Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. september 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Sóknarfæri í samskiptum við vinaþjóðir

Eitt af áherslumálum mínum í embætti utanríkisráðherra hefur verið að auka möguleika íslenskra fyrirtækja til að sækja á erlenda markaði og styrkja þannig stoðir íslensks efnahagslífs með áþreifanlegum hætti. Lykilforsenda slíkrar sóknar er að áreiðanlegar og yfirgripsmiklar upplýsingar séu fyrirliggjandi um þau svæði sem við viljum auka samstarf við. Það er því fagnaðarefni að í þessum mánuði hafa komið út á vegum utanríkisráðuneytisins tvær skýrslur um hvernig við getum eflt samvinnuna við nánar vinaþjóðir okkar.

Vinátta og vaxtarbroddar

Annars vegar er skýrslan Vinátta og vaxtarbroddar – Samskipti Íslands og Póllands sem kemur út í dag. Auk ítarlegrar greiningar á samskiptum ríkjanna inniheldur skýrslan tillögur sem annars vegar lúta að því að festa enn frekar í sessi farsæl samskipti þjóðanna og hins vegar að almennum aðgerðum sem hafa það að markmiði að auka þau enn frekar. Skýrslan er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði á sínum tíma undir formennsku Grazynu Maríu Okuniewska. Tillögurnar lúta meðal annars að því að utanríkisþjónustan auki sýnileika sinn í Póllandi, að stutt verði við milliríkjaviðskipti og starfsemi Pólsk-íslenska viðskiptaráðsins og samstarf þjóðanna verði eflt á ýmsum sviðum.

Pólitísk, efnahagsleg og menningarleg samskipti Íslands og Póllands hafa farið vaxandi á umliðnum árum en sem kunnugt er eru Pólverjar langfjölmennasti hópur útlendinga með búsetu á Íslandi. Óhætt er að segja að þessi hópur hafi bæði auðgað íslenskt samfélag og átt sinn þátt í að skapa þá hagsæld sem hér ríkir. Þúsundir Pólverja sem dvalist hafa á Íslandi til lengri eða skemmri tíma og myndað sterkt tengsl við landið hafa snúið aftur til Póllands.  

Þá er vert að nefna þann efnahagsuppgang sem verið hefur í Póllandi á undanförnum árum sem er með því allra mesta á meðal aðildarríkja ESB. Jafnframt hefur pólskur efnahagur staðist þá þolraun sem COVID-19 er betur en önnur ESB-ríki. Er það til marks um þessa styrku stöðu að Danir horfa til þess að auka útflutning sinn til Póllands þegar faraldrinn er afstaðinn. Þessi þróun felur í sér augljós sóknarfæri fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki.

Samskipti Íslands og Færeyja

Hins vegar kom nýverið út skýrslan Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar. Rétt eins fyrrnefnda skýrslan byggist þessi á vinnu starfshóps sem ég skipaði á kjörtímabilinu og var Júlíus Hafstein formaður hans. Auk greiningar á samskiptunum við þessa frændþjóð okkar leggur starfshópurinn fram tillögur að því hvernig við getum eflt þau enn frekar.

Margvíslegt samstarf er á milli Íslands og Færeyja, bæði formlegt og óformlegt og líka á norrænum eða vestnorrænum vettvangi. Hins vegar er óumdeilt að líkt og í tilviki Póllands eru fjölmörg sóknarfæri efla enn frekar tvíhliða tengsl og samstarf á milli þessara grannþjóða, ekki síst á vettvangi efnahags-, menningar- og stjórnmála. Hópurinn lagði því áherslu á þau svið þar sem lítið er um núverandi tvíhliða samstarf að ræða en einnig þar sem aðgerða er þörf til að efla samvinnu, til dæmis á sviði viðskipta, heilbrigðismála og menntamála.

Um leið og ég hvet alla til að kynna sér efni beggja skýrsla vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem lögðu hönd á plóg við gerð þeirra fyrir sitt vandaða framlag. Ég vænti þess að tillögum starfshópanna verði hrint í framkvæmd á næstu árum. Þannig rennum við styrkari stoðum undir samband Íslands við tvær af vinaþjóðum okkar og á sama tíma sköpum við forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum í samskiptunum við þær.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta