Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Norðurslóðir í deiglunni

Norðurslóðir hafa verið brennidepli undanfarin ár og mikilvægi þeirra verður æ ljósara. Það fer vel á því að nú þegar hillir undir lok formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hafi Alþingi tekið til umfjöllunar tvær þingsályktunartillögur sem varða málefni svæðisins.

Tímabært er að uppfæra norðurslóðastefnu Íslands frá 2011 og því hef ég mælt fyrir tillögu um nýja stefnu Íslands. Hún byggist á vinnu þingmannanefndar með fulltrúum allra flokka sem birtar voru á dögunum. Þær miða að því að tryggja hagsmuni Íslands í víðum skilningi, með sjálfbæra þróun og friðsamlegt samstarf að leiðarljósi.

Málefni norðurslóða snerta hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti og stefnan þarf því að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma. Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal ný norðurslóðastefna byggjast á 19 áhersluþáttum. Þeir lúta meðal annars að alþjóðasamstarfi um málefni svæðisins, viðbrögðum við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, velferð íbúa á norðurslóðum og nýtingu efnahagstækifæra svo fátt eitt sé nefnt.

Ég hef lagt sérstaka áherslu á að efla samstarf við Grænland, okkar næstu nágranna. Í þeim tilgangi skipaði ég Grænlandsnefnd til að gera tillögur um eflingu samvinnu landanna á nýjum norðurslóðum. Grænlandsskýrslan er umfangsmesta og ítarlegasta greining sem hefur verið gerð á samskiptum Íslands og Grænlands og nefndin gerir samtals 99 tillögur á fjölmörgum sviðum.

Í þingsályktunartillögu minni um samstarf landanna er megin áherslan gerð tvíhliða rammasamnings. Það er því mikilvægt að hefja sem fyrst samtal og samráð við nýja landsstjórn á Grænlandi um næstu skref. Af Íslands hálfu verður byggt á tillögum Grænlandsnefndar. Ekki er síður mikilvægt að nýta þann mikla áhuga sem ég hef fundið fyrir frá stofnunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, félagasamtökum og háskólasamfélaginu.

Það er von mín að Alþingi sameinist um þessi tvö mikilvægu mál nú á vordögum, um það leyti sem endi er bundinn á vel heppnaða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu með  ráðherrafundi í Reykjavík.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. apríl 2021

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta