Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. desember 2020 Guðlaugur Þór Þórðarson

Tímamót um áramót

Tveir dagar eru þar til Bretar hverfa að fullu af innri markaði Evrópusambandsins og um leið hættir EES-samningurinn að gilda um Bretland. Þar með lýkur vegferð sem hófst fyrir rúmum fjórum árum með þjóðaratkvæðagreiðslunni þar í landi. Í stað óvissunnar sem ríkti í kjölfar hennar hafa nú allir grundvallarhagsmunir Íslands verið tryggðir.

Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna bráðabirgðafríverslunarsamning ríkjanna sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við þennan mikilvæga útflutningsmarkað okkar og loftferðasamninginn sem þýðir að samgöngur á milli ríkjanna verða áfram greiðar. Þá hafa samningar verið gerðir um búsetu fólks og heimsóknir án vegabréfaáritunar. 

Viðræður um fríverslunarsamning við Bretland til framtíðar standa nú yfir og lýkur þeim að óbreyttu fljótlega á komandi ári. Þar erum við í samfloti með Noregi og Liechtenstein. 
Á aðfangadag bárust svo þau jákvæðu tíðindi að Bretland og ESB hefðu náð samningnum um framtíðarsamband sitt. Þær lyktir eiga eftir að gagnast okkur á margan hátt og verða um leið gott veganesti í endasprettinum framundan.

Hvað sem því líður á ýmislegt eftir að breytast 1. janúar en annað ekki. Sem dæmi má nefna að þeir sem flytjast til Bretlands frá og með áramótum þurfa að sækja um dvalarleyfi. Við í utanríkisráðuneytinu höfum í samvinnu við önnur ráðuneyti og stofnanir róið að því öllum árum að koma í veg fyrir að snurða hlaupi á þráðinn í samskiptum ríkjanna, meðal annars með því að upplýsa bæði almenning og fyrirtæki með markvissum hætti. 

Ég hvet þau sem stunda viðskipti eða hafa tengsl við Bretland að kynna sér upplýsingar um hagnýt málefni sem tengjast útgöngunni á Stjórnarráðsvefnum eða hafa samband við okkur í ráðuneytinu. Sérstakur viðbragðshópur verður á vakt vegna áríðandi fyrirspurna sem tengjast útgöngunni. 

Þótt enn eigi eftir að hnýta nokkra hnúta er óvissan sem ríkti í upphafi þessarar vegferðar að baki. Spennandi tímar með margvíslegum tækifærum eru framundan í samskiptum okkar við Bretland.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. desember 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta