Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. desember 2003 UTN Forsíðuræður

Á aðventu 2003


Mér er það mikill heiður að fá að ávarpa söfnuðinn hér í þessari merku kirkju og okkur Sigurjónu er það sérstakt ánægjuefni að vera með ykkur hér í kvöld. Við viljum þakka sóknarpresti og sóknarbörnum fyrir þann vináttuvott.

Jólin eru persónuleg upplifun og sérhver einstaklingur á sínar dýrmætu minningar um þau. Jólahald byggir á hefðum forfeðra okkar sem við höfum kynnst við móðurkné og foreldrar okkar höfðu kynnst hjá foreldrum sínum. Fyrstu jól æviára minna var á heimili ömmu minnar, sem var mér mjög kær, en hún var fædd á þessum degi, 7. desember, fyrir 107 árum. Íslenskt samfélag hefur breyst mikið á einni öld og meira en á nokkrum öðrum tíma í sögu þjóðarinnar. Fyrir rúmum hundrað árum var ekki björgulegt í samfélaginu - náttúruhamfarir, miklir frostavetur, þúsundum saman fluttu Ísendingar vestur um haf í leit að betra lífi.

Staðreyndin var sú að landið bar ekki lengur mannfjöldann miðað við þá búskaparhætti og tækni sem þá tíðkaðist. Strax upp úr aldamótum fór ástandið að batna með aukinni tækni í sjávarútvegi og skemmst er frá því að segja að öllu hefur hér fleygt fram, menntun, heilsugæslu, velferð og efnahag fólksins. Í dag er Ísland óumdeilanlega í fremstu röð meðal þjóða heims miðað við þá mælikvarða sem mest eru notaðir í alþjóða samanburði.

Gaman er að velta því fyrir sér hvernig jólahald og þá sérstaklega innihald jólanna hefur breyst frá þeim tíma sem áður var getið til dagsins í dag með breyttum efnahag, tækninýjungum og öðrum framförum. Í frásögnum af jólahaldi fyrri tíma hvort sem við höfum heyrt af því frá ættingjum okkar eða lesið á bók er ljóst að kjarninn í jólahaldi var eins hugsaður í koti og á höfuðbóli.

Fjölskyldan safnaðist saman í baðstofu - reynt var að gleðja með smágjöfum- einkum börnin. Það besta sem til var matarkyns á bænum var borið fram en umfram allt voru jólin hátíð ljóss og friðar. Kveikt var á kertum og sálmar sungnir og jafnan farið með eitthvað fallegt, eins og það var kallað. Fólk ýtti frá sér áhyggjum hversdagsins-gleymdi amstrinu, þakkaði Guði, blessaði og bað hann um heilsu og hagsbót. Margar sögur eru til af gleðinni yfir litlu frá fyrri árum og bera allar vitni um að jólin voru heilög.

Nú er öldin önnur og við búum í samfélagi allsnægta, þó nú eins og áður sé gæðum þessa heims misskipt. Sem betur fer höfum við nú í landinu gott velferðarkerfi til að létta byrðar þeirra sem búa við andstreymi. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að búa svo um hnútana að hér ríki það félagslega réttlæti sem gerir öllum landsins þegnum kleyft að njóta hæfileika sinna.

Jólahald nú hefur verið gagnrýnt vegna kaupæðis og brasks og sagt er að fólk hafi misst sjónar á boðskap jólanna. Eitthvað kann að vera til í því, að allt þetta umstang sé ekki nauðsynlegt og villi mönnum sýn frá því sem dýrmætast er. En er ekki sami kjarni í jólahaldi nú og á öldum áður - og af hverju hlökkum við til jólanna? Að sönnu þykir börnum gaman að fá gjafir, en það er fyrst og fremst samveran, hátíðleikinn og hlýjan sem gerir þessa stund svo eftirsóknarverða.

Hvað er það sem gerir jólin öðruvísi en aðrar samverustundir fjölskyldu og vina? Það er nærvera Guðs - á jólum finnum við betur en í annan tíma að Guð er hjá okkur og með okkur af því að við opnum hjörtu okkar og tökum á móti honum. Nærvera Guðs er það sem gerir þessa samverustund sem allir hlakka til svona hátíðlega og einlæga. “Guð er hið innra með yður”, sagði frelsarinn.

Jólin eru stundum kölluð hátíð ljóssins. Á jólum birtir í sálum okkar og við leiðum hugann að hinum sönnu verðmætum í lífinu. Á jólum erum við minnug þess að við búum í hættulegum heimi þar sem glæpir og illvirki setja víða mark á mannlífið. Árið um kring fylgjumst við með fréttum af hryðjuverkum, þar sem blóði jafnt hermanna sem óbreyttra borgara er úthellt á fólskulegan hátt. Við slíkar aðstæður er oft erfitt að trúa á hið góða í manninum. Margt af því sem í daglegu tali flokkast undir stjórnmál á alþjóðlegum vettvangi er lítið annað en þrotlaus tilraun til að koma böndum á myrkraöflin. En við megum ekki láta bugast af bölsýni. Ef við trúum ekki á hið góða í manninum er allt okkar starf unnið fyrir gýg. Heilög ritning færir okkur heim sanninn um að þegar Guð hafði skapað himin og jörð - og þar með lífríkið - "þá leit hann allt er hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott." (Mósebók, 1.31). Hið góða er með öðrum orðum órofa hluti af sjálfu höfundarverki Guðs. Á jólum endurglæðum við og eflum trú okkar á afl hins góða í manninum.

Af hverju skynjum við ekki nærveru Guðs eins vel aðra tíma ársins og við gerum á jólum? Er það okkur sjálfum að kenna? Hafa nútíma þægindi og áhyggjuleysi um veraldlega hluti gert það að verkum að mörg okkar gefa sér ekki lengur tíma til að huga að sálarheill okkar og vera í sambandi við Guð? “Sá sem byrjar leitina að Guði hefur þegar fundið hann” - þessa hugsun setti fram heimspekingurinn Pascal, sem raunar var efasemdarmaður. Þetta er dásamleg ábending, sem segir að sá sem vill leita Guðs hefur þegar fengið neistann frá Guði. Hún þýðir jafnframt að hann er allstaðar, ef við eigum erindi við hann, hitt er aftur víst að hann á erindi við okkur.

Samband þjóðar og kirkju er því miklu nánara en svo að hægt sé að aðskilja með einföldum hætti. Áhrifanna gætir hvarvetna, ekki aðeins í löggjöf og velferðarkerfi. Hluti af setningu Alþingis ár hvert er guðsþjónusta í Dómkirkjunni. Það er táknrænt. Í þjóðsöng okkar lofum við Guð; “Ó Guð vors lands, ó lands vors Guð”. Þjóðsöngur okkar er sálmur ortur undir sterkum áhrifum frá 90. Davíðssálmi. Sannleikurinn er sá að kirkjan hefur gefið þjóðinni miklu meir en þjóðin kirkjunni. Trúin á Jesú Krist er grundvöllur okkar samfélags.

Ég hef að framan gert að umtalsefni þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa hér á landi síðustu 100 árin eða svo. Þessar breytingar hafa falið í sér ákveðna ógn við kirkjuna en ekki síður tækifæri. Ógnin felst í þeim mikla hraða sem einkennir samfélagið, hinni miklu samkeppni um tíma fólks. Það gefst alltof sjaldan tóm til að sinna trúnni. En í þessari breyttu þjóðfélagsmynd felast einnig tækifæri. Það hefur aldrei verið meiri þörf en nú á öflugri þjóðkirkju, sem veitir fjölskyldum og einstaklingum styrk. Þegar sjálfsmyndir brotna á hverjum degi, í þessum mikla hraða þar sem foreldrar vinna æ meir og börn mæta afgangi. Kirkjan á að veita öllum skjól svo enginn verði útundan.

Sálgæslan hlýtur að spila æ stærra hlutverk í starfi presta. Og kirkjan getur komið að þeim sem annars staðar fá ekki næga aðstoð. Í nýrri stefnumótun kirkjunnar er lögð áhersla á þetta atriði. Þar lýsir kirkjan vilja sínum til að leita uppi og styrkja þá sem skortir stuðning.
Þar eru nefndir einstæðingar, einstæðir foreldrar, langveikir og aðstandendur þeirra og þeir sem orðið hafa vímuefnum að bráð.

Í sambúð ríkis og kirkju er það auðvitað svo að trúin er - og á að vera - einstaklingsbundin og persónuleg. Náungakærleikur er ekki sprottinn frá ríkisvaldinu, heldur lifir hann í hjörtum fólksins í landinu. Engin skoðun eða stjórnmálastefna getur leyst af hólmi eða komið í staðinn fyrir hinar kristilegu dyggðir eða persónulega trúarsannfæringu. Saga tuttugustu aldar geymir dapurlegan lærdóm sem draga má af þjóðfélagslegum tilraunum í gagnstæða átt. Engu að síður er það svo að við Íslendingar lítum svo á að ríkinu beri einnig ákveðnar skyldur gagnvart þegnum þessa lands. Milli þjóðarinnar og stjórnmálamanna ríkir bærileg sátt um að við viljum hafa hér samfélag verlferðar, mannúðar og samhjálpar. Þessi þjóðarsátt hefur getið af sér íslenska velferðarsamfélagið sem stenst samanburð við það sem best gerist með öðrum þjóðum. Margt má þó betur fara og seint verður það kerfi gallalaust.

Margir hugsuðir, stjórnmálamenn og flokkar hér heima og erlendis vilja merkja sér velferðina og hugmyndafræðina þar að baki. Ef grannt er skoðað þá er megininntakið í þeirri hugsun hinn kristni kærleiksboðskapur. Þess vegna er kristin hugsun, kristin siðfræði aðalatriði árangurs í stjórnmálalegu starfi.

Þó að sagt sé að við búum í þjóðfélagi allsnægta, eiga margir um sárt að binda. Það verður eilíft viðfangsefni að rétta þeim hjálparhönd. Það er okkar að vinna það verk, fyrst og fremst sem einstaklingar en jafnframt sem hluti af kirkjunni og hluti af samfélagslegu valdi. Fátækt og einmanaleiki birtist sárar í ljósi jólanna en oft áður. En boðskapur jólanna er ný von, nýir möguleikar og trú á framtíðina í anda boðskapar Jesús Krists.
Jólin eru hátíð barnanna. “Leyfið börnunum að koma til mín”, sagði Kristur. Við sem eldri erum leggjum okkur fram að gera jólin að gleðistund fyrir börnin og viljum með því rétta börnum okkar og afkomendum þeirra það sama heilaga ljós sem brann í baðstofunni hjá öfum okkar og ömmum og okkur var afhent af foreldrum okkar.

Það er þetta ljós sem er sigurinn yfir myrkrinu og aldrei má slokkna. Megi það sama ljós lýsa okkur á jólum og nýju ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta