattræn áhrif á umhverfið, til dæmis um breytingar á veðurfari og að mengun breiðist út yfir stór svæði. Að sama skapi verður framlag ykkar, einkum störf frumherjanna í vinnuhópunum, þeim mun mikilvægara fyrir heiminn sem eitt samfélag. Af þessum sökum álít ég mikilvægt að við treystum áfram á Norðurskautsráðið, rödd heimskautasvæðisins meðal þjóðanna, og að það segi heiminum sögu okkar, brúi bilið og nái tengslum við önnur alþjóðasamtök. Ég er líka sannfærður um að nú eigum við að leggjast enn harðar á árar og reyna að ná til hinna fjölmörgu sem fylgjast með okkur álengdar og fá þá til liðs við okkur.

Einnig beinum við athygli okkar í síauknum mæli að þróun lífskjara á Norðurskautssvæðinu. Í skýrslu um þróun lífskjara á Norðurskautssvæðinu, sem er sérstakt forgangsverkefni sem Íslendingar leiða, er athyglinni beint að lífsskilyrðum íbúa á heimskautasvæðinu og mun skýrslan nýtast sem grundvallarupplýsingar fyrir ríkisstjórnir okkar. Einkum vekur það ánægju okkar að á meðan við gegnum formennsku í ráðinu höfum við tækifæri til að draga fram mikilvægi upplýsingatækninnar og hvernig hún getur aukið öryggi fólks á norðurhjara, hagsæld þess og velferð. Á báðum þessum sviðum á það við, rétt eins og á mörgum öðrum, að við berum mest úr býtum með virku framlagi fólksins sem er fætt og uppalið á heimskautasvæðunum og býr þar.

Þegar ég svipast um hér í salnum kem ég auga á marga vini mína sem hafa ólíkan bakgrunn og eru af ólíku bergi brotnir. Við erum hér fjölskrúðugur hópur, öll saman komin í nafni sama málstaðar til að efla og vernda okkar eigin lífshætti og einnig sérstæðar og fjölbreytilegar náttúruauðlindir okkar. Á undanförnum árum hefur Norðurskautsráðinu tekist að koma verkefnum sínum á góðan skrið og það er skylda okkar að halda þeim skriði og nýta okkur hann til frekari sóknar. Það er sannarlega von mín að sagt verði um fund ykkar hér í Reykjavík að hann hafi verið áfangi á leið að því takmarki.

Ég óska ykkur góðs gengis á fundinum og fel nú fundarstjóra fundarstjórn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta