Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. janúar 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Fríverslun er allra hagur

Allar götur frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra fyrir rúmum fjórum árum hef ég lagt höfuðáherslu á að efla utanríkisviðskipti og að standa vörð um hagsmuni íslenskra útflutningsgreina. Frjáls viðskipti eru forsenda efnahagslegra framfara eins og Íslendingar þekkja svo vel af eigin raun. Hagsæld þjóðarinnar hefur alla tíð ráðist af aðgengi okkar að erlendum mörkuðum og frelsi í milliríkjaviðskiptum. Það er því viðeigandi að á þessum tímamótum komi út skýrslan Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands þar sem í fyrsta sinn er fjallað á einum stað um alla þá samninga sem tengjast utanríkisviðskiptum Íslendinga.

Lífskjör Íslendinga byggjast á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum og fjölmörg störf í landinu eru tengd utanríkisviðskiptum með einum eða öðrum hætti. Frjáls viðskipti eru þó á engan hátt sjálfgefin eins og sjá má á einföldum samanburði viðskiptastefnu Íslands og annarra EFTA-ríkja við viðskiptastefnu Evrópusambandsins.

Viðskiptastefna í frjálsræðisátt

Sé litið til tolla og vörugjalda er ljóst að viðskiptastefna Íslands hefur þróast mjög í frjálsræðisátt á síðustu árum. Í dag búum við Íslendingar þannig við 90% tollfrelsi þegar litið er til tollnúmera á meðan Evrópusambandið hefur 26% tollfrelsi. Þetta skiptir raunverulegu máli fyrir kostnað og þar af leiðandi samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og stöðu íslenskra neytenda.

Evrópusambandið er tollabandalag. Í því felst að allir tollar í viðskiptum milli ríkja sambandsins hafa verið felldir niður og komið hefur verið á sameiginlegum ytri tollum vegna innflutnings frá ríkjum utan sambandsins. EFTA-ríkin eru á hinn bóginn fríverslunarsamtök þar sem hvert og eitt ríki hefur eigin tollskrá og tolltaxta vegna innflutnings frá öðrum ríkjum og sjálfstæða viðskiptastefnu. Ekkert er því til fyrirstöðu að einstök ríki samtakanna geri tvíhliða fríverslunarsamninga við þriðju ríki. Það hafa þau raunar þegar gert og hefur Ísland þannig gert tvíhliða fríverslunarsamninga við annars vegar Kína og hins vegar Færeyjar. Viðskipti okkar við þessi ríki hafa aukist í kjölfarið, bæði neytendum og fyrirtækjum til hagsbóta.

Fríverslunarsamningar Íslands tryggja íslenskum útflytjendum betri aðgang að fjölda markaða um allan heim. Í dag ná þeir til 74 ríkja og landsvæða og um 3,2 milljarða manna. Þrír samningar EFTA bíða gildistöku, einn bíður undirritunar, auk þess sem EFTA á í samningaviðræðum við fleiri ríki. Skili núverandi samningaviðræður árangri mun Ísland því eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem tveir af hverjum þremur jarðarbúum eiga heima.

Mikil tækifæri í vexti nýmarkaða

Þótt nærmarkaðir Íslands verði áfram mjög mikilvægir eru þeir ekki að stækka. Í skýrslunni er því horft fram á veginn en gera má ráð fyrir að þungamiðja alþjóðlegrar fríverslunar og viðskipta haldi áfram að færast til austurs þar sem fyrir er efnuð og ört vaxandi millistétt sem tileinkað hefur sér nýjar neysluvenjur. Vöxtur nýmarkaða felur í sér mikil tækifæri fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki og þess vegna er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni og tryggja að net viðskiptasamninga Íslands nái til markaðssvæða þar sem spáð er mestum vexti á næstu árum.

Helsta forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar um þessar mundir er þó að styðja við íslensk útflutningsfyrirtæki á tímum kórónuveirunnar. Efnahagsleg áhrif faraldursins hafa enn ekki verið metin til fulls og óvíst er hversu lengi þau munu vara. Þegar er þó ljóst að utanríkisþjónustan mun styðja við íslenskan útflutning við erfiðar og ótryggar aðstæður þar sem leitast verður til við að finna lausnir í takt við gildandi takmarkanir hverju sinni. Í haust komum við til dæmis á fót viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins og þjónustuborði atvinnulífsins í samvinnu við Íslandsstofu. Hvort tveggja er öflugt viðbragð við þeim efnahagsvanda sem að okkur steðjar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Afrakstur áratugalangrar vinnu

Við Íslendingar njótum ávinnings af viðskiptafrelsi, hvort sem um ræðir aukið vöruval og lækkað verð til neytenda eða með auknum útflutningstekjum. Hingað til hefur það verið talið sjálfsagt að geta flogið til hvaða lands sem er og þeir sem sækja vinnu erlendis telja fráleitt að greiða skatt í tveimur ríkjum. Allt er þetta þó afrakstur áratugalangrar vinnu sem rekja má aftur til ráðstefnu bandalagsríkja í Bretton Woods árið 1944 þar sem grunnur var lagður að því alþjóðakerfi sem við þekkjum í dag. Leiðarljós þeirra viðræðna var sú grundvallarhugmynd að aukin milliríkjaviðskipti myndu ekki aðeins auka hagvöxt og velsæld heldur einnig stuðla að friði.

Í skýrslunni er fjallað um þá ólgu sem greina hefur mátt innan alþjóðakerfisins að undanförnu sem rekja má til ákveðinnar skekkju í regluverki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem vilja að alþjóðaviðskiptakerfið verði eflt og lög og reglur verði lagðar til grundvallar. Afstaða Íslands grundvallast á samheldni Vesturlanda um fríverslun og frelsi sem byggst hefur upp allt frá síðari heimsstyrjöld. Aðeins þannig tökum við skrefið fram á við. Áfram gakk!

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. janúar 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta