Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. desember 2018 Guðlaugur Þór Þórðarson

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 70 ára

Hátíðarfundur í tilefni 70 ára afmælis mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna
Háskóla Íslands, 10. desember 2018
Ávarp utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar

Ágæta samkoma!

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er sjötíu ára í dag og eins og venja er á stórafmælum er við hæfi að segja: Til hamingju með daginn! 

Við Íslendingar höfum mjög góða sögu að segja. Hvað sem líður afmörkuðum pólitískum úrlausnarmálum hér heima er staða mannréttinda hér á landi góð og kemur vel út í öllum samanburði við aðrar þjóðir. 

Og fyrir vikið erum við að mínu mati vel í stakk búin til að láta gott af okkur leiða í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem við tókum sæti fyrr á þessu ári. Þar leggjum við áherslu á jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks, sem og réttindi barna. 

En við tölum líka skýrt og skorinort um ástandið í einstökum ríkjum. Við höfum, svo tvö dæmi séu tekin, verið leiðandi rödd að því er varðar slæma þróun á Filippseyjum undanfarin tvö ár, og við erum eitt af örfáum ríkjum sem talar opinskátt um aðstæður í Sádi-Arabíu.

Þar er af ýmsu að taka – hernaðurinn gagnvart óbreyttum borgurum í Jemen, sem við höfum gagnrýnt harðlega, en líka bágbornar aðstæður kvenna heima við, opinberar aftökur, pyntingar og takmörkuð pólitísk og félagsleg réttindi borgaranna.
 
Við hlökkum til að láta að okkur kveða í mannréttindaráðinu á komandi ári – en líka annars staðar þar sem rödd Íslands heyrist. Við sem störfum í utanríkisþjónustunni leggjum ætíð áherslu á mannréttindi hvort sem það er á vettvangi alþjóðastofnana eða í tvíhliða samskiptum við önnur ríki.

Kæru félagar,
Mannréttindayfirlýsingin kveður á um margt sem við teljum sjálfsagðan hlut en það var ekki alltaf þannig - og er ekki í dag. Því miður. Baráttan heldur því áfram og sennilega lýkur henni aldrei. 

Aðstæður eru mjög misjafnar eftir því hvar í heiminum þú ert og gríðarlega miklar samfélagslegar breytingar hafa átt sér stað, sem enginn sá fyrir þegar Mannréttindayfirlýsingin var samþykkt. Auknar kröfur eru gerðar og nýjar áskoranir hafa orðið til.

Engu að síður hefur Mannréttindayfirlýsingin staðist tímans tönn prýðilega. Greinarnar þrjátíu, sem Mannréttindayfirlýsingin samanstendur af, fanga hugsun sem fyrst og fremst felur í sér áherslu á rétt einstaklinga en líka skyldur þeirra hver gagnvart öðrum, á mannlega reisn og mikilvægi hennar.

„Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan,“ segir strax í fyrstu grein Mannréttindayfirlýsingarinnar og ég held við getum öll verið sammála um að þessi texti hljómar vel enn þann dag í dag.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það felist grundvallarmannréttindi í því að menn og konur fái að lifa eins og þeim hugnast - frelsi fólks til hugsana og athafna sé óskert, svo lengi sem það breytir bróðurlega gagnvart öðrum mönnum og konum og allir njóta sömu réttinda. 

Ég vil hafa hlutina einfalda. Regluverkið sem við byggjum samfélag okkar á þarf að vera eins skilvirkt og nokkur kostur er, og ýta undir einstaklinginn fremur en að halda aftur að honum. Að vera borinn frjáls í þennan heim þýðir meðal annars að ríkisvald á ekki að setja of miklar skorður á hvað ég get tekið mér fyrir hendur. Þetta er grundvallaratriði og gleymist stundum í umræðu um mannréttindamál.

Stundum er kvartað undan því að mannréttindalöggjöf, eins og hún hefur þróast, sem og þær stofnanir sem hafa verið settar á laggirnar til að halda utan um hana, sé orðin of metnaðargjörn til að vera raunhæf. Samningar á sviði mannréttinda séu orðnir of margir og of margt sé málum blandið. Of auðvelt sé að fara á svig við reglur, einfalt að ljúga til um raunverulega stöðu mála eða einfaldlega hafna afskiptum annarra á þeim grunni að um einkamál viðkomandi ríkis sé að ræða.

Ég nefndi réttindi kvenna í Sádi-Arabíu hér áðan en vissuð þið að Sádi-Arabía fullgilti fyrir löngu síðan sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum? Við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur hvers virði slíkt regluverk er í raun ef ekki er farið eftir því. Og standa í ístaðinu eftir fremsta megni – halda þeim við efnið sem ekki standa sig nægilega vel, bæði hér heima og úti í hinum stóra heimi.

Ég nefni þetta hér því að sjötíu ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar gefur okkur ágætt tækifæri til að spyrja ýmissa grundvallarspurninga og ræða málin út frá ólíkum sjónarhornum. Mannréttindayfirlýsingin er biblían okkar í þeirri umræðu - það skjal sem alltaf er hægt að leita til og sækja leiðsögn og innblástur í.

Þörfin fyrir að tala fyrir mannréttindum eru engu minni nú en hún var fyrir sjötíu árum og við þurfum auðvitað að muna við hvaða aðstæður Mannréttindayfirlýsingin varð til - í kjölfar blóðugrar heimsstyrjaldar.
Mannréttindi eru ekki afstæð. Þau eru algild. Með því að setja mannréttindi í forgang, frelsi og jafnrétti allra, erum við um leið að vinna friði og stöðugleika í heiminum gagn. Þann slag verðum við alltaf að vera tilbúin til að taka.

Þakka ykkur fyrir.
 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta