Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. apríl 2004 UTN Forsíðuræður

Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál

Skýrsla ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál - Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.
PDF-skrá (4,23 Mb)

Herra forseti.

           Þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn árið 1995 var samfélag þjóðanna enn að glíma við afleiðingar loka kalda stríðsins og þær væntingar og vandamál sem blöstu við þegar járnhrammi kommúnismans var lyft af ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Á þeim tíma var viðtekin hugmyndafræði á Vesturlöndum að framundan væri björt framtíð samvinnu frjálsra ríkja samfara hnattvæðingu viðskipta. Í slíku samhengi er athyglisvert að minnast bókar sem bandaríski fræðimaðurinn Francis Fukuyama ritaði á fyrri hluta tíunda áratugarins undir heitinu “The End of History” eða lok sögunnar, þar sem því var haldið fram að lok kalda stríðsins og sigur frjálslynds lýðræðis hefðu leitt til loka hugmyndafræðilegrar togstreitu í heiminum. Þessi bók fékk mikið lof og var um margt lýsandi fyrir ríkjandi viðhorf á Vesturlöndum allt fram á síðustu ár.

 

            Þegar við horfum til síðustu missera og nýlegra hryllilegra hryðjuverka á Spáni, þá er ljóst að hugsunin um endalok hugmyndafræðilegrar togstreitu í heiminum nálgast barnslega einfeldni. Vestur-Evrópubúar bjuggu við stöðugleika og öryggi á áratugum kalda stríðsins en það byggðist á sameiginlegum varnarviðbúnaði og samstöðu ríkjanna í vestanverðri álfunni. Eftir kalda stríðið virtist langþráður friður án vopna í sjónmáli. Nú er þessum stöðugleika og öryggi ógnað en ekki af stórveldi handan landamæra heldur af öfgamönnum sem engu eira. Hugmyndafræði þeirra beinist gegn lýðræði og umburðarlyndi sem eru grundvallargildi Vesturlanda. Árásargjarn málflutningur og illgjörðir þessara öfgamanna staðfesta að markmið þeirra einskorðast ekki við eigin heimaslóðir heldur eru þau hnattræn. Vesturlandabúar, einkum Evrópubúar, hafa tilhneigingu til að leita rökrænna skýringa og málamiðlunarlausna vegna átaka. Margir spyrja því hvort ofbeldið sé ekki afleiðing dvalar bandarísks herliðs í Sádí-Arabíu, stuðnings bandaríska stjórnvalda við Ísrael eða íhlutunina í Írak ? Engar þessara skýringa standast því bandarískt herlið er að mestu horfið frá Sádí-Arabíu og stórfeldar hryðjuverkaárásir voru gerðar á sendiráð Bandaríkjanna í Kenía og Tansaníu í sama mund og friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs stóð sem hæst fyrir sex árum. Þá getur andstaða við íhlutunina í Írak ekki skýrt mannskæð hryðjuverk sömu öfgamanna úr hópi súnníta-múslima gegn sjíta-múslimum og Kúrdum sem eru mikill meirihluti írösku þjóðarinnar.  Ennþá síður getur stuðningur við íhlutunina í Írak valdið hótunum íslamskra öfgamanna um hryðjuverk í Frakklandi.  Evrópubúar verða að horfast í augu við þá staðreynd að það eru ekki rökrænar skýringar á öllu atferli. 

 

            Stjórnvöldum á Vesturlöndum hefur verið legið á hálsi fyrir að reyna að auka öryggi almennings með því að berjast gegn öfgaöflunum og víghreiðrum þeirra í stað þess að sýna samningsvilja. Þeir sem tala svo misskilja þá hættu sem við stöndum frammi fyrir. Þeir ganga út frá að hryðjuverkamennirnir séu réttmætir fulltrúar hins íslamska menningarheims þrátt fyrir fjöldamorð þeirra í Alsír, Indónesíu, Marokkó, Sádí-Arabíu, Túnis og Tyrklandi. Öfgamenn hafa tilheyrt öllum trúarbrögðum og verið uppi á öllum tímum. Því þarf að gera skýran greinarmun á múslimum annars vegar og íslömskum öfgamönnum hins vegar. Á hinn bóginn má enginn vegna svonefndrar pólitískrar rétthugsunar veigra sér við að horfast í augu við augljós þjóðfélagsvandamál í mörgum ríkjum múslima. Um hvað vilja menn semja við Al kæda eða gistiríki liðsmanna samtakanna ? Útrýmingu Ísraelsríkis ? Afturhvarf hvað varðar jafnrétti kynjanna eða réttindi samkynhneigðra ? Forræði trúarlegra laga gagnvart veraldlegum lögum ? Gleymum því ekki hver pólitísk markmið Al kæda og viðlíka samtaka eru. Það er með öllu óskiljanlegt að samningar við slík myrkraöfl skuli hvarfla að nokkrum upplýstum manni því samningsefnið getur ekki orðið annað heldur en grundvallargildi lýðræðisríkja. Það duga engar vífillengjur til að leyna því að allt  tal um samninga felur óhjákvæmilega í sér málamiðlanir, verðlaunar hryðjuverkamennina og svívirðir minningu fórnarlamba þeirra. Þaðan er stutt í þá siðferðilega brengluðu hugsun að fórnarlömbin hafi með einhverjum hætti kallað hryðjuverkin yfir sig og beri því ábyrgð á þeim fremur en illvirkjarnir sem þau vinna.

 

            Því er einnig oft haldið fram að það dugi ekki að ráðast gegn hryðjuverkamönnunum einum heldur þurfi að eyða orsökum hryðjuverkanna. Þetta er gjarnan nefnt í sömu andrá og fullyrðingar þess efnis að hatrið eigi sér rætur í kúgun og fátækt. Flestir af þekktari liðsmönnum Al kæda og hliðstæðra samtaka eru hvorki fátækir né ómenntaðir og vilja ekki sjá lýðræði eða mannréttindi að vestrænni fyrirmynd. Á heimaslóðum vilja þeir kollvarpa núverandi veraldlegum stjórnvöldum til að koma á trúarlegu alræði og erlendis vilja þeir vega að samfélögum sem stjórnast ekki af sama trúarofstæki. Virðingarleysi þeirra fyrir lífi annarra mótast af svipuðum hvötum og tortímingarverk nasískrar herraþjóðar og sjálfskipaðrar kommúnískrar úrvalssveitar á liðinni öld og við slíkri siðblindu finnast engin skynsamleg svör - hvorki nú né þá. Samanburður við vopnaða sjálfstæðisbaráttu í nýlendum eða kúgaðra minnihlutahópa í einræðisríkjum er fráleitur.

 

Það er vissulega rétt að öfgar og ofbeldi geta nærst á vonleysi og örbirgð en gætum að því að samfélag þjóðanna er að reyna að bæta hag stríðshrjáðra múslimaríkja í andstöðu við íslamska öfgamenn sem vilja skapa sem mest óöryggi og neyð sem leið til valda. Þeir vilja ekki lýðræðislega stjórnarhætti eða endurreisn í Palestínu, Írak og Afganistan, né heldur friðsamlega sambúð þjóða á Balkanskaga. Því er mikið í húfi að stuðningur samfélags þjóðanna skili árangri einmitt á þessum stöðum.

 

            Auðvitað ber lýðræðisríkjum skylda til að stuðla að átakavörnum á grundvelli réttlátra samskipta ríkja og þjóða og það er nokkuð sem Evrópuríki öðrum fremur hafa lært af biturri reynslu. Þannig er hægt að draga úr svæðisbundinni eða alþjóðlegri spennu en það verður aldrei náð fullkomnu öryggisstigi af ástæðum sem fyrr hafa verið nefndar. Íslensk stjórnvöld vilja sem fyrr stuðla að friðsamlegri lausn svæðisbundinna deilumála, ekki síst fyrir botni Miðjarðarhafs, en slíkar lausnir þarf að finna í andstöðu við öfgamennina enda hafna þeir friðsamlegri lausn á deilum Ísrael og Palestínu. Um leið og lýðræðisríki berjast gegn hryðjuverkum hljóta þau að fordæma hvers konar ögrandi gagnaðgerðir, m.a. aftökur án dóms og laga.

 

Herra forseti.   

Nú skiptir sköpum að samstaða lýðræðisríkja bresti ekki og að baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi verði hert um allan helming með öllum löglegum aðferðum. Öll ríki, smærri sem stærri, verða að leggja af mörkum í þeirri baráttu. Yfirlýstur einbeittur vilji til að sigrast á hryðjuverkamönnum, jafnvel þótt það taki ár eða jafnvel áratugi, er forsenda árangurs. Um leið verða lýðræðisríki að gæta þess að ganga ekki ómeðvitað erinda hryðjuverkamanna með tilgangslausri skerðingu á frelsi eigin borgara eða óþörfu harðræði gagnvart borgurum annarra ríkja.

 

Ísland hefur staðið með nágrannaþjóðum í baráttunni gegn þessum ógnvaldi sem vegur úr launsátri að þeim sem síst skyldi. Liður í þeirri baráttu hefur verið fullgilding og framkvæmd viðeigandi alþjóðasamninga en sérstakt átak í því efni var gert í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin árið 2001 og ákvæði slíkra samninga innleidd í íslensk lög. Þá hefur Ísland verið í forystu fyrir samráði um undirbúning hagnýtra aðgerða gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi á vettvangi ÖSE.  Íslendingar verða nú að vinna náið með öðrum lýðræðisríkjum, einkum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna og ÖSE að frekari varnaraðgerðum til að tryggja öryggi almennings gegn þessari vá. Það má ekki gleyma því að alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi og skipulögð glæpastarfsemi fara iðulega saman og því hefur verið lögð áhersla á eflingu innra öryggis, m.a. á Keflavíkurflugvelli og með eflingu sérsveitar Ríkislögreglustjóra.     

 

 

 

            Voðaverkin á Spáni eiga sér stað í sama mund og öryggis- og varnarmál Íslands eru í brennidepli.  Íslensk stjórnvöld hafa lagt af mörkum til nauðsynlegrar þróunar Atlantshafsbandalagsins og eflingar samskipta þess við einstök ríki, samtök og stofnanir, þ.á m. Evrópusambandið. Það er ljóst að Ísland mun sem aldrei fyrr þurfa að reiða sig á sameiginlegar varnarskuldbindingar bandalagsins en til þess að þær standist til lengdar þurfa smærri sem stærri aðildarríki að vera veitandi jafnt sem þiggjandi. Það hefur þegar sannast að þótt framlög Íslands til aðgerða bandalagsins séu hlutfallslega takmörkuð þá geta þau engu að síður skipt miklu fyrir bandalagið í heild og um leið eflt þá samstöðu sem felst í 5. grein Norður-Atlantshafssamningsins.

 

            Hvað varðar tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna, þá tókst á síðastliðnum áratug að tryggja að eðlilegar breytingar á skipan varnarliðsins í ljósi breyttra aðstæðna færu saman við áframhaldandi nauðsynlegan varnarviðbúnað hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa síðan verið reiðubúin til efnislegra viðræðna við bandarísk stjórnvöld um hvernig trúverðugur viðbúnaður gæti orðið á Íslandi þegar til lengri tíma væri litið. Eins og kunnugt er hafa fulltrúar ríkjanna átt undirbúningsfundi en efnislegar viðræður á grundvelli skilgreindra lágmarksvarna hafa ekki enn hafist. Það er ófrávíkjanleg afstaða íslenskra stjórnvalda að trúverðugur varnarviðbúnaður á Íslandi sé forsenda áframhaldandi varnarsamstarfs. Ógnin sem öllum vestrænum lýðræðisríkjum stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi hefur hert þessa afstöðu. Málamyndavarnir veita falskt öryggi og geta því verið verri en engar. Það breytir því ekki að Íslendingar verða sjálfir að bera ábyrgð á innra öryggi og þeir verða að sýna vilja til aukinnar þátttöku í stuðningi við ytri landvarnir ekki síst með aukinni þátttöku í friðaraðgerðum á vegum Atlantshafsbandalagsins.

 

            Á undanförnum árum hefur öryggishugtakið orðið mun víðtækara heldur en áður og ljóst að orsakasamhengi getur verið á milli öryggismála, mannréttindamála, þróunarmála, auðlinda- og umhverfismála svo dæmi séu nefnd. Þannig geta áþreifanleg framlög Íslands eða  starfskraftar  Íslendinga á vettvangi átaka eða neyðar stuðlað að staðbundnu og jafnvel svæðisbundnu öryggi, virðingu fyrir mannréttindum, efnahagslegri og félagslegri þróun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Í utanríkisráðuneytinu hefur verið unnið að því að þróa heildstæða sýn með þessum hætti sem endurspeglast í framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það eru óeigingjarnar hvatir sem liggja að baki áherslu íslenskra stjórnvalda á fyrrnefnda málaflokka.

 

            Með stofnun Íslensku friðargæslunnar innan utanríkisráðuneytisins var stigið skref sem á sér ekki hliðstæðu. Þannig gat smærra ríki án eigin herafla eða atvinnuhjálparsveita loks lagt af mörkum til friðarframkvæmdar, friðargæslu, eftirlitsaðgerða og neyðaraðstoðar með raunhæfum og gagnlegum hætti. Nú um mánaðarmótin lauk hlutverki Íslendinga á Pristína-flugvelli í Kosóvó þegar stjórnunin var fengin Sameinuðu þjóðunum og innan tæpra tveggja mánaða tekur Ísland við hliðstæðu hlutverki á Kabúl-flugvelli í Afganistan. Gert er ráð fyrir að 15 starfsmenn Íslensku friðargæslunnar fari í stjórnunarstöður á flugvellinum en þar verði alls um 500 starfsmenn. Þetta endurspeglar að Ísland hefur hlutverki að gegna og er treyst til mikilvægra verka. Með þessu getur Ísland lagt að mörkum til eflingar lýðræðis og mannréttinda í Afganistan sem var nánast í rúst eftir hörmungar stríðsátaka í tæpan aldarfjórðung.  Þar höfðu hryðjuverkamenn hreiðrað um sig til að herja á grundvallargildi lýðræðisríkja.

 

            Það er óþarft að fjölyrða um víxlverkun grundvallarmannréttinda og friðar. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á mannréttindamál í öllum milliríkjasamskiptum, bæði tvíhliða og á alþjóðavettvangi. Á sama tíma hefur verið deilt um hvaða aðferðir dugi best til að stuðla að virðingu fyrir mannréttindum. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt verið reiðubúin til skoðanaskipta um mannréttindamál og talið það vænlegra til árangurs heldur en að sniðganga stjórnvöld þeirra ríkja sem eru ásökuð um mannréttindabrot. Það hefur engu breytt um gildi eða megináherslur Íslands né heldur um að þeim hefur verið komið á framfæri með afdráttarlausum hætti, ýmist milliliðalaust eða á vettvangi alþjóðlegra og fjölþjóðlegra samtaka og stofnana. Sem dæmi um almennar áherslur Íslands má nefna réttindi kvenna og barna, þ.á m. að hlutskipti kvenna sem algengra fórnarlamba styrjalda verði sérstakur gaumur gefinn. Í því sambandi stóð utanríkisráðuneytið nýlega fyrir ráðstefnu um alþjóðlegar aðgerðir gegn mansali sem endurspeglar tengslin á milli skipulagðrar glæpastarfsemi og mannréttindabrota þar sem ekkert land er undanskilið. Hvað varðar Sameinuðu þjóðirnar sérstaklega er æskilegt að umbætur á starfsemi samtakanna nái einnig til skilvirkari meðferðar mannréttindamála og þá jafnvel þannig að öryggisráðið fjalli í auknum mæli um mannréttindabrot.

 

            Þróunarsamvinna er önnur leið til að stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og friði. Íslendingar hafa á undanförnum árum sýnt vaxandi vitund um þá ábyrgð sem fylgir því að brjótast frá örbirgð til velmegunar. Á undanförnum níu árum hefur framlag Íslands til fjölþjóðlegrar og tvíhliða þróunarsamvinnu vaxið úr 0,11% í 0,19% af landsframleiðslu en það jafngildir aukningu úr 489 milljónum króna í 1,645 milljónir króna á ári. Nú skiptir miklu að þessi jákvæða stígandi haldi áfram.  Það er mér því mikið ánægjuefni að greina frá því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka framlög til þróunarmála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, úr 0,19% á yfirstandandi ári í 0,35% á árunum 2008 til 2009. Þessi meiriháttar hækkun í umfangi þróunarsamvinnu skipar Íslandi á bekk með öðrum Evrópuþjóðum og er stórt skref í átt að takmarki Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um að iðnríki verji 0,7% af landsframleiðslu sinni til þróunarmála.  Þá þarf að byggja á þeirri verðmætu reynslu sem fengist hefur í farsælu tvíhliða starfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í fjórum ríkjum sunnanverðrar Afríku og á þeirri þekkingu á fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu sem fengist hefur í núverandi samræmingarforystu Íslands fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan Alþjóðabankans.

 

            Auðlinda- og umhverfismál geta beinlínis talist öryggismál þegar um lífsafkomu þjóða er að ræða og það á e.t.v. öðrum fremur við um Íslendinga. Þessi málaflokkur hefur á undanförnum árum orðið sífellt mikilvægari og meir áberandi viðfangsefni utanríkisráðuneytisins, hvort tveggja vegna þess að þau krefjast í flestum tilvikum alþjóðlegra eða fjölþjóðlegra lausna og að hagsmunir og reynsla Íslendinga veita þeim sérstakt sjónarhorn. Árangursríkri formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu lýkur síðar á þessu ári en þátttakan í ýmsu svæðisbundnu samstarfi á Norðurslóðum heldur fyrir vikið áfram á styrkari grunni en áður. Ennfremur blasa við víðtæk verkefni á sviði auðlinda- og umhverfismála eins og  umfjöllun um málefni hafsins og nýting endurnýjanlegra orkugjafa. Sjálfbær nýting sjávarspendýra er ein grein af þessu meiði og aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu styrkir stöðu Íslands í hvalveiðimálum bæði frá þjóðarréttarlegu og pólitísku sjónarmiði.

 

            Í þessu samhengi má nefna að unnið er að greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna til að styrkja tilkall Íslands til landgrunns utan 200 sjómílna á Reykjaneshrygg, á Hatton-Rockall-svæðinu og í svonefndri Síldarsmugu. Gert er ráð fyrir að verkefninu, sem felur m.a. í sér mælingar á landgrunnsvæðum sem samsvara þrettánföldu landsvæði Íslands verði lokið árið 2006.

 

Herra forseti.

            Öryggi Íslands er samofið öryggi annarra hluta Evrópu. Meiriháttar átök eða spenna í álfunni myndu hafa bein áhrif á Íslandi og sama má segja um veruleg efnahagsleg áföll í Evrópu. Margþætt samskipti Íslands við önnur Evrópuríki, einkum aðildarríki Evrópusambandsins, eru því og verða ráðandi þáttur í íslenskri utanríkisstefnu. Það kemur ekki í veg fyrir náin tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna heldur styrkir þau, enda eru sterk Atlantshafstengsl keppikefli flestra Evrópuríkja. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur það verið markmið íslenskra stjórnvalda að halda tengslum bæði til austurs og vesturs og það verður áfram augljóslega í þágu íslenskra hagsmuna.

 

            Frá íslensku sjónarhorni var síðasti áratugur liðinnar aldar öðru fremur tímabil gagngerrar aðlögunar að sífellt vaxandi alþjóðasamskiptum. EES-samningurinn var veigamikill þáttur í þessari aðlögun. Gerð og framkvæmd EES-samningsins gerbreytti ekki einungis formlegum tengslum Íslands við Evrópusambandið heldur öllu starfsumhverfi einstaklinga og fyrirtækja hér á landi. Samningurinn hefur einnig orðið aflvaki þróunar íslenskrar stjórnsýslu. Eitt mikilvægasta viðfangsefni síðustu ára var án efa stækkun EES sem nú er í höfn. Sú niðurstaða sem náðist í samningum samfara stækkun hefur orðið til að renna styrkari stoðum undir EES-samstarfið. Fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins mun eflaust hafa einhver áhrif á daglega framkvæmd EES-samningsins en jafnframt er vert að hafa í huga að stækkunin felur í sér margvísleg ný tækifæri.  Oftsinnis hefur verið bent á að EES-samningurinn var gerður fyrir áratug á meðan Evrópusambandið hefur tekið víðtækari breytingum á þessum tíma. Því voru það nokkur vonbrigði að ekki tókst að afla fylgis þeirri hugmynd að kanna hvort endurskoða bæri EES-samninginn í ljósi fyrrnefndra breytinga. Mín afstaða er skýr. Það verður að fara fram upplýst og fordómalaus umræða um þær leiðir sem Íslendingum eru færar í samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Þeir sem ákafast styðja aðild virðast falla í þá gryfju að telja niðurstöðuna sem fengist í viðræðum við Evrópusambandið liggja fyrir. Hver hefði getað séð fyrir þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað á síðasta áratug og hver treystir sér til að spá fyrir um hvaða veruleiki blasi við á þessu sviði að tíu árum liðnum ?

 

            Í ljósi þeirra miklu hræringa sem við höfum gengið í gegnum og ekki sér fyrir endann á verða Íslendingar að vera við öllu búnir og bregðast við breytilegum aðstæðum á hverjum tíma. EES-samningurinn hefur staðist tímans tönn ekki síst fyrir árvekni og þrautseigju stjórnvalda. Þegar litið er fram á veginn sést að mörg mál bíða úrlausnar og það er stöðugt viðfangsefni íslenskra stjórnvalda að standa vörð um íslenska hagsmuni á innri markaði Evrópusambandsins. Mikilvægt er að nýta þau tækifæri sem samningurinn býður upp á til að hafa áhrif á mótun reglna innri markaðarins. Utanríkisráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að skoða hvernig bæta megi aðgengi sveitarstjórna hér á landi að ákvarðanatöku í málefnum sem varða hagsmuni þeirra. Þá verður einnig búið svo í haginn með nýjan þróunarsjóð EFTA að þar opnist tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem hyggja á samstarf við fyrirtæki í nýju aðildarríkjunum.

 

            Evrópumálin verða enn í deiglunni. Framundan eru miklar breytingar. Ekki er séð fyrir endann á stækkun Evrópusambandsins og í mótun er ný stofnskrá þess. Það skiptir því miklu að Íslendingar haldi vöku sinni og hafi ráðrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum á eigin forsendum.

 

            Kenningin um endalok sögunnar, sem vísað var til í upphafi, sýnir hversu vafasamt getur verið að reyna að alhæfa um framtíðarþróun alþjóðamála. Samt má leiða af líkum að framundan sé tímabil alþjóðlegs óstöðugleika vegna áframhaldandi  hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Þá er gerjun vegna hnattvæðingar á sviði viðskipta og menningar og meðfylgjandi stórfelldum fólksflutningum alls ekki lokið. Í slíku alþjóðlegu umhverfi þurfa Íslendingar að halda vel á sínu því smærri ríki verða fyrirsjáanlega meir en áður að vinna sér áhrif og stuðning til að geta staðið vörð um eigin hagsmuni. Þar gegnir öflug  utanríkisþjónusta lykilhlutverki. Uppbygging utanríkisþjónustunnar er eðlileg afleiðing af auknum umsvifum Íslendinga á alþjóðavettvangi og auknum vilja til að leggja af mörkum í samræmi við getu. Þróun vinnubragða utanríkisþjónustunnar er í samræmi við breyttar aðstæður og nýjar þarfir og það sést m.a. á tæknivæðingu og greiðri upplýsingamiðlun. Forgangsröðun verkefna utanríkisþjónustunnar er viðvarandi viðfangsefni og þarf hér eftir sem hingað til að taka mið af þróun alþjóðamála og hámarksnýtingu mannauðs og fjármuna. Þótt gera verði ráð fyrir því að framtíðarvöxtur utanríkisþjónustunnar haldist í hendur við verkefnin þá verður einnig hugað að því hvernig ná megi fram sem mestri hagræðingu með tilfærslu starfsmanna og fjármuna innan ráðuneytis og sendiskrifstofa. Opinber rekstur af þessu tagi þarfnast sífelldrar endurskoðunar, ekki síst í aðdraganda framboðs til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, vegna hækkandi framlaga til þróunarsamvinnu og með virkari viðskiptaþjónustu. Ég hef því skipað starfshóp á vegum utanríkisráðuneytisins sem ætlað er að skila tillögum um frekari hagræðingu. 

 

 

 

Herra forseti.

            Við myndun núverandi ríkisstjórnar urðu stjórnarflokkarnir sammála um að 15. september n.k. tæki Framsóknarflokkurinn við forsætisráðuneytinu og Sjálfstæðisflokkurinn við utanríkisráðuneytinu. Breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar munu ekki hafa í för með sér breytingar á stjórnarsáttmálanum og utanríkisstefnan verður því óbreytt í grundvallaratriðum. Mikil samstaða hefur verið á milli stjórnarflokkana í utanríkismálum á undanförnum árum. Skilin á milli innanríkis- og utanríkismála hafa orðið óskýrari á undanförnum árum og um leið hefur samráð forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytisins um utanríkispólitísk viðfangsefni orðið nánara og samstarf utanríkisráðuneytisins við önnur ráðuneyti meira. Þessi þróun mun halda áfram á næstu árum.

           

            Samkvæmt ofangreindu lýkur senn rúmlega níu ára starfi mínu sem utanríkisráðherra. Staða Íslands á alþjóðavettvangi hefur gerbreyst á þeim tíma. Umsvif Íslendinga erlendis hafa tekið stakkaskiptum og utanríkisviðskipti ekki lengur bundin við fá og stór fyrirtæki í sölu sjávarfangs, flutningum og innflutningi. Fjölmargir aðilar í þjónustu og iðnaði sinna nú útflutningi og íslensk fyrirtæki eru orðin öflugir þátttakendur í viðskiptalífi nágrannaríkja. Hornsteinninn að þessum breytingum var lagður með góðum viðskiptasamningum og skynsamlegri hagsmunagæslu Íslands á alþjóðavettvangi. Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að vera í forystu fyrir mótun og framkvæmd íslenskrar utanríkisstefnu á þessum þroskaárum og sjá árangur margra þeirra verka sem unnið hefur verið að.

 

Það má líkja sögu lýðveldisins við þroskaferli manneskju. Páll postuli lýsti honum þannig: “Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.” Á grundvelli þessarar líkingar sleit Ísland barnsskónum á síðasta áratug og varð fullþroska þátttakandi í samfélagi þjóðanna. Íslendingar njóta nú allir þess ávinnings sem þessar breytingar höfðu í för með sér en þurfa jafnframt líka að axla aukna ábyrgð og skyldur. Við þurfum að leggja af mörkum í samræmi við getu okkar til þeirra þjóða sem njóta ekki sama öryggis og hagsældar, minnug þess að Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu í upphafi síðustu aldar. Við þurfum að byggja á reynslu okkar af Evrópusamstarfinu til að tryggja hagsmuni í Evrópu til framtíðar. Við þurfum að vera sjálfum okkur samkvæmir og traustir samstarfsmenn vinaþjóða og leggja gott eitt til á alþjóðavettvangi eftir okkar besta hyggjuviti. Við þurfum að hafa skilvirka utanríkisþjónustu til að fylgja eftir útrás íslensks viðskiptalífs og tryggja því nauðsynlegt markaðsaðgengi og skilyrði til viðskipta. Við eigum að vera stoltir þátttakendur í samfélagi þjóðanna án heimóttaskapar eða steigurlætis.

 

Þegar horft er um öxl finnst mér mest um vert að sjá hversu almenn samstaða hefur verið á meðal þjóðarinnar um það að nýta sem best þau tækifæri sem skapast hafa á þessum umbrotatímum með bjartsýni og metnað að leiðarljósi. Vonandi ber okkur gæfa til að fylgja sömu kennileitum um ókomin ár.

 

               

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta