Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2017 Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu föstudaginn 28. apríl 2017

Ágætu fundarmenn,

Ég held ég geti fullyrt að við öll í þessum sal höfum það að aðalstarfi – með einum eða öðrum hætti – að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga á erlendri grundu. Þetta er ærinn starfi og þetta er brýnt starf. Aldrei áður í heimssögunni hafa viðskipti landa á milli verið eins ör og djúp og aldrei áður í veraldarsögunni hefur óheft framrás milliríkjaviðskipta verið eins mikilvæg og nú.

Ísland hefur þannig aldrei áður verið í eins mikilli kjörstöðu til að nema ný lönd og nýja markaði fyrir útflutningsatvinnuvegina og aldrei áður höfum við séð viðlíka áhuga á landinu okkar. Það er verkefni okkar sem í þessum sal erum að spila sem allra best úr þeim kortum sem okkur hafa verið gefin. Til þess að svo megi verða verðum við brýna þau tæki og tól sem okkur
standa til boða. Tækifærin eru allt í kringum okkur, áskorarnirnar sömuleiðis. Það er hagur þjóðarbúsins sem er endanlegur mælikvarði á hvernig við höfum staðið okkur.

Í utanríkisráðuneytinu í dag vinnum við samkvæmt þremur kjörorðum: hagsmunagæsla, hagsmunagæsla og hagsmunagæsla! Ég vík síðar í þessu erindi að þeirri vinnu sem er í gangi hjá okkur í ráðuneytinu og hvernig við hyggjumst laga okkur frekar og mun betur að þeim þörfum sem atvinnulífið kallar eftir.

En fyrst aðeins að þessu: Heimurinn er að undirgangast gríðarlegar breytingar. Sumar þeirra eru yfirstaðnar, aðrar eru handan við hornið. Hvernig sem litið er á hlutina þá er þróunin ör og í sumum tilfellum eru það íslenskir aðilar sem stjórna för en í miklu fleiri tilfellum erum við að laga okkur að ytri þróun.

Ég held ég geti fullyrt að við stöndum okkur býsna vel í því að laga okkur að slíkum breytingum. Smæðin, sveigjanleikinn og pragmatísk hugsun ræður þar miklu um. Hins vegar er ég handviss um það að við getum gert miklu betur, ekki síst þegar kemur að því hvernig við skipuleggjum okkur og hvernig við beitum þeim tækjum og tólum sem okkur standa til boða.

Ég ætla að freistast hér til að nota knattspyrnusamlíkingu. Í grunninn þá eru það sömu þættir sem gilda hjá okkur og íslenska landsliðinu í knattspyrnu sem gerði okkur öll svo stolt síðasta sumar. Samlíkingin er þessi: Það skiptir nákvæmlega engu máli hvar og með hvaða félagsliðum leikmennirnir leika, í hvaða deildum, hvort þeir séu í mikilli innbyrðis keppni um stöður eða hvort þeim sé bara illa við hvorn annan! Málið er það að þegar þeir eru inni á vellinum að leika fyrir Íslands hönd þá eru þeir eitt lið sem stefnir að sama markmiðinu. Að sigra.

Hér er ég ekki að segja að árangur Íslands við hagsmunagæslu á erlendri grundu sé í líkingu við árangur strákanna í Frakklandi síðasta sumar. Hins vegar er ég að segja að þegar við erum inni á vellinum þá verðum við að geta stefnt betur að sama marki, með skýrri aðferðafræði. Hlutverk atvinnulífsins er að auka vöxt sinn og veg. Hlutverk mitt sem utanríkisráðherra er að tryggja umgjörð, tengsl, sveigjanleika og snerpu þannig að við séum yfir höfuð á vellinum. Engir sigrar verða unnir úr stúkunni.

Lítum aðeins á heimskortið og þá stóru krafta alþjóðahagkerfisins sem leika um okkur. Ef við tökum einn einstakan þátt út úr þróun alþjóðamála á síðustu áratugum er það gríðarlegur vöxtur millistétta í heiminum, hvort sem við horfum austur til Asíu, Suður-Ameríku og ekki síst Afríku. Allir hagvísar bera að sama brunni. Millistéttin í Kína er orðin fjölmennari en allir íbúar Bandaríkjanna. Samkvæmt alþjóðlegum samanburðartölum frá OECD (Alternative Worlds) er því spáð að neysla (og þar með kaupmáttur) millistéttarinnar á Indlandi muni aukast fjórfalt á næstu þrjátíu árum og hafa þá farið fram úr Kína.

Samanlagt mun neysla millistéttar í þessum tveimur fjölmennustu ríkjum veraldar verða meiri en sambærileg neysla í Bandaríkjunum, Evrópu, restinni af Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Tölur um aldurssamsetningu álfanna segir sömu sögu og beinir sjónum að því hvenær ríki standa frammi fyrir mestum tækifærum til að stuðla að hagvexti. Í flestum af okkar hefðbundnu mörkuðum hafa þeir „opnu gluggar tækifæra“, sem svo kallast, þegar lokast eða eru við það að lokast á meðan aðrir gluggar standa galopnir, og á það einkum við Indland, Kína og stóru ríkin í Suður Ameríku.

Tölur um auðsöfnun styðja við sömu sviðsmynd og sýna fram á hægfara lækkandi hlutfall auðs í Bandaríkjunum og Evrópu á meðan Kína og nýmarkaðsríkin fylla skörðin. Þetta eru staðreyndir sem íslensk fyrirtæki eru þegar farin að vinna eftir og þessum staðreyndum verður viðskiptastefna stjórnvalda að taka mið af á næstu árum og áratugum. Landsliðið sem mér var tíðrætt um áðan þarf að hafa þetta hugfast.

Þegar grannt er skoðað erum við Íslendingar í kjörstöðu. Í fyrsta lagi: Ísland er útflutningsdrifið hagkerfi og fyrir okkur eru frjáls viðskipti lífsspursmál. Í öðru lagi hefur þungamiðja fríverslunar færst til. Það er sannfæring mín að milliríkjaviðskipti munu taka örum breytingum á næstu tveimur áratugum. Og í þriðja lagi nefni ég að nýmarkaðsríki eru hin nýju orkubú og ört vaxandi millistéttir munu drífa hagvöxt framtíðarinnar.

En hvar erum við stödd? Við erum í raun í fararbroddi fríverslunar í heiminum. Í EFTA-samhengi erum við 99% laus við þær rauðu línur sem hamla vinum okkar í Noregi og Sviss. Það eru fáir sem átta sig á þessari staðreynd en ég hef verið og mun vera óþreytandi við að halda þessum mikilvægu staðreyndum til haga hér heima og meðal viðmælenda minna erlendis. Þar eru ógrynni tækifæri því sannast sagna þá er enginn evrópskur ráðamaður að boða fríverslun í dag. Við erum hins vegar þar. Og vinir okkar Bretar eru þar. Tækifærin eru sem sagt til staðar og það er
sameiginlegt hagsmunamál okkar að þau séu gripin.

Horfum á staðreyndirnar: Íslensk tollskrá inniheldur 8601 tollnúmer. Frá upphafi þessa árs var tollfrelsi á 7700 númerum sem þýðir í raun að það ríki 90% tollfrelsi á landinu. Þar til viðbótar eru tollfrelsi á vissum landbúnaðarvörum skv. fríverslunarsamningum.

Það er varla hægt að tala um tollamúra í samhengi við viðskiptastefnu Íslands heldur er hér opið og hindrunarlaust hagkerfi. Það sem eftir stendur eru einstakar tegundir af landbúnaðarvörum. Þessar staðreyndir tala sínu máli: Það stendur ekki á okkur þegar kemur að hindrunarlausum heimsviðskiptum.

Ágætu fundarmenn,

Það eru vissulega áskoranir uppi. Ég nefni þá erfiðleika sem hafa verið á nokkrum lykilmörkuðum Íslands. Útflutningur til Rússlands og Nígeríu hefur hrapað um tugi milljarða króna undanfarin ár.

Dræmur hagvöxtur hefur verið á evrusvæðinu í lengri tíma. Semja þarf að nýju um framtíðar viðskiptasamband við Bretland, einn stærsta útflutningsmarkað Íslands.

Álframleiðendur finna fyrir aukinni samkeppni frá Kína, og íslenskir flugrekendur þurfa einnig að kljást við stóraukna samkeppni.

Styrking á gengi krónunnar dregur úr samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu og hugvits sem og Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn.

En þegar við drögum upp framtíðarsýn verðum við að geta horft fram á veginn og séð skóginn fyrir trjánum. Okkur skortir ekki tækifærin.

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist verða málsvarar fríverslunar og einfaldra viðskiptahátta eftir útgöngu landsins úr ESB. Þetta markmið samræmist vel íslenskum hagsmunum og vekur væntingar um að semja megi um enn betri markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning við Bretland, einkum fyrir sjávarafurðir. Ég er enn sannfærðari um þetta en áður eftir fundi mína með ráðherrum bresku ríkisstjórnarinnar í London í síðustu viku.

Ég tel einnig að það liggi tækifæri í þeim gríðarlegu tæknibreytingum og efnahagslega uppgangi í heiminum sem spáð er. Stafræna hagkerfið, og einnig hin svokölluðu grænu og bláu hagkerfi hafa skapað okkur mörg ný tækifæri sem fólkið í landinu okkar hikar ekki við að stökkva á.

Útflutningur á ýmis konar þjónustu sem krefst háskólamenntunar er að slá samanlögðum vöruútflutningi til Bandaríkjanna og Bretlands við.

Íslenska hagkerfið er opnara en nokkru sinni fyrr og hagvöxtur er drifinn áfram af útflutningi.

Fundarmenn,

Þessi heimssýn sem ég hef dregið hér upp og þau tækifæri sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi eru grundvallarforsendur fyrir þeirri yfirgripsmiklu vinnu sem ég hef ýtt úr vör í utanríkisráðuneytinu. Stýrihópur á vegum ráðuneytisins er þessa dagana að leita fanga víða úti í samfélaginu, ekki síst meðal fulltrúa atvinnulífsins, og skoðar með heildrænum hætti hagsmunagæslu okkar til framtíðar. Í þessu ferli, sem lýkur með skýrslu og tillögum í lok sumars, er verið að velta við öllum steinum og sjá hvernig utanríkisþjónustan geti nýtt betur tæki sín og tól til að gæta hagsmuna þjóðarinnar og atvinnulífsins.

Í raun er verið að skoða hvernig utanríkisþjónustu við myndum skipuleggja ef engin væri til staðar fyrir. Og hvernig við getum aðlagað okkur að kröfum og þörfum atvinnulífsins og þannig bætt okkar tæki og tól til að gæta íslenskra hagsmuna. Markaðsstarf okkar erlendis og þjónusta við atvinnulífið er snar þáttur í þessari vinnu.

Þetta er mikilvægt starf sem mun marka leiðina fram á við og eitt er víst að engar breytingar munu verða gerðar breytinganna vegna. Þær munu verða til í samtali og samráði við atvinnulífið vegna þess að í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem Ísland á í verður liðið að fínstilla sig. Slíkri fínstillingu er ekki hægt að ná í tómarúmi.

Og eins og ég horfi á hlutina þá verðum við að gera betur.

Ágætu fundargestir,

Markaðssókn á erlendum vettvangi er langtímahlaup. Þar spilar atvinnulífið sjálft langstærsta hlutverkið en stjórnvöld þurfa að styðja við bakið á því.

Það er afar mikilvægt að atvinnulífið sé inni í allri stefnumótun um hvað stjórnvöld geti gert til að styðja við alþjóðlega og árangursríka markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu. Horfa þarf til framtíðar og skipuleggja starfsemina með langtímasýn og -markmið að leiðarljósi.

Starfshópur forvera míns sem skilaði þeirri ágætu skýrslu „Áfram Ísland“ fyrir þó nokkru síðan (janúar 2015) lagði til að stofnað yrði útflutnings- og markaðsráð með breiðri aðkomu stjórnvalda og atvinnulífsins.

Hlutverk þess væri að marka langtímastefnu að því er varðar útflutningsþjónustu og markaðsstarf og væri yfirmarkmið starfseminnar að tvöfalda útflutningstekjur á milli áranna 2012 og 2030 (reiknað á föstu verðlagi ársins 2012).

Þetta upplegg á ennþá fyllilega við. Samsetning útflutningstekna hefur breyst mikið og á kostað vöruútflutnings. Og það er áhyggjuefni að vöxturinn skuli ekki vaxa á þeim hraða sem þarf til að ná þessu markmiði.

Markaðssókn á erlendum vettvangi er einnig fjárfesting.

Eins og gildir um allar fjárfestingar, þarf að vega og meta álitlegustu kostina og huga að því hvernig mannauði og fjármunum sé best varið.

Hér skiptir raunsæi, faglegt mat og víðsýni miklu máli. Stundum er nefnilega nauðsynlegt að fara út úr þægindarammanum og viðjum vanans og vera tilbúinn til að endurskoða skipan mála, ef aðstæður kalla á það.

Markaðsstarf á erlendum vettvangi krefst áætlana, aðgerða og viðveru á erlendum vettvangi. Markmið með stuðningi stjórnvalda við atvinnulífið, hlýtur að ganga út á það þegar upp er staðið, að afla aukinna gjaldeyristekna í formi sölu á vöru og þjónustu og aukinna erlendra fjárfestinga.

Við höfum ýmis tæki til þess.Við þurfum að tryggja sem bestan markaðsaðgang, t.d. í formi fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga við erlend ríki. Ég tel reyndar að við getum í mun meira mæli nýtt okkur þau tækifæri sem felast í núverandi samningum og væri það reyndar tilefni til sérstaks kynningarfundar með atvinnulífinu.

Við sinnum kynningar-, orðspors- og ímyndarmálum, m.a. með því að vekja athygli á okkar frábæru listamönnum. Íslandsstofa hefur sinnt slíku markaðsstarfi af myndarbrag.

Við sinnum samskiptum við erlend stjórnvöld og alþjóðastofnanir, ekki bara þegar vandamál koma upp heldur einnig með reglulegum hætti.

Við þurfum að geta veitt einstökum fyrirtækjum og atvinnugreinum sem þess óska, viðeigandi aðstoð á erlendum vettvangi og skipuleggja viðskiptahvetjandi viðburði þar sem tækifærin liggja.

Við þurfum líka að vera duglegri í að fara í sölumannshlutverkið og virkja hin mannlegu samskipti gagnvart viðskiptavinum okkar. Það skilar bestum árangri í viðskiptum.

Þessir viðskiptavinir sem við viljum ná til, eru ekki hérna á Íslandi.

Sendiskrifstofur okkar hafa afl og getu til að opna dyr víða, það höfum við margoft upplifað, ekki síst á fjarlægum mörkuðum þar sem aðkoma ríkisvaldsins er oft lykillinn að því að opna dyr. En það er til einskis ef atvinnulífið fylgir ekki eftir.

Ég er sannfærður um að við getum nýtt mun betur þá aðstöðu, tengslanet og þekkingu sem við höfum byggt upp og fjárfest í erlendis, í þágu atvinnulífsins. Við þurfum að efla getuna til að veita meiri útflutningsþjónustu á þessum starfstöðvum og það mun skila sér margfalt til baka. Við opnum ekki dyr að nýjum mörkuðum frá Reykjavík einvörðungu. Við verðum að geta beitt okkur á staðnum.

Þetta skilja öll ríki sem við viljum bera okkur saman við og er mér í raun óskiljanlegt hvers vegna við höfum ekki gengið lengra í þeim efnum. Stýrihópur utanríkisráðuneytisins mun rýna fast í þessa hluti á næstu vikum og gera tillögur til úrbóta sem munu taka á samspili utanríkisþjónustunnar og Íslandsstofu. Minnugur knattspyrnulíkingarinnar áðan þá vænti ég
mikils af því starfi.

Kæru gestir,
Við höfum verk að vinna og við þurfum að gefa í.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta