Allir litir regnbogans
Hinsegin dagar á Íslandi eru lifandi vitnisburður um baráttu framsýnna eldhuga hér á landi og þá sigra sem unnist hafa í okkar heimshluta. Þar hefur Ísland verið í fremstu röð, þótt enn sé verk að vinna.
Sums staðar í nálægum löndum á sér hins vegar stað hrein öfugþróun og höfum við ítrekað varað við henni. Það er hreinlega sorglegt að fylgjast með vestrænum lýðræðisríkjum taka slík skref til baka þegar kemur að mannréttindum fólks.
Í starfi mínu sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að Ísland láti ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir mannréttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Við gerum afdráttarlausar kröfur um að hvarvetna skuli virða réttindi hinsegin fólks. Við fylgjumst náið með og greinum það sem okkur þykir ábótavant og notum öll tækifæri til að koma að aðfinnslum. Því miður er ekki vanþörf á því, en í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er enn litið á samkynhneigð sem glæp.
Þegar Ísland tók sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna árið 2018 voru málefni hinsegin fólks sett á oddinn. Ísland er stofnfélagi í vinahópi um vernd gegn ofbeldi og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Á yfirstandandi mannréttindaráðsþingi munu þrjár mikilvægar yfirlýsingar koma frá hópnum, þar á meðal um réttindi transkvenna.
Ísland vinnur sömuleiðis náið með frjálsum félagasamtökum við að standa vörð um mannréttindi hinsegin fólks, til dæmis í Equal Rights Coalition, bandalagi ríkja sem beitir sér fyrir réttindum hinsegin fólks. Á þessu ári verður beinn stuðningur Íslands til slíkra samtaka aukinn, en þau starfa meðal annars í samstarfslöndum okkar í þróunarsamvinnu þar sem mannréttindi hinsegin fólks eru víða fótum troðin, þar á meðal í Úganda og Palestínu.
Stefna Íslands er einföld: Allir eiga að njóta mannréttinda og frelsis, óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Því fjölbreytni er styrkur og allir litir regnbogans eiga að fá að ljóma.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. ágúst 2021.