Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. mars 2022 Þórdís KRG - UTN

Ræða utanríkisráðherra í umræðum á Alþingi um utanríkis- og alþjóðamál 2021

Herra forseti. Upphafsorðin í ræðu utanríkisráðherra til Alþingis úr þessum stól á síðasta ári eru ágætur vitnisburður um hverfulleika tilverunnar. Þá talaði forveri minn um faraldurinn „sem nú loks sér fyrir endann á“. Sú varð ekki raunin þótt nánast allir hafi ályktað sem svo þegar bóluefnin voru í augsýn. Heimsfaraldur kórónuveirunnar setti svip á árið 2021 og það er kannski ekki fyrr en nú á síðustu vikum sem Ísland, og flest grannríki okkar, hafa tekið síðustu skrefin út úr ástandi sem einkenndist af sóttvarnaaðgerðum og ótta við faraldurinn. En ekki tekur betra við. Það var lítill ef nokkur tími til að njóta þess að geta loksins hætt að velta sér upp úr faraldrinum þegar innrás Rússa í Úkraínu umturnaði heimsmynd okkar enn á ný. Þótt fátt annað en innrásin komist að á vettvangi utanríkismála um þessar mundir þá er ætlunin hér að horfa yfir breiðara svið enda er þetta skýrsla um árið 2021.

Skýrsla þessi um utanríkis- og alþjóðamál sem árlega er lögð fyrir Alþingi er nú í breyttu formi, annars vegar samantekt og það sem hæst ber í hefðbundnu þingskjalsformi, hins vegar yfirgripsmikil skýrsla sem hv. þingmenn hafa fengið í hendur en hún miðast við almanaksárið. Með þessari breytingu verður unnt að leggja skýrsluna fram fyrr á árinu, gera vinnslu hennar auðveldari og lesturinn aðgengilegri, en einnig að auka til lengri tíma samræmi í þessari mikilvægu upplýsingagjöf. Ég hvet þingheim til að kynna sér skýrsluna til hlítar, því að hún veitir mjög góða innsýn í starf Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Því miður verður ekki fram hjá því litið að horfur í alþjóðamálum eru verri nú en verið hefur um langa hríð. Fyrir utan stríðsrekstur Rússa í Evrópu má nefna að áhrifa heimsfaraldurs gætir enn mjög. Truflanir á efnahagsstarfsemi í tengslum við faraldurinn hafa stuðlað að aukinni neyð, einkum í fátækari löndum. Eftir að heimsfaraldurinn skall á fjölgaði sárafátækum í fyrsta skipti í tvo áratugi. Nemur fjölgunin ríflega 100 milljónum. Þá hefur víða orðið mikil röskun á skólagöngu barna, bólusetningar vegna alvarlegra smitsjúkdóma hafa komist í uppnám og bakslag orðið á sviði jafnréttis- og mannréttindamála. Vegna náttúruhamfara og vopnaðra átaka þurfa nú fleiri en nokkru sinni fyrr á mannúðaraðstoð að halda. Þetta gerist um heim allan og er ástandið alls ekki bundið við þau svæði sem mest er fjallað um í fréttum. Í byrjun þessa árs áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að um 274 milljónir manna þyrftu á mannúðaraðstoð og vernd að halda á árinu 2022, eða 39 milljónum fleiri en árið á undan. Reikna má með að þessar tölur muni hækka eftir því sem líður á árið. Ríflega 1% mannkyns er á flótta eða vergangi, um 84 milljónir manna, og þeim fækkar stöðugt sem eiga kost á að snúa aftur til síns heima. Um 85% flóttamanna eru í þróunarríkjum. Um 811 milljónir manna búa við vannæringu og hungursneyð vofir yfir 44 milljónum í 38 löndum. Þar af er fólk í Suður-Súdan, Jemen, norðurhluta Eþíópíu, Afganistan og Nígeríu í sérstakri hættu. Ástandið í Afganistan eftir valdatöku talibana er átakanlegt. Þar hefur verið þrengt að mannréttindum, einkum réttindum kvenna, en efnahagurinn hefur líka hrunið með þeim afleiðingum að um helmingur fjörutíu milljóna manna þjóðar er talinn búa við hungur. Á Mið-Sahel svæðinu í Afríku er mikil og vaxandi neyð, þar sem saman koma pólitísk og trúarleg átök, afleiðingar loftslagsbreytinga og glæpastarfsemi þar sem bágindi fólks eru hagnýtt til hagnaðar.

Þá er rétt að geta þess að víða er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mannréttindamála. Stjórnvöld í ýmsum ríkjum hafa skákað í skjóli þess að lýðræðislegt aðhald er þar lítið til þess að takmarka í nafni sóttvarna margvísleg einstaklingsbundin mannréttindi. Hið sama átti sér stað, í mismiklum mæli, um heim allan, þar á meðal í löndum þar sem virðing fyrir borgaralegum réttindum á djúpar rætur í samfélagi og þjóðarsál. Ég hef lýst áhyggjum mínum af þessari þróun og því hversu takmörkuð umræða hefur átt sér stað um skerðingu þessara réttinda.

Ýmis veigamikil verkefni falla utanríkisþjónustu Íslands í skaut á næstunni. Þar má m.a. nefna formennsku í Evrópuráðinu og setu í framkvæmdastjórn UNESCO. Þótt íslensk utanríkisþjónusta sé smá í sniðum í samanburði við stærri ríki munum við rækja okkar hlutverk af alúð og metnaði eins og sæmir þjóð sem vill vera fullgildur þátttakandi á alþjóðavettvangi — vera fullvalda þjóð meðal fullvalda þjóða. Verkefni utanríkisþjónustunnar verða að líkindum stærri og vandasamari á næstu árum. Í því sambandi skiptir ekki síst máli að efla samstarf við þau ríki sem standa okkur næst hvað varðar hagsmuni og hugsjónir.

Árið 2021 einkenndist af aukinni spennu og óstöðugleika þar sem alþjóðakerfið, lýðræðissamfélög og sameiginleg gildi áttu í vaxandi mæli undir högg að sækja. Þetta gildir einnig um það regluverk sem öryggi Evrópu hefur grundvallast á undanfarna áratugi. Hernaðaruppbyggingu Rússlands í og við Úkraínu bar þar hæst og aukinn óútreiknanleika ráðamanna í Kreml á alþjóðasviðinu.

Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru hornsteinar íslenskrar öryggisstefnu. Þá hefur Ísland lagt áherslu á að þétta samráð og samstarf við hin norrænu ríkin og ýmis önnur líkt þenkjandi ríki sem deila sameiginlegum hagsmunum á norðurslóðum. Ísland mun áfram leggja áherslu á framlag sitt til varnarsamstarfs, m.a. með því að tryggja viðbúnað og gistiríkjastuðning við liðssveitir Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins sem hafa viðkomu á öryggissvæðunum en líka með aukinni þátttöku í samstöðuverkefnum bandalagsins, t.d. með því að senda íslenska sérfræðinga til starfa á vettvangi.

Ísland hefur skipað sér í hóp líkt þenkjandi ríkja, Atlantshafsbandalagsríkja, norrænna vinaþjóða og annarra sem deila með okkur gildum og sýn á þær öryggisáskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Aukinn þungi var í samstarfi um öryggis- og varnarmál vegna þessara áskorana, á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í svæðisbundnu samstarfi á borð við norræna varnarsamstarfið, Norðurhópinn og Sameiginlegu viðbragðssveitina, sem við köllum JEF, sem Bretland leiðir og Ísland gerðist aðili að í apríl í fyrra. Í september var undirrituð sameiginleg yfirlýsing Íslands og Svíþjóðar um samstarf í varnarmálum. Undirbúningur er hafinn að aðild Íslands að öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins um netöryggismál í Tallinn, og í desember fékk Ísland aðild að evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki Versnandi staða öryggismála hefur haft í för með sér aukin verkefni bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum, og aukið umfang starfseminnar á öryggissvæðinu í Keflavík.

Eins og sést hefur glöggt að undanförnu skipar Íslands sér dyggilega í hóp með lýðræðisríkjum sem fylkja sér um virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði, jafnrétti og frelsi. Það eru þeir þræðir sem eru samofnir öllu starfi Íslands á alþjóðavettvangi. Á vettvangi alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Evrópuráðið tala íslensk stjórnvöld skýrt fyrir þessum gildum. Rödd Íslands er sterk á alþjóðavettvangi. Hún heyrðist hátt og skýrt þegar við settumst í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Því höfum við ákveðið að bjóða fram krafta í mannréttindaráðinu á ný, á tímabilinu 2025–2027. Áfram ætlum við að beita okkur fyrir réttindum hinsegin fólks, kynjajafnrétti og réttindum barna, svo nokkuð sé nefnt.

Íslensk stjórnvöld veita alþjóðlegu aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu í verkefninu Kynslóð jafnréttis, eða á ensku, með leyfi forseta, Generation Equality Forum. Á árinu var unnið að megináherslum bandalagsins og mótun skuldbindinga til aðgerða og verkefna. Forsætisráðherra kynnti skuldbindingarnar í júlí og lúta þær bæði að aðgerðum sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni hér á landi og verkefnum sem unnin verða fyrir tilstilli alþjóðasamstarfs og í þróunarsamvinnu.

Í haust tökum við að okkur formennsku í Evrópuráðinu. Þar mun vinnan í mannréttindaráðinu skila sér því sú mikla ábyrgð að veita ráðinu formennsku á þessum tímum krefst þess að til staðar sé djúpur skilningur á mannréttindamálum og pólitísku ástandi í Evrópu. Verkefninu lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík vorið 2023 sem utanríkisráðherrum allra aðildarríkjanna er boðið að sækja.

Þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og liggur henni til grundvallar stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós með yfirmarkmiðið að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Framlög til þróunarsamvinnu hækkuðu á árinu, eins og þau hafa gert síðastliðin ár. Stuðningur er við tvíhliða samstarfslönd, svæðisverkefni og fjölþjóðastofnanir á sviði þróunar- og mannúðarsamstarfs. Þá hefur vægi samstarfs við atvinnulífið og frjáls félagasamtök aukist til muna. Rík áhersla er lögð á skilvirkni, gagnsæi og fagleg vinnubrögð við framkvæmd þróunarsamstarfs í samræmi við alþjóðleg viðmið um faglega starfshætti. Í samræmi við markaða stefnu Íslands eru Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, sem við köllum oft UN Women, Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankinn áherslustofnanir í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. Talsvert samstarf er við þessar stofnanir í samstarfslöndum okkar í Afríku.

Forseti. Viðbrögð og viðspyrna við Covid-19 heimsfaraldrinum voru áberandi í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu á árinu. Íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi faraldursins talað fyrir mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um þróun og framleiðslu bóluefnis og jafns aðgangs ríkja óháð greiðslugetu þeirra. Þannig lagði Ísland á árinu öðru sinni fram 500 millj. kr. til COVAX-samstarfsins sem snýr að kaupum og dreifingu Covid-19 bóluefnaskammta fyrir þróunarlönd. Til viðbótar var 250 millj. kr. veitt til mannúðarákalls UNICEF vegna Covid-19 bóluefnasamstarfs. Þá hafa heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið unnið saman að því að gefa umframskammta af Covid-19 bóluefnum til efnaminni ríkja í gegnum COVAX.

Á árinu lauk tímabili þar sem fulltrúi Íslands, Geir H. Haarde, skipaði stöðu aðalfulltrúa kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum. Bankinn er öflugasta þróunarstofnun heimsins. Til að bregðast við brýnni fjárþörf sökum faraldursins var endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, flýtt og áheit um umfangsmestu framlög í sögu stofnunarinnar lágu fyrir í desember. Hlutur Íslands nemur um 1,8 milljörðum kr. á þremur árum frá 2023.

Samstarfið við Malaví og Úganda, þar sem íslenskar sendiskrifstofur starfa, hefur verið þungamiðjan í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands um árabil. Í báðum löndum vegur gifturíkt samstarf við héraðsstjórnir þyngst. Fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda hafa um 50.000 börn notið góðs af bættu námsumhverfi og tugþúsundir kvenna hafa notið bættrar fæðingarþjónustu. Stefnt er að opnun sendiskrifstofu í Síerra Leóne á vesturströnd Afríku í haust. Þar höfum við áður sinnt þróunarverkefnum í fiskiþorpum við Atlantshafsströndina. Þau snúa að umbótum í fiskvinnslu, vatnsveitu og hreinlæti, heilsugæslu og fleiri framfaramálum sem leggja góðan grunn að framhaldinu. Eitt af okkar helstu verkefnum mun snúa að því að uppræta fæðingarfistil í landinu með forvörnum, heilbrigðisþjónustu og félagslegum stuðningi. Fæðingarfistill háir sérstaklega ungum mæðrum sem hljóta mikinn skaða við fæðingu og er í kjölfarið einfaldlega útskúfað úr samfélaginu. Það er ánægjulegt að Íslendingar geti með þessum hætti haft raunveruleg og jákvæð áhrif á líf kvenna sem búa við ömurlegar aðstæður í einu fátækasta ríki í heimi.

Utanríkisráðuneytið hefur um árabil átt gott og gjöfult samstarf við íslensk félagasamtök í þróunar- og mannúðarstarfi. Á síðari árum hefur orðið til umgjörð sem festir það í sessi og tryggir að faglega sé staðið að verkefnum sem hljóta styrki, hvort sem er í þróunar- eða mannúðaraðstoð. Samtals runnu meira en 500 millj. kr. í samstarf við félagasamtök, sem skiptist nokkuð jafnt milli mannúðarverkefna og þróunaraðstoðar. Mörg þessara samtaka leika nú lykilhlutverk í að svara þeirri neyð sem hefur skapast í og við Úkraínu.

Norrænt samstarf er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og sem ríkjahópur eiga Norðurlöndin sterka rödd á alþjóðlegum vettvangi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta, að „öflugt norrænt samstarf [verði] áfram grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands“. Hinn svokallaði N5-hópur er vettvangur þar sem fulltrúar Norðurlandanna hittast reglulega og ríkir þar að jafnaði mikið traust. Óhætt er að segja að samstarf Íslands við Norðurlandaþjóðirnar sé ómetanlegt fyrir Ísland, ekki síst þegar á reynir. Þetta kemur ítrekað fram í borgaraþjónustuverkefnum á álags- og hættutímum, en borgaraþjónustan gegndi lykilhlutverki við brottflutning fólks frá Afganistan og í margvíslegum verkefnum í tengslum við heimsfaraldurinn.

Aukna áherslu á vestnorrænt samstarf má glöggt sjá í tveimur ítarlegum skýrslum sem komu út á árinu 2021. Annars vegar er það Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar sem inniheldur tillögur að auknu samstarfi við Færeyjar. Fjölmörg sóknarfæri eru til að efla enn frekar tvíhliða tengsl og samstarf, ekki síst á vettvangi efnahags-, menningar- og stjórnmála. Hins vegar kom út skýrslan Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum sem inniheldur fjölmargar tillögur að auknu samstarfi við Grænland.

Alþingi samþykkti þingsályktun um endurnýjaða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða 19. maí 2021 og daginn eftir lauk tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu með ráðherrafundi í Hörpu. Báðir atburðir mörkuðu tímamót fyrir starf Íslands að málefnum norðurslóða. Þrátt fyrir takmarkanir og erfiðleika sem fylgdu því að reka formennsku í alþjóðastarfi á tímum heimsfaraldurs, tókst Íslandi bæði að ná sátt um sterka ráðherrayfirlýsingu Norðurskautsráðsins og fyrstu framtíðarstefnu ráðsins til tíu ára. Bæði yfirlýsingin og framtíðarstefnan leggja áherslu á loftslagsvána.

Í þingsályktun, um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, er utanríkisráðherra falið að móta áætlun um framkvæmd stefnunnar. Undirbúningur þeirrar vinnu hófst formlega með fundi fulltrúa hlutaðeigandi ráðuneyta í utanríkisráðuneytinu 10. febrúar sl. Í stefnunni er m.a. fjallað um að nýta möguleg efnahagstækifæri með sjálfbærum hætti og að efla viðskipti og annað samstarf á norðurslóðum, einkum við Grænland og Færeyjar.

Loftslags,- auðlinda- og umhverfismál eru grundvallarhagsmunamál fyrir heiminn allan. Brýnt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi til að finna leiðir til þess að leggja sitt af mörkum. Áhersla er nú sem fyrr lögð á hreina, sjálfbæra orku, ekki síst fjölþætta nýtingu jarðhita, hreina orkubera eins og grænt vetni og vetnisafurðir auk föngunar, förgunar og nýtingar koltvíoxíðs. Á árinu var aukin vinna lögð í samráð og upplýsingagjöf til sendiskrifstofa svo að þær væru betur í stakk búnar til að finna tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf næstu árin á sviði grænnar nýsköpunar og tækni.

Sjálfbær þróun með áherslu á loftslags-, auðlinda- og umhverfismál var meginstef í formennskuáætlunum Íslands í Norðurlandasamstarfi og Norðurskautsráðinu. Á vettvangi alþjóðastofnana og í þróunarsamvinnu eru loftslagsmálin og sjálfbær nýting náttúruauðlinda veigamikill þáttur. Mótvægis- og aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga munu fá enn frekara vægi í samstarfsríkjum Íslands í þróunarsamvinnu. Sem dæmi má nefna að um hálf milljón manna hefur þegar fengið greiðan aðgang að hreinu vatni undanfarin tíu ár fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda.

Á árinu fengu málefni hafsins aukið vægi og samráð og samvinna milli ráðuneyta sem koma að málaflokknum jókst verulega. Sérstök áhersla var lögð á greiningu á stöðu hafmála, enda endurspegla málefni hafsins gríðarlega mikilvæga og fjölþætta hagsmuni Íslands. Þess sjást glöggt merki hjá alþjóðastofnunum og félagasamtökum sem láta sig umhverfismál varða, sem beina nú vinnu sinni og áhrifum í auknum mæli að málefnum hafsins. Á vettvangi umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna leggur Ísland áherslu á baráttuna gegn plastmengun, ekki síst í hafi á norðurslóðum. Á næstu árum stefnir í alþjóðaviðræður um bindandi alþjóðasamning um plast og plastmengun, en líklegt er að þær hefjist strax á haustmánuðum 2022.

Ísland er lítið og opið hagkerfi. Það er í eðli slíkra hagkerfa að treysta mjög á alþjóðleg viðskipti. Það hefur enda verið eitt helsta viðfangsefni okkar í utanríkismálum undanfarna áratugi að tryggja aðgengi okkar að alþjóðlegum mörkuðum á sem bestum kjörum. Heimurinn allur er eitt markaðssvæði og því skiptir höfuðmáli að tryggja að íslensk framleiðsla og íslenskt hugvit hafi hindranalausan aðgang að sem stærstum markaði. Viðskiptastefna Ísland hefur því það markmið að þjóna efnahagslegum hagsmunum samfélagsins og tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Frjáls alþjóðleg viðskipti og traust viðskiptakerfi eru undirstaða hagsældar á Íslandi. Við setjum traust okkar á öflugar og skilvirkar alþjóðastofnanir, fríverslunarsamninga og aðra viðskiptasamninga og umfram allt skýrar leikreglur. Í þeim efnum er rétt að ítreka að mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Með honum er tryggður aðgangur að 450 milljóna manna markaði þar sem hindranir eru litlar. Þessi aðild hefur einnig þýðingu út fyrir EES-svæðið, því að aðild að því túlkast í alþjóðlegum viðskiptum sem eins konar heilbrigðisvottorð á íslenskt viðskiptaumhverfi. Heimsfaraldur kórónaveirunnar hafði í för með sér margvíslegar áskoranir fyrir hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Í auknum mæli bar á því að ríki hneigðust til verndarhyggju og einhliða hagsmunagæslu. Slík þróun væri afar slæm fyrir íslenska hagsmuni. Mikilvægt er að Ísland haldi áfram að þróa fríverslunarstefnu sem þjónar efnahagslegum hagsmunum samfélagsins í víðu samhengi. Niðurfelling tolla fyrir helstu útflutningsvörur verður enn forgangskrafa en einnig verður í auknum mæli horft til útflutnings á öðrum lykilsviðum íslensks efnahagskerfis, svo sem í þjónustu, fjárfestingum, hátækni og þekkingu, þar á meðal í grænum lausnum.

Af þeim viðskiptasamningum sem bar hæst á árinu 2021 ber helst að nefna fríverslunarsamning Íslands við Bretland sem tryggir sömu kjör og áður eftir útgöngu Breta úr ESB. Um er að ræða einn mikilvægasta útflutningsmarkað Íslands en útflutningur til Bretlands nemur að jafnaði um 10% af heildarvöruútflutningi og um 11% af heildarþjónustuútflutningi Íslands. Vinna þarf áfram að því að efla samskiptin við Bretland. Hins vegar má nefna fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Indónesíu sem opnaði aðgang íslenskra fyrirtækja að markaði með 260 milljón íbúum. Um er að ræða 29. fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og gott dæmi um það öfluga viðskiptanet sem Ísland hefur byggt upp með öðrum EFTA-ríkjum á undanförnum áratugum. Þá er rétt að minnast á Bandaríkin, sem eru stærsta einstaka viðskiptaland Íslands. Mikilsvert er að hlúa að og rækta viðskiptasamband við Bandaríkin og stefna að því að auka frelsi í viðskiptum milli landanna.

Forseti. Ljóst er að vægi alþjóðamála verður mikið á komandi árum. Verkefnin eru ærin og þau eru mikilvæg. Eins og sjá má glögglega af skýrslunni sem hér hefur verið dreift býr Ísland að öflugri utanríkisþjónustu og á hana mun svo sannarlega reyna á komandi tímum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta