Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. mars 2019 Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp á fundi um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu

Formaður bresk-íslenska viðskiptaráðsins, formaður viðskiptaráðs, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, ambassador Nevin, góðir gestir.

Viðfangsefni þessa fundar er svo sannarlega mikilvægt og mig langar – áður en ég vík að afstöðu og undirbúningi íslenskra stjórnvalda fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu – að þakka bresk-íslenska verslunarráðinu fyrir að standa fyrir þessum fundi og raunar Viðskiptaráði öllu fyrir að taka virkan þátt í þeirri samvinnu sem íslensk stjórnvöld hafa átt við íslenskt viðskiptalíf og fleiri hagsmunaaðila um viðbrögð og undirbúning fyrir Brexit.
Allt frá því að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi urðu ljós um sumarið 2016 hafa íslensk stjórnvöld unnið að því hörðum höndum að gæta hagsmuna Íslands og skilgreina skýr markmið út frá mismunandi sviðsmyndum 

Við höfum gert það í nánu samráði við Alþingi, hagsmunaaðila og í góðri samvinnu með hinum EFTA-ríkjunum, sérstaklega Noregi og Liechtenstein.

Við höfum átt fjölda funda með breskum stjórnvöldum og einnig með ESB. 

Sjálfur hef ég átt á annan tug funda með breskum ráðherrum og öðrum hátt settum embættismönnum um Brexit og fundir íslenskra embættismanna með breskum kollegum telja nú vel á fimmta tuginn, og þá er eingöngu um að ræða formlega fundi. Óformlegir fundir, símtöl og önnur samskipti eru svo að segja óteljandi.

Gríðarlega umfangsmikil upplýsingaöflun og greiningarvinna hefur farið fram í samstarfi við helstu hagsmunaðila.

Þetta ætti að gefa einhverja vísbendingu um þann forgang sem undirbúningur fyrir Brexit hefur haft í utanríkisþjónustunni síðustu misseri.

Góðir gestir.

Ég hef sagt og segi enn að Brexit er ekki stórmál. 

Útganga Breta úr Evrópusambandinu felur vissulega í sér áskoranir og flókin úrlausnarefni. 
En þegar maður setur Brexit í samhengi við önnur viðfangsefni ríkja á alþjóðavettvangi, þá eru engar forsendur fyrir þeim harmkvæðum og heimsendaspám sem því miður hafa litað alla umræðu um Brexit.

En þið megið ekki misskilja mig. 

Brexit er  auðvitað mikilvægt viðfangsefni – og þannig höfum við nálgast málið í utanríkisráðuneytinu frá því að ég tók þar við og það var gert af hálfu forvera míns líka. 
Við höfum lagt áherslu á að afla gagna og upplýsinga, á greiningarvinnu og kortlagningu íslenskra hagsmuna. Við höfum líka horft á málin út frá lausnum og tækifærum. Þessi vinna hófst í ráðuneytinu um leið og niðurstaðan um Brexit lá fyrir í júní 2016 og henni hefur verið haldið áfram.

Það þjónar ekki íslenskum hagsmunum að horfa á Brexit sem heimsendi.

Jóhanna mun hér á eftir fara nánar yfir það hvernig íslensk stjórnvöld hafa hagað undirbúningi sínum vegna Brexit en ég vil þó segja nokkur orð um málið almennt.

Ég tók við embætti utanríkisráðherra 11. janúar 2017 og hef síðan þá átt fjölmarga fundi með breskum ráðamönnum, hátt settum aðilum innan ESB og ráðherrum aðildarríkja ESB. Á flestum þessara funda hefur Brexit borið á góma með einum eða öðrum hætti.

Það sem upp úr stendur í mínum huga, eftir öll þessi samtöl og þau sjónarmið sem ég hef hlustað á, er sú staðreynd, að hagsmunir Bretlands og ESB ríkjanna standa eindregið til þess að útganga Breta hafi ekki í för með sér viðskiptahindranir milli þessara aðila.

Allir munu tapa á því.

Það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur á þessum óvissutímum. Þá er mikilvægt að hafa í huga að íslensk og bresk stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að tryggja eins hnökralaus viðskipti hægt er, sama hvernig útgöngu verður háttað.

Það er líka rétt að við séum öll meðvituð um það, að ekki er hægt að sjá fyrir hið ófyrirsjáanlega. Og þess vegna ríður á því að stjórnvöld og atvinnulífið séu sameiginlega í stakk búin að takast á við breytingar í þeim tilvikum þar sem EES-samningurinn mun ekki lengur gilda, og þá vonandi einungis til skamms tíma.

Við skulum líka hafa í huga að samskipti Breta og Íslendinga eiga sér sögulegar rætur. Bretar og Íslendingar hafa stundað viðskipti frá örófi alda og menningartengsl milli þjóðanna eru mikil og djúpstæð. Allt þetta skiptir máli þegar kemur að því að leysa sameiginleg viðfangsefni – mæta áskorunum saman.

Góðir gestir.

Ég hef sagt að Brexit sé eins og hjónaskilnaður. Það þýðir ekkert að velta fyrir sér af hverju og hvers vegna. Skilnaður er niðurstaða. Hvort skilnaður leiðir til góðs eða ills fer alfarið eftir því hvernig aðilar nálgast málin og hvort þeir geta sett sameiginlega hagsmuni ofar öllu.
Vandinn við Evrópusambandið að þar eru enn 27 makar eftir í hjónabandinu. Ef einhver þeirra sér að Bretlandi farnast betur eftir skilnaðinn þá fara þeir að hugsa sér til hreyfings. Og Brussel má ekki hugsa til þess.

Að öðru leyti ætla ég að láta öðrum eftir bollaleggingar um þessi mál. 

Minn forgangur í málinu hefur verið skýr: Brexit er veruleiki, hvernig tryggjum við íslenska hagsmuni sem best við þessar kringumstæður?

Frá upphafi hafa stjórnvöld sett fram þrjár skýrar sviðsmyndir sem stjórnsýslan vinnur eftir:

1. Að gerður verði djúpur og víðfeðmur efnahags- og samstarfssamningur við Bretland sem undirstrikar náin tengsl landanna á helstu sviðum.

2. Að EFTA-ríkin fjögur (Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss) eða EFTA-ríkin þrjú innan EES (EFTA-ríkin utan Sviss) semji í sameiningu við Bretland þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands.

3. Að samningur við Bretland taki mið af samningum ESB og Bretlands þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands.

Við skulum hafa í huga að hver þessara leiða útilokar ekki aðra. Á sumum sviðum gæti þannig verið æskilegt að gera sameiginlegan samning með hinum EFTA-ríkjunum innan EES sem endurspeglar samning Bretlands og ESB. Á öðrum sviðum gæti aftur á móti verið ákjósanlegt að gera tvíhliða samning á milli Íslands og Bretlands.

Óháð því hvaða leið verður farin er ljóst að með útgöngu Bretlands úr ESB verður vendipunktur í samskiptum Íslands og Bretlands. 

Viðskipta- og efnahagssamstarfið hefur á síðustu 23 árum nær alfarið byggst á EES-samningnum og nú stendur Bretland ásamt samstarfslöndum frammi fyrir því að móta samskiptin á nýjum grunni. Þetta felur í sér tækifæri og möguleika til að þróa áfram samskiptin milli Íslands og Bretlands, báðum löndum til hagsbóta. Bretland er ekki aðeins nágrannaríki Íslands í Atlantshafinu heldur eitt stærsta hagkerfi heims og viðskiptaveldi sem hefur metnað til að ryðja brautina í alþjóðlegri fríverslun.

Á grundvelli þessara mismunandi sviðsmynda höfum við sagt að verkefni íslenskra stjórnvalda sé þríþætt:

Í fyrsta lagi að tryggja, í samvinnu við Noreg og Liechtenstein, að atriði í útgöngusamningi Bretlands og ESB sem varða innri markaðinn gildi líka um Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Þá höfum við gert ráðstafanir til þess að EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB geti gilt um Bretland fyrst eftir útgöngu.

Í öðru lagi höfum við unnið að framtíðar efnahags- og samstarfssamningi við Bretland sem nær yfir viðskipti og önnur atriði sem falla í dag undir EES-samninginn. Formlegar viðræður um slíkan samning gætu hafist á fyrirhuguðu bráðabirgðatímabili.

Í þriðja lagi höfum við hugað vandlega að því hvernig megi auka og styrkja tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands á ýmsum sviðum eins og til dæmis í öryggis- og varnarmálum en gagnkvæmur vilji er fyrir því.

Að tryggja að samskipti milli Íslands og Bretlands verði snurðulaus er stórt verkefni en úrsögnin felur jafnframt í sér tækifæri á þeim sviðum sem samningar ESB hafa gilt um samskiptin. 

Jafnvel þótt EES-samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslensks útflutnings til Bretlands njóti annað hvort tollfrelsis eða tollaívilnana þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir. 

Á viðskiptasviðinu er því ljóst að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helstu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.

Frá fyrsta degi höfum við lagt mikla áherslu á að þetta verkefni sé unnið í nánu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, og eftir atvikum annarra aðila sem hagsmuna hafa að gæta.

Það er reyndar rauður þráður í mínum áherslum að fá atvinnulífið til liðs við stjórnvöld þegar kemur að hagsmunagæslu á erlendum vettvangi.

Í ársbyrjun 2017 var skipaður Brexit-stýrihópur utanríkisráðuneytisins, sem og fimm vinnuhópar til að skilgreina markmið Íslands fyrir framtíðarviðræður við Bretland. 

Í nóvember 2017 var birt viðamikil skýrsla sem byggði á þessu starfi og greindi hagsmuni Íslands við útgöngu Breta úr EES samhliða útgöngu þeirra úr ESB. 

Þá hafa vinnuhóparnir haldið áfram greiningarvinnu sinni sem miðar að því að skila helstu markmiðum og forgangsröðun samningsatriða þegar kemur að fyrirkomulagi framtíðarviðskipta Íslands og Bretlands. 

Vinnuhóparnir hafa átt samráð við fulltrúa ólíkra atvinnugreina við að kortleggja stöðuna og skilgreina samningsmarkmið Íslands.

Ég tel að okkur hafi tekist vel í þessu samstarfi við hagsmunaaðila og þetta eigi í raun að vera fyrirmynd að því hvernig við mótum stefnu okkar og áherslur þegar kemur að utanríkisviðskiptastefnu.

Góðir gestir.

Brexit er ekki heimsendir en við höfum engu að síður tekið þetta verkefni föstum tökum og erum vel í stakk búin að mæta þeim áskorunum sem útganga Breta hefur í för með sér.

Hvort sem Bretar ganga úr Evrópusambandinu án samnings eða ekki þá höfum við búið svo um hnútana að sem minnst röskun verði á samskiptum okkar við Bretland, hvort sem í hlut eiga fyrirtæki eða einstaklingar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta