Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. júní 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum - hvert stefnir Ísland?

Ágætu fundargestir.

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu hér í Norræna húsinu í dag. Gleðin er auðvitað ekki síst fólgin í þeirri staðreynd að ég stend frammi fyrir ykkur í stað þess að horfa í vefmyndavél með Teams-gluggann opinn fyrir framan mig – heyra að ég sé á „mjút“ og jafnvel með „gamla hönd“ á lofti.

Það eru ekki bara klakabönd vetrarins sem hafa verið að losna á síðastliðnum vikum heldur líka heimsfaraldurshelsið sem hefur legið yfir öllu eins og mara undanfarin misseri. Það fer því vel á að halda þennan fund í dag – nú þegar við stöndum sannarlega á krossgötum hvað COVID varðar. Landið hefur heldur betur risið eftir því sem bólusetningum vindur fram og því lengra sem líður á sumarið getum við átt von á því að lífið færist í sínar eðlilegu skorður.

Eða hvað? Í hverju felast „eðlilegar skorður“ að loknum heimfaraldri? Hvaða lærdóm getum við dregið reynslu undangenginna missera? Verður heimurinn samur á eftir?

Við í utanríkisráðuneytinu höfum ekki farið varhluta af þessum sviptingum enda eru áhrif heimsfaraldursins á alþjóðasamskipti bæði djúpstæð og margháttuð. Um leið og þýðing alþjóðlegrar samvinnu hefur líklega sjaldan verið ljósari hefur ástandið líka sýnt fram á að þegar á reynir gildir það allt of oft að hver sé sjálfur sér næstur.

Mannréttindi eru leiðarljós í öllu okkar starfi sem og þau lýðræðislegu gildi sem alþjóðakerfið byggist á. Það er áhyggjuefni að sótt er að þessum gildum, oft í skjóli COVID-19. Fámenn herlaus ríki eins og Ísland eiga mikið undir því að sátt ríki um þessi grunngildi og alþjóðalög almennt.

Um leið stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum - jafnvel nýjum ógnum – sem fylgja breyttum heimi. Svonefndar fjölþáttaógnir hafa orðið æ meira áberandi á undanförnum misserum, einn þáttur þeirra verður sérstaklega til umræðu hér á eftir: upplýsingaóreiða og falsfréttir. Frjór jarðvegur hefur skapast fyrir falsfréttir meðan farsóttin hefur geisað, oft settar fram af annarlegum hvötum eða til að grafa undan frjálsum lýðræðissamfélögum og samstöðu þeirra. Árvekni og upplýst umræða skipta hér eftir sem hingað til höfuðmáli við að sporna gegn þeirri óværu sem upplýsingaóreiðan er.

Ágætu fundargestir

Sá magnaði árangur sem náðst hefur við að þróa bóluefni er sjálfsagt gleggsta dæmið um alþjóðasamvinnu eins og hún gerist best. Þar tóku færustu vísindamenn mannkyns höndum saman við stærstu lyfjafyrirtækin, deildu upplýsingum og leystu á örfáum mánuðum verkefni sem yfirleitt tekur mörg ár. Annað slíkt dæmi er COVAX-samstarfið, sem er bóluefnastoð alþjóðlegs samstarfs til þess að flýta þróun, framleiðslu og jöfnum aðgangi að skimunarbúnaði, meðferðum og bóluefni gegn COVID-19. Íslensk stjórnvöld hafa talað fyrir mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um þróun og framleiðslu bóluefnis og jafns aðgangs ríkja óháð greiðslugetu þeirra. Ísland hefur nú varið rúmum milljarði króna til að bæta aðgang þróunarríkja að bóluefnum. Þótt þróunarríkin hafi enn fengið alltof lítið af bóluefnum í sinn hlut samanborið við ríkari þjóðir heims er alveg ljóst að ef COVAX-samstarfsins nyti ekki við væri leikurinn ennþá ójafnarari.

Um leið höfum við líka dæmi um hvernig faraldurinn hefur á köflum truflað samvinnu þar sem ríki reyna jafnvel að fara í kringum gerða samninga til að tryggja eigin hagsmuni. Þannig setti Evrópusambandið í vor reglugerð um útflutningshömlur á bóluefni sem þýddi að EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland, voru ekki lengur á lista yfir þau ríki sem ríkjum ESB er heimilt að flytja bóluefni til án sérstaks útflutningsleyfis. Við mótmæltum þessum reglum harðlega og bentum meðal annars að þær brytu gegn ákvæðum EES-samningsins. Öflug málafylgja íslenskra stjórnvalda tryggði að reglugerðinni var breytt enda hefði það haft stóralvarlegar afleiðingar fyrir framkvæmd EES-samningsins ef EES-ríkjunum væri mismunað með þessum hætti og yrði að teljast skýrt brot á samningnum.

Á tímum heimsfaraldursins höfum við í utanríkisráðuneytinu annars lagt kapp á að takmarka áhrif farsóttarinnar eins og kostur er fyrir almenning og efnahagslíf og leita tækifæra fyrir land og þjóð. Tæpt ár er síðan skýrslan Saman á útivelli þar sem kynntar voru tillögur starfshóps sem ég skipaði um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar og atvinnulíf í kjölfar heimsfaraldursins. Á grundvelli skýrslunnar settum við á fót viðskiptavaktina, sérstaka sólarhringsvakt sem byggist á fyrirkomulagi borgaraþjónustunnar og nýtist ekki síst þegar upp koma brýn úrlausnarefni tengd viðskiptum sem ekki geta beðið hefðbundins skrifstofutíma og kalla á aðkomu stjórnvalda.

Þessar áherslur ríma vel við niðurstöður glænýrrar könnunar Maskínu um viðhorf fólks til utanríkisþjónustu og alþjóðasamstarfs. Þrír af hverjum fjórum telja að hagsæld Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðlegum viðskiptum. Það er bæði fagnaðarefni en líka hvatning fyrir okkur í utanríkisþjónustunni að halda áfram á sömu braut við að greiða götu íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Það er í þágu okkar allra.

Og talandi um borgaraþjónustuna, hún hefur heldur betur sannað gildi sitt á COVID-tímum. Árið 2019 voru 679 aðstoðarbeiðnir skráðar hjá henni en í fyrra bárust ráðuneyti og sendiráðum yfir níu þúsund slíkar beiðnir. Hefðbundin verkefni borgaraþjónustu, svo sem aðstoð vegna veikinda, slysa og sakamála hafa einnig orðið flóknari vegna ferðatakmarkana víða um heim. Í áðurnefndri könnun Maskínu kemur fram að mun fleiri landsmenn þekkja til borgaraþjónustunnar en gerðu fyrir ári síðan og þorri aðspurðra segist myndu leita til hennar ef vandi kæmi upp á erlendri grundu.

Kæru fundargestir.

Lítið en áþreifanlegt dæmi um þær breytingar sem heimsfaraldurinn hefur á alþjóðasamskipti er svo breytt fyrirkomulag funda. Þrátt fyrir að fundaferðum hafi fækkað verulega á undanförnum misserum hafa pólitísk samskipti verið mikil og árangursrík. Fjarfundir hafa reynst öflugt verkfæri og einsýnt er að því fyrirkomulagi verði haldið áfram að verulegu leyti þegar faraldrinum linnir enda auðvelda þeir reglulegt samtal, sérstaklega þeirra sem þekkjast og vinna vel saman. Þá er ótalinn fjárhagslegur sparnaður og minna kolefnisfótspor. Í fyrra tók ég til dæmis þátt í 31 ráðherrafundi með Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er metfjöldi og var mikill meirihluti fjarfundir á netinu.

Ég nefndi samt í upphafi ræðunnar hve ánægjulegt það væri að hitta loks fólks augliti til auglits á eiginlegum fundi. Ég er nýkominn af leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins þar sem við áttum gagnleg samtöl við vini og kollega sem ekki hefðu orðið með fjarfundarbúnaði. Fjarfundir eru góðir til síns brúks en ekkert kemur í stað mannlegra samskipta. Maður er jú manns gaman.

Með þetta í huga skulum við njóta samverunnar hér í dag þegar við ræðum þau brýnu málefni sem eru á dagskrá ráðstefnunnar. Ef COVID hefur kennt okkur eitthvað þá er það að ekkert er sjálfgefið heldur allt breytingum háð.

Ávarpið var flutt á málþingi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins - Alþjóðasamvinna á krossgötum, hvert stefnir ísland - 16. júní 2021.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta