Ræða flutt á ársfundi Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands
Fáar þjóðir hafa gengið í gegnum eins ör umskipti og íslenska þjóðin gerði á liðinni öld. Íslendingar voru ein fátækasta þjóð í Evrópu en er nú ein sú ríkasta. Fá fordæmi eru fyrir slíkum breytingum á jafn skömmum tíma. Margir hafa velt því fyrir sér, hvernig á því stóð að þessi vaska víkingaþjóð sem byggði í upphafi upp svo blómlegt samfélag glataði þeim arfi. Hvernig stóð á því að þessir útrásarmenn sem mörkuðu spor sín um víða Evrópu, Grænland og Ameríku, einangruðust frá umheiminum?
Ég vona að ég verði ekki sakaður um einfalda söguskoðun þegar ég fullyrði að ein af meginástæðum þessa hnignunarskeiðs hafi verið skortur á eldiviði og viði til skipasmíða. Þessi staðreynd ásamt vaxandi tilhneigingu til að draga úr frelsi í viðskiptum, sem síðan leiddi til einokunar, dró smátt og smátt allan þrótt úr landsmönnum. Auðvitað kom fleira til en ég hygg að ég fari ekki fjarri sanni þegar ég staðhæfi að þetta séu meginástæður þessarar þróunar. Í nær þúsund ár urðu breytingar á íslensku samfélagi sáralitlar. Fátt eitt skildi Íslending þjóðveldisaldar og Íslending 19. aldar að.
Skortur á eðlilegu viðskiptaumhverfi og greiðum samgöngum leiddu til kyrrstöðu á flestum sviðum. Sjálfsþurftarbúskapur var í raun talin dyggð og frelsið fékk á sig afstæða mynd, því margir tóku að líta svo á að frelsið væri mest og best ef einstaklingarnir væru engum háðir og þyrftu sem allra minnst samskipti að hafa við yfirvöld og umheiminn.
Það skyldi engan undra, undir þessum kringumstæðum, að þegar Íslendingar sáu sjálfstæðisdrauma sína rætast að ákveðnar hugmyndir kæmu fram um stofnun skipafélags. Eimskipafélagið var stofnað 17. janúar 1914. Fyrirtækið var stofnað með þeim hvatningarorðum að ?siglingar væru nauðsyn, við verðum að sigla?. Fyrirtækið fékk réttilega viðurnefnið óskabarn þjóðarinnar. Almenningur sýndi stofnun fyrirtækisins meiri áhuga en dæmi eru um. Daginn sem fyrirtækið var stofnað var skólum lokað og ýmsum fyrirtækjum. Leitun var að fundarstað sem hýst gæti stofnfundinn. Við vorum nýlega minnt á þennan atburð því að fyrir fáeinum dögum síðan var þess minnst að 90 ár væru liðin frá stofnun félagsins.
Ekki er óeðlilegt að menn spyrji af hverju þessi mikli áhugi hafi verið á stofnun eins fyrirtækis. Á þessum tíma vissu allir svarið. Einangrun þjóðarinnar var að rofna. Síðan hafa Íslendingar lagt mikla áherslu á mikilvægi í samskiptum við umheiminn. Umfang viðskipta á samgöngusviðinu eru langtum meiri en stærð okkar gefur til kynna og má þar bæði nefna skipasamgöngur og flugsamgöngur og svo og önnur samskiptasvið.
Segja má að nýliðin öld hafi einkennst af hugmyndafræðilegum átökum sem kölluðu á uppgjör við fortíðina. Var frelsið fengið með auknum samskiptum við umheiminn - eða vegnaði okkur best ef við værum hlutlaus og engum háð. Síðarnefnda viðhorfið hefur beðið hvert skipsbrotið á fætur öðru - samt sem áður eimir ennþá eftir af áhrifum viðhorfa fortíðarinnar - því miður, verð ég að segja. Til að taka af öll tvímæli vil ég leggja áherslu á að skýr greinarmunur er í mínum huga á milli sjálfumglaðrar einangrunarhyggju eða þjóðernishyggju og föðurlandsástar og ég lít ekki svo á að föðurlandsást og alþjóðahyggja séu ósamþýðanleg - þvert á móti -þetta tvennt getur farið mjög vel saman.
Slík einangrunarhyggja er ekki séríslensk. Ég tel þó að hún sé ríkari hér en víða annars staðar, sem hægt er að útskýra bæði með sögulegum og landfræðilegum rökum. Þjóðernishyggja er að mínu mati skyld einangrunarhyggju og eru hörmulegar afleiðingar hennar öllum kunnar. Vaxandi hljómgrunnur við öfgafull sjónarmið þjóðernissinna vekja því víða óhug. Því má halda fram að alþjóðahyggja sé bein afleiðing tækniframfara eða þróunar en ég tel að einnig sé rétt að líta á hana sem svar við þjóðernishyggju. Efling alþjóðastofnana hefur haft mikil áhrif á alþjóðavæðinguna eins og starfsemi Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), svæðastofnana eins og Atlantshafsbandalagið , Evrópuráðið, ÖSE og fleiri bera vitni um. Þó held ég að tveir atburðir hafi skipt mestu máli fyrir þróun alþjóðavæðingarinnar a.m.k. í Evrópu, þ.e. stofnun Evrópubandalagsins og endalok kalda stríðsins.
Síðarnefndi atburðurinn hefur leitt til þess að Evrópusambandið verður 1. maí n.k. mesta efnahagsveldi heimsins, skipað 25 Evrópuríkjum og biðröð er þegar tekin að myndast við frekari stækkun þess. Nýjar línur hafa verið dregnar í Evrópu og álfan er mun friðvænlegri en hún hefur löngum áður verið.
Ísland hefur tekið þátt í þessari alþjóðavæðingu af nokkurri varúð - að mínu mati skynsamlega - látið öðrum eftir að feta vaðið en tekið af skarið þegar ljóst var að lítil hætta væri á ferðum. Við gengum í EFTA um áratug eftir stofnun þess, eða árið 1970, en aðild að þeim samtökum hefur reynst Íslendingum mjög gagnleg. Frá þeim tíma hafa mörg mikilvæg skref verið tekin í átt að auknu frelsi og stöðugleika í íslensku viðskiptalífi. Tímans vegna get ég aðeins stiklað á stóru í þeirri sögu. Ég vil sérstaklega nefna nokkra grundvallarþætti sem öðrum fremur hafa haft áhrif á þá velmegun sem við búum við í dag.
Í fyrsta lagi vil ég nefna endurskoðun íslensku sjávarútvegsstefnunnar. Menn geta haft ólíkar skoðanir á kvótakerfinu og víst er að það er ekki fullkomið. Hins vegar fer ekki á milli mála að þessi undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er mun öflugri en hún var áður. Atvinnugreinin er stöðugri, þær miklu sveiflur sem áður einkenndu sjávarútveginn þekkjast ekki lengur og veiðar eru með þeim hætti að aflabrestir hafa minni áhrif en þeir höfðu áður. Efnahagur landsmanna er þar af leiðandi stöðugri. Stöðugleiki í sjárvarútvegi hefur jafnframt haft mikil áhrif á tæknivæðingu hans, sem hefur haft mikil áhrif á aðrar atvinnugreinar m.a. útflutningsiðnað á tæknisviði.
Í öðru lagi hefur aðild okkar að innri markaði EES gjörbreytt viðskiptaumhverfinu á Íslandi. Ég stórefast um að aðrar þjóðir, nema þá helst þjóðir í sunnanverðri Evrópu, hafi gengið í gegnum eins örar breytingar og við. Með aðildinni að EES gerðumst við í raun beinn aðili að alþjóðavæðingunni. Samkeppnisreglur eru gjörbreyttar, eftirlit með heilbrigðum viðskiptaháttum hefur aldrei verið virkara. Í raun höfum við tekið yfir regluverk, sem á skömmum tíma hefur haft meiri áhrif á allt okkar líf en dæmi eru um í Íslandssögunni.
Í þriðja lagi vil ég nefna byltingakenndar breytingar á fjármálamarkaði. Fjármálageirinn hefur eflst verulega sem hefur skilað sér til atvinnulífsins. Þá höfum við nýlega einkavætt fjármálageirann og sjáum að leystur hefur verið úr læðingi drifkraftur sem ekki sér fyrir endann á. Útrás Íslendinga á þessu sviði er kærkomin enda hefðum við að öðrum kosti orðið eftirbátur annarra þjóða. Samhliða þessu hafa völd stjórnmálamanna á þessu sviði minnkað og er það vel, því stjórnmál eiga ekki heima í atvinnulífinu. Hlutverk stjórnmálamanna er hinsvegar að setja frelsinu umgjörð. Aðilar í atvinnurekstri sem halda að nýja íslenska stefnan sé fólgin í dýrkun gróðans án nokkurrar samfélagslegrar ábyrgðar eru á villigötum og stjórnmálamenn eiga ef nauðsyn krefur að vísa þeim réttu leiðina. Ég vil í framtíðinni í stað geysilegs hagnaðs bankanna sjá vexti til neytenda lækka meira svo og þjónustugjöld. Vextir þurfa að vera sambærilegir hér og í öðrum samkeppnisríkjum okkar. Hagnaður og afkoma fyrirtækja er undirstaða framfara en dýrkun gróðans sem markmið í sjálfu sér getur ekki annað en skaðað hag samfélagsins. Þarna verða þeir sem standa að viðskiptastarfsemi að sýna ábyrgð og festu.
Í fjórða lagi vildi ég nefna stóraukna menntun sem hefur haft mikil áhrif á atvinnulífið. Mjög miklar breytingar hafa orðið á þjónustu Háskóla Íslands við atvinnulífið. Námsmöguleikar eru mun fjölbreyttari og menntun frá flestum sjónarhornum séð betri. Auk þess hafa miklar framfarir orðið á tækni- og verkþekkingu.
Í fimmta lagi vil ég nefna stóriðju sem hefur haft mikil áhrif á íslenskan efnahag og verið orsakavaldur margvíslegra framfara.
Í sjötta lagi hefur ferðaiðnaðurinn eflst verulega og þar liggur mikill vaxtarbroddur.
Íslensk útrás er orðin staðreynd. Við reynum ekki lengur að framleiða vöru og þjónustu eingöngu fyrir okkar litla markað. Heimurinn er okkar markaður og við getum sérhæft okkur í því sem við gerum best. Að þessu leyti er alþjóðavæðingin eins og sniðin fyrir smærri þjóðir. Hinn smái markaður sem Ísland óneitanlega er, gat aldrei einn og sér verið þjóðinni hagstæður.
Á sama tíma hafa áhrif landamæra minnkað. Frjáls för er tryggð, ekki aðeins til Norðurlandanna eins og áður var, heldur til nánast allrar Evrópu. Fyrirtæki geta skotið rótum fyrirhafnarlítið nánast hvar sem er í Evrópu. Sífellt algengara er að íslensk fyrirtæki opni útibú í öðrum löndum og reki starfsemina þar sem aðstæðurnar eru hagkvæmastar og þjónustan best. Öflugur gjaldmiðill, traust vinnuafl, skattar og aðrir kostnaðarliðir skipta þar grundvallarmáli. En einnig skiptir sú þjónusta sem hið opinbera veitir miklu máli.
Íslensk utanríkisþjónusta gegnir margþættu hlutverki sem ekki eru tök á að fara yfir hér en á undanförnum árum hefur verið reynt að viðskiptavæða hana á öllum sviðum. Má nefna að nú er áskilið að sérhver starfsmaður sendiráðs skili framlagi í þágu hagsmuna viðskiptalífsins. Þessi þáttur hefur alltaf verið ríkur liður í starfseminni en ég vil staðhæfa að hann sé vaxandi. Verið er að taka upp verkefnabókhald og skriflegur samningur gerður við sérhverja sendiskrifstofu um tiltekið vinnuframlag í þágu viðskiptalegrar útrásar.
Íslensk utanríkisþjónusta verður alltaf smá í sniðum en hún er líklega ekki mikilvægari neinni annarri þjóð. Þjóð sem hefur engan her, verður að hafa samvinnu við aðrar þjóðir til að tryggja öryggi sitt. Stærð íslensku utanríkisþjónustunnar mun alltaf vera umdeild á Íslandi og við því er lítið að gera. Þar vegast á þau sjónarmið alþjóðahyggju og einangrunarhyggju sem ég vék að áðan. Sú fullyrðing að við getum ekki aukið þróunaraðstoð og á sama tíma beitt heilbrigðisþjónustu okkar aðhaldi kann að hljóma vel en felur í sér siðblindu að mínu mati. Samfélagsleg ábyrgð okkar er ekki dregin við landamæri. Við erum þjóð en ekki landsvæði og við höfum alltaf vitað að sérhver þjóð ber ábyrgð í samfélagi þjóðanna og smæð hennar undanskilur hana ekki ábyrgð. Hvernig geta menn réttlætt það í sínum huga að við eigum ætíð að greiða hlutfallslega miklu minna til lausnar alþjóðlegra vandamála en aðrar þjóðir, sem jafnvel eru síður aflögufærar? Erum við svona fljót að gleyma - höfum við ekki sjálf þegið slíkan stuðning?
Útrás íslensk atvinnulífs er háð því að samningar séu milli ríkja um viðskiptaumhverfi. Íslensk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir fjölmörgum slíkum samningum. EES samningurinn er þeirra mikilvægastur, en auk þess hefur EFTA gert fríverslunarsamninga við 20 ríki. Átta þeirra verða senn aðilar að EES en eftir sem áður verða fríverslunarsamningar í gildi við 12 lönd. Samningaviðræður um fríverslun eru nú í gangi við fimm ríki, þ.á m. Kanada, Egyptaland og Suður-Afríku. Fríverslun hefur verið tryggð við um 700 milljón manna markað. Tvísköttunarsamningar, fjárfestingasamningar og loftferðasamningar eru einnig mikilvægir fyrir íslenska útrás - og umfangsmiklir samningar eru og hafa verið gerðir á þeim sviðum.
Búast má við því að viðskiptalotunni innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar ljúki á næstu árum. Niðurstaða hennar skiptir miklu máli fyrir íslenskt viðskiptalíf og tollar munu lækka. Talið er, að ef dregið yrði úr núverandi viðskiptahindrunum um þriðjung myndi efnahagur veraldar bætast um 613 milljarða bandaríkjadala. En væntanlegir samningar hafa einnig áhrif á aðra þætti. Landbúnaður á Íslandi þarf að öllum líkindum að laga sig að miklum breytingum, hvort sem mönnum líkar betur eða ver.
Sendiráð skipta lykilmáli varðandi menningarleg, félagsleg og pólitísk samskipti þjóða. Starfsemi sendiráða byggja á svokallaðri gagnkvæmni. Íslensk sendiráð eru fá og aðeins 10 erlend ríki hafa hér sendiráð. Til samanburðar þá eru 58 sendiskrifstofur staðsettar í Noregi, 95 í Svíþjóð, 58 í Finnlandi og 87 í Danmörku.
Nýjasta sendiráðið er það japanska sem auðveldar menningarleg, pólitísk og viðskiptaleg samskipti ríkjanna, en Japan er eitt mesta efnahagsveldi veraldar. Ég get nefnt hér tvö lítil dæmi af handahófi um samskipti Íslands og Japan. Fyrir milligöngu sendiráðs okkar í Tokyo er nú verið að skoða möguleika á því að japanskt iðnfyrirtæki staðsetji sig á Íslandi. Niðurstaðan liggur ekki fyrir og enn er óvíst hvort ráðist verður í þessa fjárfestingu en erfiðasta fyrirstaðan í upphafi var sú að yfirvinna fordóma um að vara sem framleidd væri á Íslandi hefði þá ímynd að hún væri lakari að gæðum en aðrar evrópskar vörur. Þegar þessum fordómum hafði verið rutt úr vegi hófust viðræður fyrir alvöru. Annað dæmi má nefna að á næsta ári verður tekið upp beint leiguflug milli Íslands og Japan sem mun líklega skila hingað 2500 farþegum. Talið er að þeir muni skilja eftir rúmlega 600 milljónir króna í íslensku efnahagslífi. Þarna liggur gífurlega mikilvægur vaxtabroddur sem rækta þarf á næstu árum. Japanskir ferðamenn hafa ekki komið hingað í þeim mæli sem þeir gera til annarra þjóða og þarna þarf því að verða breyting á.
Ég hef hlaupið hratt yfir einstök atriði og gert alþjóðahyggjuna sérstaklega að umtalsefni. Við þurfum að viðhalda og efla aðkomu Íslands að alþjóðavæðingunni. Í því sambandi þurfum við að fylgjast vel með breytingum á okkar nánasta umhverfi og vera opin fyrir nánara samstarfi við Evrópu, því þar kann aðkoma okkar að aukinni alþjóðavæðingu að ráða úrslitum.
Að lokum vil ég leggja áherslu á að alþjóðahyggja og föðurlandsást eru ekki andstæður. Alþjóðahyggjumaður getur auðveldlega séð sóma af öllu því sem íslenskt er. Eða svo höfð séu eftir orð Hannesar Hafstein: ?Bara ef lúsin íslensk er - er þá bitið sómi.? Þetta viðhorf getur jafnt átt við um alþjóðahyggjumenn sem aðra.
Þegar ég heyri menn mæla með beinum eða óbeinum hætti í þá veru að Ísland eigi að standa utan alþjóðahyggjunnar minnir það á sögu sem ég heyrði eitt sinn um flugu sem lá á skotti bifreiðar sem keyrði eftir malarvegi og sagði þegar hún sá rykið þyrlast upp eftir veginum: ?Það er aldeilis að við þyrlum upp rykinu, ég og þessi bifreið?. Staðreyndin er sú að alþjóðavæðingin er aðeins nýhafin og við verðum að læra fljótt að feta stíginn inn í framtíðina. Við höfum ekkert val. Við erum komin aftur á upphafsreitinn í sögu okkar í íslenskri útrás - við förum aftur í víking - en beitum nútímalegri aðferðum.