Ávarp við kynningu á Nordic Innovation House
RÆÐA GUÐLAUGS ÞÓRS ÞÓRÐARSONAR UTANRÍKISRÁÐHERRA
KYNNING Á NORDIC INNOVATION HOUSE
NORRÆNA HÚSIÐ, 24. OKTÓBER 2017
Kæru gestir
Það er mér heiður og sönn ánægja að bjóða ykkur öll velkomin á kynningu á starfsemi Norræna fyrirtækjasetursins – Nordic Innovation House – í New York.
And before I continue in Icelandic let me welcome a very special guest, the Director of the Nordic Innovation House, Silve Parviainen.
Kæru gestir
Ég ætla að beina orðum mínum beint til ykkar sem hér eruð. Lífskjarasókn Íslendinga á komandi árum og áratugum mun byggjast á ykkar framlagi. Ef við ætlum að halda þeim lífskjörum sem við búum við í dag munum við þurfa að auka útflutningstekjur okkar um sem nemur 1000 milljörðum á næstu 20 árum. Það eru 50 milljarðar á ári eða um milljarður í hverri einustu viku.
Náttúruauðlindir okkar munu ekki einar og sér standa undir þessum vexti. Ferðaþjónustan mun ekki heldur gera það. Vissulega eru sóknarfæri til staðar í þessum hefðbundnu greinum, ekki síst ef okkur tekst að samtvinna þær enn frekari nýsköpun og hugviti en það er hér á þessum vettvangi sem hinir raunverulegu vaxtarmöguleikarnir eru.
Verðmætasköpunin þarf að verða til í nýsköpun og byggja á hugviti, hátækni, sköpunarkrafti og þróaðri framleiðslu.
Þið eruð núna fjöregg þjóðarinnar. Hvernig okkur mun farnast á næstu tuttugu árum, hvort okkur tekst að halda Íslandi í fremstu röð, hvort okkur tekst að viðhalda lífskjörum sem gera það eftirsóknarvert að búa hér – allt þetta er undir því komið hvernig ykkur tekst til.
Stjórnamálamenn skapa ekki verðmæti, þótt sumir þeirra tali á þann veg eða telji að verðmætasköpun í samfélaginu sé sjálfgefin. Ekkert af þessu er sjálfgefið og líklega veit það enginn betur en þeir sem vinna við nýsköpun.
Þess vegna ættum við stjórnamálamenn í fyrsta lagi að einbeita okkur að því að leggja ekki stein í götu þeirra sem vinna að verðmætasköpun.
Og að svo miklu leyti sem við getum þá verðum við að greiða götuna, opna dyr.
Það gerum við með því að létta af álögum, með því að forgangsraða í menntakerfinu í þágu skapandi greina en ekki síst gerum við það með því að efla fríverslun.
Fyrir útflutningsdrifið hagkerfi, þar sem útflutningsfyrirtækin eru jafnframt háð innflutningi á margvíslegum vörum, er fríverslun ekki bara kostur, heldur alger forsenda framfara.
Hagasaga Íslands er skólabókardæmi um kosti fríverslunar. Í upphafi síðustu aldar vorum við eitt fátækasta ríki Vestur-Evrópu. En eftir að við fengum forræði yfir okkar utanríkisviðskiptum og aðgang að erlendum mörkuðum þá breyttist allt.
Það er á þessum grunni sem við eigum að horfa á fram á veginn. Og það er á þessum grunni sem við höfum verið að endurskipuleggja utanríkisþjónustu Íslands á þeim stutta tíma sem ég hef gegnt embætti utanríkisráðherra.
Í skýrslu starfshóps um framtíð utanríkisþjónustunnar sem út kom um daginn eru settar fram 150 tillögur um hvernig við - utanríkisþjónustan - getum bætt okkur.
Rauður þráður í skýrslunni er að efla samstarf allra þeirra sem vinna að viðskiptasókn Íslands; Samtökum atvinnulífs, samtökum iðnaðar stjórnsýslunnar, Íslandsstofu og fleiri aðila.
Við viljum efla Íslandsstofu þannig að hún geti enn betur veitt fyrirtækjunum þá þjónustu sem þau þurfa.
Þessar tillögur voru unnar í nánu samstarfi við atvinnulífið og þannig eigum við að nálgast þetta.
Utanríkisþjónustan getur opnað dyr ef rétt er á málum haldið. En það er þýðingarlaust ef enginn ætlar sér að ganga í gegnum þær dyr, það er þýðingarlaust ef stjórnvöld og atvinnulífið ganga ekki í takt.
Og þá erum við komin að Nordic Innovation House. Með því að sameina krafta okkar á hinum stóra heimsmarkaði aukum við möguleika okkar allra. Norðurlöndin hafa ákveðna ímynd, ekki síst þegar kemur að hugviti og nýsköpun. Í þessu tilliti eigum við ekki í innbyrðis samkeppni út á við heldur eigum við sameiginlega hagsmuni. Það sem veitir einu norrænu fyrirtæki samkeppnisforskot veitir þeim öllum samkeppnisforskot.
Ég bind miklar vonir við þetta samstarf og þá vinnu sem nú er hafin í Nordic Innovation House vestan hafs. Ég er fullviss um að við getum notað það sem fyrirmynd annars staðar, ekki síst á þeim mörkuðum sem nú vaxa hraðast í heiminum, í Suðaustur-Asíu, Indlandi og jafnvel í Afríku.
Kæru gestir
Ég vil lokin hvetja ykkur til dáða. Og sú hvatning er ekki bara hefðbundið klapp á bakið. Við Íslendingar eigum svo ótrúlega mikið undir því að ykkur takist vel til.
Fyrir hönd íslensku þjóðarinnar vona ég svo sannarlega að starf ykkar verði farsælt.
Takk fyrir.