Handverkshátíð að Hrafnagili
Góðir hátíðargestir
Það er mér og Sigurjónu að sönnu heiður að vera hér við upphaf á þessari glæsilegu handverkshátíð. Eyjafjarðarsveit hefur staðið fyrir þessari hátíð hér að Hrafnagili undanfarin 12 ár og ber vitaskuld að fagna frumkvæði sveitarfélagsins sem ber vott um mikinn og jákvæðan metnað fyrir hönd íslensks handverks.
Íslenskt handverk byggir á gömlum og þjóðlegum merg. Fyrr á öldum fékk listfengið alþýðufólk útrás fyrir sköpunargáfu sína í handverkinu. Við Íslendingar eigum margann hagleiksgripinn frá fyrri öldum sem telja má meðal helstu þjóðargersema okkar. Við þekkjum nöfn fæstra þeirra listamanna sem sköpuðu þessa dýrgripi, oft við erfiðar aðstæður þar sem efni og verkfæri til smíðinnar voru af skornum skammti. Við þekkjum þó nafn útskurðarmeistarans sem fæddist undir lok 18. aldar á Hallandi á Svalbarðsströnd, hér í nágrannasveitarfélagi Eyjafjarðarsveitar. Nafn Bólu-Hjálmars er í hugum okkar vitaskuld tengdara skáldskap en handverki. En hann var á sinni tíð rómaður útskurðarmeistari og enn eru til forkunnarfagrir gripir sem skornir voru út af hendi Bólu-Hjálmars. Kröpp kjör og erfitt brauðstrit komu ekki í veg fyrir að hann fengi virkjað sína miklu sköpunargáfu og listfengni. En Bólu-Hjálmar var aðeins einn af fjölmörgum alþýðulistamönnum fyrri alda sem með handverki sínu sköpuðu ómetanleg listaverk. Lítið orti Hjálmar um hagleik sinn. Í kvæðinu "Raupsaldurinn" eru þessi erindi.
"Telgdi ég forðum tré með egg,
teygði járn og skírði.
Fjölnis brúðar skóf af skegg
skeið á vatni stýrði
Tætti ég ull og bjó úr band,
beitti hjörð um vetur,
heitum kopar hellti í sand,
hjó á fjalir letur."
Íslenskt handverk er því mikilvægur hluti af menningararfi og sögu þjóðarinnar. En handverkið á ekki aðeins heima á minjasöfnunum. Íslenskt handverk hefur þróast í takt við tímann, glímt við nýja efniviði og tileinkað sér nýja tækni og ný vinnubrögð. Þannig hefur íslensku handverki tekist að sameina þjóðlegan menningararf og nútíma listsköpun.
Íslenskt handverk hefur um langan aldur verið hluti af daglegu lífi okkar. Það er ekki langt síðan að á heimilum væru saumuð föt, nærföt prjónuð úr ull sem var spunninn heima, teppi ofin, rúmföt saumuð og svo mætti lengi telja. Mín föt sem barn voru saumuð á heimili okkar á Vopnafirði, Sigurjónu föt á heimili hennar hér úti í Hrísey. Nú er öldin önnur og flest er keypt. En arfurinn frá forfeðrunum er dýrkeyptur. Þaðan er komin kunnátta, hugmyndir sem listafólk og handverkfólk færir sér í nyt. Þessi hátíð er mikilvægt framlag til að varðveita þennan arf, bæta hann, skerpa nýjar hugmyndir, nýja list, auðga menningarlíf, skapa ný tækifæri og atvinnu. Er nokkuð göfugra í lífinu en að skapa?
Íslenskt handverk er því vaxandi atvinnugrein sem skapar störf vítt og breytt um landið - og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin hefur með verkefninu "Handverk og hönnun" leitast við að stuðla að eflingu handverks- og listiðnaðar hér á Íslandi. Verkefnið nýtur stuðnings frá forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Á síðustu árum hafa íslenskir hönnuðir í vaxandi mæli haslað sér völl erlendis og notið þar m.a. aðstoðar utanríkisþjónustunnar. Sem dæmi má nefna sýningu á verkum norrænna kvenhönnuða sem haldin var í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, fyrr á þessu ári en þar tóku þátt fjórir íslenskir kvenhönnuðir.
Íslenskt handverk, byggt á þjóðlegum rótum en með nútímalega sýn, stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Það er því full ástæða til að hvetja íslenskt handverksfólk til að leita fyrir sér á mörkuðum erlendis. Dyr utanríkisráðuneytisins standa opnar fyrir íslensku handverksfólki sem hefur áform um að sækja á erlenda markaði og telur að utanríkisþjónustan geti orðið sér að liði. Aðstoð við sókn íslenskra fyrirtækja og íslenskrar framleiðslu á erlenda markaði er meðal mikilvægustu verkefna utanríkisþjónustunnar. Það á jafnt við um hið smá sem hið stóra.
Í þessari sýningu birtist framfaravilji og bjartsýni. Ég er þess fullviss að hún mun nú sem fyrr verða aflvaki nýrra strauma og grósku í íslensku þjóðlífi. Höfum í huga það sem Steingrímur Thorsteinsson orti 1888 í tilefni 25 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands sem senn verður opnað á nýjan leik. "Nem því hið nýja
níð ei það gamla.
Virð það sem vort er.
Veit því ei grand;
nútíð við fortíð.
Nornirnar tengja
heilögum síma.
Högg ei það band