Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2003 UTN Forsíðuræður

Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál

TALAÐ MÁL GILDIR


Utanríkisráðuneytið 13. nóvember 2003



1. Inngangur

Virðulegi forseti

Fyrr í haust var framboð Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna formlega tilkynnt aðildarríkjum samtakanna í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Af þessu tilefni er tímabært að fara nokkuð ítarlega yfir það hvað í framboðinu felst og hverjar áherslur Íslands verða í baráttu um kjör í öryggisráðið og síðar í starfi í öryggisráðinu. Kosningarnar fara fram haustið 2008.

Í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna sammæltust aðildarríkin um að sameina mátt sinn til að varðveita heimsfrið og öryggi. Öryggisráðinu er falin aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis. Íslendingar gengust undir þessa skuldbindingu með aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1946 en hafa aldrei takið sæti í öryggisráðinu.

Því hefur verið haldið fram að sú fjarlægðarvernd sem Íslendingar nutu um aldir hafi leitt til einangrunarhyggju. Þessi tíðarandi endurspeglast í hárbeittri ádeilu Halldórs Laxness "Sjálfstæðu fólki" þar sem söguhetjan Bjartur í Sumarhúsum segir m.a. um afleiðingar fyrri heimsstyrjaldar, með leyfi forseta: " Úr því að mannahelvítin nenna að vera að murka hverjir úr öðrum lífið á annað borð,- af fábjánaskap eða hugsjón, mér er sama hvort er, ja þá skal ég verða manna síðastur til að sjá eftir þeim. Fari þeir til andskotans. Ég segi ekki annað en það: Bara að þeir héldu áfram sem leingst, svo að kjötið og ullin haldi áfram að stíga".Tilvitnun lýkur.

Við þekkjum þá heimssýn sem Bjarti var ætluð og hún einkenndi viðhorf íslensku þjóðarinnar til umheimsins um aldir. Við bjuggum fjarri heimsins vígaslóð og ógnir og atburðir hvers tíma snertu okkur með takmarkaðri hætti en aðrar Evrópuþjóðir. Þetta breyttist á síðustu öld. Í upphafi tuttugustu aldarinnar voru Íslendingar fátækasta þjóð Evrópu en í lok hennar á meðal efnuðustu þjóða heims. Það gerðist vegna aukinna viðskipta og margþættari samskipta við önnur ríki. Hamfarir tuttugustu aldarinnar höfðu bein áhrif á Íslandi. Það vill stundum gleymast að hlutfallslegt manntjón á Íslandi vegna síðari heimsstyrjaldar var meira heldur en í mörgum nágrannaríkjum. Um leið beið hlutleysisstefnan skipbrot og ljóst varð að afskiptaleysi var ekki lengur valkostur. Íslendingar voru tilneyddir að verja hagsmuni sína og tókst vel til.

Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er ekki markmið í sjálfu sér heldur rökrétt framhald á þessari þróun. Sagan gerir Íslendingum kleift að skilja vel þann vanda sem steðjar að fátækum ríkjum og auðveldar okkur að miðla af eigin reynslu. Það hlýtur að hvíla á okkur sú skylda að nota nýfengna velsæld til að stuðla að friðvænlegri, öruggari og auðugari heimi. Meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna eru fyrrum nýlendur. Við Íslendingar þekkjum af eigin raun eðli og afleiðingar nýlendustefnunnar og þau straumhvörf sem urðu þegar þjóðin öðlaðist frelsi til að ráða eigin málum. Framboðið til öryggisráðsins er því staðfesting á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og þeirri ábyrgð sem Íslendingar hafa axlað. Við höfum lagt áherslu á framlag til friðargæslu og uppbyggingar á stríðshrjáðum svæðum, eflt þróunarsamvinnu og stuðlað að auknu jafnræði í viðskiptakjörum milli hinna efnaðri ríkja og þeirra fátækari með beitingu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Við höfum tekið virkan þátt í eflingu mannréttinda og lýðræðis innan Sameinuðu þjóðanna og svæðisbundinna samtaka.

2. Rökstuðningur fyrir framboði Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna byggir á þeirri sýn að Ísland geti með sérstökum hætti miðlað af eigin reynslu og aðstöðu í þágu aðildarríkjanna allra. Ísland hefur sérstaka aðstöðu sem efnað smærra ríki með góð tengsl við helstu áhrifavalda í heiminum. Draga má hagnýtar ályktanir af hraðri vegferð frá örbirgð til auðlegðar og síðar aðstoð við efnahagsþróun fátækari ríkja. Ef til vill mætir frumkvæði af Íslands hálfu minni tortryggni en frumkvæði margra annarra ríkja, því Ísland hefur enga stórveldishagsmuni sem litað geta afskipti af einstökum málum. Þá er hlutfallsleg smæð íslensks efnahagslífs kostur, þar sem síður er hætta á að tortryggni vakni um að íslensk stjórnvöld gangi erinda íslenskra fyrirtækja og setji hagsmuni þeirra framar óeigingjarnri aðstoð við viðkomandi ríki. Í þessu sambandi er hollt að líta til frænda okkar Norðmanna sem hafa getið sér gott orð fyrir jákvæða og uppbyggilega framgöngu á alþjóðavettvangi. Stærri ríki hafa meiri völd og áhrif en engu að síður hefur milliganga norskra stjórnvalda í erfiðum deilumálum fjarlægra aðila oft orðið til að draga úr spennu og auðvelda samninga.

Fyrst og síðast er framboðið spurning um áræði og metnað fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi. Það er engum vafa undirorpið að óneitanlega væri ódýrara og mun þægilegra að sitja heima með hendur í skauti og láta öðrum þjóðum það eftir að takast á við heimsmálin og bera kostnað af því. Stundum gætir einangrunarhyggju sem oft hefur verið sett fram undir merkjum hagræðingar eða sparnaðar, eða því er haldið fram að Ísland sé svo lítið að framlag þess skipti hvort eð er ekki máli. Hér er um að ræða grundvallaratriði í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Það er engin dyggð fólgin í því að hlaupast frá því að greiða sanngjarnan hlut af sameiginlegum reikningi. Ef vilji er til að Ísland sé metið á jafnræðisgrundvelli í samfélagi þjóðanna, verða Íslendingar að leggja af mörkum í samræmi við getu. Þrátt fyrir að við höfum gert mikla bragarbót á framlögum okkar á undanförnum árum eigum við þó enn nokkuð í land.

Á undanförnum árum höfum við stigið stór skref í átt til virkari þátttöku í samstarfi á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórnin hefur aukið framlög Íslands til þróunarsamvinnu og stefnir að því að gera enn betur á því sviði á næstu árum.

Íslendingar hafa tekið þátt í margvíslegum verkefnum á sviði friðargæslu og friðarframkvæmdar, þar sem við höfum komið til aðstoðar stríðshrjáðu fólki á átakasvæðum. Íslenska friðargæslan hefur frá upphafi unnið náið með Sameinuðu þjóðunum, fyrst í Bosníu og Hersegóvínu og síðan einnig í Kosovó og lagt til hjúkrunarfólk og lögreglumenn í friðargæsluaðgerðir þar. Friðargæslan hefur tekist á hendur viðamikil verkefni eins og stjórnun flugvallarins í Pristína í Kosóvó og hefur nú boðið Atlantshafsbandalaginu að sinna áþekku samræmingarhlutverki í Kabúl í Afganistan. Samstarf við Sameinuðu þjóðirnar hefur verið aukið og er gert ráð fyrir að hún sendi fólk til neyðarhjálpar á vegum Matvælaáætlunar stofnunarinnar og að aukinn fjöldi friðargæsluliða fari til starfa undir merkjum Sameinuðu þjóðanna.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Allir þeir sem notið hafa framlaga Íslands hafa metið þau mikils og samstarfsríki okkar hafa kallað eftir atbeina okkar í fleiri verkefnum.

3. Undirbúningur framboðs

Virðulegi forseti,

Nauðsynlegt er að hefja undirbúning framboðsins í tíma. Þegar hefur talsvert starf verið unnið, bæði við að greina tilhögun framboðs annarra ríkja og með því að leitast við að verða ennþá sýnilegri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra. Þegar kemur að framboðinu og setunni munu íslensk stjórnvöld m.a. byggja á þeirri reynslu sem fengist hefur í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi, nú síðast í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Störf Norðurskautsráðsins tengjast Sameinuðu þjóðunum með margvíslegum hætti. Þannig er t.d. ljóst að ráðið getur sem svæðasamtök lagt mikið af mörkum við framkvæmd skuldbindinga aðildarríkjanna frá Jóhannesarborg, ekki síst í umhverfismálum, þótt Ísland hafi á formennskutímanum jafnframt beint sjónum í auknum mæli að lífskjörum fólks á norðurslóðum. Tengslin við Evrópusambandið hafa einnig verið efld á grundvelli Norðlægu víddarinnar. Þannig er formennskan í Norðurskautsráðinu gott dæmi um hvernig auka má ábyrgð og sýnileika Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Einnig má nefna að við tökum að okkur formennsku í Eystrasaltsráðinu 2005-2006 og sækjumst eftir sæti í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) 2005-2008, að ógleymdri reglulegri formennsku í norrænu ráðherranefndinni sem hefst um næstu áramót.

Fulltrúar Íslands eiga nú sæti í framkvæmdastjórn UNESCO og í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þá var Ísland kosið til setu í nefnd um sjálfbæra þróun sem sett var á fót til að fylgja eftir ákvörðunum Ríó- og Jóhannesborgarráðstefnanna og Ísland var kosið í nefnd um stöðu kvenna og tekur sæti í henni á næsta ári.

Í þeirri vinnu sem er framundan verður haft náið og vaxandi samráð við utanríkismálanefnd Alþingis og þau frjálsu félagasamtök sem málið varðar. Löng hefð er fyrir þátttöku þingmanna í störfum allsherjarþingsins og það er vilji hjá utanríkisráðuneytinu að auka enn frekar þessa þátttöku í samvinnu við Alþingi. Þannig geta þeir fylgst grannt með undirbúningi framboðsins og síðar málefnavinnu og málflutningi innan ráðsins. Þá hefur áður verið vikið að nánu samráði Norðurlandanna, en aðstoð þeirra bæði í framboðinu og við upplýsingaöflun um þau mál sem tekin verða fyrir í öryggisráðinu mun skipta miklu.

4. Markmið og áherslur Íslands

Þótt fimm ár séu til kjörs til öryggisráðsins á því tímabili sem Ísland sækist eftir þá eru íslensk stjórnvöld meðvituð um að ákveðnir málaflokkar hafa skiljanlega verið fyrirferðamiklir í störfum ráðsins á undanförnum árum, einkum margþættur vandi í Afríkuríkjum, ástandið í Mið-Austurlöndum og í Írak, og því miður má gera ráð fyrir að svo verði áfram um sinn. Reynslan sýnir að smærri sem stærri ríki geta haft mikilvægu hlutverki að gegna við úrlausn flókinna vandamála sem hafa hnattrænar afleiðingar. Þess vegna verður leitast við að efla núverandi sérþekkingu á þessum málaflokkum eins og kostur er.

Í kynningu á framboði Íslands og síðar í störfum innan öryggisráðsins verður stuðst við eftirfarandi megináherslur:

- Framlag til friðar og stöðugleika í heiminum. Ísland leggur áherslu á að það verði gert með ófrávíkjanlegri virðingu fyrir grundvallarmannréttindum, eflingu lýðræðis, baráttu gegn fátækt, virðingu fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar og þar með viðurlögum við þjóðarmorði og grófum mannréttindabrotum.

- Stuðla að umbótum með tillögugerð og þátttöku í starfi öryggisráðsins í því skyni að auka skilvirkni. Ísland hefur á undanförnum árum lagt áherslu á umbætur í starfi og uppbyggingu Sameinuðu þjóðanna og stutt umbótaviðleitni Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra samtakanna. Með því hefur Ísland áunnið sér virðingu og tiltrú samstarfsríkja. Íraksmálið hefur á margan hátt afhjúpað veikleika Sameinuðu þjóðanna og sýnt fram á nauðsyn aukinnar skilvirkni. Ísland styður fjölgun jafnt kjörinna og fastra sæta í öryggisráðinu og að neitunarvald verði skilyrt. Við vonumst til að þessar breytingar verði til að tryggja það að öryggisráðið geti betur sinnt þeim skyldum sem því var í upphafi ætlað að sinna.

- Afvopnunarmál með sérstakri áherslu á vinnu gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Engin ein stofnun hefur fjallað meira um afvopnunarmál en Sameinuðu þjóðirnar. Eftir lok kalda stríðsins er hættan sem stafar af útbreiðslu gereyðingarvopna, einkum til hryðjuverkamanna, eitt brýnasta verkefnið á sviði afvopnunar í heiminum. Mikilvægt er að Sameinuðu þjóðirnar setji viðmið og standi vörð um alþjóðlegar skuldbindingar á sviði útbreiðslu gereyðingarvopna og séu áfram vettvangur skoðanaskipta sem hafi að markmiði að draga úr spennu milli aðildarríkja. Útbreiðsla gereyðingarvopna getur leitt til hættulegs vígbúnaðarkapphlaups, jafnt staðbundins sem á heimsvísu. Beiting gereyðingarvopna hefði í för með sér ófyrirsjáanlegar hnattrænar afleiðingar sem eðli málsins samkvæmt næðu hingað til lands. Þar af leiðandi er ljóst að aðgerðir til að hefta útbreiðslu gereyðingarvopna eru mikilvægt hagsmunamál okkar Íslendindinga. Það vekur varfærna bjartsýni að stjórnvöld Norður-Kóreu hafa sagt sig reiðubúin til viðræðna um að hætta frekari tilraunum til framleiðslu kjarnavopna. Vonandi leiða þær viðræður til þess að Norður-Kórea gerist aftur aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við framleiðslu og dreifingu kjarnavopna. Ísland hefur stutt alla alþjóðlega viðleitni til að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna og nú síðast með því að styðja sérstakt átak Bandaríkjamanna, Breta og Japana, auk fleiri þjóða, til að koma í veg fyrir slíka útbreiðslu (Proliferation Security Initiative). Nýr sendiherra Íslands gagnvart Norður-Kóreu afhenti nýlega trúnaðarbréf í Pyongyang og í fyrsta sinn í rúm 20 ár. Í framhaldinu verður komið á framfæri sjónarmiðum Íslands varðandi útbreiðslu gereyðingarvopna. Þá er það fagnaðarefni að írönsk stjórnvöld hafa sýnt sveigjanleika gagnvart kröfum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vín um óhindraðan aðgang að kjarnorkuáætlun þeirra til að ganga úr skugga um að hún verði ekki notuð sem grundvöllur fyrir framleiðslu kjarnavopna. Sjálfur hygg ég á ferð til Íran í næsta mánuði í samvinnu við íslensk fyrirtæki og mun nota tækifærið til taka málið upp við viðmælendur mína þar, auk þess sem ég hyggst ræða mannréttindamál við írönsk stjórnvöld.
Til viðbótar þessum helstu áhersluatriðum munu íslensk stjórnvöld einnig horfa til þess að nýta setu í öryggisráðinu til að koma áfram þeim mikilvægu hagsmunamálum sem Ísland hefur stutt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum. Ísland hefur þegar látið mikið að sér kveða á sviði hafréttar- og umhverfismála og að sjálfsögðu verður því haldið áfram. Á núverandi allsherjarþingi hefur Ísland fengið það hlutverk fyrir hönd Norðurlanda að leggja fram ályktun tengda samningnum um afnám hvers konar mismununar gegn konum. Ísland vinnur ötullega að því, í samvinnu við önnur Norðurlönd, að tryggja framkvæmd fyrirheita um vernd kvenna í átökum og að tryggja þátttöku þeirra í friðarferli að átökum loknum. Í þessu samhengi má nefna að Ísland hefur beitt sér fyrir aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að hefta og uppræta mansal með sama hætti og gert hefur verið innan ÖSE og Eystrasaltsráðsins. Nýverið var ákveðið að styrkja baráttu gegn mansali á Balkanskaga með því að greiða kostnað vegna sérstaks starfsmanns í sendinefnd ÖSE í Bosníu og Hersegóvínu. Þess má geta að utanríkisráðuneytið áformar að efna til málstofu um baráttuna gegn mansali snemma á næsta ári. Ísland var meðal fyrstu ríkja til að fullgilda stofnsáttmálann um Alþjóðasakamáladómstólinn og er undirbúningsvinna fyrir starf dómstólsins vel á veg komin. Samfélag þjóðanna verður að hafa refsiúrræði vegna þeirra hroðalegu mannréttindabrota sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og hafa fyrst og fremst bitnað á óbreyttum borgurum, konum og börnum, ekki bara til að refsa fyrir þau brot sem drýgð hafa verið heldur einnig til að hafa varnaðaráhrif og koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að refsileysi slíkra brota heyri sögunni til.

5. Ávinningur Íslands af framboði og setu í ráðinu

Virðulegi forseti

Markmiðið með framboði í öryggisráðið er að leggja af mörkum til varðveislu friðar og öryggis og framkvæmdar annarra stefnumiða Sameinuðu þjóðanna. Beinn ávinningur af slíkri þátttöku er ekki meginmarkmið en Ísland mun vissulega njóta góðs af með beinum eða óbeinum hætti.

Fyrst ber að nefna að framboðið sjálft og seta í öryggisráðinu styrkir mjög stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þannig auðveldar framboðið gæslu á grundvallarhagsmunum Íslands og styrkir samningsstöðu íslenskra stjórnvalda í þeim mörgu erfiðu málum sem leysa þarf á alþjóðavettvangi.

Ennfremur gefst með framboðinu einstakt tækifæri til að halda fram megináherslum utanríkisstefnu Íslands og annarra Norðurlanda og smærri ríkja almennt á alþjóðavettvangi. Takist vel til öðlast Ísland virðingu og traust annarra ríkja sem aftur eykur bolmagn Íslendinga til að koma málum á framfæri á alþjóðavettvangi.

Einn liður í undirbúningi framboðs er að stofna til stjórnmálasambands við þau ríki sem hingað til hefur ekki verið komið á sambandi við. Með stofnun stjórnmálasambands við fleiri ríki er Ísland betur í stakk búið til hagsmunagæslu til frambúðar. Þannig er einnig lagður grunnur að frekari samskiptum og viðskiptum við þessi ríki. Samtímis verður kosningabaráttan til þess að styrkja tengsl við önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Framboð og seta í öryggisráðinu krefst þess að Íslendingar leitist við að verða öðrum ríkjum fyrirmynd, einkum á eigin áherslusviðum. Þannig er líklegt að sömu málaflokkum verði gefið meiri gaumur innanlands, t.a.m. með aukinni umræðu og jafnvel aðgerðum. Líklegt er að aukin umræða um málefni Sameinuðu þjóðanna innanlands gæti þannig hvatt til vissrar sjálfsgagnrýni og jafnvel athafna þar sem Íslendingar vilja ekki vera eftirbátar annarra ríkja í málum sem teljast mikilvæg.

Áherslur Íslands og sú vinna sem fram fer í undirbúningi málefna nýtist víðar en innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Þannig er víst að framboðið verður til þess að styrkja stöðu EFTA-EES ríkjanna í því utanríkispólitíska samráði sem þau eiga við Evrópusambandið. Verði vel að verki staðið er mögulegt að nýta þetta einstaka tækifæri í utanríkispólitískum samskiptum Íslands við önnur ríki, jafnt tvíhliða sem marghliða.

6. Þróunarsamvinna og þátttaka í alþjóðlegu þróunarstarfi

Ófriður kemur oft í veg fyrir neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu og um leið getur skapast að því er virðist órjúfanlegur vítahringur. Þegar friður kemst á skapast fyrst möguleikar til raunverulegrar þróunarsamvinnu á borð við þá sem við höfum leitast við að veita á undanförnum árum. Markvisst hefur verið unnið að því að auka verkefni á sviði þróunarsamvinnu í Afríku.

Á undanförnum árum hefur Ísland aukið framlög til þróunarmála. Árið 1997 setti ríkisstjórnin sér það markmið að verja 0,15% af landsframleiðslu til þróunarsamvinnu á árinu 2003. Við það hefur verið staðið og opinber framlög íslenska ríkisins til þróunarsamvinnu hafa rúmlega tvöfaldast á þessum tíma og nema nú tæplega 1,4 milljarði króna, eða 0,17% af landsframleiðslu. Stefnt er að því að auka það framlag verulega á næstu árum.

Nýstofnað sendiráð Íslands í Mósambík var sett á fót til að auðvelda þróunarsamvinnu okkar í sunnanverðri Afríku. Það hefur þegar orðið til að efla pólitísk tengsl og samskipti við ríki í þessum hluta álfunnar. Nú eru átta ríki í umdæmi sendiráðsins en fyrirhugað er að það taki upp nánari samskipti við fleiri ríki álfunnar.

Það er ekki aðeins í ljósi aukinnar áherslu Íslands á þátttöku í störfum Sameinuðu þjóðanna sem það er mikilvægt að efla samskiptin við ríki Afríku. Afríkusambandið gegnir mikilvægu hlutverki í hópi þróunarríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í samningum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá er íslensk þekking á málefnum Afríku nauðsynleg þegar kemur að þátttöku í öryggisráðinu. Þó svo að Mið-Austurlönd, Írak og Afganistan séu í brennidepli í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir snýr meirihluti ákvarðana og umræðna í öryggisráðinu að Afríku.

Stríðsátök og fátækt einkenna því miður þann daglega veruleika sem stór hluti íbúa Afríku þarf að búa við. Í síðasta mánuði gafst mér tækifæri til að sjá með eigin augum aðstæður í tveimur af fjórum samstarfslöndum Íslands, þ.e. Mósambík og Úganda. Ég sá þá miklu fátækt og félagslega vanda sem alþýða manna þarf að kljást við en jafnframt árangurinn af því mikla starfi sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur í þessum löndum, t.d. í sjávarútvegi og ýmsum félagslegum verkefnum.

Ég nefndi fyrr að friður er forsenda þróunarsamvinnu en sjúkdómar og örbirgð geta dregið verulega úr árangri af slíku starfi. Í mörgum ríkjum sunnanverðrar Afríku vofa afleiðingar eyðnifaraldurs yfir öllu lífi. Í þorpi eftir þorp eru einungis börn og gamalmenni – heilu kynslóðirnar hafa orðið eyðni að bráð. Það er slæm tilhugsun að þetta þarf ekki að vera svona. Með bættu aðgengi að lyfjum og forvörnum gætu sjúkir alið önn fyrir börnum sínum og færri sýkst. Eðlilegt er að Ísland verji meira fé til þessa málaflokks.

Í Afríku kynntist ég árangri af starfi Íslendinga og fann fyrir miklu þakklæti heimamanna fyrir þá aðstoð sem veitt hefur verið. Starf ÞSSÍ við þessar erfiðu aðstæður staðfestir þá skoðun mína að þróunarsamvinna ber árangur og getur hreinlega skipt sköpum fyrir fátækustu íbúa þróunarlandanna.

Fyrir stuttu lét utanríkisráðuneytið vinna álitsgerð um þróunarsamvinnu Íslands þar sem farið er yfir reynslu undanfarinna ára og reynt að draga lærdóm af því sem best hefur tekist í öðrum löndum. Í álitinu koma fram tillögur um framtíð þróunarsamvinnu og um aukin framlög. Unnið er að heildarstefnumótun í þróunarsamvinnu á grundvelli álitsgerðarinnar.

Í byrjun október tók Ísland við mikilvægri ábyrgðarstöðu innan Alþjóðabankans, stærstu þróunarstofnunar heims. Ísland leiðir þar samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan bankans, sem hefur það meginmarkmið að efla hag þróunarríkjanna. Þetta sýnir að Íslandi er treyst til góðra verka og til að gæta mikilvægra hagsmuna ríkjahóps sem hefur látið sig þróunarmál miklu varða.

7. Alþjóðaviðskiptastofnunin

Friður og öflug þróunarsamvinna er undirstaða frekari efnahagsuppbyggingar þróunarríkja. Reynslan hefur einnig sýnt að þeim þróunarríkjum sem opnað hafa markaði sína hefur gengið mun betur og þróun hefur orðið mun hraðari þar en í þeim ríkjum sem kosið hafa að vernda markaði sína með tollamúrum. Besta leiðin til að bæta hag þróunarríkja, sem og annarra ríkja, er að tryggja frelsi í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla að aukinni þátttöku þeirra. Alþjóðabankinn hefur sett fram það mat að ef allar viðskiptahindranir yrðu aflagðar myndi það auka alþjóðaviðskipti um jafnvirði 2.180 milljarða Bandaríkjadala og koma 320 milljónum manna yfir fátæktarmörk. Auðvitað má hafa efasemdir um hversu raunhæfir slíkir útreikningar eru en þetta mat endurspeglar engu að síðu að miklir hagsmunir eru í húfi að vel takist til á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sérstaklega að því er varðar stöðu þróunarríkja.

Á fundi aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem haldinn var í Kankún í september síðastliðnum má segja að samningalotan hafi steytt á skeri þótt ekki hafi orðið skipbrot. Þetta voru mikil vonbrigði en ekki er öll nótt úti enn. Rétt er að geta þess sérstaklega að áhersla á hagsmuni þróunarríkjanna einkenndi allar viðræðurnar. Almennt ríkir sátt um að iðnríkin leggi meira á sig en þróunarríkin og að tekið sé tillit til sérstöðu þróunarríkja.

Stuttu fyrir fundinn í Kankún náðist sögulegt samkomulag um sölu ódýrra lyfja til fátækra ríkja, þ.á m. alnæmislyfja til Afríku, en eins og áður var getið fór ekki á milli mála þegar ég var staddur þar að alnæmi er stærsta heilbrigðis- og þjóðfélagsvandamál álfunnar.

Þá var og verður í viðræðunum lögð mest áhersla á viðskipti með vörur og þjónustu þar sem þróunarríkin eru í stakk búin til að taka virkan þátt í alþjóðlegri samkeppni.

Í landbúnaði er lögð áhersla á að iðnríki veiti markaðsaðgang fyrir vörur þróunarríkja og dragi úr þeim ríkisstyrkjum sem trufla alþjóðleg viðskipti og þar eru útflutningsbætur verstar. Markaður á Íslandi er opinn fyrir flestar þær landbúnaðarvörur sem eru mikilvægar fyrir þróunarríkin og er Ísland mun betur sett hvað það varðar en mörg önnur ríki. Einnig höfum við stutt afnám útflutningsstyrkja eða að þeim séu sett ákveðin tímamörk, þar sem í raun er verið að flytja út heimatilbúinn vanda sem skekkir samkeppnisstöðuna.

Þrátt fyrir bakslagið í Kankún hefur ýmislegt áunnist í viðræðunum. Ólíklegt er að takist að ljúka þeim eftir rúmt ár eins og gert var ráð fyrir í upphafi en aðildarríkin vilja ná niðurstöðu sem fyrst. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem leggja áherslu á að ná heildstæðu samkomulagi, enda eru hagsmunir jafnt smærri ríkja og þróunarríkja best tryggðir með þeim hætti. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og nokkurra Afríkuríkja í Pemba fyrir skömmu lagði ég til að fastafulltrúar Norðurlanda hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni ættu fundi með fulltrúum þessara Afríkuríkja og leituðust við að miðla málum. Þannig gætu Norðurlöndin aðstoðað við að brúa hina miklu gjá sem myndast hefur milli norðurs og suðurs. Ég áréttaði þetta á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Osló fyrir skömmu.

8. Þjónusta við atvinnulífið

Staðhæfa má að aukin þátttaka Íslendinga í viðskiptum og alþjóðasamskiptum á undanförnum árum hafi tryggt hér hagvöxt og skapað okkur aukið sjálfstraust í alþjóðlegu samstarfi. Í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um þróun mannauðs lenti Ísland í öðru sæti yfir þau ríki sem náð hefðu lengst á þessu sviði. Þá var Ísland í áttunda sæti yfir þau ríki sem bjóða upp á bestu samkeppnishæfni í heiminum samkvæmt hinum svokallaða Alþjóðlega efnahagsvettvangi (World Economic Forum). Síðarnefnda könnunin var gerð á meðal leiðandi aðila í viðskiptalífi í heiminum.

EES samningurinn hefur haft gífurleg áhrif á efnahagslega uppbyggingu á Íslandi og er einn af hornsteinum íslenska velferðarríkisins. Nýleg undirritun samnings um stækkun EES var því afar mikilvægur áfangi þar sem Íslandi er áfram tryggður frjáls aðgangur að öflugasta viðskiptakerfi veraldar.

Íslensk útrás er grundvallaratriði fyrir áframhaldandi hagvöxt í landinu. Við setningu nýlegra laga um aðstoð við útflutning sem sett voru í lok árs 2002 var þetta markmið haft að leiðarljósi. Samkvæmt lögunum var komið á fót nýrri samráðsnefnd um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð sem ætlað er að leiða saman annars vegar alla þá opinberu aðila sem koma með einum eða öðrum hætti að útflutningsaðstoð og hins vegar hagsmunasamtök þeirra sem framleiða afurðir til útflutnings. Gert er ráð fyrir að opinberir aðilar og hagsmunasamtök deili hugmyndum um verkefni og áherslur innan samráðsnefndarinnar, svo færi gefist á því að samræma og nýta betur en áður það fjármagn sem fer til kynningar og markaðssetningar á Íslandi og íslenskum afurðum á erlendri grundu. Aðild að nefndinni endurspeglar nýja sýn á útflutning, þar sem framleiðendur þjónustu, menningarafurða og búvara taka sæti með framleiðendum hefðbundinna útflutningsvara eins og sjávarafurða og iðnvöru.

Samhliða þessum breytingum ákvað utanríkisráðuneytið skipulagsbreytingar til að efla þá þjónustu sem utanríkisþjónustan mun veita íslenskum fyrirtækjum og innlendum stoðstofnunum atvinnulífsins á erlendri grundu. Gerðir hafa verið samstarfssamningar við Útflutningsráð Íslands sem miðar að samstilltu átaki og skýrari verkaskiptingu á sviði útrásar. Þá hefur öllum sendiráðum verið gert skylt að sinna tilteknum skilgreindum verkefnum í þágu útflutningsaðstoðar og hefur Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins gert samninga þar um við allar sendiskrifstofurnar. Samkvæmt þeim er öllum sendiskrifstofum skylt að skilgreina markmið í þessu efni og allir útsendir starfsmenn vinna nú að verkefnum í þágu útflutningsaðstoðar.

Helstu vaxtarsprotar íslensks atvinnulífs felast í útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði, þar sem byggt er á hugviti og þekkingu í framleiðslu eða þjónustu. Að mínu mati felast í þessari uppbyggingu vaxandi viðfangsefni íslenskra utanríkisþjónustu þegar til lengri tíma er litið. Allt atvinnulífið þarf því á að halda öflugri utanríkisþjónustu með mörgum útstöðvum, þar sem veitt er eins mikil þjónusta og kostur er.

Ég hef rætt nokkuð um þróunarsamvinnu en mikill áhugi er á því að kanna með hvaða hætti samtvinna megi þróunarsamvinnu og íslenskan útflutning. Það yrði ekki gert í þeim tilgangi að skilyrða þróunarsamvinnu heldur til að kanna ávallt hvar hagsmunir veitenda og þiggjenda aðstoðar geti farið saman. Í þessu samhengi má t.d. nefna mjög athyglisvert samstarf í nýbyggðu frystihúsi við upptök árinnar Nílar í Úganda sem ég heimsótti í ferð minni þangað. Frystihúsið er búið tækjum sem keypt voru af íslenskum fyrirtækjum en Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggur til íslenskan sérfræðing til að aðstoða við uppsetningu og notkun tækjanna. Samstarf sem þetta er til fyrirmyndar og eftirbreytni.

9. Lokaorð

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna markar tímamót í íslenskri utanríkisstefnu. Hvort tveggja baráttan fyrir kjöri í ráðið og þátttaka í störfum þess gerbreytir ásýnd og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Með þessari ákvörðun eru send þau ótvíræðu skilaboð til umheimsins að Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki sem sé reiðubúið að leggja af mörkum til varðveislu friðar og öryggis í heiminum. Utanríkisþjónustan hefur verið efld á undanförnum árum og er nú betur í stakk búin til að takast á við svo umfangsmikið verkefni sem aðild að öryggisráðinu er. Ísland hefur nú sendiráð í höfuðborgum sjö af helstu iðnríkja heims. Sendiráðin utan Vesturlanda eru mikilvæg vegna viðskiptahagsmuna og út frá forsendum þróunaraðstoðar en þau gegna einnig mikilvægu pólitísku hlutverki. Þetta hlutverk fer vaxandi þegar af aðild að öryggisráðinu verður og sendiráðin eru í raun alger forsenda þess að framboð okkar til öryggisráðsins sé mögulegt.

Landfræðileg eða menningarleg einangrun skapar einungis falskt öryggi og er ekki raunhæfur valkostur í breytilegum heimi hnattvæðingar. Afskiptaleysi gagnvart fjarlægum hættum eða hörmungum er hvorki siðferðilega verjandi né samrýmanlegt íslenskum hagsmunum. Þessar staðreyndir hafa mótað utanríkisstefnuna á undanförnum árum og framboðið til öryggisráðsins er rökrétt framhald. Íslendingar geta miðlað af reynslu þjóðar sem hefur lifað hraðari pólitískar og efnahagslegar breytingar á skemmri tíma heldur en mörg dæmi eru um. Íslenskur reynsluheimur gerir Íslendingum kleift að eiga samstarf við meginhluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna á grundvelli samkenndar. Það er ekkert í íslenskri fortíð eða hagsmunagæslu sem ógnar öðrum ríkjum. Þess vegna getur Ísland brúað bil á milli ólíkra ríkjahópa. Að auki er sjónarhorn smærra aðildarríkis nauðsynlegt jafnræði innan öryggisráðsins.

10. Niðurlag

Virðulegi forseti

Framboðið er metnaðarfullt verkefni og á næstu árum skiptir miklu að allar íslenskar stjórnarstofnanir leggi hönd á plóginn. Alþingi sem löggjafarþing, þingflokkar og einstakir þingmenn hafa hlutverki að gegna. Með samstilltu átaki þjóðarinnar allrar verður markmiðinu náð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta