Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. mars 2022 Þórdís KRG - UTN

Mikilvægi sterkrar utanríkisþjónustu

Síðastliðinn mánudag var greint frá áformum mínum um að Ísland opni sendiráð í Póllandi. Ákvörðuninni hefur verið ákaflega vel tekið enda er djúpstæður skilningur á því hér á landi að vináttutengsl Íslands og Póllands eru mjög mikilvæg og dýrmæt. Ákvörðunin um stofnun sendiráðsins er einnig rökrétt í ljósi þess að Pólland starfrækir sendiráð hér á landi og er sú regla almennt í gildi að gagnkvæmni sé í rekstri sendiskrifstofa. Þess vegna er eðlilegt og tímabært að taka það skref að opna sendiráð Íslands í Varsjá.

Skylda sem fylgir fullveldi

Rekstur sendiskrifstofa í erlendum ríkjum og þátttaka í starfi alþjóðastofnana er skylda sem fylgir því að vera fullvalda þjóð og að eiga sinn stað meðal þjóða heims. Á undanförnum árum hefur ítrekað komið í ljós hversu mikilsvert það er fyrir Ísland að eiga öflug sendiráð. Þetta var ekki síst dýrmætt í gegnum faraldurinn þar sem mikið reyndi á að geta veitt íslenskum ríkisborgurum stuðning. Til viðbótar við þjónustu við íslenska ríkisborgara gegna sendiráð Íslands mikilvægu hlutverki í tengslum við pólitíska, menningarlega og viðskiptalega hagsmuni. Öll þessi hlutverk eru þess eðlis að mikilvægt er að byggja upp þekkingu, sterk sambönd og tengsl bæði við stofnanir og einstaklinga sem skipt geta máli þegar á reynir. Í þeim efnum skiptir máli að hafa hugfast að tengslin og þekkingin þurfa að vera þegar til staðar og ekki dugir að reyna að koma þeim á fót þegar hentar; ekki frekar en mögulegt er að kaupa tryggingu eftir að tjónið er orðið.

Því miður eru horfur í alþjóðamálum þessi misserin verri en verið hefur um langa hríð. Fyrir utan stríðsrekstur Rússa í Úkraínu má nefna að enn glímir heimurinn við margvísleg eftirköst heimsfaraldurs kórónuveirunnar og þeirra margháttuðu truflana sem urðu af hans völdum. Pólitísk samskipti ríkja eru því að mörgu leyti flóknari en þau voru fyrir einungis örfáum árum. Í margslungnari veröld þarf sjálfstæð þjóð að kunna að fóta sig af eigin rammleik og gæta að því að byggja upp skilning og tengsl sem hægt er að reiða sig á.

Í menningarlegu tilliti getur rekstur öflugra sendiskrifstofa skipt miklu máli. Í venjulegu árferði fara fram hundruð viðburða um heim allan þar sem sendiskrifstofur Íslands eiga þátt í að koma íslenskri menningu á framfæri. Áætlað er að fjöldi slíkra viðburða á þessu ári verði á annað hundrað og er þá ótalin margvíslegur annar stuðningur sendiráða við íslenska menningu. Þetta er mikilvægt hlutverk fyrir fámenna þjóð sem þó hefur mikið fram að færa á sviði menningar og listar.

Hvað varðar viðskiptahagsmuni Íslands er mikilvægi utanríkisþjónustunnar ótvírætt. Ísland er lítið og opið hagkerfi. Það er í eðli slíkra hagkerfa að treysta mjög á alþjóðleg viðskipti. Það er því ekki óeðlilegt að viðskiptamál séu eitt helsta viðfangsefni utanríkisþjónustunnar. Það er nefnilega varla hægt að tala lengur um innanlandsmarkað og útlandamarkað í íslensku atvinnulífi. Ísland er í nánast öllum skilningi hluti af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Þetta þýðir að það skiptir höfuðmáli fyrir efnahagslega hagsmuni Íslands að tryggt sé að íslensk framleiðsla og íslenskt hugvit hafi sem bestan aðgang að stórum markaði. Í þessum efnum skipta góð gagnkvæm samskipti við önnur lönd miklu, en einna mest á Ísland þó undir öflugum og skilvirkum alþjóðlegum stofnunum og góðum viðskiptasamningum. Hvað slíkt alþjóðlegt samstarf varðar er ljóst að mikilvægt er að forgangsraða og að fjárfesta skynsamlega.

Fjölhæfni og viðbragðsflýtir

Þegar kemur að því að reka utanríkisþjónustu er ljóst að Ísland á ekki að fara í felur með þá staðreynd að við erum fámenn þjóð. Ísland þarf ekki að keppast um að hafa sambærilegan íburð og umstang eins og gjarnan einkennir utanríkisþjónustur stærri þjóða. Þvert á móti á það að vera keppikefli Íslands að sýna fram á hagkvæmni og útsjónarsemi í öllum rekstri. Verkefnin sjálf og hagsmunir Íslands eiga að vera ráðandi í fjárfestingu og nálgun Íslendinga þegar kemur að rekstri sendiskrifstofa erlendis. Víða um heim vekur fjölhæfni og viðbragðsflýtir íslenskrar utanríkisþjónustu athygli. Það á að vera metnaður okkar að viðhalda því orðspori og efla það. Þannig nýtum við best þá orku og fjármuni sem við verjum í hið mikilvæga starf sem utanríkisþjónustunni er falið. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta