Hálfrar aldar bann við útbreiðslu kjarnavopna
Síðan kalda stríðið var í hámarki hefur kjarnavopnum í heiminum fækkað úr 70.000 í tæplega 15.000. Um langt árabil hefur útbreiðsla kjarnavopna verið nánast stöðvuð. Friðsamleg nýting kjarnorku hefur vaxið og nær nú til allra heimshluta.
Í þessari þróun hefur samningurinn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) gegnt lykilhlutverki. Í gær, þann 1. júlí, voru fimmtíu ár liðin frá því að samningurinn var undirritaður og gerði Ísland það einnig þann merka dag.
Þessi samningur er sannkallað stórvirki en hann byggist á þremur megin markmiðum: fækkun kjarnavopna, stöðvun á útbreiðslu kjarnavopna og að tryggja rétt ríkja til friðsamlegrar nýtingar kjarnorku. Öll þessi markmið hafa verið uppfyllt að verulegu leyti. Í dag á 191 ríki aðild samningnum. Þó er sá meinbugur þar á að nokkur ríki sem eiga kjarnavopn standa utan hans: Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kórea.
Tímamótin minna einnig á að mikið verk er óunnið við að framkvæma samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna, auk þess sem teikn eru á lofti um að það kerfi alþjóðlegra reglna sem samskipti ríkja byggjast á eigi undir högg að sækja. Gildir þetta bæði á sviði öryggismála og viðskipta. Því þarf að standa vörð um mikilvæga afvopnunarsamninga eins og NPT og samninginn um bann við efnavopnum. Í þessu samhengi má tilgreina þrjú aðkallandi úrlausnarefni, sem kunna að reyna á samninginn.
Fyrst er að nefna kjarnavopn Norður-Kóreu. Þar birtist ógnin af beitingu kjarnavopna í sinni skýrustu mynd þar sem saman fara óábyrgt einræði og ógnarvopn. Niðurstaða leiðtogafundar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna í nýliðnum mánuði vekur vonir en jafnframt er rétt að hafa hugfast að fyrirheitin sem gefin voru fyrri samningum ríkjanna um kjarnavopn hafa ekki ræst.
Þá er það samkomulagið um kjarnorkuáætlun Írans frá 2015, sem miðar að því að koma í veg fyrir að Íran framleiði kjarnavopn. Þetta rammasamkomulag Írana við fastaríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, Þýskaland og Evrópusambandið hefur veikst mjög eftir brotthvarf Bandaríkjanna.
Loks ríkir óvissa um framtíð tveggja afvopnunarsamninga Rússlands og Bandaríkjanna: samningsins um langdræg kjarnavopn (START) og samningsins um meðaldræg kjarnavopn (INF).
Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum til framgangs NPT-samningsins í samvinnu við Norðurlöndin og bandalagsríki í Atlantshafsbandalaginu, og í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Endurskoðunarráðstefna NPT sem haldin verður árið 2020 verður sérstaklega mikilvæg í að tryggja framtíð samningsins og áframhaldandi framfylgd hans. Þannig færumst við nær lokamarkmiði samningsins, kjarnavopnalausum heimi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2018.