Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. ágúst 2003 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Hólahátíð

17. ágúst 2003

Hólahátíð 17. ágúst 2003

Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Heiðraða samkoma, ágætu hátíðargestir.

Það er okkur Sigurjónu mikil ánægja að vera viðstödd hátíð á helgum Hólastað að þessu sinni og njóta hinnar stórbrotnu náttúru Hjaltadals og Skagafjarðar á þessum fallega degi. Hér blasir sagan við á hverri þúfu, hverju strái og hér riðu hetjur um héruð. Við erum stödd á þeim stað sem tengist í ríkara mæli menningarsögu og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar en flestir aðrir. Hingað heim til Hóla er ávallt gott að koma og hér er gott að dvelja.

Við Íslendingar erum stoltir af menningu okkar, sögu og uppruna. Lærðir sem leikir þekkja ættir sínar, helstu örnefnin í næsta nágrenni og vilja fræðast meira um það sem tilheyrir fortíðinni. Í hugum íslenskrar þjóðar hefur helgiblær verið sveipaður um nafn Hólastóls um aldir; hér var hinn forni höfuðstaður Norðurlands og biskupsstóll frá upphafi tólftu aldar. Jón Ögmundsson hinn helgi varð hér fyrstur biskup og hafði forgöngu um skólun prestefna og má segja að þar hafi orðið til vísir að hinu mikla mennta- og menningarsetri sem síðar varð.

Á eftir honum komu biskupar sem margir eiga sér veigamikinn sess í Íslandssögunni; tuttugu og þrír í kaþólskum sið og alls þrettán í lútherskum. Nægir að nefna þrjá þeirra; Guðmund Arason góða, Jón Arason, síðasta kaþólska biskupinn á Íslandi, og Guðbrand Þorláksson. Allt merkir menn sem mörkuðu djúp spor í samtíð sína og í sögu og menningu íslenskrar þjóðar.

Hólastaður var þannig ekki aðeins kirkjuleg miðstöð fyrir Norðurland heldur einnig menningarleg miðstöð sem öll þjóðin átti hlutdeild í. Í sögu hans endurspeglast barátta þjóðarinnar fyrir sjálfsstæði og baráttunni gegn erlendu valdi.

II.

Við Íslendingar höfum orðið þess áskynja á undanförnum árum hversu stóran sess menntun og vísindi skipa orðið í samfélagi okkar. Uppbygging háskóla á Akureyri hefur hleypt nýju lífi í mannlíf við Eyjafjörð. Í Borgarfirði á sér stað mikil uppbygging í tveimur háskólaþorpum, svo ekki sé minnst á það góða starf sem fram fer í margvíslegum háskólum í höfuðborginni og annars staðar, m.a. fyrir tilstilli nútímatækni sem gerir fjarnám mögulegt um land allt.

Hólastaður hefur ekki setið eftir í þessum efnum og mér finnst mikið til koma um þá uppbyggingu sem á sér hér stað og er framundan. Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með störfum nefndar þeirrar um stöðu og framtíð Hólaskóla, sem Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri veitti formennsku, og finn að Skúli skólameistari Skúlason og hans fólk ætla sér stóra hluti á næstu árum við breyttar aðstæðar - ný og spennandi tækifæri.

Endurreisn vígslubiskupsembættisins skiptir hér máli og ég er sannfærður um að íslensk þjóð vill viðhalda Hólastað sem höfuðbóli í fleirum en einum skilningi. Hólaskóli og vígslubiskup hafa tekið höndum saman um að efla Hólastað með ýmsum hætti svo sem varðandi kennslu, menningarviðburði, ásýnd staðarins og viðhald húsnæðis. Ég veit að nýskipaður vígslubiskup, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, á eftir að vinna staðnum vel og nota tækifærið að þakka honum frábær störf í Bretlandi í nánu samstarfi við sendiráðið þar.

Í túnfætinum hér að Hólum verðum við vitni að merkum fornleifarannsóknum. Allt ber þetta að sama brunni; á stað þar sem borin er djúp virðing fyrir fortíðinni, sögu hennar og menningu fólksins, hlýtur framtíðin að vera björt og uppfull af tækifærum.

III.

Ég vék hér áðan að biskupum þeim sem setið hafa á Hólastóli og vil sérstaklega staldra við Guðmund Arason hinn góða, sem hér ríkti frá árinu 1203 til 1237 og hafði orð á sér fyrir ölmusugjafir, bænahald og lækningar. Guðmundur lét sér annt um náungann, sýndi sínum minnstu bræðrum ekki skeytingarleysi og uppskar á stundum reiði hinna voldugustu meðal höfðingja í landinu fyrir vikið. Það kostar stundum átök að berjast gegn straumnum, hrópa upp í vindinn og ganga gegn ríkjandi hefðum. En þeir eru sem betur fer til – og verða ávallt til – sem ekkert aumt mega sjá og leggja mikið á sig til að láta gott af sér leiða.

Guðmundur góði skildi gildi samhjálparinnar og lagði áherslu á að líkna þjáðum. Af góðverkum hans fóru miklar sögur, sem marka má af viðurnefni hans – hinn góði. Í sérhverju þjóðfélagi siðaðra manna verður samhjálpin að hafa ákveðið vægi og mynda öryggisnet um samfélagið allt, svo hlúa megi að þjáðum, styrkja þá fátæku og sinna hinum sjúku. Kristindómurinn setur á okkur þær skyldur að sinna meðbræðrum okkar og systrum og þessar skyldur eru ekki kvöð, heldur köllun. "Gæt sauða minna," sagði Jesús við lærisveina sína og víst er að öll erum við lömb í hjörð Drottins.

Það er stundum sagt að í hraða nútímans hafi skilningurinn á samhjálpinni minnkað. Að hver hugsi nú fyrst og fremst um sig og reyni að standa sig sem best í kapphlaupi lífsgæðanna. Það má vera að það sé rétt, en ég er þó sannfærður um að upp til hópa viljum við Íslendingar rétta þeim hönd sem eru hjálpar þurfi. Aldrei er íslensk þjóð samhentari en á tímum sorgar og áfalla. Þá verður lítil þjóð nyrst í hafi að einni stórri fjölskyldu sem saman tekst á við áföllin og reynir að yfirvinna þau.

IV.

Ég hóf ungur störf í stjórnmálum og á þeim tæpu þremur áratugum sem liðnir eru frá því ég tók sæti á Alþingi Íslendinga hefur íslenskri þjóð fleytt svo mjög fram, að kraftaverk má teljast. Þessar framfarir verða enn ótrúlegri séu þær settar á lengri tímakvarða og skoðaðar í samhengi. Á hundrað árum hefur þjóðin unnið sig upp úr örbirgð til ríkisdæmis með dugnaði og hörku, þrátt fyrir ægikraft náttúruaflanna; þrátt fyrir áföll og hamfarir, þrátt fyrir allt að því ómögulegar aðstæður á stundum.

Og auðvitað höfum við ástæðu til að gleðjast yfir því hversu okkur hefur fleytt fram. Gleðjast yfir því hvað vel okkur hefur vegnað sem þjóð, gleðjast yfir þeim góðu skilyrðum sem okkur eru búin til hamingju og frekari framfara. Hver uppsker eins og hann sáir og það er sjálfssagt að gleðjast yfir góðum árangri eftir mikið erfiði. En dramb er falli næst og ekkert kemur af sjálfu sér. Við Íslendingar höfum þurft að hafa mikið fyrir hlutunum og munum áfram þurfa að hafa það í breyttum heimi. Og raunar sem aldrei fyrr.

Í alþjóðavæðingunni felast endalaus tækifæri og við Íslendingar eigum þar fullt erindi eins og hverjir aðrir. Víða er hlustað á rödd okkar af virðingu og athygli. Sömu virðingu eigum við vitaskuld að sýna öðrum þjóðum, því allir hafa eitthvað merkilegt fram að færa og við verðum aldrei of góð eða of merkileg til að læra af öðrum.

V.

Ég er þeirrar skoðunar að stærsta ástæðan fyrir mikilli velgengni okkar Íslendinga á umliðnum áratugum felist í samkennd okkar og dugnaði. Við erum trúuð þjóð og kristilegt hugarfar hefur reynst okkur vel, jafnt í blíðu og stríðu. Ytri aðstæður hafa mótað hér harðgera þjóð sem þó er svo viðkvæm. Hrausta þjóð, sem jafnframt er blíð og ljúf. Fámenna þjóð, sem er þó stór og kraftmikil. Við megum aldrei gleyma uppruna okkar né uppfræðslu - því sem við námum við móðurkné.

Minnumst orða Hannesar Hafstein, sem hann kvað fyrir meira en hundrað árum:

Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
það er: Að elska, byggja og treysta á landið.

Við eigum að rækta þessa samkennd, styrkja hana og treysta. Við Íslendingar búum við fullkomnasta heilbrigðiskerfi sem völ er á og eigum að hafa metnað til að standa áfram í fremstu röð í þeim efnum. Við verjum sífellt meiri fjármunum til heilbrigðismála, en með hækkandi aldri kynslóðanna og frekari framförum í læknavísindum er ljóst að gera verður enn betur á næstu árum og áratugum. Þetta er eðlileg þróun og við verðum að vera undir hana búnir, m.a. með því að halda áfram að auka tekjur þjóðarinnar, skapa hér atvinnu og byggja upp blómlega byggð um land allt.

Ég hef í störfum mínum sem stjórnmálamaður lagt áherslu á mikilvægi slíkrar uppbyggingar, einmitt vegna þess að ég tel það vera skyldu okkar að styrkja áfram velferðarkerfið í þeirri mynd sem við þekkjum það. Í því felst að heilbrigðis- og menntamál hafa forgang og aldraðir og öryrkjar hljóti veglegan sess í nútímaríki allsnægtanna. Fjölskyldufólk á að hafa tíma og tækifæri til að koma börnum sínum á legg og við eigum hvert og eitt okkar - og í sameiningu sem dugmikil þjóð - að skapa og standa vörð um það sameiginlega öryggisnet sem við eigum og höfum byggt upp á undraskömmum tíma.

Um leið eigum við að vera okkur meðvituð um ríkidæmi Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Við eigum að halda áfram að efla aðstoð okkar við þróunarlöndin; aðstoða hina fátæku við að koma undir sig fótunum. Hvers virði er að vera ríkur, ef maður kann ekki að fara með peningana? Sælla er að gefa en þiggja, segir máltækið og við megum ekki gleyma því að ekki er langt síðan við vorum sjálfir í þeirri stöðu að þola örbirgð og hallæri og eiga hvorki til hnífs né skeiðar.

VI.

Sameiginlegt öryggisnet metnaðarfullrar þjóðar krefst traustrar efnahagslegrar undirstöðu.

Traust undirstaða kallar á framsýnar ákvarðanir í atvinnu og alþjóðamálum. Þá reynir á lýðræðið. Umræða um stöðu okkar í Evrópu annnarsvegar og alþjóðasamfélaginu hinsvegar er uppspretta hugmynda og skoðanaskipta. Umræðan um nýtingu og umgengni við náttúruna reynir á þolrif samfélagsins, en Íslendingar hafa frá alda öðli sótt bæði lífsbjörg og lífsfyllingu til hennar.

Skoðanir eru skiptar, tilfinningar heitar og margir tala af mikilli sannfæringu. Umræður um stóriðju- og virkjunarframkvæmdir eru skýrt dæmi um þetta. En þegar lýðræðisleg niðurstaða er fengin er rétt að una henni og virða. Rétt eins og virða ber andstæð sjónarmið og rétt hvers og eins til þess að láta skoðanir sínar í ljós. Öðru máli gildir um tilraunir til að spilla fjámögnun eða stöðva framkvæmdir með íhlutun erlendis frá. Þar tel ég allt of langt gengið. Það eru lýðræðislegar ógöngur.

VII.

Við Íslendingar megum ekki miklast yfir þeim góða árangri sem náðst hefur, en reyna heldur að rækta áfram það góða í okkur sjálfum og bæta okkur, bæði sem manneskjur og sem þjóð. Gefum okkur tíma til þess að staldra við og íhuga málin, gefum okkur tíma fyrir börnin okkar. Gefum okkur tíma til þess að vera með fjölskyldu og vinum, en geymum ekki slíkar dýrðarstundir þar til það er orðið um seinan.

Í samfélagi nútímans er vinnutími styttri en áður. Lífsgæði hafa aukist sem og tekjur þjóðarinnar. Við höfum betri tækifæri en áður til að hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda og við höfum einnig betra tækifæri til þess að rækta okkur sjálf. Líta í eigin barm, velta fyrir okkur hvað megi betur fara.

Hvernig uppalendur erum við? Ræðum við nóg við börnin okkar um hið góða í lífinu og gildi þess að trúa á kærleikinn? Eru nútímaþægindi þess virði að skuldsetja sig um langa framtíð í stað þess að ávaxta sitt pund og stefna ekki fjárhag heimilisins í tvísýnu? Forgangsröðum við rétt, eða látum við samanburðinn við náungann leiða okkur í gönur þar til hann verður að lokum allsráðandi í allri tilveru okkar?

Auðvitað er ekkert að því að njóta lífsins. Vitaskuld getur verið gaman að eignast fallega muni, láta sig dreyma og eignast síðan það sem stefnt hefur verið að. En allir heimsins peningar geta þó ekki fært okkur hamingju einir og sér, til þess þarf annað að koma til; kærleikurinn og ástin. Trúin á Guð og trúin á lífið.

VIII.

Að elska er jafn sjálfsagt og að anda og við megum ekki gleyma því að tjá tilfinningar okkar. Erum við ekki stundum of spör á hrósið? Mættum við ekki gauka hlýlegri kveðju að náunganum af og til? Þykir okkur ekki nauðsynlegt sjálfum að fá af og til ofurlítið hrós, eða kærleikskveðju? Ekki kostar það peninga og fyrirhöfnin er lítil. En samt er eins og í amstri hversdagsins séu það einmitt slíkir hlutir – jafn sjálfsagðir og þeir kunna að virðast – sem falla fyrir ofan garð og neðan. Því miður.

Hrósið er okkur öllum nauðsynlegt. Kærleikurinn gefur okkur aukinn kraft, nærir okkur og styrkir. Að sama skapi getur hörð gagnrýni haft lamandi áhrif; rist inn að beini og fært yfir okkur svartnætti þar sem áður var bjart og fagurt.

Fréttamat og aldarháttur nútímans, bæði í innlendu og erlendu samhengi, virðist óðum þróast í þá átt að hörmungar og ógæfa séu betra og meira fréttaefni en velgengni og framfarir. Andstaða við mál þykir merkilegri en stuðningur. Fjölmiðlun og stjórnmál nútímans eru hörð og óvægin. Menn eru dæmdir í umræðunni löngu áður en mál þeirra fá eðlilega umfjöllun stofnana samfélagsins. Bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn verða að gæta hófs í ummælum sínum um álitaefni og viðkvæm mál. Við getum öll tekið okkur á í þeim efnum.

Vissulega er gagnrýni nauðsynleg, en erum við ekki stundum full fljót á okkur að dæma aðra? Ræktum við nægilega vel það góða í hvert öðru? Minnumst þess sem Einar Benediktsson skáld fól okkur í þjóðararf:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
Sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
Við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
Sem aldrei verður tekið til baka.

Kirkjan er og verður vegvísir manna til farsæls lífs og réttrar breytni og okkur er öllum hollt að hafa hugfast að með viðmóti og framkomu getum við veitt birtu og gleði inn í líf náunga okkar. Stjórnmálamönnum ber að hafa í huga að stjórnmál snúast um fólk og árangur stjórnmála verður aðeins mældur með þeirri mælistiku að stjórnvaldsaðgerðir hafi komið öllum almnningi til góða og helst þeim sem mest þurfa á því að halda

Ég óska Hólastað og Íslendingum öllum allrar gæfu í nútíð og framtíð og Guðs blessunar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta