Við áramót
I
Á þessum tímamótum horfum við um öxl, og reynum jafnframt að gera að nokkru upp reikninga liðins árs. Engin algild reikningsskilavenja er þó til að styðjast við, og bókhaldið æði persónubundið. Ekki eru öll kurl endilega komin til grafar á gamlársdag. Mörg nótan og fylgiskjalið mun vísast aldrei skila sér. Fæst af því sem á mína daga dreif á árinu sá ég fyrir við upphaf þess, hvort sem var á persónulegu eða pólitísku almanaki. Þó lá fyrir að ég skyldi láta af embætti forsætisráðherra á tilteknum degi, eftir nokkra viðveru og gekk það allt vel eftir. Ekki er við hæfi að fjalla á þessum vettvangi um persónutengda snúninga liðins árs. Þar gengur á ýmsu hjá okkur öllum eins og jafnan.
Eftir alþingiskosningarnar 2003, sem voru hatrammar, enda ýmsum brögðum beitt umfram það venjulega, varð staðan sú, að stjórnarflokkarnir héldu þingmeirihluta sínum, svolítið skertum þó, og vildu áframhaldandi samstarf um ríkisstjórn. Var það þó ekki fyrirfram sjálfgefið, en örugglega farsælasta niðurstaðan. Mörgum þótti framandi að teknar voru ákvarðanir um forsvar ríkisstjórnar og aðrar mannabreytingar rúmlega ár fyrir fram, enda ekki verið gert áður. Var sú aðferð auðvitað fyrst og fremst til marks um ríkt traust á milli forystumanna flokkanna.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki farið með utanríkisráðuneytið síðan 1987, þótt vart sé deilt um að flokkurinn hafi haft hvað drýgst áhrif á þá utanríkisstefnu sem hér hefur verið fylgt frá því að ákvarðanir um hana komu á ný í íslenskar hendur. Hitt er einnig rétt að hafa í huga að megin atriði utanríkisstefnunnar eru ekki mál ráðherrans eins heldur að nokkru ríkisstjórnarinnar sem slíkrar og fer því vel á að samráð utanríkisráðherra og forsætisráðherra sé náið í þeim efnum á hverjum tíma. Íslensk stjórnvöld ákváðu á vormánuðum 2003 að lýsa yfir stuðningi við þá stefnu að ályktunum Sameinuðu þjóðanna varðandi Írak yrði fylgt eftir af festu. Í því fólst að léti einræðisherrann Saddam Hussein ekki segjast yrði staðið við marg ítrekaða hótun um að hervaldi yrði beitt. Þátttaka á lista hinna staðföstu þjóða fólst í pólitískri yfirlýsingu og henni fylgdu ekki aðrar skuldbindingar á því stigi. Þær pólitísku yfirlýsingar voru gefnar af réttum aðilum og voru í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar forystumanna stjórnarflokkanna, um að ekki væri hægt að útiloka valdbeitingu í Írak.
Ísland hefur mikla sérstöðu hvað hernaðarlegar aðgerðir varðar, sem öllum þjóðum eru kunnar. Íslenskir valdhafar geta engan mann sent á svæði, þar sem ófriður geisar, sem ekki vilja fara þangað sjálfir. Í hinum pólitísku yfirlýsingum gat því aldrei falist að Ísland væri „þátttakandi í stríði“ eins og hver spekingurinn af öðrum étur upp um þessar mundir. Að því hefur verið fundið að ekki sé til bókuð samþykkt ríkisstjórnarinnar um efnið. Þetta er á misskilningi byggt. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Utanríkisráðherra fer, með atbeina forsætisráðherrans, þegar það á við, með ákvörðun af þessu tagi. Enginn ágreiningur var um hana í röðum ráðherra. Hin pólitíska stefnumótun var ákveðin og kynnt mörgum vikum fyrir síðustu kosningar. Auðvitað urðu opinberar umræður um hana. Fullyrðingar talsmanna stjórnarandstöðu um að þær umræður hafi ekki verið nægjanlegar hitta þá eina fyrir. Ruglandin í þessari umræðu hefur verið töluverð, eins og algengt er hér á landi. Nú síðast hafa nokkrir einstaklingar, sem af lítillæti kalla sig „Þjóðarhreyfingu“, ákveðið að safna fé fyrir auglýsingu í blaði í New York. Virðast þeir telja að sú skoðun sé uppi í heiminum að þeir sjálfir hafi staðið á bak við styrjöldina í Írak. Ég hef að vísu hvergi í ferðum mínum heyrt um þann misskilning, en ef þeir félagar telja að hann sé fyrir hendi og það megi leiðrétta með einni auglýsingu í blaði þar vestra þá er sannarlega óþarfi að amast við því. Fæðingarhríðir lýðræðis í Írak eru vissulega erfiðar og það eykur vandann að alþjóðasamfélagið bar ekki gæfu til að standa saman um aðgerðir í upphafi. Það var þó mjög eftirtektarvert og raunar ánægjulegt, að á síðasta utanríkisráðherrafundi NATO var augljóst að samstaða um framtíðaraðgerðir í Írak fer vaxandi og þar gáfu allir utanríkisráðherrar yfirlýsingar um jákvæðar aðgerðir landa sinna í þágu friðar og uppbyggingar í Írak undir merkjum bandalagsins. Þar datt engum forystumanni í hug að leggja til að hersveitir bandamanna yrðu á brott úr landinu hið fyrsta.
II
Eins og kunnugt er hefur ríkt óvissa um varnarmál Íslands um nokkurt skeið. Óvissa og öryggi fara illa saman. Í kjölfar ágætra funda minna á árinu með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, og Colin Powell, utanríkisráðherra, standa fyrir dyrum viðræður milli landanna um framtíð varnarsamstarfsins. Að ósk forseta Bandaríkjanna verður í þeim rætt um aukna þátttöku Íslendinga í kostnaði við rekstur og viðhald Keflavíkurflugvallar. Til þess eru íslensk stjórnvöld reiðubúin enda hefur borgaralegt flug um völlinn aukist verulega en hernaðarlegt flug minnkað. Ég tel að á æðstu stöðum í Bandaríkjunum sé raunverulegur vilji til að halda varnarsamstarfinu áfram og tryggja í þeim tilgangi lágmarksviðbúnað í landinu. En málið er þó ekki enn í höfn og loftvarnir eru sem fyrr forsenda þess af hálfu íslenskra stjórnvalda að varnarsamningurinn hafi merkingu og gildi. Að baki þeirrar kröfu eru sömu augljósu ástæður og eru fyrir loftvörnum í öllum nágrannaríkjum okkar.
Í alþjóðlegum öryggismálum hafa Miðausturlönd verið ofarlega á baugi í ár eins og oft áður. Þar urðu þau miklu tíðindi að Yasser Arafat féll frá. Almennt var litið svo á að með dauða Arafats hefði loks skapast tækifæri til að koma á skrið friðarviðræðum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Hvort tækifærið, sem um ræðir, nýtist eða ekki, ræðst af hvort nýir leiðtogar Palestínumanna gera nauðsynlegar umbætur á heimastjórninni og snúast opinskátt og í verki gegn hryðjuverkum. Það er forsenda þess að raunverulegar friðarviðræður geti hafist. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við sjálfstætt ríki Palestínumanna er eindreginn, en grundvallaratriði, sem ekki má hvika frá, er að öryggi Ísraels verði tryggt.
Íslensk stjórnvöld styðja heilshugar við vonir mikils meirihluta Íraka um að frelsi og lýðræði verði fest í sessi, og þær hernaðaraðgerðir sem eru og voru nauðsynlegar forsendur þess. Hryðjuverkin í Írak virðast ekki síst beinast gegn þeim vonum og reyndar einnig gegn málstað frelsis og mannréttinda í þessum heimshluta. Átökin í Írak eru jafnframt hluti af stærra stríði, þar sem barist er við myrkraöfl af því tagi sem sýndu klærnar með árásunum á Bandaríkin 11. september 2001 og bera ábyrgð á mörgum öðrum morðárásum á saklaust fólk. Engin ástæða er til að ætla að slíkir aðilar mundu skirrast við að beita gereyðingarvopnum kæmu þeir höndum yfir þau. Sú hætta býr Íslendingum sameiginleg örlög með vinaþjóðum okkar nú, rétt eins og þegar tekist var á við eyðingaröfl fasisma og kommúnisma á öldinni sem leið.
III
Óumdeilt er að árið 2004 var okkur Íslendingum gott í efnahagslegu tilliti. Hagvöxtur var umfram væntingar og kaupmáttur launa hélt áfram að vaxa, níunda árið í röð. Efnahagslífið er nú fjölbreyttara en nokkru sinni áður og ánægjulegt að erlend matsfyrirtæki staðfestu á árinu að Ísland er í efsta flokki þeirra ríkja sem njóta mesta trausts á erlendum lánamörkuðum.
Við Íslendingar eigum nú einstakt sóknarfæri. Í hartnær áratug hefur efnahagslífið eflst mjög að vöxtum og burðum og nú benda spár til þess að nýtt hagvaxtarskeið sé hafið. Talið er að árlegur hagvöxtur verði á næstu þremur árum um og yfir fimm prósent og fram til ársins 2010 verði hann um tvö og hálft prósent. Þjóðarframleiðsla okkar verði ríflega þúsund milljarðar árið 2006 og sé sú stærð vegin í dollurum á hvern mann sé ljóst að Ísland mun færast jafnt og þétt ofar í hópi ríkustu þjóða heims. Skattar hafa verið lækkaðir umtalsvert, skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar niður í stórum stíl, framlög til heilbrigðis- og félagsmála hafa verið aukin til mikilla muna og lífeyrissjóðskerfi landsmanna stendur styrkum fótum, en þetta síðasta er öfundarefni margra þróaðra þjóða. Framlög til menntamála og vísindastarfsemi hafa verið aukin og nú nýverið ákvað ríkisstjórnin að framlag til opinberra vísinda- og tæknisjóða yrði tvöfaldað á kjörtímabilinu. Frelsi í bankaviðskiptum hefur leyst úr læðingi gríðarlegt afl, atvinnuleysi er lítið, aflamarkskerfið hefur skapað langþráða festu í sjávarútveginum og sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði er snörp. Þessi staða íslenska þjóðarbúsins hefur kallað á töluverða athygli. Það kemur því ekki á óvart að helstu viðfangsefni okkar um þessar mundi eru góðæriskvillar. Verkefni íslenskra stjórnvalda er einna helst það að koma í veg fyrir of hraðan vöxt. Sé litið til okkar helstu viðskiptalanda í Evrópu blasa við önnur verkefni. Of lítill hagvöxtur, lækkandi fæðingartíðni og yfirvofandi skattahækkanir, meðal annars vegna innistæðulausra lífeyrisskuldbindinga, eru efst á borði flestra ríkisstjórna ESB. Fyrir nokkru var kynnt að atvinnuleysi ungs fólks í löndum ESB væri að meðaltali um tuttugu prósent og að einungis fjörtíu prósent Evrópubúa á aldrinum 55 til 65 ára hefði atvinnu. Sóunin á mannauði er því skelfileg, og hlýtur að valda ESB áhyggjum. En þó vel ári hjá okkur um þessar mundir er ekki ástæða til að láta sem engin séu boðaföllin framundan. Skuldir heimilanna hafa aukist og er full ástæða til að vaxandi kaupmáttur verði nýttur til að greiða þær niður og skapa þannig varanlega eignaaukningu. Það er svo sem skiljanlegt að þegar allar gáttir lánastofnana opnast í einni svipan, þá leiði það til aukinnar skuldasöfnunar. En það er ekki sjálfgefið að við eigum að nýta alla þá lánamöguleika sem í boði eru. Því fyrirkomulagi hefur ekki verið breytt að það kemur að skuldadögum. Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum er meðalhófið affarasælast. Hækkandi gengi íslensku krónunnar hefur freistað margra til að taka lán í erlendri mynt. Nauðsynlegt er að hafa hugfast að megin ástæða fyrir háu gengi krónunnar nú eru miklar virkjana- og álversframkvæmdir. Að lokum hlýtur gengi krónunnar að endurspegla íslenskt efnahagslíf, framleiðslugetu atvinnuveganna. Þegar dregur úr áhrifum þeirra framkvæmda mun gengi íslensku krónunnar aðlagast nýrri skipan. Reynslan af glannalegum veðmálum með gjaldeyri ætti að vera öllum í fersku minni. Frelsinu fylgir ábyrgð.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist fyrir því að innleiða samkeppni á sem flestum sviðum efnahagslífsins. Gleðiefni er hversu mjög því verki hefur miðað á undanförnum árum. Samkeppnislöggjöfin er til stöðugrar endurskoðunar og mestu varðar að ríkisvaldið hefur dregið sig út úr rekstri margvíslegra fyrirtækja og ber sölu ríkisbankanna þar hæst. Stöðugleiki, lágir skattar, skýrar og skilmerkar leikreglur, greiður aðgangur að fjármagni; allt stuðlar þetta að heilbrigðri samkeppni. Arnljótur Ólafsson þingmaður og prestur skildi vel mikilvægi samkeppninnar. Í riti sínu, Auðfræði, lét hann svo um mælt: „Samkeppnin er sjálf eigi annað en mannfrelsið, hún er kjörfrelsi, frelsi í vinnu og atvinnu, frelsi í viðskiftum, frelsi til að ljá og selja, leigja og kaupa.“ Að baki baráttunnar fyrir samkeppni er sjálf krafan um mannfrelsi. Liðið er á aðra öld síðan séra Arnljótur reit bók sína. Boðskapurinn er þó enn í fullu gildi. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum misserum lagt á það þunga áherslu að samkeppni eigi að verða öllum til hagsbóta. Samkeppni er viðvarandi ástand, henni lýkur ekki með því að örfáir menn nái heljartaki á einstökum mörkuðum. Samkeppni er kröfuhörð, tímafrek og í eðli sínu endalaus. Það er því alþekkt að viðskiptaforkólfar um allan heim sjá sér hag og hægindi í því að takmarka samkeppni, eins og þeir geta. Þetta er ekki rifjað upp neinum til áfellis. Þessi freisting liggur í mannlegu eðli. Eða hvernig halda menn að dáðustu knattspyrnumenn, uppfullir af sönnum íþróttaanda myndu haga sér, ef enginn væri dómari eða línuverðir í þeirra leik, svo ekki sé talað um að þeir gætu ráðið því hverjir skipuðu lið andstæðinganna og þannig fram eftir götunum. Íslenska hagkerfið er smátt og því rík skylda á stjórnvöldum að reyna að stuðla að virkri samkeppni. Þrjóti samkeppnina, þrýtur frelsið. Nú liggja fyrir áætlanir um breytt skipulag þeirra stofnana sem hafa eftirlit með samkeppni. En eftirlit og reglur geta einungis komið að takmörkuðu gagni. Knattspyrnudómarar eiga ekki að ráða þróun knattspyrnuleiks og eins varðar mestu að forystumenn í íslensku viðskiptalífi skapi sjálfir hið rétta andrúmsloft í kringum sig og sýni ábyrgð í störfum sínum. Gott viðskiptasiðferði og heiðarleiki er margfalt mikilvægara en allir eftirlitsmenn hins opinbera samanlagðir.
IV
Í aðdraganda síðustu kosninga lofuðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, að skattar yrðu lækkaðir myndarlega á kjörtímabilinu. Á síðasta vorþingi var samþykkt að lækka og samræma erfðafjárskatt. Ákveðið hefur verið að fella niður sérstakan hátekjuskatt, enda hafði því verið lofað af Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki að hann væri aðeins tímabundinn. Á haustþingi var samþykkt að lækka tekjuskatt einstaklinga um fjögur prósentustig og fella niður eignaskatt. Einnig liggur fyrir, staðfestur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, vilji til að lækka virðisaukaskatt á nauðsynjum. Þessar lækkanir koma í kjölfar annarra skattalækkana undanfarinna ára. Miklu skiptir að á sama tíma og skattar eru lækkaðir er dregið úr skuldum ríkissjóðs og útgjöld til mikilvægra málaflokka s.s. menntamála og heilbrigðismála halda áfram að vaxa. Þessar skattalækkanir eru mikil kjarabót fyrir heimilin í landinu og eru grunnur að myndarlegum vexti kaupmáttar ráðstöfunartekna á næstu árum. Lágir skattar á fólk og fyrirtæki eru forsenda öflugs atvinnulífs og fjölbreytts mannlífs. Því minna sem hið opinbera tekur í sinn skerf af launatekjum okkar því meira er frelsi okkar til að ráðstafa þeim eins og okkur sjálfum best hentar. Samfélag, sem byggir á lágum sköttum, en traustu velferðarkerfi er öflugra, fjölbreyttara og lífvænlegra en þau sem hvíla á hárri skattheimtu. Starfsmenn stjórnarráðsins, eru upp til hópa vandað og samviskusamt fólk en eru ekki endilega best til þess fallnir að ákveða í hvað laununum okkar er varið, umfram það sem nauðsynlegt er. Lærdómsríkt var að fylgjast með málflutningi vinstri manna í umræðum um skattalækkanir. Vinstri-grænir voru samkvæmir sjálfum sér og vilja engar skattalækkanir. En talsmenn Samfylkingar hlupu um víðan völl að venju og þurfti nokkra einbeitingu til að fylgjast með síbreytilegum málflutningi þeirra. Fæst af því sem þar kom fram kallar á ítarlega rökræðu. Haft hefur verið á orði að skattalækkun nú sé óráð sökum þess hversu vel árar í íslenskum þjóðarbúskap. Við því er að segja að vandséð er hvenær heppilegra er að lækka skatta ef ekki þá, þegar ríkissjóður stendur vel og tekjur hans eru meiri en gjöld. Er það trúlegt að skattar verði lækkaðir þegar ríkissjóður er rekinn með halla? Möguleg þensluáhrif skattalækkunar verður að meta í ljósi stærðar hagkerfisins. Skattalækkanirnar sem nú hafa verið samþykktar munu nema rúmum tuttugu milljörðum árlega þegar þær eru allar komnar til framkvæmda. Þjóðarframleiðslan verður þá rúmir þúsund milljarðar. Eins má gera ráð fyrir því að almenningur noti hluta skattalækkunarinnar til að greiða niður skuldir sínar. Skattalækkanir nú ógna því engan veginn stöðugleikanum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Til að vega á móti þenslu hefur ríkisstjórnin sett sér langtímamarkmið um þróun ríkisútgjalda og er stefnt að því að raunaukning þeirra verði innan við 2% á ári næstu árin. Gangi það eftir mun ríkisvaldið draga úr umsvifum sínum í hagkerfinu og hamla þar með gegn óæskilegri þenslu.
Þegar Íslendingar gengu að kjörborðinu árið 2003 gátu þeir treyst því að loforð Sjálfstæðisflokksins, um að skattar yrðu lækkaðir á kjörtímabilinu, yrði efnt fengi hann aðstöðu til. Einn skugga ber þó á. Í höfuðborginni sitja vinstri menn að völdum. Þvert á eigin loforð nota þeir nú tækifærið og ræna borgarbúa enn einu sinni hluta þeirrar kjarabótar sem felst í lækkun tekjuskatts. Hækkun útsvars í höfuðborginni staðfestir skipbrot stjórnar R-listans. Reykjavík var áður skuldlítið sveitarfélag sem í krafti stærðar sinnar og traustrar stjórnar sjálfstæðismanna gat boðið borgarbúum góða þjónustu og lágt útsvar. Nú hafa skuldir borgarinnar vaxið óhugnanlega og álögur samt hækkað verulega. Reykjavík, sem áður var fremst í flokki er nú í hópi þeirra sveitarfélaga sem lökust kjör geta boðið íbúum sínum. R-listinn hefur gefist upp við að stjórna borginni. Hann á að fara frá.
Liðin eru rúmlega níuhundruð ár síðan Gissur biskup Ísleifsson fékk í lög festa tíund hér á landi. Sagt var að sú skattlagning hafi komist á sökum elsku landsmanna á Gissuri, þótt ólíklegt sé að allir greiðendur hafi verið spurðir. Tíundin var eignaskattur og höfum við Íslendingar greitt slíkan skatt allt frá árinu 1096. Það eru því merk tímamót í sögu landsins á þessum degi, er eignaskattur á einstaklinga og fyrirtæki fellur niður. Þótt eignaskatturinn sé gamall, er lítil eftirsjá af honum. Hann er í eðli sínu óréttlátur skattur og kemur gjarnan þyngst niður á þeim sem síst skyldi. Brottfall hans er mikil kjarabót fyrir eldri borgara, sem margir hafa á langri ævi eignast skuldlítið húsnæði og þurftu áður að greiða sérstakan skatt fyrir ráðvendi sína og sparnað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir lækkun eignaskatts. Lengi þorðu menn þó ekki að vona að eignaskatturinn yrði afnuminn. Það hefur nú verið gert með lögum. Við þurfum að greiða eignaskatt einu sinni enn, vegna þess árs sem kveður í dag, en síðan ekki meir.
V
Margvíslegt samstarf er nú á alþjóðavísu, enda margur vandinn og vá, sem ekki er bundin takmörkum á borð við landamæri. Slíkt samstarf leiðir stundum til þess að möguleikar einstakra landa til að koma hlutum fyrir eftir eigin höfði minnka til muna. Ekki er endilega víst að það sé alltaf til bóta. Það er öruggt að hið alþjóðlega samstarf dregur verulega úr lýðræðisáhrifum, að minnsta kosti verður ákvörðunin æ fjarlægari rótum lýðræðis. Stórar ákvarðanir eru nú orðið iðulega teknar á svonefndum leiðtogafundum af margvíslegu tagi. Óþekkt er að aðdragandi slíkra ákvarðana sé á þjóðþingum, sem eru þó grundvöllur valda flestra leiðtoga. Málin eru fyrst send þingunum eftir leiðtogafundina og þá standa þingin frammi fyrir gerðum hlut og geta engu breytt vegna þess að þá yrði alþjóðlegt samstarf í uppnámi. Í þessari þróun hlýtur að felast mikill lýðræðislegur vandi, sem fyrr eða síðar verður að taka á.
VI
Hörmungarnar í framhaldi af jarðskjálftunum í Asíu eru yfirþyrmandi og óhugnanlegar. Vissulega hefur manntjón af mannavöldum iðulega verið meira en þetta og eru nýleg dæmi frá Afríku til um það. Er reyndar mikið umhugsunarefni hvers vegna alþjóðasamfélagið tekur hörmungartíðindum frá þeirri álfu af meira tómlæti en því sem annars staðar gerist. En það er hið fyrirvaralausa ógnar afl eyðileggingarinnar í Asíu, sem er svo æpandi við síðustu atburði. Maðurinn hefur aldrei verið fyrirferðarmeiri og máttugri á jarðkringlunni en nú. En afl hans og tækni mega sín einskis, þegar náttúruöflin láta rækilega til sín taka. Á hinn bóginn er það fagnaðarefni að samkennd og samhjálp í neyð er vaxandi í veröldinni og því er hægt að létta þeim róðurinn sem fyrir áföllum verða. Ísland mun nú sem endra nær leggja sitt af mörkum í þeim efnum.
Ég þakka löndum mínum samstarf og kynni á liðnu ári og bið íslenskri þjóð heilla og blessunar á nýju ári.