Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. janúar 2017 Guðlaugur Þór Þórðarson

Samráðsfundur vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu

Hugarflugsfundur um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu
Hörpu, 12. janúar 2017 kl. 10
Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra

Kæru gestir,

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á þennan hugarflæðisfund um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021. Þetta er, eins og ykkur öllum er ljóst, fyrsta verk mitt í embætti utanríkisráðherra og það er að mörgu leyti mjög vel við hæfi að byrja ferilinn á þessum mikilvæga málaflokki, enda eru málefni norðurslóða forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og snerta næstum allar hliðar íslensks samfélags. Ljóst er að fá ríki hafa jafn mikilla hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og Ísland, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða. Þetta er einstakt meðal ríkja Norðurskautsráðsins.

Það hefur verið breið samstaða í stjórnmálum og samfélaginu öllu þegar kemur að málefnum norðurslóða og mikilvægt er að viðhalda henni. Stefna Íslands á sér stoð í þingsályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi árið 2011 og tekur til tólf meginþátta sem lúta meðal annars að stöðu Íslands innan svæðisins, mikilvægi Norðurskautsráðsins og Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og öryggis- og viðskiptahagsmunum.

Í haust kynnti sérstök ráðherranefnd um málefni norðurslóða skýrslu um hagsmuni Íslands á svæðinu. Þar er lögð áhersla á að nýta þau tækifæri sem gefast á ábyrgan og sjálfbæran hátt og að geta brugðist hratt við ef hættu ber að höndum. Þessi skýrsla er mikilvægt innlegg í vinnuna sem nú er að hefjast vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Ég geri ráð fyrir að vinna við aðgerðaáætlun til að fylgja skýrslunni eftir og tryggja mikilvæga hagsmuni Íslands á norðurslóðum hefjist fljótlega, samhliða undirbúningi formennskunnar.

Nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var á þriðjudag, tilgreinir áfram mikilvægi norðurslóða í utanríkisstefnunni og nefnir Norðurskautsráðið sérstaklega. Ráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Ljóst er að staða Íslands, sem eitt af átta aðildarríkjum ráðsins, er sterk. Að sitja við sama borð og þjóðir eins og Bandaríkin og Rússland gefur Íslandi tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif á þróun svæðisins. Á árunum 2019 til 2021 munum við, sem formennskuríki, stýra starfi ráðsins og móta áherslur þess. Mikilvægt er að nýta þetta tækifæri sem allra best. Við Íslendingar höfum margt fram að færa, ekki síst í tengslum við málefni hafsins, endurnýjanlega orku, jafnréttismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þetta munum við meðal annars hafa í huga við mótun áherslna okkar.

Einnig þarf að hafa hugfast að allt alþjóðasamstarf næstu árin mun taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamningnum um loftslagsmál.

Heimsmarkmiðin gilda nú fyrir öll ríki heims, ekki aðeins þróunarríki eins og þúsaldarmarkmiðin gerðu áður, og hafa mörg þeirra snertifleti við norðurslóðir og starf Norðurskautsráðsins. Parísarsamningurinn, sem Ísland fullgilti í september og gekk svo í gildi í nóvember, er einnig gríðarlega mikilvægur fyrir íbúa norðurslóða vegna þeirra áhrifa sem hlýnun jarðar hefur á lífríki og loftslag á svæðinu. Allt starf Norðurskautsráðsins á næstu árum mun taka mið af þessum alþjóðlegu forgangsmálum.

Frá því að Ísland gegndi síðast formennsku í Norðurskautsráðinu 2002-2004, hefur starfsemi og þýðing ráðsins á alþjóðavísu vaxið mikið. Tengist þetta meðal annars áhrifum loftslagsbreytinga á viðkvæmt vistkerfi norðurslóða, opnun sigingaleiða og aukinni eftirspurn eftir hrávöru og auðlindum á svæðinu. Aukið vægi ráðsins birtist meðal annars í fjölda áheyrnaraðila sem nú eru alls 32 – 12 ríki, 9 fjölþjóðlegar stofnanir og 11 frjáls félagasamtök. Fyrir ráðinu liggja nú 20 nýjar umsóknir sem verða til umræðu á utanríkisráðherrafundi í Alaska í maí.

Komandi formennska Íslands verður meðal stærstu verkefna sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi. Til þess að vel megi takast er mikilvægt að nýta þá miklu reynslu og þekkingu á norðurslóðum sem til staðar er í íslensku samfélagi og styrkja enn frekar innlent samstarf og samráð.

Með þetta í huga var ákveðið að boða til þessa hugarflæðisfundar þá fjölmörgu aðila sem sinna norðurslóðamálum hér á landi á einn eða annan hátt og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka forvera mínum fyrir þann undirbúning sem farið hefur fram á hennar vakt í ráðuneytinu.

Áhuginn á þessum fundi og mætingin í dag fer fram úr okkar björtustu vonum. Við erum afar þakklát fyrir að þið skulið hafa gefið ykkur tíma til að vera hér í dag og leggja þannig ykkar lóð á vogarskálarnar. Verkefnið nú er að virkja þá miklu þekkingu sem samankomin er í þessum sal.

Ég hvet ykkur til að hugsa stórt og kasta fram hugmyndum þó að þær séu ekki fullmótaðar. Í framhaldinu munum við vinna úr niðurstöðunum og skoða hvað er framkvæmanlegt, meðal annars með tilliti til áherslna samstarfsþjóða okkar og frumbyggjasamtaka innan Norðurskautsráðsins. Við vonumst til þess að geta áfram leitað til ykkar á næstu árum, bæði við undirbúning og framkvæmd formennskunnar.

Ég óska ykkur góðs gengis í dag og hlakka til að sjá afraksturinn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta