Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. janúar 2022 Þórdís KRG - UTN

Stundum er skárra betra en best

Íslenska orðið „skárri“ á sér enga góða hliðstæðu sem ég þekki í ensku. Þó er þetta afskaplega gagnlegt hugtak því það lýsir vel þeim raunveruleika lífsins og tilverunnar að oft þarf að velja úr valkostum jafnvel þótt enginn þeirra sé nákvæmlega eins og maður helst myndi kjósa. Winston Churchill hefði til dæmis vel getað notast við hugtakið í frægri athugasemd sinni um lýðræðið, þegar hann sagði að það væri versta stjórnarfarið sem mennirnir hefðu prófað, fyrir utan öll hin.

Lýðræðið er nefnilega ekki fullkomið. En það er klárlega skárra en öll hin sem hafa verið reynd. Hið sama má segja um réttarríkið. Það er ekki fullkomið heldur og skilar stundum niðurstöðum sem storka réttlætiskennd flestra; en samt er það skárra en allar aðrar aðferðir sem reyndar hafa verið til þess að passa upp á röð, reglu og réttlæti í samfélagi mannanna.

Ég vil trúa að flestir Íslendingar taki hiklaust undir mikilvægi þessara tveggja stöpla í undirstöðu samfélagsins okkar; að við veljum valdhafa með lýðræðislegri aðferð og að við framfylgjum lögunum með aðferðum sem tryggja sanngjarna möguleika bæði þeirra sem sækja rétt og hinna sem verjast ásökunum. Þó blasir við að í báðum þessum kerfum felst að oft tekur langan tíma að komast að því sem virðast vera augljósar niðurstöður og þeir sem fara með völdin þurfa að sætta sig við margvíslega temprun og takmarkanir á umboði sínu.

Sjálf er ég mjög meðvituð um mikilvægi þessara takmarkana. Þótt ég sé varaformaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins þá hefur stór hluti kjósenda lítinn eða engan áhuga á því að ég fari með völd eða áhrif. Þó ná mínar skyldur nákvæmlega jafnmikið til þeirra sem eru mér ósammála eins og hinna sem deila með mér lífsskoðunum og gildum. Í réttarríki þarf þó ekki að treysta stjórnvöldum í blindni til að hafa rétt pólitískra andstæðinga í heiðri. Þeir sem tortryggja ákvarðanir ríkjandi valdhafa hafa margvíslegan og sjálfstæðan rétt til þess að fylgjast með og gagnrýna ákvarðanir þeirra og athafnir, auk þess sem lögin, sjálfstæðar stofnanir og dómstólar hafa taumhald á valdinu. Skammsýnn eða óþolinmóður stjórnmálamaður gæti látið þetta fara í taugarnar á sér, en sem betur fer held ég að innan íslenskra stjórnmála sé djúpstæð sátt um að einmitt þessar takmarkanir og temprun á valdi séu óumsemjanlegir eiginleikar í stjórnarfari okkar. Það er nefnilega ekki nóg að lýðræðið gefi ólíkum aðilum tækifæri til að keppast um að komast til áhrifa. Við þurfum ekki síður á réttarríkinu að halda til þess að öruggt sé að þeir sem öðlast tímabundið völd geti ekki gert aðstæður andstæðinga sinna óbærilegar með því að misnota aðstöðu sína.

Víða um heim virðist sem skilningur á mikilvægi þessara eiginleika lýðræðis og réttarríkis fari dvínandi. Þessi þróun hófst fyrir tíma faraldursins, en mannréttindastofnanir hafa áhyggjur af því að valdsæknir stjórnmálamenn geti nýtt sér neyðarástand, ótta og óvissu til þess að réttlæta harkaleg inngrip í líf borgaranna umfram það sem brýna nauðsyn ber til og í lengri tíma. Á svona tímum vex nefnilega líka eftirspurn eftir sterkum og afdráttarlausum leiðtogum sem láta ekki hinar tafsömu leikreglur lýðræðis og réttarríkis trufla sig þegar þeir hafa gert upp hug sinn um hvað þeir vilji. Víða um heim er þetta nú þegar orðin hættuleg þróun sem erfitt getur reynst að vinda ofan af.

Í flóknum viðfangsefnum samfélagsins þarf stjórnmálafólk að hafa sterka hugmynd um hvernig það vill að hlutirnir þróist og berjast fyrir sjónarmiðum sínum með rökum og sannfæringarkrafti. En það er vitaskuld hollast fyrir samfélagið þegar enginn einn fær alltaf nákvæmlega það sem hann vill. Heilbrigt samfélag með góðu stjórnarfari felur í sér að við þurfum oft að gera okkur að góðu að hlutirnir séu bara örlítið betri í dag en þeir voru í gær, og oft felast miklir vankantar í öllum þeim valkostum sem í boði eru. Þá kemur hugtakið „skárra“ oft að góðum notum, því gjarnan reynist lausnin sem flestum finnst skást en engum finnst best, betri en sú sem meirihlutanum þykir best en er óhugsandi fyrir minnihlutann. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. jamúar 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta