Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. apríl 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Snemmbúið aprílgabb Viðreisnar

Margir héldu eflaust að um snemmbúið aprílgabb væri að ræða þegar greint var frá því á síðasta degi marsmánaðar að þingflokkur Viðreisnar hefði lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

Ein helsta hindrunin í vegi þeirra sem ekkert þrá heitar en inngöngu Íslands í gangi í tollabandalag Evrópusambandsins með fullri aðild að sambandinu er samningurinn um evrópska efnahagssvæðið sem þjónað hefur hagsmunum Íslands ákaflega vel í ríflega aldarfjórðung. Kostur EES-samningsins fyrir okkur Íslendinga felst ekki síst í því að hann tekur til þess kjarna í samstarfi Evrópusambandsríkjanna sem lýtur að frjálsum viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn, sem og frjálsri för fólks, en bindur ekki hendur okkar þegar kemur að öðrum samstarfssviðum ESB. Ef EES-samningsins nyti ekki við ættu sjónarmið þeirra sem ólmir vilja inn í tollabandalagið greiðari leið að íslensku þjóðinni. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að ESB-sinnar hér á landi hafa með þaulskipulögðum hætti reynt að grafa undan EES-samningnum á undanförnum árum.

Aðeins um aukaaðildina

Skýrasta dæmið um rangfærslur í þessu skyni eru linnulausar fullyrðingar um að við Íslendingar innleiðum 80-90 prósent af löggjöf Evrópusambandsins og því gætum við allt eins verið í Evrópusambandinu og haft þá „bein áhrif“ á mótun löggjafarinnar. Nýjasta útfærslan af þessari röksemd er kölluð „aukaaðild að Evrópusambandinu“ í greinargerð sem fylgir aprílgabbi Viðreisnar. Það vill þannig til að á fyrsta ári mínu sem utanríkisráðherra létum við gera úttekt á þessu. Hún leiddi svart á hvítu í ljós að frá gildistöku samningsins árið 1994 og til ársloka 2016 þurftum við Íslendingar að innleiða 13,4% sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili. Þetta hlutfall hefur lítið breyst á síðustu fimm árum.

Því hefur einnig verið haldið fram að undir EES-samninginn falli öll helstu málefnasvið ESB og við séum því eins og áhrifalaust aðildarríki að sambandinu. Þetta er líka fullkomlega rangt. Mestu skiptir fyrir okkur að við erum ekki hluti af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni sem enginn getur lengur mælt bót. Þar fyrir utan erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að landbúnaði/dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum. Af 34 köflum ESB löggjafarinnar eru tíu kaflar að fullu hluti af EES-samningnum en þrettán kaflar standa alfarið fyrir utan.

Linnulausar rangfærslur ESB-sinna víkja ekki staðreyndum til hliðar. Innganga í ESB myndi þýða að við tækjum upp 100% af ESB gerðum en ekki 13,4%. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 málaflokkar ESB ættu við um okkur en ekki einungis þeir sem okkur eru hagfelldastir. Staðreyndin er sú að við erum aðilar að sérsniðnum samningi sem hentar íslenskum hagsmunum ákaflega vel og gerir um leið að verkum að engin þörf er á inngöngu í tollabandalag ESB-ríkjanna. Gleymum því ekki að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð hér á mörgum vörum og þjónustu hækka við inngöngu í ESB.

Enginn hljóp apríl

Vísað er til þess í áðurnefndri greinargerð að vegna heimsfaraldurs þurfi Ísland að „nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“. Með aðild að EES-samningnum njótum við fulls viðskiptafrelsis með allar vörur nema landbúnaðarvörur og hluta sjávarafurða á EES-svæðinu. Samningurinn tryggir okkur búsetu-, atvinnu- og námsrétt í öðrum ríkjum svæðisins og mikil tækifæri eru fyrir Íslendinga til að taka þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum og það gerum við. Við njótum s.s. margvíslegs ávinnings af innri markaðnum án þess að þurfa að axla byrðarnar af ESB-aðild og þær eru stórfelldar. Ísland er fríverslunarþjóð og við höfum fullt frelsi til þess að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki enda er fríverslunarnet okkar víðfeðmara en net Evrópusambandsins. Hver skyldi annars hinn mikli hagvöxtur vera á evrusvæðinu? Jú, heil 1,27% árið 2019 og 1,84% 2018!

Í dag býr Ísland hins vegar við þá ákjósanlegu stöðu í krafti EES-samningsins að eiga greiðan aðgang að innri markaði ESB. Við getum um leið tekið okkar eigin ákvarðanir um hvernig við viljum móta samskipti okkar við þau ríki sem standa utan þess. Snemmbúið aprílgabb Viðreisnar á það sem betur fer sameiginlegt með flestum slíkum blekkingum að þegar undrunin er liðin hjá þá er yfirleitt þægileg tilfinning að sjá að veruleikinn og staðreyndir segja allt aðra sögu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta