Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. október 2019 Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp utanríkisráðherra á fundi Íslandsstofu um stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning

Ávarp utanríkisráðherra:

Kynningarfundur um stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning,
23. október 2019
Hilton Reykjavík Nordica

Farsæl utanríkisviðskipti eru forsenda hagvaxtar og góðra lífskjara á Íslandi. Ég hef því sem utanríkisráðherra lagt höfuðáherslu á að tryggja ætíð bestu mögulegu viðskiptakjör og aðgang að alþjóðamörkuðum fyrir íslensk fyrirtæki. Aðgengi að erlendum mörkuðum skiptir einfaldlega höfuðmáli fyrir Ísland, sem lítið opið hagkerfi. Íslensk fyrirtæki þurfa þannig ekki að takmarka möguleika sína við heimamarkaðinn, heldur geta lagt heiminn að fótum sér og það hafa fjölmörg þeirra gert með góðum árangri. 

Góðir viðskiptasamningar eru lykillinn að því að tryggja íslenskum fyrirtækjum sem best kjör. Ísland stendur þar vel að vígi og hef ég lagt mikla áherslu á að tryggja að Íslandi bjóðist alltaf bestu mögulegu kjör. Þar skiptir auðvitað mestu EES-samningurinn sem um þessar mundir á 25 ára afmæli. Mörg ykkar kannast orðið við þau Klöru, Hannes, Guðnýju og Brynjar, sem fara á kostum í stuttum myndböndum sem við í utanríkisráðuneytinu létum gera af því tilefni. Klara til dæmis ELSKAR fisk og vegna EES-samningsins getur hún flutt hann brakandi ferskan út á diskinn hjá Frökkum. Samingurinn veitir Íslandi nefnilega aðgang að 500 milljóna markaðssvæði sem nær yfir mest alla Evrópu og gerir íslenskum fyrirtækjum kleift að geta stundað viðskipti nánast hindranalaust á grundvelli þátttöku Íslands í innri markaði ESB. Hann felur að í sér að við erum ekki hluti af tollabandalagi ESB og við getum stundað frjáls viðskipti og gert fríverslunarsamninga við þá aðila sem okkur sýnist. Á Íslandi bera enda tæp 90% tollskrárnúmera engan toll, en til samanburðar þá eru það 26% í ESB.

Þótt við höfum kannski ekki beinlínis búið í torfkofum og borðað ýmist soðna ýsu eða sviðakjamma í öll mál fyrir gildistöku EES-samningsins hættir okkur stundum til að gleyma hvernig EES-samningurinn gjörbreytti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Það er engin spurning að hann er meginundirstaða þeirrar framþróunar sem orðið hefur hér á á landi síðustu áratugi. Þess vegna verðum við að nýta tækifærin sem í samningnum felast, jafnframt því að standa vörð um íslenska hagsmuni. Nú þegar Bretar eru á leið úr Evrópusambandinu er stóra verkefnið að sjálfsögðu að tryggja að viðskiptaumhverfið milli Íslands og Bretlands haldist óraskað. Ég tel að við getum jafnvel náð betri kjörum á einstaka sviðum og mun leggja mig fram við það.

Aðildin að EFTA er önnur lykilstoð við að tryggja bestu möguleg kjör fyrir íslenskt viðskiptalíf. Í krafti aðildar okkar að EFTA hefur Ísland gert 29 fríverslunarsamninga við fjörutíu ríki og landsvæði utan EES, þar sem 1,2 milljarðar búa. Þannig höfum við tryggt tollfrjálsan aðgang eða veruleg tollfríðindi fyrir okkar helstu útflutningsvörur inn á þessa markaði víða um heim. Þá hefur EFTA nýlokið samningi við Mercosur-ríkin í S-Ameríku og mun þá um 300 milljóna markaður bætast við fríverslunarnetið. Rjúkandi Ríó-kaffið á því eftir að ilma enn betur og fyrirsagnir á borð við „Skreið til Brasilíu“ gætu farið að birtast í íslenskum fjölmiðlum. EFTA vinnur þannig jafnt og þétt að því að útvíkka fríverslunarnetið sem og að bæta og uppfæra gildandi samninga. 

Loks hefur Ísland gert fríverslunarsamninga beint við önnur ríki, þegar EFTA leiðin hefur ekki verið möguleg. Var Ísland þannig fyrst evrópskra ríkja til að gera fríverslunarsamning við Kína. Frá því að sá samningur tók gildi hafa viðskiptin milli landanna aukist um 75 prósent. Gífurleg tækifæri felast í að auka viðskiptin inn á þessa fjarlægu markaði og eru spennandi möguleikar í Kína fyrir smá og meðal stór fyrirtæki í gegnum rafræn viðskipti. 
Þetta er það sem við erum að gera í utanríkisráðuneytinu og sendiráðum Íslands, dag hvern, árið um kring. Það er svo fyrirtækjanna að nýta tækifærin sem stjórnvöld skapa og þar hefur ekki verið komið að tómum kofunum. Það er gaman að fylgjast með því hvernig hugvit og seigla íslenskra fyrirtækja um allt land breytist í stór alþjóðleg fyrirtæki sem herja á erlenda markaði og hvernig íslenskur útflutningur verður sífellt fjölbreyttari og eflir orðstír Íslands á erlendri grundu. Eggin eru orðin mörg og liggja svo sannarlega ekki öll í sömu körfu! 
Góð samvinna atvinnulífs og stjórnvalda er forsenda þess að tryggja að íslensk fyrirtæki njóti ætíð bestu mögulegu viðskiptakjara þannig að hugarflugið eitt takmarki hvert þau geta stefnt. Við viljum heyra hvar skórinn kreppir eða hvort þið rekið ykkur á hindranir eða flækjustig í viðskiptaumsvifum ykkar sem stjórnvöld gætu hjálpað til við að leysa. Eitt af skilgreindum hlutverkum utanríkisþjónustunnar er að gæta hagsmuna íslensks viðskiptalífs, með því að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu viðskiptakjör og aðstoða fyrirtæki við markaðssókn á alþjóðamörkuðum, stuðla að jákvæðu orðspori og alþjóðlegri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. 

Við erum bakhjarl ykkar í samskiptum ykkar við útlönd. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar er boðið og búið að aðstoða og veita upplýsingar, bæði hér heima og á sendiskrifstofum Íslands erlendis. Sérstakir viðskiptafulltrúar eru við störf á ellefu sendiskrifstofum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku, sem hafa það hlutverkað kynna Ísland, íslensk vörumerki og vörur og þjónustu, ásamt því að veita viðskiptaþjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja. Viðskiptafulltrúarnir búa yfir djúpri þekkingu á sínum mörkuðum, reynslu og tengslaneti. Utanríkisþjónustan getur þannig aðstoðað við að opna dyr fyrir fyrirtækin og sókn á nýja markaði, sem og komið til aðstoðar þegar greiða þarf úr vandamálum gagnvart stjórnvöldum og opinberum stofnunum. Meðal annars verður sett á laggirnar þjónustuborð Íslandsstofu um þróunarsamvinnu og atvinnulíf og það verður fjallað nánar um það síðar á þessu ári. 

Og þá erum við komin að Íslandsstofu en hún gegnir sömuleiðis lykilhlutverki. Markmið mitt með breytingum á Íslandsstofu, sem Alþingi samþykkti í fyrra, var einmitt að efla Íslandsstofu og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við markaðsstarf á erlendum mörkuðum, auka samþættingu og samstarf allra þeirra aðila sem koma að þessum verkefnum. Að búa til vettvang þar sem atvinnulífið og stjórnvöld geta stillt saman strengi og náð saman um langtímastefnumótun. Ein af helstu nýjungunum sem komu til með breyttum lögum var að setja á fót Útflutnings- og markaðsráð sem nú gegnir lykilhlutverki við að móta langtímastefnu um markaðssókn á erlenda markaði og fylgja henni eftir. Í ráðinu sitja 36 fulltrúar atvinnulífs og stjórnvalda úr hinum ólíku geirum viðskipta- og atvinnulífs. Við munum heyra nánar í dag bæði af helstu breytingum á starfsemi og þjónustu Íslandsstofu sem og fá kynningu á niðurstöðum stefnumótunar sem Útflutnings- og markaðsráð vann í nánu samráði við útflutningsfyrirtæki á ólíkum sviðum. Það er verulega ánægjulegt að sjá hversu mikill samhljómur er um allt land á því hverjar áherslur Íslands ættu að vera í markaðs- og kynningarstarfi á erlendri grundu og hvernig áherslusviðin tengjast og styrkja hvert annað. 

Á þessum nótum munum við Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, bjóða til samtalsfundar um allt land um samstarf og þjónustu við íslenskar útflutningsgreinar. Fyrsti fundurinn verður á Egilsstöðum á morgun þar sem við munum eiga samtal við útflytjendur á Austurlandi. 

Síðast en ekki síst er mér sérstök ánægja og heiður að fá að tilkynna um nýjasta liðsmanninn í því úrvalsliði sem vinnur í þágu íslenskra hagsmuna á erlendum vettvangi. Íslandsstofa hefur gengið frá samkomulagi við Elizu Reid, forsetafrú um að verða sérstakur talsmaður Íslandsstofu á völdum viðburðum erlendis. Þá mun hún vinna með Íslandsstofu að kynningu á íslensku atvinnulífi gagnvart fjölmiðlum og samstarfsaðilum íslenskra fyrirtækja. Það munar svo sannarlega um minna! Ég er sannfærður um að nú þegar við erum komin með eina af okkar allra bestu í hópinn séu Klöru og öðrum þeim sem tengjast íslenskum útflutningsgreinum allir vegir færir. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta