Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. október 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Allra augu beinast að norðurslóðum

Norðurslóðir hafa verið rauður þráður í íslenskri utanríkisstefnu undanfarin ár. Óhætt er að segja að áherslan sem við leggjum á þetta málefni hafi aldrei verið meiri. Áhuginn á málefninu er ekki einskorðaður við Ísland. Á undanförnum mánuðum hafa farið fram í Hörpu í Reykjavík tveir fjölþjóðlegir viðburðir með málefni norðurslóða í brennidepli: Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í vor og Hringborð norðurslóða fyrr í þessum mánuði. Norðurslóðir eru nú kirfilega í kastljósi alþjóðasamskipta.

Ísland í forystu á erfiðum tímum

Það segir sína sögu um aukið vægi málaflokksins í alþjóðamálunum að allir utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna hafa mætt á tvo síðustu ráðherrafundi Norðurskautsráðsins en slíkt hafði fram að því ekki gerst. Nýafstaðin formennska Íslands í ráðinu var einmitt til umfjöllunar í málstofu sem ég tók þátt í á Hringborði norðurslóða. Ísland tók við formennskukeflinu af Finnlandi fyrir rúmum tveimur árum, á erfiðasta tíma í sögu ráðsins þar sem ekki náðist samstaða um ráðherrayfirlýsingu, meðal annars vegna ágreinings um loftslagsmál. Áskorunin sem við stóðum frammi fyrir var því mikil áður en heimsfaraldurinn skall á með öllum tilheyrandi takmörkunum.

Við skiluðum formennskunni af okkur til Rússlands á ráðherrafundinum í Reykjavík í maí með samþykkt ráðherrayfirlýsingar og fyrstu langtímastefnu ráðsins til næstu tíu ára. Reykjavíkuryfirlýsingin gerir grein fyrir góðum framgangi formennskuáætlunar Íslands „Saman til sjálfbærni“ en hún lagði sérstaka áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og samfélög á norðurslóðum. Framtíðarstefnan ítrekar sameiginleg gildi, markmið og metnað norðurskautsríkjanna og samtaka frumbyggja og áréttar einarðan vilja þeirra til að viðhalda friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu á norðurslóðum.

Málefni Grænlands voru jafnframt ofarlega á baugi á Hringborði norðurslóða og það var ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ræða skýrslu Grænlandsnefndar sem kom út í byrjun þessa árs. Skýrslan er sneisafull af góðum tillögum og hefur til þessa reynst hið besta skapalón fyrir framtíðarsamstarf landanna. Við höfum þegar fylgt skýrslunni eftir. Alþingi Íslands samþykkti tillögu að þingsályktun um málefni Íslands og Grænlands í maí. Þá var sameiginleg yfirlýsing landanna tveggja undirrituð í september en hún gengur út á að fara yfir og framkvæma tillögur sem eru í skýrslunni. Grænlandsskýrslan lagði þannig grunninn, þingsályktunartillagan veitti umboðið og yfirlýsingin handsalaði málið.

Ný norðurslóðastefna Íslands

Í upphafi ráðherratíðar minnar í janúar 2017 var mitt fyrsta opinbera verk í embætti að flytja ræðu á svokölluðum hugarflæðisfundi til undirbúnings að formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021. Á þessum tíma var það oftast ég sem þurfti að setja málefni norðurslóða á dagskrá funda minna með erlendum kollegum. En hlutirnir breytast hratt og nú eru það viðmælendur mínir sem undantekningalítið bera norðurslóðir upp að fyrra bragði óháð tilefni funda að öðru leyti. Taflið hefur þannig snúist við, sem var löngu orðið tímabært.

Ísland er norðurslóðaríki og er allt innan þess svæðis sem skilgreint er sem norðurslóðir. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir Ísland að halda áfram að ganga fram fyrir skjöldu og gera sig gildandi á þessu sviði með jákvæðum hætti til framtíðar. Ég fékk því hóp þingmanna úr öllum þingflokkum til liðs við mig til að endurskoða stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða. Það fór einstaklega vel á því að Alþingi skyldi samþykkja með öllum greiddum atkvæðum nýja norðurslóðastefnu á grundvelli vinnu þeirra daginn fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Reykjavík. Nýja norðurslóðastefnan leggur grunn að áframhaldandi öflugu starfi Íslands í málefnum norðurslóða að baki árangursríkri formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu síðastliðin tvö ár.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. október 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta