Öflug utanríkisþjónusta sjaldan mikilvægari
Í dag fer fram á Alþingi umræða um skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráherra en þessi árlega skýrslugjöf til Alþingis er gott tilefni til þess að ræða um stöðu og hlutverk utanríkisþjónustunnar á hverjum tíma. Áttatíu ára afmæli utanríkisþjónustunnar 10. apríl síðastliðinn var fagnað í skugga COVID-19-heimsfaraldursins sem hafði riðið yfir heimsbyggðina af fullum þunga. Þjóðir heims stóðu ekki einungis frammi fyrir alvarlegri heilsufarsógn heldur hugsanlega mestu heimskreppu okkar tíma. Miklar breytingar hafa átt sér stað á utanríkisþjónustunni á þeim áttatíu árum sem liðin eru frá því að Íslendingar tóku þá gæfuríku ákvörðun að taka meðferð utanríkismála í eigin hendur en þrátt fyrir þær, eins og sú yfirgripsmikla skýrsla sem ég kynni Alþingi í dag ber með sér, þá er meginhlutverkið enn hið sama; að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á erlendum vettvangi.
Umbætur skipta sköpum
Skipulega hefur verið unnið að því að gera umbætur á íslensku utanríkisþjónustunni á undanförnum árum þannig að hún verði betur í stakk búin að mæta áskorunum samtímans. Líkt og við Íslendingar, og raunar heimsbyggðin öll, höfum fengið að reyna síðustu mánuði og vikur getur stormur skollið á fyrirvaralaust. Utanríkisþjónustan hefur staðið vaktina ötullega síðustu vikur og sýnt í verki að hún var í stakk búin til þess að takast á við þessar erfiðu aðstæður. Aukinn sveigjanleiki og áhersla á upplýsingaöflun og upplýsingagjöf eru á meðal þeirra umbóta sem reynst hafa vel og hafa gert okkur kleift að vinna að því sem einn maður að aðstoða hátt í 12 þúsund Íslendinga sem voru erlendis þegar faraldurinn braust út. Starf kjörræðismanna um allan heim hefur sömuleiðis skipt sköpum í þessari vinnu.
Heimsfaraldurinn hefur reynt mjög á samstarf milli þjóða og því miður hefur reyndin í sumum tilfellum orðið sú að samstaða og samstarf hefur látið í minni pokann fyrir öðrum sjónarmiðum. Í fleiri tilvikum þó hefur eining ríkt á meðal helstu samstarfsríkja um að standa vörð um alþjóðlegt samstarf og af verkefnum borgaraþjónustunnar að undanförnu að dæma er ljóst að norrænt samstarf hefur ríkulega sannað gildi sitt.
Verkefni síðustu vikna hafa verið ærin. Hörð samkeppni hefur ríkt á heimsvísu um nauðsynjavörur fyrir heilbrigðisgeirann og hefur utanríkisþjónustan lagt sig fram um að liðka fyrir innflutningi á þeim vörum. Sendiráð Íslands í Kína hefur greitt fyrir kaupum og flutningum á vörum þaðan og með samstilltu átaki innan stjórnsýslunnar tókst á methraða að ganga frá samningum um sameiginleg innkaup á lækningavöru í Brussel og komaí veg fyrir að Evrópusambandið setti á útflutningsbann til EFTA-ríkjanna á tilteknum hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Útflutningshagsmunir í fyrirrúmi
Á tímum COVID-19-heimsfaraldursins hefur utanríkisþjónustan einnig aðstoðað fjölmörg íslensk fyrirtæki. Sem dæmi má nefna aðstoð við Eimskip til að koma áhöfn nýs Dettifoss, alls 17 manns, inn til Kína svo að sigla megi skipinu, sem hefur verið í byggingu í Kína og er nú stærsta skip flota Eimskipafélagsins, til Íslands. Þá hefur ráðuneytið unnið með Íslandsstofu að kortlagningu á því hvernig aðstoða megi hátæknifyrirtæki við að yfirstíga ferðatakmarkanir fyrir sérfræðinga svo þeir geti staðið við þjónustusamninga og, í samráði við önnur ráðuneyti og hagsmunaaðila, leitað lausna á því hvernig hægt verði að útfæra ferðatakmarkanir svo kvikmyndaframleiðsla geti farið hér fram. Þær breytingar sem gerðar voru nýlega á skipulagi og starfsemi Íslandsstofu hafa einnig reynst heilladrjúgar við þessar erfiðu aðstæður. Snarpara viðbragð og náið samráð stjórnsýslunnar og atvinnulífsins á vettvangi Íslandsstofu er mikilvægara en nokkru sinni í yfirstandandi þrengingum. Ég hef ákveðið að beina kröftum utanríkisþjónustunnar í enn auknum mæli að útflutningshagsmunum Íslands á komandi vikum og mánuðum og mun sú ákvörðun birtast í forgangsröðum verkefna utanríkisráðuneytisins. Við munum komast út úr þessum þrengingum en það mun ekki gerast sjálfkrafa. Aukin útflutningsverðmæti munu ráða úrslitum í þeim efnum, hér eftir sem hingað til.
Forystuhlutverk á alþjóðavettvangi
Í skýrslu minni til Alþingis nú er að finna heildstætt yfirlit yfir verkefni utanríkisþjónustunnar síðasta árið og það yfirlit undirstrikar hversu langt við höfum náð á þeim áttatíu árum sem liðin eru frá því við tókum þessi mál í okkar eigin hendur. Um síðustu áramót lauk átján mánaða setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar tók Ísland að sér forystuhlutverk í mannréttindamálum og vakti framganga okkar á stóra sviðinu verðskuldaða eftirtekt. Mannréttindi hafa alltaf verið fyrirferðarmikil í utanríkisstefnu Íslands og á vettvangi mannréttindaráðsins heyrðist rödd okkar vel. Frumraun Íslands í ráðinu var að hluta til prófsteinn á getu íslensku utanríkisþjónustunnar til þess að takast á við stór og vandasöm verkefni en segja má að Ísland hafi staðist þá prófraun með miklum sóma.
Norræn samstaða í öryggis- og varnarmálum
Sem fyrr er aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, ásamt tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin, hornsteinn í íslenskri utanríkisstefnu þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Breytt öryggisumhverfi í Evrópu krefst aukins viðbúnaðar í okkar heimshluta og skýrir það umtalsverðar framkvæmdir á flugskýlum og öðrum mannvirkjum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Að sama skapi hefur samvinna Íslands við aðrar Norðurlandaþjóðir orðið umfangsmeiri og nánari. Bæði Svíar og Finnar eiga mikið og gott samstarf við Atlantshafsbandalagið, þótt þær þjóðir standi utan bandalagsins. Það undirstrikar öðru fremur þá sameiginlegu öryggishagsmuni sem undir eru fyrir Norðurlandaþjóðirnar.
Undanfarið ár höfum við Íslendingar stýrt starfi Norðurskautsráðsins en ráðið er mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Formennska Íslands hefur gefið tækifæri til þess að halda á lofti áherslumálum er lúta að sjálfbærri þróun: málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að friðsamlegt samstarf og samvinna sé í öndvegi í samstarfi aðildarríkjanna. Þrátt fyrir aukna spennu á svæðinu hefur hingað til tekist að halda ágreiningsefnum stórvelda utan við þetta samstarf. Það er okkur kappsmál að svo verði áfram.
Mikilvægustu markaðir í forgangi
Á síðasta ári lagði ég á Alþingi í fyrsta sinn fram sérstaka skýrslu um EES-samninginn en fram að því hafði umfjöllun um samninginn verið hluti af reglulegri skýrslu utanríkisráðherra. Þessi nýbreytni undirstrikar mikilvægi þessa einstaka samnings sem gjörbreytt hefur íslensku viðskiptaumhverfi allt frá gildistöku hans fyrir aldarfjórðungi. Forsenda þess að lífskjör Íslendinga haldist áfram góð eru farsæl utanríkisviðskipti. Í því skyni hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að byggja upp enn nánara samstarf við Bandaríkin sem mynda stærsta einstaka markað íslenskra útflytjenda. Á eftir Bandaríkjunum er Bretland mikilvægasta viðskiptaland Íslands og því hefur rík áhersla verið lögð á hagsmunagæslu Íslands vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Samskipti þjóðanna hafa alla tíð verið náin en senn mun Ísland hefja samningaviðræður við Breta um framtíðarsamskipti þjóðanna.
Ný hugsun í þróunarsamvinnu
Innan utanríkisráðuneytisins hefur þróunarsamvinna fengið aukið vægi. Ný þróunarsamvinnustefna var samþykkt á Alþingi fyrir ári en í henni endurspeglast áherslur Íslands um að nýta þá sérþekkingu sem við búum yfir á fjölmörgum sviðum við uppbyggingu innviða og atvinnuvega í þróunarlöndum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar hafa framlög til þróunarsamvinnu vaxið hröðum skrefum síðustu ár. Meira máli skiptir þó til lengri tíma sú hugarfars- og stefnubreyting sem er að verða í þessum málum með aukinni þátttöku einkaaðila í þróunarsamvinnu. Án þátttöku atvinnulífs og einkaaðila munu þau markmið sem þjóðir heims hafa sett sér í þessum málum aldrei nást. Um þetta er að skapast skilningur og samstaða meðal ríkja heims og það er svo sannarlega mikilvægt. Aukin aðkoma Íslandsstofu að verkefnum á sviði þróunarsamvinnu er til marks um þessa áherslubreytingu af okkar hálfu en það er vonandi einungis vísir að því sem koma skal.
Fyrir tveimur árum fögnuðum við Íslendingar aldarafmæli fullveldisins. Fullveldið var forsenda þeirra efnahagslegu framfara sem við nutum á 20. öldinni og eru grundvöllur þeirra lífskjara sem við njótum í dag. Ein mikilvægasta varðan á þeirri vegferð var þegar við tókum utanríkismálin í eigin hendur fyrir réttum áttatíu árum. Þá, eins og nú, voru aðstæður í heiminum krefjandi fyrir litla þjóð í ólgusjó heimssögulegra atburða. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að geta treyst á öfluga utanríkisþjónustu til að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. maí 2020.