Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2019 Guðlaugur Þór Þórðarson

Opnunarávarp á málþingi um þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu

Opnunarávarp
Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu, þróunarsamvinna ber ávöxt
Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þorlagssona, utanríkisráðherra

Ágætu gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á málstofu undir yfirskriftinni „Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu“.

Í byrjun maí var þingsályktunartillaga að nýrri þróunarsamvinnustefnu fyrir árin 2019-2023 samþykkt á Alþingi. Stefnan byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa þegar markað breyttar áherslur í þróunarsamvinnu.

Þessi nýja stefna er áþekk fyrri áætlunum en endurspeglar breytingar sem hafa orðið í alþjóðlegri þróunarsamvinnu á síðustu misserum með samþykkt heimsmarkmiðanna, með tilkomu Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál og samkomulagsins um fjármögnun þróunarsamvinnu í Addis Ababa. Þannig slær hún nýjan tón um aukið samstarf milli atvinnulífs, félagasamtaka og stjórnvalda.

Þjóðarleiðtogar heims hafa lagt áherslu á að ekki verði unnt að fjármagna heimsmarkmið eingöngu með opinberum framlögum til þróunarsamvinnu og að auka þurfi fjárfestingar einkaaðila til þess að markmiðunum verði náð árið 2030.

Við höfum séð það annars staðar á Norðurlöndunum að stjórnvöld vinna í auknum mæli með fyrirtækjum og félagasamtökum að verkefnum sem miða að því að skapa atvinnu og auka hagvöxt í þróunarlöndum. Á sama tíma hefur áhugi norrænna fyrirtækja aukist á þróunarlöndum sem áhugaverðum vaxtarmörkuðum þar sem tækifærum mun fjölga ört á komandi árum. Þau hafa séð sér hag í að fjárfesta í innviðauppbyggingu og mannauði í samstarfi við þarlend stjórnvöld.

Meginmarkmið með framlagi Íslands til þróunarsamvinnu er uppbygging félagslegra innviða, störf í þágu friðar, verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Aðkoma atvinnulífsins – sem býr yfir frumkvæði og margs konar sérþekkingu sem getur nýst við að leysa flókin verkefni – er mikilvægur þáttur í þessari uppbyggingu. Í því samhengi má nefna að níu af hverjum tíu störfum í þróunarlöndum verða til í einkageiranum og hvert starf útrýmir fátækt fimm einstaklinga.

Framlag félagasamtaka til samstarfsins er ekki síður verðmætt. Í fjölda ára höfum við átt gott samstarf við félagasamtök á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og munum halda því áfram. Utanríkisráðuneytið leggur nú aukna áherslu á samstarf við félagasamtök í víðara samhengi en hefðbundið hjálparstarf, meðal annars félagasamtök sem tengjast atvinnulífinu og búa yfir mikilli þekkingu af tilteknum atvinnugreinum.

Fjárfestingar á vaxandi mörkuðum þróunarríkja geta skilað bæði fjárfestum og samfélögunum töluverðum ávinningi þótt þeim fylgi oft nokkur áhætta. Með samvinnu stjórnvalda, félagasamtaka og atvinnulífs má lágmarka áhættuna, bæði með opinberum stuðningi við einstök verkefni og með því að nýta þekkingu á staðarháttum og tengslanet stjórnvalda við alþjóðastofnanir og stjórnvöld á staðnum.

Samstarf við aðila í þróunarríkjum miðar að uppbyggingu stöðugs alþjóðlegs viðskiptaumhverfis og sjálfbærra viðskipta í þróunarríkjunum, enda eru aukin viðskipti og ný tækifæri hagsmunamál okkar allra þegar til lengri tíma er litið. Samstarf byggist á forsendum viðtökuríkja, en jafnréttis-, mannréttinda- og umhverfissjónarmið – sem eru þverlæg málefni í þróunarsamvinnu Íslands – skulu ávallt höfð í heiðri.

Til þess að skapa ramma um þetta samstarf hefur utanríkisráðuneytið útfært tvær meginleiðir sem ætlað er að auka samstarfstækifæri á sviði þróunarsamvinnu í þágu heimsmarkmiða. Fyrri leiðin beinist sérstaklega að verkefnum fyrirtækja og seinni leiðin að verkefnum sem félagasamtök veita forystu. Verkefnin skulu ávallt vera til hagsbóta og skapa verðmæti í þróunarlöndum og hafa skýra tengingu við eitt eða fleiri þeirra heimsmarkmiða sem Ísland leggur sérstaka áherslu á.

Með þessum leiðum er vonast eftir aukinni þátttöku íslensks atvinnulífs og víðtækara samstarfs fleiri aðila í þróunarsamvinnu í samræmi við heimsmarkmiðin, með það að markmiði að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum.

Með samstarfsleiðum teljum við að fjölbreyttir samstarfsmöguleikar atvinnulífs og félagasamtaka skapist í þróunarlöndum, sem til lengri tíma litið er ætlað að skila árangri fyrir þróunarsamvinnu. Á sama tíma sjái fyrirtæki og félagasamtök sér langtímahag og ávinning í slíku samstarfi. Í stóra samhenginu er um að ræða sameiginlega hagsmuni: uppbygging stöðugs viðskiptaumhverfis og sjálfbærra viðskipta í þróunarlöndum er forsenda erlendra fjárfestinga, atvinnutækifæra, aukinna viðskipta og nýrra tækifæra.

Til að virkja þekkingu, fjármagn og frumkvæði íslenskra fyrirtækja í þessu samhengi, hefur ráðuneytið hleypt af stokkunum nýjum samstarfssjóði atvinnulífs og íslenskra stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með sjóðnum er að með frekar lágum upphafsstyrkjum til verkefna megi útfæra stærri og arðbær verkefni sem fá frekari fjármögnun annars staðar frá. Þessi verkefni skapa aukna mannsæmandi atvinnu og hagvöxt í þróunarlöndum til lengri tíma.

Heimsmarkmiðin eru sameiginleg ábyrgð okkar allra og í þeim felast bæði áskoranir og tækifæri. Nú er kominn vettvangur þar sem íslenskt atvinnulíf getur lagt sín lóð á vogarskálarnar og skilgreint leiðir til að skapa gagnkvæman ávinning. Við vonumst til þess að sem flestir sjái tækifæri í þessum samstarfsvettvangi til að skapa virðisauka fyrir alla aðila og vinna með okkur að því að ná sameiginlegum markmiðum.

Að lokum er það er mér sérstaklega ánægjulegt að fá að upplýsa ykkur hér á málstofu um þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu að auglýst hefur verið að nýju eftir umsóknum um styrki úr nýja samstarfssjóði atvinnulífsins og íslenskra stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. En nánari kynning á sjóðnum, sem og reynslusaga fyrirtækisins Marels – sem hlaut styrk í janúar sl. – verður hér síðar á málsstofunni.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta