Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu
Ársfundur Íslandsstofu
Norðurljósasal Hörpu, 29. apríl 2019
Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra
Formaður stjórnar Íslandsstofu, framkvæmdastjóri, góðir fundargestir,
Það er ánægjulegt að ávarpa ársfund nýrrar Íslandsstofa, nú þegar bráðum er ár liðið frá því að frumvarp mitt um breytingar á lögum um Íslandsstofu var samþykkt á Alþingi.
Að baki því frumvarpi, sem unnið var í náinni samvinnu með atvinnulífinu og fleiri aðilum, er hugmyndin um vettvang þar sem atvinnulífið og stjórnvöld gætu stillt saman strengi í sókn á erlenda markaði, hugmyndin um langtímastefnumótun þar sem þessir aðilar gengu í takt í átt að sameiginlegu markmiði um aukna verðmætasköpun.
Það er grundvallaratriði í þessum hugmyndum að útflutningsþjónusta og markaðsstarf fyrir Ísland byggist á langtímastefnumótun sem mörkuð er í breiðri samvinnu allra er hagsmuna eiga að gæta og sé ákvörðuð af æðstu ráðamönnum í samstarfi við atvinnulífið.
Þær breytingar sem ég lagði til á lögum um Íslandsstofu og Alþingi samþykkti miðuðu allar að þessu marki, að treysta og styrkja samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um markaðsstarf og ímynd Íslands.
Góðir fundarmenn,
Ný Íslandsstofa hefur farið vel af stað og það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeirri hugmyndavinnu sem nú á sér stað varðandi framtíðarstefnumörkun Íslandsstofu. Fyrir rétt rúmum mánuði ávarpaði ég fyrsta fund Útflutnings- og markaðsráðs sem gegna mun veigamiklu hlutverki við þessa stefnumörkun.
Við framtíðarstefnumörkun Íslandsstofu byggjum við auðvitað á þeim góða grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Margir hafa komið að því verkefni en það er auðvitað á engan hallað þegar ég segi að Jón Ásbergsson eigi þar stærstan hlut að máli. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Jóni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fyrir hans öfluga starf að útflutningsmálum Íslendinga. Og ég vil ég líka nota þetta tækifæri og hrósa nýrri stjórn Íslandsstofu fyrir að finna að ég tel hárrétta manninn til að taka við keflinu. Ég hef fylgst náið með störfum Péturs Óskarssonar nú á upphafsmetrunum og þau lofa svo sannarlega góðu fyrir framhaldið.
Góðir fundarmenn,
Við Íslendingar eigum í kapphlaupi við þjóðir heims um bætt lífskjör. Í þeirri keppni fæst ekkert gefið. Hvort við Íslendingar náum árangri í þeirri keppni er undir okkur sjálfum komið. Lífskjör okkar Íslendinga næstu áratugi munu ráðast af því hvernig okkur tekst til á allra næstu árum. Það er staðreynd og sú staðreynd hvílir á okkar herðum.
Við gleymum því stundum hversu mikilvæg útflutningsverslun er fyrir okkur Íslendinga. Í upphafi síðustu aldar vorum við meðal fátækustu þjóða Vestur-Evrópu. Með fullveldinu fengum við verslunarfrelsi og einni öld síðar erum við meðal ríkustu þjóða heims.
Það tók okkur vissulega talsverðan tíma að kasta af okkur einangrunarhöftunum en þegar við loksins gerðum það þá hófst hér lífskjarasókn sem á sér vart hliðstæðu.
Og hver skyldi vendipunkturinn í þeim efnum hafa verið? Vissulega voru stigin margvísleg framfaraskref á síðustu öld og víst er að útfærsla landhelginnar vó þar mjög þung og sömuleiðis inngang okkar í EFTA. En vendipunkturinn var innganga okkar í Evrópska efnahagssvæðið fyrir réttum aldarfjórðungi.
EES-samningurinn þýðir í raun að Evrópumarkaðurinn er okkar kjölfestumarkaður. Óheftur aðgangur að kjölfestumarkaði okkar, innri markaði Evrópu, hefur veitt okkur frelsi og áræði til að afla nýrra markaða fyrir vörur okkar og þjónustu. Innri markaðurinn er kjölfestan og stöðugleikinn um leið og við leitum tækifæra á nýmörkuðum.
Við höfum á síðustu 25 árum notið ríkulega góðs af kostum EES-samningsins. Þá er ég ekki bara að vísa til aukningar í landsframleiðslu og ráðstöfunartekna einstaklinga samhliða stórauknum útflutningi og utanríkisverslun almennt.
EES-samningurinn hefur einnig fært okkur umbætur á laga- og samkeppnisumhverfi, bæði fyrir neytendur og atvinnulífið, sem við í dag teljum sjálfsagðar, að ónefndum fjölmörgum tækifærum á sviði vísinda-, rannsókna og menntamála.
Og kannski er lykilhugtakið hér sjálfsagt. Hvort sem horfum á málin sem neytendur, atvinnurekendur, innflytjendur, útflytjendur, launþegar, fræðimenn eða námsmenn, þá er svo margt í okkar umhverfi og í daglegu lífi sem við teljum sjálfsagt en er í reynd grundvallað á þeim réttindum sem við njótum samkvæmt EES-samningnum.
Þessi staða er alltaf hættuleg. Þegar við teljum eitthvað sjálfsagt eða sjálfgefið þá erum við aldrei nær því að missa það frá okkur.
Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því að opna nýja markaði en ekki að loka þeim sem fyrir eru. Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því hafa áfram nánast óheftan aðgang að okkar kjölfestumarkaði um leið og við leitum nýrra tækifæra á vaxandi mörkuðum. Ný lífskjarasókn felst í því að íslensk fyrirtæki geta áfram keppt og þróast á kjölfestumarkaði sínum á jafnræðisgrundvelli og notað samkeppnishæfni sína til að sækja fram á nýjum mörkuðum. Ný lífskjarasókn mun byggja á því að unga fólkið okkar geti áfram sótt sér þekkingu og reynslu á grundvelli þeirra réttinda sem það nýtur samkvæmt EES-samningnum.
Það var mikið gæfuspor á 75 ára afmæli fullveldisins, fyrir réttum aldarfjórðungi, að við skyldum nýta forræði okkar yfir eigin málum til að gera alþjóðasamning á okkar eigin forsendum, sérsniðinn að okkar hagsmunum.
Það er og á að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda og atvinnulífsins að tryggja að þessi kjölfesta íslenskrar utanríkisverslunar verði áfram fyrir hendi og að hún verði undirstaða nýrrar lífskjarasóknar.
Góðir fundarmenn,
Þessi fyrsti ársfundir nýrrar Íslandsstofu gefur góð fyrirheit. Órofa samstaða atvinnulífsins og stjórnvalda um markmiðið, öflugir stjórnendur og frábært starfsfólk – þetta eru forsendur fyrir góðum árangri.
Ég hlakka til að fylgjast með framhaldinu og óska ykkur af heilum hug velfarnaðar í þessu mikilvæga verkefni.