Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2020 Guðlaugur Þór Þórðarson

Mikið í húfi

Í dag er vika uns Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk stjórnvöld hafa á síðustu mánuðum undirbúið viðræður við Breta um hvernig framtíðarsambandi Íslands og Bretlands verður háttað. Þýðing hagfellds samnings við þennan mikilvæga nágranna okkar verður seint ofmetin. Bretland er stærsti einstaki útflutningsmarkaður Íslands hvað vöruviðskipti varðar og samskipti þjóðanna hafa alla tíð verið náin.

Þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra fyrir þremur árum gerði ég hagsmunagæslu vegna útgöngunnar að forgangsmáli. Að mörgu þurfti að hyggja, sérstaklega ef Bretar og ESB næðu ekki samningi. Okkur tókst að tryggja lykilhagsmuni Íslands óháð því hvort útgangan hefði orðið með eða án samnings. Í viðræðunum sem nú fara í hönd byggjum við á þeim trausta grunni sem þá var lagður.

Bretar stefna að fullkomnum aðskilnaði við Evrópusambandið fyrir lok ársins og því ríður á að undirbúa samningaviðræðurnar hratt og vel. Fyrr í mánuðinum komu fulltrúar stjórnsýslu, hagsmunasamtaka og atvinnulífs til fundar í utanríkisráðuneytinu til að stilla saman strengi. Samninganefnd Íslands fyrir þessar þýðingarmiklu viðræður hefur þegar verið skipuð og valin manneskja í hverju rúmi.

Undirbúningurinn miðast við að gera víðtækan efnahags- og samstarfssamning við Bretland. Á sama tíma erum við viðbúin því að sá þröngi tímarammi sem okkur er úthlutaður gæti þýtt að hluti viðræðnanna verði að fara fram síðar. Samningsmarkmiðum Íslands verður eftir atvikum fylgt eftir í samfloti með öðrum EFTA-ríkjum innan EES eða með tvíhliða samningum Íslands og Bretlands. Tekið verður mið af viðræðum Bretlands og ESB þar sem það á við og samræmist hagsmunum Íslands.

Ekki verður hvikað frá því höfuðmarkmiði að fá að minnsta kosti sambærileg viðskiptakjör og önnur ríki á EES-svæðinu og freista þess um leið að ná fram atriðum er varða sérstöðu Íslands og kjarnahagsmuni.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta