Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. júní 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Jafnréttismálin eiga alltaf við - líka í fríverslun

Lengi vel var litið svo á að alþjóðaviðskipti hefðu ekkert með jafnréttismál að gera. Tollar væru bara tollar og alþjóðaviðskiptakerfið án kyngreiningar. Ísland hefur síðustu ár unnið markvisst að því að færa jafnréttisumræðuna inn í þennan málaflokk og hefur góður árangur náðst.

Nú þegar hillir undirlok fríverslunarviðræðna við Breta er ljóst að blað verður brotið við gerð samningsins að þessu leyti. Ein helsta áhersla Íslands í viðræðunum um kaflann um sjálfbæra þróun og viðskipti var að kynjajafnrétti yrði gert hátt undir höfði, í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar. Það er því gleðiefni að nú þegar viðræðum um þann kafla er lokið liggur fyrir að samningurinn við Breta mun innihalda sérstakan undirkafla um efnahagslega valdeflingu kvenna þar sem mikilvægi jafnréttismála og kynjasjónarmiða við framkvæmd samningsins er undirstrikað. Einnig eru þar talin upp ýmis verkefni um hvernig ríkin geti unnið saman að því að efla þátttöku kvenna í fjárfestingum og viðskiptum milli landanna og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði jafnréttismála eru áréttaðar. Þá er einnig lagalega bindandi ákvæði um að ekki megi mismuna kynjunum þegar kemur að leyfisveitingum til handa þjónustuveitendum og fjárfestum.

Fríverslunarsamningurinn við Breta verður sá fyrsti sem Ísland gerir þar sem sérstaklega er fjallað er um kynjasjónarmið og jafnréttismál. Við höfum á undanförnum árum lagt mikla áherslu á jafnréttismál í alþjóðaviðskiptum. Var það meðal annars að frumkvæði Íslands sem slík ákvæði voru tekin upp í samningsmódel EFTA árið 2019. Jafnrétti er einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar og er unnið að því að efla jafnrétti kynjanna þverlægt í öllum málaflokkum ráðuneytisins. Líka hvað varðar utanríkisviðskipti.

Á alþjóðavettvangi hefur Ísland leitt sérstakt átak hvað þetta varðar ásamt Síerra Leóne og síðar Botsvana, í samstarfi við Alþjóðaviðskiptamiðstöðina (ITC) í Genf. Það leiddi til þess að á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í desember 2017 var samþykkt yfirlýsing um viðskipti og efnahagslega valdeflingu kvenna sem um 130 ríki styðja nú. Síðasta haust var málið fært á dagskrá WTO með stofnun vinnuhóps þar sem Ísland er í formennsku ásamt Botsvana og ITC. Árangur starfsins verður kynntur á næsta ráðherrafundi WTO á haustdögum og nýtur vinnuhópurinn mikils stuðnings frá nýjum framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Ngozi Okonjo-Iweala, fyrstu konunni sem gegnir því embætti. Í takt við þessar áherslur höfum við fjallað sérstaklega um jafnréttismálin í reglulegri úttekt á viðskiptastefnu Íslands hjá WTO  og spyrja fulltrúar Íslands í Genf önnur ríki ætíð um stöðu kvenna í alþjóðaviðskiptum þegar þau undirgangast þá úttekt.

Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla árangur sem orðið hefur frá því Ísland hafði frumkvæði að því að hefja samtal ríkja um þessi málefni. Og það verður spennandi að vinna með Bretum að verkefnum á þessu sviði á grundvelli fríverslunarsamningsins sem nú er nánast tilbúinn. Það hefur nefnilega sýnt sig að auðvitað eiga jafnréttismálin fullt erindi í umræðu um alþjóðaviðskipti eins og aðra málaflokka.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta