Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2003 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ársfundur Útflutningsráðs Íslands

30. apríl 2003

Ræða Halldórs Ásgrímssonar haldin á ársfundi Útflutningsráðs Íslands

Ágætu gestir,
Það er mér mikil ánægja að ávarpa í dag ársfund Útflutningsráðs Íslands. Útflutningsráð hefur á liðnu starfsári, eins og á undanförnum árum, unnið mikið og öflugt starf í aðstoð við íslenska útflutningsstarfsemi.

Tímamót í aðstoð við útflutning
Við stöndum nú á miklum tímamótum í opinberri aðstoð við íslenskan útflutning og gjaldeyrissköpun. Ný lög um aðstoð við útflutning voru sett í lok síðasta árs og leystu af hólmi eldri lög um Útflutningsráð Íslands. Með nýju lögunum var lagður grunnur að enn frekari eflingu íslenskrar útrásar. Lögum um Útflutningsráð var breytt árið 1998 og þá var hafist handa um aukna samtengingu Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs. Í nýju lögunum eru stigin stór skref til viðbótar í þessa átt. Jafnframt er markaðsgjaldið, helsti tekjustofn ráðsins, fest í sessi til fimm ára.

Samráðsnefnd um utanríkisviðskipti
Með nýju lögunum var lögð af samráðsnefnd Útflutningsráðs og þess í stað sett á fót pólitísk Samráðsnefnd um öll utanríkisviðskipti íslenskra aðila og útflutningsaðstoð. Samráðið verður leitt af utanríkisráðherra, sem eykur mikilvægi þess í stjórnsýslunni og tengir þessa starfsemi betur við almenna stefnumótun stjórnvalda og samfélagsins í heild. Þetta eru nýmæli en fyrirmyndin er sótt til Írlands. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var kveðið á um að sameina eða samræma ætti starfsemi þeirra opinberu aðila sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf á kjörtímabilinu, í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Samráðsnefndinni er ætlað að uppfylla þetta fyrirheit með því að leiða saman alla þá opinberu aðila sem koma með einum eða öðrum hætti að útflutningsaðstoð og hagsmunasamtök þeirra sem búa til afurðir til útflutnings. Gert er ráð fyrir að opinberir aðilar og hagsmunasamtök deili hugmyndum um verkefni og áherslur innan samráðsnefndarinnar, svo færi gefist á því að stilla saman strengi og nýta betur en áður það fjármagn sem fer til kynningar og markaðssetningar á Íslandi og íslenskum afurðum á erlendri grundu.

Ný víðtækari skilgreining á útflutningsverðmætum
Í þessum breytingum var horft til nútímalegrar skilgreiningar á útflutningi. Sögulega séð höfum við horft á sjávarafurðir og iðnaðarvörur sem útflutning. Á síðustu árum hefur vægi þjónustuútflutnings aukist stöðugt. Með lögunum frá 1999 var kallað til samráðs við nýja aðila, meðal annars Samtök hugbúnaðarframleiðenda og Bændasamtök Íslands. Nú í hinum nýju lögum eru enn fleiri aðilar kallaðir til samráðs. Meðal þeirra sem koma að þessu nýja samráði eru menntamálaráðuneytið og Bandalag íslenskra listamanna, því menning og menningarafurðir eru útflutningsafurðir sem skapa sífellt meiri auð fyrir samfélagið. Þetta er nýmæli og við þurfum að halda áfram á þessari braut.

Öflugri utanríkisþjónusta
Samhliða þessum breytingum hefur utanríkisráðuneytið ákveðið skipulagsbreytingar sem miða að því að efla enn þá þjónustu sem utanríkisþjónustan mun veita íslenskum fyrirtækjum og innlendum stoðstofnunum atvinnulífsins á erlendri grundu. Með stofnun Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins árið 1997 var sett upp sérstök viðskiptaþjónusta til að aðstoða við útrás íslensks atvinnulífs. Mikilvægur þáttur í þeirri þjónustu var að efla starfsemi sendiráða í þágu íslensks atvinnulífs. Þá var ákveðið að virkja enn frekar kjörræðismenn Íslands um allan heim í þeim tilgangi. Með því að blanda saman staðarráðnu, sérhæfðu starfsfólki og sérmenntuðum viðskiptafulltrúum er stefnt að því að veita til lengri tíma litið sambærilega og jafngóða þjónustu í öllum sendiráðum. Hugmyndin var að til lengri tíma litið yrði samskonar uppbygging í sendiráðum Íslands í samræmi við þarfir og óskir atvinnulífsins. Þær breytingar sem nú hafa verið ákveðnar miða að því að efla þennan þátt utanríkisþjónustunnar, út á við og inn á við.
Að því er varðar eflinguna út á við, hefur verið samið um náið samstarf Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins við Útflutningsráð Íslands og mun Útflutningsráð meðal annars sinna sölu á tíma starfsmanna utanríkisþjónustunnar til fyrirtækja hér á landi. Útflutningsráð mun jafnframt leggja fé til sérstakra átaksverkefna með Viðskiptaþjónustunni. Meðal þeirra verkefna sem þar er horft til er t.d. tímabundin ráðning starfsmanna sem starfi hjá sendiráðum, eða hjá ræðismönnum Íslands á mikilvægum mörkuðum þar sem við höfum ekki sendiráð. Samningar við Fjárfestingarstofuna um samstarf Fjárfestingarstofunnar og Viðskiptaþjónustunnar eru á lokastigi, en þar er gert ráð fyrir sérstökum átaksverkefnum á sviði fjárfestaleitar í samvinnu við Fjárfestingarstofuna. Jafnframt verði allt starfsfólk utanríkisþjónustunnar á erlendri grundu þjálfað í fjárfestaleit og kynningu fyrir erlenda fjárfesta.
Inn á við verður viðskiptaþátturinn í utanríkisþjónustunni styrktur með því að Viðskiptaþjónustan mun gera samninga við öll sendiráð um þjónustu þá sem útsendir starfsmenn þjónstunnar muni selja til fyrirtækja eða innlendra stofnana á erlendri grundu. Öllum sendiráðum verður gert skylt að skilgreina markmið í þessu efni og tiltekinn hluti fjárveitinga til hvers sendiráðs verður háður því að markmið þessi náist. Allir útsendir starfsmenn munu þurfa að vinna verkefni í þágu útflutningsaðstoðar með einhverjum hætti. Þessi breyting markar því vissulega tímamót þar sem aðstoð við íslenska útrás verður í fyrirrúmi. Utanríksþjónustan hefur gjörbreyst á undanförnum árum, aðstoð við íslenskt atvinnulíf er orðinn mikilvægari þáttur starfseminar.
Með þessum breytingum er utanríkisþjónustan að svara kalli tímans um öflugri og markvissari aðstoð við útflutning og gjaldeyrissköpun en verið hefur. Starfshættir utanríkisþjónustunnar þurfa að taka mið af aukinni alþjóðavæðingu og þeim breytingum sem orðið hafa á fjarskiptum á síðustu árum. Á árum áður var hlutverk sendiráða að verulegu leyti fólgið í að taka saman almennar upplýsingar og senda fréttir af þróun mála í gistiríkinu heim til Íslands. Í dag höfum við öll heima hjá okkur meiri og betri aðgang að almennum upplýsingum og getum lesið erlend dagblöð á Netinu á sömu klukkustund og heimamenn. Hlutverk sendiráðanna í dag er gjörbreytt og öflun almennra upplýsinga er því minna en áður. Á hinn bóginn á atvinnulífið hér á landi meira undir þróun mála á alþjóðavettvangi en nokkru sinni fyrr. Starfsskilyrði heilu atvinnugreinanna mótast af reglum alþjóðasamninga. Milliríkjaverslun er margföld á við það sem var fyrir einungis einum eða tveimur áratugum. Nýjar atvinnugreinar á sviði þjónustu hafa komið til sögunnar. Fjöldi þeirra milliríkjasamninga á sviði viðskipta sem utanríkisþjónustan gerir hefur margfaldast á undanförnum árum.

Áhrif alþjóðavæðingar
Hagstæð skilyrði fyrir okkar útflutningi er ein af meginforsendum þess að hægt sé að tryggja góð lífskjör hérlendis. Alþjóðavæðingin hefur leitt til þess að fyrirtæki geta í vaxandi mæli starfað hvar sem er í heiminum. Ef heimaríkið getur ekki boðið upp á sambærileg skilyrði og best þekkjast geta fyrirtæki auðveldlega flutt starfsemi sína.
Þrátt fyrir takmarkaðan mannafla hefur íslenskum stjórnvöldum tekist að tryggja fríverslun í vöruviðskiptum við tæplega 700 milljón manna landsvæði ef EES svæðið er meðtalið. Stöðugt er unnið að því að bæta hag útflytjenda enn frekar. Nýverið lauk fríverslunarviðræðum við Chile, og leiddu Íslendingar þær viðræður. Viðræður standa nú yfir um fríverslun við Suður-Afríku, Líbanon, Egyptaland og Túnis. Við verðum að halda áfram að varða þessa leið til fríverslunar hvort heldur er tvíhliða sbr. væntanlegur nýr fríverslunarsamningur við Færeyjar, sem mun m.a. ná yfir landbúnaðarafurðir, eða innan Alþjóðavipskiptastofnunarinnar, WTO. Atvinnulífið þarf því á öflugri utanríkisþjónustu að halda, þar sem veitt er sambærileg þjónusta og tíðkast í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.
Nú fyrir stuttu stóðum við t.d. frammi fyrir því að íslensk flugrekstrar fyrirtæki stóðu höllum fæti í samkeppni við rekstraraðila í Evrópu vegna þess að loftferðasamningar hafa ekki verið gerðir m.a. í Asíu. Af þeirri ástæðu var gert átak í gerð loftferðasamninga við Asíuríki sem opna íslenskum flugfélögum ný tækifæri á þeim mörkuðum. Fyrr í þessum mánuði undirrituðum við samning við Kína. Betri samning en flestir okkar nágrannar hafa náð við Kínverja. Drög að loftferðasamningi við Suður-Kóreu hafa verið árituð og á þessu ári er áætlað að ljúka samningaviðræðum við Singapúr, Hong og Macau. Þá hafa íslensk stjórnvöld nýlega sent 24 ríkjum í Evrópu, Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku drög að loftferðasamningi. Á þessu má sjá að gerð nýrra loftferðasamninga í öllum heimshlutum er nú brýnt forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar.
Síðast en ekki síst er stór hluti starfsliðs utanríkisþjónustunnar að sinna daglegum erindrekstri fyrir Íslands hönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að tryggja hagsmuni okkar á okkar mikilvægasta útflutningsmarkaði. Þar náðum við nú nýverið niðurstöðu um aðlögun EES-samningsins að stækkun Evrópusambandsins, sem tryggir hagsmuni íslenskra útflytjenda á þeim markaði. Lítið ríki getur aldrei samið of vel um markaðsaðgang og viðskiptahagsmuni á erlendum vettvangi. Það er stöðugt viðfangsefni – daglegt streð – sem atvinnulífið og þjóðin öll njóta beins ávinnings af, þessa hagsmunavörslu má aldrei vanrækja.

Samstillt hagsmunagæsla
Við viljum gera viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins að skilvirku tæki fyrir hagsmunasamtök og opinbera aðila og einnig fyrir allt atvinnulífið og þau fyrirtæki sem leita til útrásar á alþjóðamarkaði, þannig að þeim verði gert auðveldara að nota sér aðstoð starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Við teljum mikilvægt að áfram verði unnið að því að því að vinna að þeirri stefnumörkun að sameina eða samræma starfsemi íslenskra aðila við útflutningsaðstoð og gjaldeyrissköpun. Við viljum því bjóða innlendum stofnunum aðgang að viðskiptaþjónustunni. Þannig eiga innlendir aðilar að geta keypt tíma af starfsfólki viðskiptaþjónustunnar til að vinna ákveðin skilgreind verkefni á erlendri grundu. Ég er sannfærður um að það felur í sér betri nýtingu almannafjár að starfa saman með þeim hætti, frekar en að ýmsir íslenskir aðilar séu að senda fólk til starfa erlendis sem vinnur svo hvert í sínu horni. Ólíkir aðilar vinna að útflutningi og gjaldeyrissköpun og vinna gott starf, hver á sínum forsendum. Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að þetta starf fléttist saman. Sendiráðin verða til viðbótar við fyrri verkefni að tengjast útrás í ferðaþjónustu, útflutningi menningarafurða og kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti á erlendri grundu. Utanríkisráðuneytið vill því tengjast beint Ferðamálaráði, Fjárfestingarstofunni og menntamálaráðuneytinu, til að tryggja að sendiráðin styðji með skipulegum hætti við verkefni á vegum þessara aðila á erlendri grundu.


Nýju lögin um útflutningsaðstoð voru unnin í nánu samráði við hagsmunasamtök atvinnulífsins. Grunnhugsunin að baki stofnun Útflutningsráðs á sínum tíma var sú að atvinnulífið hefði ráðandi áhrif á stjórn ráðsins, enda stafa lögbundnir tekjustofnar ráðsins frá atvinnulífinu. Þetta sjónarmið var staðfest með nýju lögunum, en jafnframt hefur verið byggt upp heildstætt kerfi, þar sem starf Útflutningsráðs með fyrirtækjunum er tengt með beinum hætti við útflutningsaðstoð á vegum opinberra aðila. Með nýju lögunum var stigið nýtt skref í þessu efni. Að frumkvæði utanríkisráðuneytisins var í lögunum kveðið á um að stjórn Útflutningsráðs fengi lögbundið ráðgefandi hlutverk, þannig að nú er kveðið á um að stjórn Útflutningsráðs sé utanríkisráðherra til ráðuneytis um áhersluatriði í útflutningsaðstoð og utanríkisviðskiptum. Þetta er nýmæli hér á landi en á sér fyrirmynd í dönsku utanríkisþjónustunni. Markmiðið er að sjá til þess að í rekstri utanríkisþjónustunnar verði hagsmunir atvinnulífsins ætíð hafðir að leiðarljósi. Með þessari breytingu stefnum við að því að opna starf og stefnumótun utanríkisþjónustunnar fyrir áhrifum atvinnulífsins.


Ágætu gestir.
Hér á eftir verður tilkynnt um nýja stjórn Útflutningsráðs Íslands. Ég vil af því tilefni sérstaklega þakka fráfarandi stjórn Útflutningsráðs vel unnin störf og gott samstarf. Ég vil sérstaklega þakka fráfarandi stjórnarformanni Útflutningsráðs, Páli Sigurjónssyni, farsælt samstarf á undanförnum árum, en hann honum hefur verið umhugað um að efla aðstoð við íslenskan útflutning. Þessar tillögur sem nú liggja fyrir og hafa það markmið að samtengja samstarf Útflutningsráðs og utanríkisþjónustunnar eru að miklu leyti honum að þakka. Ég hef þá trú að við munum þannig halda áfram að njóta verka hans þó að hann láti nú af starfi sínu sem stjórnarformaður.
Við höfum allt frá árinu 1997 stigið stór skref til að auka hlutverk utanríkisþjónustunnar í þjónustu fyrir atvinnulífið. Utanríkisþjónustan hefur með þeim breytingum sem ég hef rakið svarað kalli tímans og býður fram starfskrafta sína í þágu atvinnulífsins. Ég er fyrir mitt leyti þakklátur fyrir viðbrögð forystumanna atvinnulífsins. Ég tel að þeir hafi sýnt vilja til að taka þessu boði og vinna með okkur í eflingu íslenskrar útrásar á þessum forsendum. Það er nauðsynlegt, ef vel á til að takast. Með samhentu átaki atvinnulífsins, Útflutningsráðs, utanríkisráðuneytisins og þeirra opinberu aðila annarra sem koma að aðstoð við útflutning, getum við lyft Grettistaki.
Ég vil að lokum vekja athygli á þeirri mynd sem sést hér í bakgrunninum sem lýsir að mínu mati því viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir. Það þekkja flestir hversu erfitt það er að standa vaðið yfir straumþunga á. En hópur manna getur á samstilltan hátt staðið straumþungann. Myndin lýsir verkefnum framundan - við þurfum að vinna saman - að íslenskri útrás.

Kærar þakkir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta