Hnattræni jafnréttissjóðurinn og mannréttindi hinsegin fólks
Mannréttindi hinsegin fólks eru víða um heim virt að vettugi. Hinsegin fólk verður enn fyrir margvíslegu of beldi, hatursorðræðu og ofsóknum, og enn er litið á samkynhneigð sem glæp í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Í minni utanríkisráðherratíð hef ég lagt sérstaka áherslu á að Ísland láti ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir mannréttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi, hvort heldur sem er á vettvangi alþjóðastofnana eða í tvíhliða samskiptum ríkja. Þá var réttindum hinsegin fólks gert hátt undir höfði í setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Ríkisstjórnin stefnir sömuleiðis að því að tryggja enn betur stöðu og réttindi hinsegin fólks hér á landi. Nýverið birtist Regnbogakort Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA-Europe) og hafði Ísland hækkað þar um fjögur sæti á milli ára og er nú komið í 14. sæti. Regnbogakortið er birt árlega í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí og felur í sér úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu. Sem hluti af sérstakri áherslu á réttindi hinsegin fólks í málsvarastarfi Íslands á alþjóðavettvangi hefur Ísland hlotið inngöngu í kjarnahóp Sameinuðu þjóðanna um réttindi hinsegin fólks. Hópurinn samanstendur af um þrjátíu ríkjum frá mismunandi heimsálfum sem vilja beita sér sérstaklega fyrir auknum réttindum og bættri stöðu hinsegin fólks á alþjóðlegum vettvangi.
Mannréttindi og jafnréttismál hafa fengið aukið vægi í utanríkisstefnu Íslands á undanförnum árum og hefur Ísland í vaxandi mæli tekið virkan þátt í málsvarastarfi á erlendum vettvangi í þágu mannréttinda í heiminum. Á síðasta ári samþykkti Alþingi nýja stefnu Íslands í þróunarsamvinnu fyrir árin 2019-2023 þar sem tilgreint er að öll þróunarsamvinna eigi að hafa mannréttindi að leiðarljósi. Í kjölfarið hefur Ísland fylgst sérstaklega grannt með stöðu hinsegin fólks í samstarfs- og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu, þ.e. Palestínu, Afganistan, Mósambík, Úganda og Malaví.
Á tímum COVID-19 faraldursins eiga lýðræði, mannréttindi og réttarríkið undir högg að sækja og hætt er við að viðkvæmir hópar eins og hinsegin fólk verði enn frekar fyrir fjölþættri mismunun. Ísland hefur því lagt aukna áherslu á að viðeigandi samstarfsaðilar og alþjóðastofnanir samþætti kynjasjónarmið og mannréttindi í öllum viðbrögðum, ákvörðunum og aðgerðum í tengslum við samfélags- og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins með það að leiðarljósi að faraldurinn valdi ekki bakslagi í mannréttinda- og kynjajafnréttismálum.
Til marks um áherslu á mannréttindi og jafnréttismál í utanríkisstefnu Íslands ákvað ég nýlega að Ísland gerðist styrktaraðili Hnattræna jafnréttissjóðsins sem beinir stuðningi sínum sérstaklega að mannréttindum hinsegin fólks. Sjóðurinn hefur meðal annars beitt sér á áherslusvæðum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu þar sem mannréttindi hinsegin fólks eru víða fótum troðin, meðal annars í Palestínu og Úganda. Staða hinsegin fólks og samtaka þeirra gefa oft vísbendingu um ástand mannréttinda almennt og dæmi eru um að stuðningur og aðstoð sjóðsins hafi bjargað lífum einstaklinga sem berjast fyrir auknum mannréttindum hinsegin fólks og er ofsótt á grundvelli kynhneigðar.
Aðkoma einkageirans að þróunarsamvinnu er nauðsynleg til að bæta lífskjör og mannréttindi í þróunarríkjum. Hnattræni jafnréttissjóðurinn er með sterk grasrótartengsl og að honum standa bæði einkafyrirtæki og opinberir aðilar, þar á meðal öll Norðurlöndin. Í þessu nýja samstarfi gætu því falist tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja láta gott af sér leiða.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. maí 2020