Ársfundur Útflutningsráðs
Góðir ársfundargestir
Á undanförnum árum hefur orðið mikil og gagnleg breyting á umhverfi íslensks viðskiptalífs. Margir þeir sem hér sitja muna eflaust þann tíma þegar lítt þýddi fyrir íslenska viðskiptamenn að skipuleggja atvinnurekstur sinn til langs tíma, verðbólga og önnur efnahagslega óáran gerði öllum erfitt fyrir. Þjóðin öll bar því skarðan hlut frá borði, efnahagsstarfsemin, daglegt brauðstrit okkar, var ekki eins árangursríkt eins og efni sannarlega stóðu til. Á þessu hefur orðið, eins og allir þekkja, alger viðsnúningur. Ísland, sem áður stóð flestum nágrannaþjóðum sínum nokkuð að baki í efnahagslegu tilliti hefur á síðasta einum og hálfum áratug skipað sér í flokk þeirra þjóða sem hafa náð hvað mestum efnahagsárangri. Þetta er gleðilegt í alla staði og nú eigum við Íslendingar góða möguleika.
Útrás íslenskra fyrirtækja er mikið ánægjuefni. Hún hefur víða vakið verðskuldaða athygli og fært heim sanninn um að okkur Íslendingum eru flestir vegir færir. Dugur og kjarkur ásamt hæfilegri bjartsýni fleytir viðskiptamönnum okkar langt ef viðspyrnan er næg. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að landið okkar er í hópi þeirra fimm ríkja heims sem búa að hvað mestri samkeppnishæfni. Við stöndum til að mynda fremst í flokki Evrópuþjóða í þessum samanburði og ég veit að þetta hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir fáum árum. Samkeppnishæfnin endurspeglar kröftugt efnahagslíf sem hefur vaxið mjög að burðum undanfarin ár. Skattar hafa lækkað verulega á fyrirtæki og almenning. Allar forsendur eru fyrir áframhaldandi skattalækkunum á næstu árum, skuldir ríkisins hafa lækkað og lífeyrissjóðir landsmanna eru öflugir. Jafnhliða skattalækkunum hafa útgjöld til mennta- og vísindamála stóraukist og sama gildir um heilbrigðis og félagskerfið. Einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur án nokkurs vafa mjög styrkt íslenskt efnahagslíf. Mestu skiptir þar einkavæðing ríkisbankanna en íslensku bankarnir hafa leikið lykilhlutverk í útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Aðgengi almennings að bankalánum hefur verið stóraukið og er vel að menn þurfi ekki að lengur að ganga milli ríkisbanka með velkt pottlokið í höndum að kría út víxla eins og algengt var. Hitt er að það er ástæða til að taka undir þau sjónarmið að bankarnir hafi farið nokkuð geyst í útlánum sínum að undanförnu og ástæða fyrir þá sem þar eru í fyrirsvari að huga vel að þeim varnaðarorðum sem forystumenn Seðlabanka Íslands höfðu uppi nú nýlega.
Öflugar fjármálastofnanir, lágir skattar, einfaldar og skýrar leikreglur. Allt eru þetta mikilvægar stoðir í útrás íslenskra fyrirtækja. EES samningurinn hefur síðan verið okkur Íslendingum gagnleg umgjörð viðskipta okkar við ríki ESB. Hann veitir íslenskum fyrirækjum aðgang að innri markaði ESB og tryggir okkar fyrirtækjum stöðu til jafns við önnur fyrirtæki álfunnar. Þessi samsetning, samkeppnishæfur heimamarkaður með lágum sköttum og einföldum reglum og gott aðgengi í krafti EES, hefur reynst íslenskum fyrirtækjum afbragðs gott veganesti á erlendum vettvangi.
En það er ekki einvörðungu á hinum innri markaði ESB sem íslensk fyrirtæki sækja fram. Þau hafa einnig reynt fyrir sér á fjarlægari mörkuðum og njótum við þar mjög víðtæks nets fríverslunarsamninga EFTA. Samanlagt standa EFTA ríkin að 2% heimsviðskipta og nú eru í gildi fríverslunarsamningar við 14 ríki í Evrópu, Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku. Óformlegar viðræður hafa farið fram við ýmis önnur ríki, þar á meðal við Bandaríkin og Kína. Reyndar höfum við Íslendingar upp á eigin spýtur náð hagstæðum loftferðasamningi við Kína. Samkvæmt honum fá Íslendingar rýmri rétt en mörg ríki Evrópu og þar með hafa íslensk flugfélög góð sóknarfæri inn á þennan risa markað. Tvísköttunarsamningar Íslendinga við önnur ríki eru yfir 30 talsins og þeir ásamt fjárfestingasamningum eru fríverslunarsamningunum til fyllingar og stuðnings. Við höfum sett okkur það markið að ljúka gerð tvísköttunarsaminga við öll ríki OECD á næstu árum.
Það þykir vissulega spennandi og framandi að eiga í viðskiptum við fjarlæg lönd. En mér finnst við hæfi í þessu sambandi að nefna að á næstu vikum verður að öllum líkindum skrifað undir víðtækan viðskiptasamning við frændur okkar og vini Færeyinga. Samkvæmt honum munu Færeyingar njóta sama réttar og Íslendingar hér á landi í viðskiptalegu tilliti og það sama mun gilda um hérlenda menn í Færeyjum.
Frjáls milliríkjaverslun er okkur Íslendingum mjög mikilvæg. Traustir viðskiptasamningar á milli landa eru grunnur efnahagslegra framfara og velmegunar. En miklu skiptir að almennar reglur um viðskipti landa á millum séu skýrar og skilmerkilegar. Niðurstaða Doha lotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun hafa víðtæk áhrif á heimsviðskiptin. Tollar munu lækka, ríkisstyrkir minnka og viðskiptahindrunum mun fækka. Minni ríki hafa sem ekki búa yfir víðfemu pólitísku áhrifaneti um heim allan, hagnast mjög á almennum reglum sem tryggja jafnræði og frelsi.
Góðir gestir
Utanríkisþjónustan hefur á undanförnum misserum endurskipulagt þjónustu sína við atvinnulífið. Hluti af þeirri endurskipulagningu var stóraukið samstarf við Útflutningsráð en sú samvinna hefur mælst ágætlega fyrir. Jafnfram hafa verðið gerðar breytingar á skipulagi utanríkisráðuneytisins sem ætlað er að styrkja enn frekar þjónustu þess við atvinnulífið. Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á aukið samstarf við ferðaþjónustuna, bæði við greinina sjálfa og opinbera aðila sem veita henni þjónustu. Samtök aðila í ferðaþjónustu ályktuðu nýverið um aukið samstarf allra aðila í ferðaþjónustu við Útflutningsráð. Ég fagna þessari stefnu og legg áherslu á hversu miklu skiptir að góð samvinna sé á milli þeirra sem leiða sókn íslensks atvinnulífs á erlenda markaði.
Að loknu máli mínu mun ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu gera grein fyrir hverjir skipi nýja stjórn Útflutningsráðs. Í anda aukinnar áherslu utanríkisráðuneytisins á samvinnu við atvinnulífið hefur sú ákvörðun verið tekin að einstaklingar úr atvinnulífinu skipi öll stjórnarsæti Útflutningsráðs að þessu sinni. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að við stillum vel saman krafta okkar, atvinnulífið og hið opinbera. Fámenn þjóð hefur ríkari ástæðu en fjölmennar að vera samhent og samstillt. Útflutningsráð er góður samráðsvettvangur þeirra sem vilja sækja fram á erlendum mörkuðum. Innan ráðsins hafa menn stoð og styrk af hverjum öðrum og geta miðlað reynslu sinni og þekkingu öllum til hagsbóta. Ég vil færa fráfarandi stjórn mínar bestu þakkir fyrir þeirra störf og óska nýrri stjórn og starfsfólki Útflutningsráðs alls hins besta á nýju starfsári.