Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. febrúar 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Atvinnulífið sái þróunarfræjum

Í Kína er hitaveita sem byggð var að hluta á íslenskri verkþekkingu og yljar nú milljónum manna. Áður voru kol notuð til húshitunar á svæðinu, en þau eru nú óþörf. Samdrátturinn í útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna hitaveitunnar nemur öllum útblæstri frá Íslandi, og gott betur. Þetta er gott dæmi um hvernig íslensk þekking hefur nýst til framþróunar í öðrum ríkjum, heiminum öllum til hagsbóta. 

Sagan hefur kennt okkur að þegar kreppir að efnahagslega leysast oft á tíðum úr læðingi einstakir kraftar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Þetta gerðist í síðustu kreppu og við erum strax farin að sjá merki um sama sköpunarkraft í þeirri óvissu sem atvinnulífið býr nú við vegna heimsfaraldursins. Þennan kraft vildum við sækja og virkja í þróunarsamvinnu. 

Utanríkisráðuneytið hefur nú, í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Tækniþróunarsjóð, sett á fót nýjan styrktarflokk, Þróunarfræ, en tilgangur hans er að hvetja íslenskt atvinnulíf og einstaklinga til að taka þátt í þróunarsamvinnu. Tækniþróunarsjóður hefur tekið að sér að annast umsýslu Þróunarfræs, sem lýtur svipuðum reglum og svokallaðir FRÆ styrkir Tækniþróunarsjóðs. Um er að ræða forkönnunarstyrki sem munu renna til verkefna sem hafa það að markmiði að draga úr fátækt og skapa atvinnu í fátækari ríkjum heims, einkum með tilliti til nýsköpunar á tímum COVID-19.

Við munum öll þurfa að glíma við eftirköst veirunnar í mörg ár, en faraldurinn hefur komið hvað verst við íbúa í þróunarríkjum. Fjöldi starfa hefur tapast og atvinnuleysi geisar sem aldrei fyrr, þeim fjölgar sem búa við sárafátækt og þá hefur faraldurinn haft neikvæð áhrif á menntun, einkum stúlkna. 

Samstarf við atvinnulífið er nauðsynlegt ef við ætlum að takast á við þessi aðkallandi verkefni í kjölfar COVID-19 og ég veit að íslenskt atvinnulíf býr yfir þekkingu og drifkrafti til að takast á við þau með okkur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. febrúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta