Ræða utanríkisráðherra á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi
Í byrjun síðasta mánaðar hlaust mér sá heiður að bjóða kollegum mínum til Borgarness, á æskuslóðir mínar. Þessi fæðingarsveit mín komst í heimsfréttirnar fyrir stuttu þegar þess var minnst að jökullinn Ok lauk æviskeiði sínu. Það er áminning til okkar um hversu viðkvæmt vistkerfið okkar er. Við eigum að nýta styrkinn í norrænu samstarfi, þekkingu okkar, þrautseigju og hugkvæmni í þágu nýrra lausna í loftslagsmálum eins og lagt er upp með í nýrri framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar.
Í Borgarnesi gerði ég kollegum mínum grein fyrir áherslum formennsku okkar í Norðurskautsráðinu. Með sjálfbærni að leiðarljósi viljum við nýta efnahagsleg tækifæri til hagsbóta fyrir íbúa norðurslóða. En við viljum samvinnu sem byggist á alþjóðalegum leikreglum. Til að svo megi verða þurfa norðurslóðir að vera áfram lágspennusvæði.
Við ræddum ennfremur þá miklu athygli sem norðurslóðamál njóta nú, ekki síst frá stærri ríkjum. Bandaríkin sýna svæðinu mun meiri áhuga. Það er ánægjuefni enda viljum að Bandaríkin séu sem virkust á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt að hafa í huga að núverandi aðstæður á alþjóðavettvangi kalla á meiri, en ekki minni, samvinnu við okkar bandamenn. Við megum ekki gleyma að við deilum sömu grundvallargildum og það er grundvallaratriði þegar um er að ræða fjárfestingar og þjóðaröryggi.
Þegar við hittumst í Berlín fyrir tveimur vikum fór mestur tíminn í að ræða ástandið í norðausturhluta Sýrlands en Norðurlöndin hafa öll fordæmt aðgerðir Tyrkja.
Annars vorum við að halda uppá 20 ára afmæli sendiráðsbygginganna í Berlín - flaggskipi utanríkisþjónusta okkar. Samstarfsformið í Berlín er dæmi um norrænt samstarf eins og það gerist best.
En það er ekki bara í Berlín sem samstaða og rödd Norðurlandanna vekur athygli. Norðurlöndin voru í fararbroddi þeirra ríkja sem settu umhverfismál og jafnréttimál á oddinn, og barátta okkar í málefnum LGBTI fólks hefur vakið verðskuldaða athygli. Þessi barátta okkar, ásamt fjölda annarra sem betur fer, hefur fært þessi mál frá jaðri inn á miðju í mörgum samfélögum. Við höfum í gegnum áratugina staðið dyggan vörð um marghliða alþjóðasamvinnu, frið og mannréttindi, lýðræðislegar leikreglur og grundvöll réttarríkisins. Slík barátta er ekki síst mikilvæg nú þegar réttarríkið á undir högg að sækja og falsfréttum er dreift eins og enginn sé morgundagurinn.
Þetta gerum við ekki bara hér á Norðurlandaráðsþingi heldur einnig á vettvangi SÞ þar sem Svíþjóð sat þar til nýverið við borðið í öryggisráðinu, og Noregur sest þar vonandi senn; í Mannréttindaráðinu þar sem Ísland og Danmörk hafa verið; og í Evrópusamvinnunni þar sem Finnland er nú í forsæti ráðherraráðs ESB eftir vel heppnaða formennsku í Evrópuráðinu. Grænland og Færeyjar skipta miklu máli á norðurslóðum og í N-Atlantshafssamstarfinu, og Álandseyjar eru fyrirmynd í sjálfbærni.
Dömur mínar og herrar,
Á Berlínarfundinum var mikill samhljómur meðal okkar kollegana hvernig við gætum og ættum að deila okkar reynslu af samvinnu með öðrum þjóðum. Þar voru ríkin á Balkanskaga nefnd til sögunnar sérstaklega. Við þurfum líka að vinna þétt og náið með vinum okkar og næstu nágrönnum á Bretlandseyjum en þeir hafa sýnt mikinn áhuga á samvinnu við Norðurlöndin.
Þó að sum okkar séu í NATO og önnur ekki, sum okkar í ESB en önnur ekki þá er samvinna okkar erum við gott dæmi um ríki sem geta unnið þétt saman þrátt fyrir að hafa kosið mismunandi leiðir til þess að ná okkar utanríkispólitísku markmiðum.
Löngu fyrir tíma innri markaðarins var sameiginlegum norrænum vinnumarkaði komið á fót. Norræna vegabréfasambandið var fyrirmynd Schengen-samstarfsins. Samstarf okkar á sviði mennta- og vísindamála var öðrum Evrópuríkjum innblástur, ég nefni Nordplus og Nordjobb sem dæmi.
Öll þessi dæmi sem ég nefndi að ofan eiga eitt sameiginlegt. Þau hafa dregið úr hindrunum og greitt fyrir viðskiptum og samskiptum og því að íbúar Norðurlandanna hafi getað búið og unnið saman í sátt og samlyndi um áratuga skeið.
Dömur mínar og herrar.
Samstarf Evrópuríkja er margþætt og flókið en því opnari og sveigjanlegri sem við erum fyrir mismunandi formi á því – þeim mun sterkari verða Norðurlöndin og því sterkari verður Evrópa í heild sinni.
Stoltenberg-skýrslan frá 2009 reyndist sannarlega innspýting í norrænt samstarf og leiddi til aukins samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála. Margt hefur breyst síðan. Nægir þar að nefna loftslagsbreytingar, nýjar hættur eins og netógnir, og endurteknar tilraunir til að grafa undan marghliða alþjóðasamvinnu, alþjóðastofnum og alþjóðalögum.
Þess vegna höfum við ákveðið að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra að skrifa nýja skýrslu. Gert er ráð fyrir að nýjar tillögur liggi fyrir um mitt næsta ár.
Ég hlakka til þeirra og með þessum orðum þakka ég fyrir mig og hlakka til umræðunnar hér á eftir.