Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. júlí 2004 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Stækkun innritunarsalar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Góðir gestir,

Ég vil byrja á að óska Flugstöðinni til hamingju með stækkun innritunarsalar flugstöðvarinnar. Tímabært var orðið að stækka hann til að mæta þeirri aukningu sem hefur orðið í farþegafluginu á undanförnum árum. Mjög vel hefur tekist til með þessa stækkun en hér er mun bjartara yfir en áður.

Hlutverk stjórnvalda er að skapa aðstöðu fyrir áframhaldandi uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins og flugsins en það helst í hendur við þann mikla vöxt sem verið hefur á síðustu árum á þeim sviðum. Öflugir flugrekendur eru forsenda fyrir því að tekist hefur að fjölga farþegum en á síðasta ári fóru rúmlega 1,3 milljón farþega um Keflavíkurflugvöll. Nýlega tilkynnti Icelandair um metnaðarfullar áætlanir um fjölgun áfangastaða í sinni sumaráætlun og Iceland Express hefur einnig aukið sína ferðatíðni. Þá sýna nýlegar tölur að farþegum hefur fjölgað um 22% það sem af er þessu ári miðað við sama tíma í fyrra en það er 12% yfir áætlunum Flugstöðvarinnar á þessu ári en þær gerðu ráð fyrir að tæplega 1,5 milljón farþega færu hér um. Ef heldur áfram sem horfir fara alls milli 1,6 og 1,7 milljón um flugstöðina á þessu ári. Til samanburðar voru farþegar hér árið 1987 einungis rúmlega 700 þúsund.

Þegar flugstöðin var tekin í notkun árið 1987 óraði mönnum ekki fyrir þessari hröðu og jákvæðu uppbyggingu hér á flugvellinum sem einkum hefur átt sér stað síðastliðin tíu ár. Til að mæta þessari aukningu var farið út í viðbótarframkvæmdir eins og byggingu Suðurbyggingarinnar, byggingu fraktflughlaðs, nú með stækkun innritunarsalar og framundan eru stækkun komusalar og framkvæmdir á annarri og þriðju hæð hússins eins og framkvæmdastjórinn vék að hér áðan. Þetta sýnir vel þær miklu breytingar sem hafa orðið á umsvifum hér á Keflavíkurflugvelli og þann vöxt sem hefur orðið í ferðamannaiðnaðinum og fluginu hér á Íslandi.

Samtímis hafa fyrirtæki séð sér hag í að efla sína aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Þessi jákvæða þróun á undanförnum árum hefur leitt til fjölgunar starfa á Suðurnesjum og sú þróun mun halda áfram á næstu árum. Flugvöllurinn og þjónustan í kringum hann skapar nú sífellt fleiri störf enda er hann orðinn stærsti vinnustaður hér á Suðurnesjum þar sem samtals vinna hátt í tvö þúsund manns. Þetta er ánægjuleg þróun ekki síst í ljósi þess samdráttar sem hefur verið hjá varnarliðinu að undanförnu.

Það er auðvelt fyrir utanríkisráðherra að fylgjast með þessari þróun þar sem hann er sífellt á ferð til og frá landinu um Keflavíkurflugvöll. En að öllu gamni slepptu þá hafa málefni Keflavíkurflugvallar verið fyrirferðamikil á borði utanríkisráðuneytisins á þessum níu árum sem ég hef gegnt starfi utanríkisráðherra enda um afar mikilvægt mál að ræða sem skiptir landsmenn alla miklu máli. Á þessum tíma hef ég verið það heppinn að fá að taka þátt í og fylgjast með vexti flugvallarins og séð hvernig hann hefur þróast til betri vegar, bæði hvað varðar rekstur og þjónustu.

Góðir gestir,

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim starfmönnum sem vinna hér fyrir mikið og gott starf. Það gleymist oft að nefna að gott og kraftmikið starfsfólk er lykilatriði í árangursríku starfi fyrirtækja og stofnanna. Þjónusta og umhverfi flugstöðvarinnar og flugvallarins alls er nú mun betra en áður var og frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar sem munu enn frekar bæta flugstöðina og þjónustu við ferðamenn og flugrekstraraðila. Ég vil þakka það góða samstarf sem ég hef átt við alla þá sem kom að starfseminni hér á flugvellinum og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta