Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. maí 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Hlýjar norðanáttir

Möguleikar fjarfunda eru einn af þeim jákvæðu lærdómum sem draga má af kórónuveirufaraldrinum. Að sama skapi hefur hann líka sýnt að ekkert kemur í stað mannlegra samskipta. Nýafstaðinn ráðherrafundur Norðurskautsráðsins var þannig eins og hressandi vorgola eftir margar mánaða inniveru.

Norðurskautsráðið heldur ráðherrafundi sína á tveggja ára fresti og skipta þessir persónulegu fundir höfuðmáli fyrir starfsemina. Þótt fundurinn nú hafi verið með blönduðu sniði vegna farsóttarinnar voru viðstaddir allir utanríkisráðherrar aðildarríkjanna átta, auk fulltrúa Grænlands og Færeyja svo frumbyggjasamtak. Það sýnir að ráðið stendur styrkum fótum sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni svæðisins. Við áttum uppbyggilegar umræður um viðbrögð við þeim áskorunum sem að svæðinu steðja, samþykktum framtíðarstefnu til næstu tíu ára og undirrituðum svonefnda Reykjavíkuryfirlýsingu um að hlúa áfram að friði og sjálfbærni á norðurslóðum. Þar með bundum við enda á formennsku Íslands í ráðinu, verkefni sem göngum afar stolt frá.

Samhliða ráðherrafundinum fóru fram fjölmargir tvíhliðafundir. Þar vakti mesta athygli sögulegur fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands, sá fyrsti eftir valdaskiptin í Washington. Þótt Harpa en ekki Höfði hafi verið vettvangurinn hugsuðu eflaust margir til leiðtogafundarins 1986 þegar Ísland var rétt eins og nú vettvangur stórveldaviðræðna í kastljósi heimspressunnar. Sjálfur átti ég afar gagnlega fundi með kollegum frá Kanada, Finnlandi, Svíþjóð, Grænlandi, Bandaríkjunum og Rússlandi, svo og lögmanni Færeyja. Tvíhliða samskipti, alþjóðamál, loftslagsmál, mannréttindi og viðskipti voru þar meðal annars til umræðu. Óvíst er að jafngott tækifæri gefist fyrir Ísland til að ná tvíhliða fundum með stórveldunum á næstu misserum til að ræða margvísleg hagsmuna- og framfaramál.

Á meðan öllu þessu stóð í Hörpu bárust þau gleðitíðindi frá Alþingi að ný norðurslóðastefna, sem byggð er á tillögum þingmannanefndar úr öllum flokkum, hefði verið samþykkt. Tímasetningin hefði ekki getað verið meira viðeigandi til að setja kúrsinn til næstu ára í þessu forgangsmáli íslenskrar utanríkisstefnu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. maí 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta