Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. nóvember 2019 Guðlaugur Þór Þórðarson

Sam­starf í þágu út­flutnings­hags­muna

Farsæl utanríkisviðskipti eru forsenda þess að lífskjör Íslendinga haldist áfram góð. Sem utanríkisráðherra hef ég því lagt ríka áherslu á að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptakjör og sem greiðastan aðgang að alþjóðamörkuðum. Þar sem Ísland er lítið opið hagkerfi, skiptir aðgengi að erlendum mörkuðum okkur höfuðmáli. Góð samvinna atvinnulífs og stjórnvalda er grundvallarforsenda þess að tryggja að íslensk fyrirtæki njóti ætíð bestu mögulegu viðskiptakjara.

Eitt af skilgreindum hlutverkum utanríkisþjónustunnar er að gæta hagsmuna íslensks viðskiptalífs og við kappkostum að vera öflugur bakhjarl í samskiptum íslenskra fyrirtækja við útlönd. Starfsfólk utanríkisþjónustunnar er til þjónustu reiðubúið, bæði hér á landi og á sendiskrifstofum Íslands erlendis. Við höfum sérstaka viðskiptafulltrúa við störf á ellefu sendiskrifstofum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku sem hafa það hlutverk að kynna Ísland, íslensk vörumerki, vörur og þjónustu, auk þess sem þeir veita viðskiptaþjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja. Utanríkisþjónustan aðstoðar þannig við að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki og við sókn á nýja markaði.

Íslandsstofa gegnir hér sömuleiðis lykilhlutverki. Markmið mitt með þeim breytingum á Íslandsstofu, sem Alþingi samþykkti í fyrra, var að efla Íslandsstofu og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda. Með þeim var stefnt að auknu samstarfi við markaðsstarf á erlendum mörkuðum, aukinni samþættingu og samstarfi þeirra aðila sem koma að þessum verkefnum. Þannig var búinn til vettvangur þar sem atvinnulífið og stjórnvöld geta stillt saman strengi og náð saman um stefnumótun.

Við viljum heyra það frá fyrstu hendi hvað gengur vel og hvað má betur fara; hvort og þá hvernig stjórnvöld geta aðstoðað við að leysa flækjur í viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja. Á þeim nótum býð ég, ásamt Íslandsstofu, til samtalsfundar um allt land um samstarf og þjónustu við íslenskar útflutningsgreinar. Fyrsti fundurinn var haldinn á Egilsstöðum þar sem við áttum samtal við útflytjendur á Austurlandi, í gær áttum við góðan fund með útflytjendum á Norðurlandi í höfuðstaðnum, Akureyri, og fleiri fundir eru á teikniborðinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta