Þrjátíu ára vinátta
Í dag eru liðnir þrír áratugir frá því að Ísland tók upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litáen. Önnur ríki fyldu fljótlega í kjölfarið og mánuði síðar voru þau öll orðin aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Þar með var sjálfstæðið endurheimt og fullveldi tryggt en hvort tveggja hafði verið fótum troðið með innlimun landanna í Sovétríkin. Enn í dag dáumst við að hugrekki, úthaldi og útsjónarsemi þessara þjóða og Ísland er stolt af því að hafa stutt sjálfstæðisbaráttu þeirra.
Leiðir okkar liggja víða saman. Við erum nánir bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana. Innan Evrópusamvinnunnar eru löndin þrjú mikilvæg samstarfsríki, haukar í horni. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja fer ört vaxandi og þessi ríkjahópur hefur ítrekað sannað gildi sitt.
Viðskiptin skipta líka máli. Útflutningur á vörum og þjónustu hefur verið ágætur í gegnum tíðina en við seljum til dæmis sjávarafurðir til þeirra og flytjum inn timbur. Segja má að þetta sé dæmi um klassísk milliríkjaviðskipti þar sem útflutningur byggist á styrkleikum hvers fyrir sig. Öflug íslensk fyrirtæki hafa líka framleitt vörur í Eystrasaltsríkjunum og samvinna sprotafyrirtækja fer vaxandi. Skapandi greinar eru kröftugar í öllum löndunum og þar fléttast þræðir víða saman. Ferðaþjónusta fer vaxandi. Á sjöunda þúsund Eista, Letta og Litáa búa og starfa á Íslandi og leggja til samfélags okkar á hverjum degi.
Ég er þess fullviss að samskipti Íslands og Eystrasaltsríkjanna megi enn efla. Þar er hin sameiginlega saga, vinátta og virðing mikilvægur grunnur en einnig sú staðreynd að við deilum sömu grundvallargildum um lýðræði, réttarríki, öryggi og mannréttindi. Við stöndum líka frammi fyrir sömu áskorunum til dæmis á sviði loftslagsmála og að laga efnahagslíf okkar að framtíðinni til að tryggja áfram atvinnu og velferð. Öll ríkin hafa sína styrkleika. Það nýtist öllum ef við leggjum þessa styrkleika saman, og leiðum áfram saman fyrirtæki og fólk. Ísland og Eystrasaltsríkin eru náttúrlegir bandamenn.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. ágúst 2021